Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ

Stefnir í metþátttöku

Lokaundirbúningur fyrir Unglingalandsmótið á Akureyri stendur nú sem hæst.

Lokaundirbúningur fyrir Unglingalandsmótið á Akureyri stendur nú sem hæst.

Skráningar á 18. Unglingalandsmót UMFÍ, sem verður haldið á Akureyri um verslunarmannahelgina, hafa gengið mjög vel og stefnir í metþátttöku. Að sögn Ómars Braga Stefánssonar framkvæmdastjóra mótsins, eru mótshaldarar í skýjunum með þátttökuna.

,,Það er tilhlökkun í okkar röðum og gaman að sjá hvað margir ætla að taka þátt. Stærsta mótið til þessa var á Selfossi 2012 og þá voru keppendur um 2000. Eins og staðan er í dag stefnir allt í að það met verður slegið en skráningar eru nú þegar orðnar á þriðja þúsund. Lokasprettur í undirbúningi stendur nú sem hæst og gengur allt samkvæmt áætlun,“ sagði Ómar Bragi Stefánsson.

Skráningu á Unglingalandsmót á Akureyri lýkur í kvöld

Unglingalandsmót UMFÍ verður á Akureyri um verslunarmannahelgina.

Unglingalandsmót UMFÍ verður á Akureyri um verslunarmannahelgina.

Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Akureyri um verslunarmannahelgina. Mótin hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og hafa gestir verið um og yfir 10.000. Á  Akureyri má þó búast viðtöluvert meiri mannfjölda þar sem fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður haldin samtímis á Akureyri.

Unglingalandsmót UMFÍ eru vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð þar sem keppt verður í 29 keppnisgreinum og allir á aldrinum 11-18 ára geta tekið þátt. Það skal tekið fram að þeir sem skrá sig þurfa ekki að vera í neinu íþróttafélagi, allir eru velkomnir. Þeir sem yngri eru fá vissulega að spreyta sig og er gríðarlega fjölbreytt dagskrá fyrir þau og alla fjölskylduna.

Mótið hefst fimmtudaginn 30.júlí með keppni í golfi og síðan rekur hver keppnisgreinin aðra yfir helgina.

Skráning keppenda stendur yfir á umfi.is en henni lýkur um miðnætti 26. júlí.  Á heimasíðu umfi.is er einnig að fá fleiri upplýsingar.

Unglingalandsmótin hápunktur sumarsins

Jana Róbertsdóttir kastar kúlu á Unglingalandsmóti UMFÍ.

Jana Róbertsdóttir kastar kúlu á Unglingalandsmóti UMFÍ.

,,Ég hef tekið þátt í flestöllum Unglingalandsmótum frá því að ég var 11 ára gömul. Mótið á Akureyri verður því mitt síðasta mót því að ég er að verða 18 ára. Ég á eftir að sakna þessara móta því að þessi tími hefur verið ofsalega skemmtilegur og margs að minnast frá þeim. Ég æfi fótbolta með meistaraflokki Völsungs en ætli ég hafi ekki verið sex ára þegar ég byrjaði að æfa fótbolta,“ sagði Jana Róbertsdóttir á Húsavík.

Jana segir að hún hafi keppt í fyrra á Unglingalandsmóti í strandblaki með vinkonu sinni og þær hefðu hafnað í þriðja sæti. Jana segir að vel komi til greina að keppa aftur í strandblaki.

,,Æðislegt að geta notið helgarinnar í þessu umhverfi“

Sólrún Halla Bjarnadóttir ásamt dóttur sinni, Telmu Sól, á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki í fyrrasumar.

Sólrún Halla Bjarnadóttir ásamt dóttur sinni, Telmu Sól, á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki í fyrrasumar.

,,Ég hef alla tíð verið mikill ungmennafélagi. Gegnt formennsku og setið í stjórn í Ungmennafélaginu Íslendingi í Borgarfirði og í dag sit ég í stjórn Ungmennasambands Borgarfjarðar. Það er óhætt að segja að ég hafi lifað og hrærst í ungmennafélagshreyfingunni en foreldrar mínir voru líka mikið í starfinu,“ sagði Sólrún Halla Bjarnadóttir.

Þegar Sólrún Halla var yngri segist hún hafa farið á Unglingalandsmót en nú er dóttir hennar, Telma Sól, farin að keppa og fór fjölskyldan saman á sitt fyrsta mót á Sauðárkróki í fyrrasumar. Telma Sól keppti í fyrra í knattspyrnu og frjálsum íþróttum og í sumar stefnir hún á að taka þátt í stökkum, fótbolta og jafnvel körfubolta.

Unglingalandsmótin hafa algjörlega hitt í mark

Hekla Liv Maríasdóttir frá Norðfirði  er hér í sundkeppni á Unglingalandsmóti.

Hekla Liv Maríasdóttir frá Norðfirði er hér í sundkeppni á Unglingalandsmóti.

Hekla Liv Maríasdóttir á Norðfirði hefur tekið þátt í fjórum Unglingalandsmótum og segist hlakka mikið til mótsins á Akureyri um verslunarmannahelgina. Hún segir að þátttakan í þessum mótum hafi verið ótrúlega skemmtileg og þá ekki síst fyrir það að mótin séu ekki síður hátíð allrar fjölskyldunnar. Vel sé hugsað um alla og mótin séu allt öðru vísi en önnur mót sem hún tekur alla jafna þátt í.

„Stemningin er engu lík á Unglingalandsmótum, allir mega taka þátt og markmiðið hjá öllum er að hafa gaman og skemmta sér með vinum og kunningjum,“ segir Hekla Liv sem aðallega hefur keppt í sundi, frjálsum íþróttum og einnig strandblaki.

Stemningin á Unglingalandsmótunum er alveg frábær

Þóra Erlingadóttir.

Þóra Erlingadóttir.

Það var gaman þegar ellefu ára aldrinum var náð því að þá gat ég loksins tekið þátt í Unglingalandsmótunum. Ég var búin að bíða lengi en ég var sex mánaða gömul þegar ég fór á fyrsta mótið með foreldrum mínum. Fyrsta mótið, sem ég keppti á, var á Hornafirði 2013 og þar var alveg meiriháttar gaman. Ég æfi frjálsar íþróttir og hef því eingöngu keppt í köstum og hlaupum á mótunum,“ sagði Þóra Erlingsdóttir,13 ára gömul stúlka á Laugarvatni.

Þóra segist hlakka mikið til mótsins á Akureyri og að hún mæti vel undirbúin til leiks. Hún tók þátt í frjálsíþróttaskóla UMFÍ sem haldinn var á Selfossi fyrr í sumar auk þess að taka þátt
í öðrum mótum.

Þorbergur Ingi úr UFA kom fyrstur í mark í Laugavegshlaupinu

Þorbergur Ingi Jónsson.

Þorbergur Ingi Jónsson úr Ungmennafélagi Akureyrar kom fyrstur í mark í Laugavegshlaupinu sem þreytt var í dag. Þorbergur Ingi gerði gott betur en hann setti met í hlaupinu, hljóp 55 km á 3:59,13 klukkustundum. Þetta er í fyrsta skipti sem hlaupari hleypur þessa vegalengd í hlaupinu á undir fjórum klukkustundum.

Árangur Þorbergs Inga er sérlega glæsilegur þegar haft er í huga að hlaupa þurfti í gegnum snjó á um 8 km leið. Margir mjög sterkir hlauparar, bæði innlendir sem erlendir, tóku þátt í hlaupinu sem var afar fjölmennt.

Bandaríska konan Amber Fereira kom fyrst kvenna í mark í hlaupinu.

Landsmótsstaurinn á Blönduósi skreyttur

Skreyting á BlönduósiVerkefnið Prjónagraff á Blönduósi er í fullum gangi þetta sumarið eins og sjá má víða um bæinn. Á dögunum var haldið glæsilegt Landsmót UMFÍ 50+ á Blönduósi og bauðst þátttakendum og gestum mótsins að taka þátt og skreyta Landsmótsstaurinn en það er ljósastaurinn á hringtorginu inn í bæinn að vestanverðu.

Hægt var að grípa í garn, prjóna og heklunálar á áhorfendapöllum Íþróttamiðstöðvarinnar á meðan mótinu stóð og voru margir sem tóku þátt í þessu skemmtilega verkefni.

Afraksturinn má sjá á meðfylgjandi myndum. Auk stykkja frá Landsmótinu og gestum þess eru nokkur frá heimafólki. Útkoman er sannarlega fjölbreytt og skemmtileg.

Sumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunnar

Sumarhátð UÍA og Síldarvinnslunar er á Egilsstöðum um helgina.

Sumarhátð UÍA og Síldarvinnslunar er á Egilsstöðum um helgina.

Fjölbreytt íþróttahátíð fyrir alla aldurshópa verður haldinn á Egilsstöðum um helgina. Dagskráin hefst klukkan 16 á föstudag og stendur fram á sunnudag. Hátíðin er ein stærsta og fjölbreyttasta íþróttahátíð sem fram fer á Austurlandi og í ár verður hún með enn stærra og glæsilegra sniði en áður.

Sumarhátíðin er opin öllum aldurshópum og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Nánari upplýsingar á uia@uia.is, í síma 471 1353 og á uia.is LVF SÍMI 471-1800

Úrslit frá Landsmóti UMFÍ 50+ á Blönduósi

Frá Landsmóti UMFÍ 50+ á Blönduósi.

Frá Landsmóti UMFÍ 50+ á Blönduósi.

Smellið hér til að skoða úrslit frá 5. Landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið var á Blönduósi 26.-28. júní 2015.

Skráning á 18. Unglingalandsmót UMFÍ hefst 6. júlí

Íþróttaaðstaðan á Akureyri er öll til fyrirmyndar.

Skráning á 18. Unglingalandsmót UMFÍ , sem fram fer á Akureyri um verslunarmannahelgina, hefst mánudaginn 6. júlí. Þetta verður í fyrsta skipti sem Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið þar. Mótið hefst fimmtudaginn 30.júlí og mótsslit eru um miðnætti á sunnudagskvöldi. Búist er við fjölmennu móti á Akureyri að þessu sinni enda eru fleiri keppnisgreinar en nokkru sinni áður. Á Akureyri er gríðarlega góð keppnisaðstaða til staðar fyrir allar keppnisgreinar þannig að ekkert mun skorta í þeim efnum.

Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og unglinga ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

HSK stóð fyrir fjölskyldugöngu á Vatnsdalsfjall

Vatnsnesfjall

Þátttakendur í fjölskyldugöngunni á Vatnsdalsfjall.

HSK stóð fyrir fjölskyldugöngu á Vatnsdalsfjall í Rangárþingi sl. fimmtudag. 25 manns gengu á fjallið í góðu gönguveðri. Lagt var af stað af bæjarhlaðinu í Vatnsdal og þegar upp var komið var póstkassa komið fyrir og allir skrifuðu nafn sitt í gestabókina.

Gönguáhugafólk er hvatt til að ganga á HSK fjöllin Vatnsdalsfjall og Arnarfell við Þingvallavatn í sumar.  Heppnir þátttakendur fá verðlaun fyrir þátttökuna í haust.

,,Allir svo glaðir og þakklátir“

Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ.

,,Ég er í skýjunum með mótið sem tókst með afbrigðum vel. Veðrið lék við okkur allan tímann, þátttakan góð, dagskráin vel skipulögð og keppnin öll gekk eins og í sögu. Þetta verkefni er rosalega skemmtilegt og það sem stendur upp úr er öll þessi gleði, allir þakklátir og það er þetta sem gefur þessu svo mikið gildi. Við finnum það að mótið er að styrkjast með hverju árinu en við bíðum ennþá eftir vissum aldursflokki inn á mótið, 50-65 ára, við finnum vonandi leið til að fá þennan hóp til að vera með,“ sagði Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður Ungmennafélag Íslands, í mótslok 5. Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi nú síðdegis.

Helga Guðrún sagði landsmótin vera stór verkefni innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Næsta verkefni væri unglingalandsmótið á Akureyri sem er mjög stórt mót. Landsmót 50+ er á hverju ári, stóra landsmótið síðan á fjögurra ára fresti og því eru öll þessi mót klárlega eitt af stærri verkefnunum.

Kristján Gissurarson setti landsmótsmet í stígvélakasti

Kristján Gissurarson kastar 29,55 metra á Blönduósi í dag.

Kristján Gissurarson kastar 29,55 metra á Blönduósi í dag.

Kristján Gissurarson setti nýtt landsmótsmet í stígvélakasti á Landsmóti UMFÍ 50+ en þetta var lokagrein mótsins sem lauk á Blönduósi í dag. Kristján, sem var landsþekktur stangarstökkvari hér á árum áður, kastaði 29,55 metra. Skarphéðinn Einarsson varð annað með kast upp á 22,81 metra og Jón Gissurarson lenti í þriðja sæti, kastaði 22,46 metra.

Í kvennaflokki sigraði Angela Berthold, kastaði 21,80 metra. Svanborg Þ. Frostadóttir var önnur og kastaði 19,16 metra og Guðrún Birna Haraldsdóttir kastaði 18,89 metra og lenti í þriðja sæti.

Mótin í einu orði stórkostleg

Tómas Jónsson frá Selfossi.

Tómas Jónsson frá Selfossi.

,,Ég tók þátt í sex greinum á mótinu, tveimur í sundi og fjórum í köstum. Það má segja að ég hafi verið að dútla í íþróttum stærsta hluta ævinnar. Maður stundaði þetta af meira krafti þegar ég var ungur og svo hef ég haldið þessu við eins og kostur er. Undanfarin ár hef ég ekki stundað íþróttir með reglubundnum hætti, því miður. Gallinn er sá að ég er bara einn, enginn að æfa með mér, til að hvetja áfram. Fyrir vikið er maður latari að stússast í þessu,“ sagði Tómas Jónsson 82 ára frá Selfossi.

Tómas sagðist alla tíð hafa hreyft sig og gerir töluvert að því að ganga og það er því að þakka að hann hafi góða heilsu.

Uppskriftin er ekkert leyndarmál

Þrjár efstu í pönnukökubakstrinum.

Þrjár efstu í pönnukökubakstrinum.

Það var mikil spenna í kringum pönnukökubaksturinn á Landsmóti UMFÍ 50+ sem nú stendur yfir á Blönduósi og lýkur eftir hádegið í dag. Eins og jafnan vekur þessi grein alltaf mikla athygli og svo var einnig nú því áhorfendur troðfylltu Kvennaskólann þar sem keppnin fór fram.

Það fór svo að lokum að Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir, 81 árs gömul, frá Hurðarbaki í Flóa sem stóð uppi sem sigurvegari. Jóna Halldóra Tryggvadóttir frá Hvammstanga varð í öðru sæti og Vilborg Pétursdóttir  hafnaði í þriðja sæti. Þess má geta að Jóna Halldóra sigraði í þessari grein á mótunum sem haldin voru á Hvammstanga og Mosfellsbæ 2011 og 2012.

Unnu samtals til 16 gullverðlauna í sundinu

Björg Hólmfríður og Kári Geirlaugsson.

Björg Hólmfríður Kristófersdóttir og Kári Geirlaugsson.

Björg Hólmfríður Kristófersdóttir, sem er 63 ára gömul, vann til átta gullverðlauna í sundkeppni Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi í dag. Björg keppir undir merkjum Ungmennasambands Borgarfjarðar og er þetta í fjórða skipti sem hún tekur þátt í þessum mótum.

,,Ég var góð að synda sem ung stelpa í sveitinni en hef alltaf reynt að halda mér í formi. Ég bý líka að því að vera alin upp við sundlaug en ég var orðin sundlaugavörður 14 ára gömul á Varmalandi í Borgarfirði. Það er gott heilsunar vegna að synda eða hreyfa sig og ég reyni að synda eins oft og ég get í Borgarnesi. Ég er staðráðin í því að taka þátt í næsta móti á Ísafirði,“ sagði Björg Hólfríður Kristófersdóttir.

Svipmyndir frá Landsmóti UMFÍ 50+

Ingimundur Ingimundarson frá Borgarnesi keppir í sundi.

Ingimundur Ingimundarson frá Borgarnesi keppir í sundi.

Annar keppnisdagur á Landsmóti UMFÍ stendur nú yfir og veðrið leikur áfram við keppendur og gesti. Keppni í boccia lauk um hádegið en eftir hádegið hófst keppni í sundi, gold, bridds, hestaíþróttum, skák, pönnukökubakstri. Keppni í frjálsum íþróttum hefst klukkan 15.

,,Maður finnur fyrir jákvæðum og uppbyggilegum anda“

Illugi Gunnarsson við setningu mótsins í gærkvöldi.

Illugi Gunnarsson við setningu mótsins í gærkvöldi.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp við setningu 5. Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi í gærkvöldi og sagði m.a. óumdeilt að þessi mót hefðu heilmikið gildi.

,,Það er engin ástæða til að hætta að hreyfa sig eða taka þátt í íþróttum eftir að maður er kominn yfir fimmtugt. Heilsa er almennt betri og fólk er í góðu ásigkomulagi einmitt vegna þess kannski að við stundum íþróttir og hreyfum okkur meira en áður og gerum síðan áfram fram eftir aldri. Þetta snýst ekki eingöngu um keppni í íþróttum heldur líka að njóta félagsskaparins. Hitta fólk hvaðanæva af landinu, efla gömul vináttutengsl sem byggð eru á í gegnum íþróttirnar. Allt er þetta mjög mikilvægt og hluti að því að eiga gott líf,“ sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.

Blönduósbær tók á móti viðurkenningu

Valgarður Hilmarsson og Helga Guðrún Guðjónsdóttir.

Valgarður Hilmarsson og Helga Guðrún Guðjónsdóttir.

Á setningu Landsmóts UMFÍ 50+ í félagsheimilinu á Blönduósi í gærkvöldi voru veittar viðurkenningar í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf. Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður Ungmennafélags Íslands, færði Blönduósbæ viðurkenningu fyrir framkvæmd og aðkomu að mótinu sem tókst afskaplega vel.

Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar Blönduóss, veitt viðurkenningunni móttöku, og þakkaði UMFÍ og öllum þeim sem komu að framkvæmd og undirbúningi mótsins fyrir vel unnin störf.

RSS Fréttir sambandsaðila