Aldarafmælisrit Héraðssambands Þingeyinga komið út

Aldarafmælisrit HSÞ er komið út.

Aldarafmælisrit HSÞ er komið út.

Út er komið aldarafmælisrit HSÞ sem inniheldur sögu Ungmennasambands Norður Þingeyinga, Héraðssambands Suður Þingeyinga og Héraðssambands Þingeyinga. Skemmtileg bók með mikið af myndum úr starfinu.

Bókina er hægt að kaupa í Bókaverslun Þórarins á Húsavík, Selinu í Mývatnssveit, Dalakofanum á Laugum, hjá Birni Ingólfssyni á Grenivík, Skerjakollunni á Kópaskeri, versluninni á Raufarhöfn og að sjálfsögðu á skrifstofu HSÞ. Bókina verður ennfremur hægt að senda um allt land. Bókin kostar kr.4.000. Bókin fer í Norðursýsluna um helgina.

Hverju eintaki fylgir falleg lyklakippa með merki Héraðssambands Þingeyinga. Þeir sem vilja verða sér úti um eintak af bókinni er bent á að setja sig í samband við Jóhönnu Kristjánsdóttur formann HSÞ.

 

Styrmir Dan bætti eigið Íslandsmet í hástökki innanhúss

Styrmir Dan er einn efnilegasti hástökkvari landsins.

Styrmir Dan er einn efnilegasti hástökkvari landsins.

Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór bætti eigið íslandsmet í flokki 15 ára í hástökki innanhúss þegar hann flaug yfir 1,93 metra á aðventumóti Ármanns sl. laugardag. Fyrra íslandsmet Styrmis innanhúss var 1,91 metrar frá því í febrúar á þessu ári. Þessi árangur Styrmis er að sjálfsöðgu HSK met í hans flokki, en þetta er einnig HSK met í flokki 16-17 ára.

Fleiri keppendur voru að gera góða hluti og setja HSK met. Kolbeinn Loftsson Selfossi bætti 32 ára gamalt met í langstökki 12 ára þegar hann stökk 4,96 metra. Haukur Snær Guðmundsson átti metið sem var 4,76 metrar. Loks stórbætti Hákon Birkir Grétarsson Selfossi eigið HSK met í kúluvarpi með 3 kg kúlu. Hann kastaði 11,98 metra, en fyrra met hans frá því í nóvember á þessu ári var 10,75 metrar.

Vel heppnað afmælismót Tennis- og badmintonsfélags Siglufjarðar

Hluti keppenda á afmælismótinu á Siglufirði.

Hluti keppenda á afmælismótinu á Siglufirði.

Afmælismót Tennis- og badmintonsfélags Siglufjarðar var haldið á dögunum í íþróttamiðstöðinni á Siglufirði en TBS varð 50 ára þann 5. desember. Um 70 keppendur voru skráðir á mótið, þar af 58 börn úr Fjallabyggð. Gaman var að sjá hversu góð þátttaka var á mótinu og alla stuðningsaðilana sem fylgdust með keppninni af mikilli athygli.

María Jóhannsdóttir sem hefur verið í forsvari fyrir TBS til fjölda margra ára á mikið hrós skilið fyrir það starf sem hún heldur út fyrir krakkana. Hún hefur í gegnum tíðina gefið mikið af sér og virðist hafa endalausa elju við að koma krökkunum áfram, þjálfa þau og fara með þau um landið á hin ýmsu mót.

HSK verðlaunar fyrir þátttöku í Fjölskyldan á fjallið

HSK - verðlaunar gönguverkefni

Frá verðlaunaafhendingunni í gönguverkefninu.

Héraðssambandið Skarphéðinn stóð fyrir sérstöku gönguverkefni í sumar, undir nafninu Fjölskyldan á fjallið. Verkefnið var unnið í samvinnu við Dagskrána sem birti vikulega upplýsingar um fjall vikunnar. Alls voru 16 fjöll á sambandssvæðinu í þessu verkefni. Tilgangur verkefnisins var að hvetja fjölskyldur til að fara saman í léttar gönguferðir á fjöll á sambandssvæði HSK og vekja um leið athygli á almenningsíþróttaverkefnum HSK og UMFÍ og gildi útiveru og hreyfingar ásamt samveru fjölskyldunnar.

HSK hefur tekið þátt í gönguverkefni UMFÍ frá 2002 og að jafnaði tilnefnt tvö ný fjöll á hverju ári, þar sem settir hafa verið upp póstkassar með gestabók á viðkomandi fjöll. Það var gert í sumar og fjölmargir rituðu nöfn sín í bækur sem staðsettar voru á Fagrafelli í Rangárþingi og Dalafelli í Ölfusi. Þátttakendur í verkefninu voru auk þess beðnir að skila inn þátttökueyðublaði þar sem setja átti upplýsingar um fjallgöngur á fjöllin 16, eitt eða fleiri.

Veglegt 70 ára afmælisrit Njarðvíkinga

UMFN - 70 ára afmælisrit

Hluti ritnefndar á útgáfudegi afmælisritsins. Frá vinstri Viðar Kristjánsson, Hilmar Hafsteinsson og Svanhildur Eiríksdóttir við athöfnina.

Afmælisrit Ungmennafélags Njarðvíkur í tilefni að 70 ára afmæli félagsins var formlega kynnt 2. desember sl. Athöfnin fór fram í íþróttamiðstöðinni í Njarðvík að viðstöddu miklu fjölmenni. Í ritinu er farið yfir sögu félagsins í máli og myndum. Þar má finna fróðleg viðtöl við aðila sem komið hafa við sögu hjá félaginu sem og afreksmenn UMFN í gegnum árin.

Mun þetta vera í fyrsta sinn sem saga félagsins er fest á blað með slíkum hætti. Upplag er 4500 eintök og verður blaðinu dreift á öll heimili í Njarðvík.

Verkefnið hefur staðið yfir í þrjú ár en ritnefndina skipuðu þau; Viðar Kristjánsson, Hilmar Hafsteinsson, Haukur Jóhannesson, Ólafur Thordersen, Jón Bjarni Helgason og Guðjón Helgason heitinn. Svanhildur Eiríksdóttir ritstýrði blaðinu.

Frábær þátttaka í æfingabúðum Sam-Vest á Laugum

Hluti þátttakenda í æfingabúðunum á Laugum.

Hluti þátttakenda í æfingabúðunum á Laugum.

Mjög góð þátttaka var í æfingabúðum á vegum SAM-Vest samstarfsins sem haldnar voru á Laugum í Sælingsdal. SAM-Vest er samstarfsverkefni nokkurra héraðssambanda á Vesturlandi og Vestfjörðum sem hefur það markmið að efla frjálsíþróttir á litlu svæðunum þar sem frjálsar hafa verið í lægð. Nú fjölgar þátttakendum með tilkomu samstarfsins.

Æfingarnar hafa hingað til farið fram á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Borgarnesi. SAM-Vest hefur fengið góða gestaþjálfara á æfingar en Hlynur Guðmundsson hefur verið mikill stuðningur hvað þjálfun og leiðbeiningar varðar.

Dagskrá og skipulagning æfingabúðanna á Laugum var til fyrirmyndar og gekk vonum framar, sérstaklega í ljósi þess að þátttaka fór fram úr björtustu vonum. Alls mættu 63 krakkar í æfingabúðirnar og börnin fóru heim með bros á vör .

Samningar undirritaðir vegna 5. Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi

Frá undirritun samninga á Blönduósi.

Frá undirritun samninga á Blönduósi.

Undirritaðir hafa verið samningar vegna 5. Landsmóts UMFÍ 50+ á milli Ungmennasambands Austur Húnvetninga og Ungmennafélags Íslands um að USAH taki að sér framkvæmd mótsins. Mótið verður haldið á Blönduósi dagana 26.-28. júní næsta sumar. Blönduós er góður staður til að halda slíkt mót, góð íþróttamannvirki eru til staðar og almenn þjónusta með ágætum. Íþróttakeppnin fer öll fram á Blönduósi.

Undirbúningur er hafinn fyrir nokkru síðan og það er mikill metnaður í heimamönnum að gera mótið sem allra best úr garði og lögð verður áhersla að taka vel á móti öllum mótsgestum. Þetta mót verður svipað og þau fyrri en þó verður lögð meiri áhersla á afþreyingu og skemmtun.

Fyrirhugaðar keppnisgreinar á mótinu á Blönduósi eru boccia, bridds, dráttarvélaakstur, Frjálsíþróttir,frjálsar íþróttir, golf, hestaíþróttir, judó, lomber, pútt einstaklingskeppni, pútt liðakeppni, ringó, skák, skotfimi, starfshlaup, stígvélakast og sund.

Þorbergur Ingi jafnaði brautarmetið í vetrarhlaupi UFA

Þorbergur Ingi Jónsson setti brautarmet.

Þorbergur Ingi Jónsson jafnaði brautarmetið

Annað vetrarhlaup Ungmennafélags Akureyrar fór fram um síðustu helgi. Veðrið var einstaklega gott á Akureyri meðan á hlaupinu stóð, stillt og hitinn um 10 gráður sem verða að teljast kjöraðstæður á þessum tíma árs.

Þorbergur Ingi Jónsson nýtti tækifærið og jafnaði brautarmet sitt frá sama tíma í fyrra, hljóp kílómetrana 10 á 33:22, annar karla var Gísli Einar Árnason á 39:02 og þriðji var Finnur Dagsson á 41:19. Anna Berglind Pálmadóttir var fyrst kvenna á 40:35, önnur var Sigríður Björg Einarsdóttir á 46:51 og þriðja var Rachael Lorna Johnstone á 48:28.

Uppskeruhátíð UFA verður haldin í Höllinni í kvöld, miðvikudag 3. desember kl 18, á eftir æfingu.  Veittar verða viðurkenningar fyrir ástundun og árangur á árinu.  Allir iðkendur og forráðamenn eru hvattir til að mæta og gleðjast saman yfir góðum árangri UFA á árinu.

Keflavík sigraði í liðakeppni í taekwondo

Taekwondo - Keflavík

Lið Keflavíkur fagnaði góðum sigri.

Keflavík sigraði í liðakeppni í taekwondo tækni sem haldin var um helgina. Keppendur náðu góðum árangri og sýndu miklar framfarir á mótinu. Keppendur frá sjö félögum tóku þátt í mótinu. Lið Ármanns varð í öðru sæti og lið Aftureldingar í þriðja sæti. Ástrós Brynjarsdóttir og Svanur Þór Mikaelsson voru valin bestu keppendur mótsins.

Þess má geta að Ástrós Brynjarsdóttir, sem er 15 ára gömul, varð þrefaldur meistari á Íslandsmótinu. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún skipað sér á bekk á meðal þeirra fremstu í íþróttinni hér á landi. Hún hefur ennfremur náð frábærum árangri á erlendum vettvangi og nú nýverið á heimsmeistaramóti.

Tvö heimsmet og þrjú Evrópumet hjá Jóni Margeiri

Jón Margeir gullSundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson úr Ungmennafélaginu Fjölni tók þátt í opna breska meistaramótinu í 25 metra laug á dögunum þar sem kappinn setti ný heimsmet í 200 og 100 metra skriðsundi. Þetta kemur fram á www.mbl.is. Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra, IPC, hefur nú staðfest heimsmetin en Jón synti á 1:55.11 mín í 200 metra keppninni og 53,70 sek. í 100 metra keppninni.

Á heimasíðu IPC segir að árangur Jóns í 100 og 200 metra greinunum hafi fest hann enn betur í sessi sem alþjóðlega stjörnu í sundlauginni.

Árangur Jóns í Bretlandi:

100m flugsund – 59,85 sek. – Evrópumet
200m skriðsund – 1:55,11 mín. – Heimsmet
100m skriðsund – 53,70 sek. – Heimsmet
50m skriðsund – 24,39 sek.

12. stjórnarfundur UMFÍ haldinn 21. – 22. nóvember 2014

12. stjórnarfundur UMFÍ haldinn í Þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík, 21. – 22. nóvember 2014

Hægt er að sækja fundargerðina hér:12 stjórnarfundargerð

Fræðsla fyrir íþróttafólk á Hrafnagili

Hrafnagilsskóli í Eyjarfirði.

Hrafnagilsskóli í Eyjarfirði.

UMSE mun standa fyrir tveim fyrirlestrum á Hrafnagili þriðjudaginn 2. desember. Fyrirlestrarnir eru ætlaðir íþróttafólki, 11 ára og eldri. Þeir fara fram í Hrafnagilskóla og hefjast kl. 17:00 og 18:15. Stutt hlé verður á milli þeirra og boðið upp á léttar veitingar. Ekkert þátttökugjald er að fyrirlestrinum og eru foreldrar sérstaklega velkomnir.

Sonja Sif Jóhannsdóttir, íþróttafræðingur, heldur fyrirlestur um heilbrigðan lífsstíl sem fjallar um mikilvægi þess að að borða hollt og vel, mikilvægi svefns, mikilvægi hvíldar til að ná árangri í íþróttum og lifa heilbrigðu lífi, mikilvægi vatnsneyslu, munurinn á orkudrykkjum og íþróttadrykkjum og jákvæða hugsun. Fyrirlestur Ellerts Arnar Erlingssonar, íþróttasálfræðings og forstöðumanns íþróttamála á Akureyri, er undir yfirskrftinni markaðssetning íþróttafólks. Þar fjallar Ellert Örn um til hvers er markaðssetning og árangursríka markmiðssetningu.

Stórgóður árangur Jóns Margeirs í sundi í Manchester

Jón Margeir er í góðu formi og talar árangurinn undanfarið sínu máli.

Jón Margeir er í góðu formi og talar árangurinn undanfarið sínu máli.

Jón Margeir Sverrisson úr Ungmennafélaginu Fjölni og ólympíumeistari var í miklu stuði á sundmóti í Manchester nú í vikunni þegar hann tók þátt í opna breska mótinu í 25m laug. Jón hóf keppni í 100m skriðsundi sem hann var ný búinn að setja Íslandsmet um þar síðustu helgi. Hann synti á 53,70 sem er rétt yfir Íslandsmetinu þetta mót er hinsvegar IPC vottað og fer því þessi tími inn á heimslistann. Seinna sundið á laugardag var svo 50m skriðsund er þar synti hann á 24,39 sem er nýtt Íslandsmet og hraðasti tími sem syntur hefur verið í hans fötlunarflokki.

Á sunnudag var svo komið að 100m flugsundi er þar setti Jón tvö Íslandsmet fyrst í 50m flugsundi (27,28) og svo var lokatíminn 59,85 sem er einnig hraðasti tíminn í Evrópu. Jón endaði svo mótið með trompi þegar hann synti 200m skriðsund á 1:55,11 sem er nýtt Íslandsmet.

Austri bikarmeistari Austurlands í sundi

Frá verðlaunaafhendingu á mótinu á Djúpavogi.

Frá verðlaunaafhendingu á mótinu á Djúpavogi.

Hin árlega bikarkeppni UÍA í sundi fór fram á Djúpavogi síðastliðinn sunnudag. Tæplega 100 keppendur á aldrinum 6-16 ára, frá 6 sunddeildum á Austurlandi, mættu til leiks og kepptust við að safna inn stigum fyrir sitt félag. Bikarmótið er stigamót þar sem að stigahæsta liðið hlýtur titilinn Bikarmeistari Austurlands.

Gestgjafarnir í Neista hafa löngum verið sigursælir á þessu móti, en mörg félög rennt hýru auga til bikarsins góða. Það fór svo að Austri batt enda á samfellda sigurgöngu Neista og sigraði í heildarstigakeppninni með 311 stig, í öðru sæti var Höttur með 245 stig. Í stigakeppni stúlkna sigraði Austri einnig með 167 stig en í stigakeppni pilta varð lið Hattar hlutskarpast með 85 stig.

Æskulýðsráð veitti Gunnari Gunnarssyni viðurkenningu

Gunnar Gunnarsson með viðurkenninguna sem Æskulýðsráð veitti honum.

Gunnar Gunnarsson með viðurkenninguna sem Æskulýðsráð veitti honum.

Gunnar Gunnarsson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands, fékk viðurkenningu Æskulýðsráðs fyrir störf sín í þágu æskulýðsstarfs á Austurlandi sem og á landsvísu. Gunnar Gunnarsson hefur þrátt fyrir ungan aldur komið víða við í margskonar félagsstörfum innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. Nítján ára gamall tók hann við formennsku í UMF Þristi og gegndi því til ársins 2007. Þá tók hann við formennsku í nemendafélagi Menntaskólans á Egilsstöðum og þjálfaði spurningalið skólans. Gunnar hefur frá árinu 2005 setið í stjórn UÍA og verið í formennsku frá árinu 2012.

Gunnar hefur verið virkur í starfi innan UMFÍ, bæði í hinum ýmsu nefndum samtakanna, sem og í stjórn og þar á hann sæti í dag. Þá hefur Gunnar átt sæti í varastjórn NSU, den Nordiske Samorganisation for Ungdomsarbejede frá 2012-2014. Gunnar hefur nýtt reynslu sína og þekkingu úr ungmennafélagsstarfi til ýmissa annarra verka.

Eva Dögg og Pétur voru valin glímufólk ársins

Eva Dögg Jóhannsdóttir.

Eva Dögg Jóhannsdóttir.

Pétur Eyþórsson, Glímufélaginu Ármanni og Eva Dögg Jóhannsdóttir, UÍA, voru valin glímufólk ársins 2014 en stjórn Glímusambandsins ákvað þetta á stjórnarfundi sem haldinn var í gær.

Pétur Eyþórsson er 36 ára gamall og hefur stundað glímu í yfir tuttugu ár. Pétur var sigursæll á árinu líkt og undanfarin á en helsta afrek hans var þegar hann sigraði Íslandsglímuna og hlaut þar með Grettisbeltið í níunda sinn sem gerir hann að einum sigursælasta glímukappa Íslands frá upphafi.

Eva Dögg Jóhannsdóttir er 19 ára gömul og átti góðu gengi að fagna á glímuvellinum árið 2014. Eva tók þátt í öllum glímumótum á árinu 2014 og var ávalt í verðlaunasæti. Eva keppti einnig á Evrópumeistaramótinu í keltneskum fangbrögðum þar sem hún hlaut ein silfurverðlaun og tvö bronsverðlaun í -63 kg flokki. Eva sigraði svo einnig nokkur alþjóðleg mót á árinu og varð meðal annars Skoskur meistari í backhold. Eva Dögg er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan.

Haldið upp á 70 ára afmæli HSS á Hólmavík

Vignir Örn Pálsson, formaður HSS, og Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, á afmælishátð HSS á Hólmavík.

Vignir Örn Pálsson, formaður HSS, og Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, á afmælishátð HSS á Hólmavík.

Héraðssamband Strandamanna, HSS, fagnaði 70 ára afmæli sínu 19. nóvember sl.i í félagsheimilinu á Hólmavík. Af því tilefni var aðildarfélögum, iðkendum, sjálfboðaliðum og stuðningsaðilum ásamt sveitarstjórnarfulltrúum og fulltrúum og öðrum áhugasömum boðið að gera sér glaðan dag saman.

Afmælishátíðin var var góðmenn, árangursrík og ekki síst skemmtileg. Skíðafélagið eldaði dýrindissúpu fyrir fundargesti og formaðurinn kom með kökur frá Ísafirði. Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri UMFÍ, sóttu afmælið og færðu HSS gjöf.
Ýmislegt var gert sér til skemmtunar og m.a. farið í hópefli og unnið var að því að móta framtíðarsýn héraðssambandsins.

Marín Laufey og Sindri Freyr unnu tvöfalt

Marin Laufey

Marín Laufey Davíðsdóttir úr Samhygð sigraði tvöfalt og er í efsta sæti stigakeppninnar.

Fyrsta umferðin í meistaramótaröð Glímusambands Íslands fór fram í Dalabúð í Búðardal. Mótsstjóri var Ólafur Oddur Sigurðsson og gekk mótið vel í alla staði.

Marín Laufey Davíðsdóttir úr Samhygð sigraði tvöfalt. Hún vann opinn flokk kvenna og +65 kg flokk kvenna. Jana Lind Ellertsdóttir, ung glímukona úr Garpi, var að keppa á sínu fyrsta móti í fullorðinsflokki. Hún kom mjög sterk til keppni og sigraði í -65 kg flokki kvenna.

Í karlaflokki í 80 kg þyngdarflokki sigraði Hjörtur Elí Steindórson frá Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands. Einar Eyþórsson frá Mývetningi sigraði í -90 kg flokki og Sindri Freyr Jónsson, KR,í +90 kg flokki. Sindri Freyr vann einnig sigur í opna flokknum og því tvöfaldan sigur á mótinu.

5. Landsmót UMFÍ 50+ verður á Blönduósi 26.-28. júní 2015

Logo 5. Landsmót UMFÍ 50+ 20155.Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á Blönduósi dagana 26.-28. júní 2015. Blönduós er góður staður til að halda slíkt mót, góð íþróttamannvirki eru til staðar og almenn þjónusta með ágætum. Íþróttakeppnin fer öll fram á Blönduósi og í þéttbýlisstöðum þar í kring. Undirbúningur er hafinn fyrir nokkru síðan og það er mikill metnaður í heimamönnum að gera mótið sem allra best úr garði og lögð verður áhersla að taka vel á móti öllum mótsgestum. Þetta mót verður svipað og þau fyrri en þó verður lögð meiri áhersla á afþreyingu og skemmtun.

Fyrirhugaðar keppnisgreinar á mótinu á Blönduósi eru Boccia, Bridds, Dráttarvélaakstur, Frjálsíþróttir, Golf, Hestaíþróttir, Judó, Lomber, Pútt einstaklingskeppni, Pútt liðakeppni, Ringó, Skák, Skotfimi, Starfshlaup, Stígvélakast, Sund, Þríþraut einstaklingskeppni.

Frekari upplýsingar um dagskrá koma smám saman en hafa má samband við þjónustumiðstöð UMFÍ ef eitthvað er óljóst og þarfnast svara.

Góður árangur á Silfurleikunum í frjálsum íþróttum

Raguel

Ragúel Pino Alexanderson frá Ungmennafélagi Akureyrar stóð sig vel á mótinu.

Fimm aldursflokkamet voru sett á Silfurleikum ÍR sem fram fóru í Laugardalshöll um síðustu helgi en keppendur á mótinu voru um 600 víðs vegar af að landinu. Ragúel Pino Alexanderson frá Ungmennafélagi Akureyrar bætti met í 200 metra hlaupi í 13 ára piltaflokki þegar hann kom í mark á 25,59 sek. Hann bætti einnig metið í 600 metra hlaupi á tímanum 1:32,82 mín. Félagi hans í UFA bætti met í 200 metra í 14 ára piltaflokki þegar hann kom í mark á 25,58 sek. Þórdís Eva Steinsdóttir FH bætti met í 200 metra í 14 ára stúlknaflokki, en hún kom í mark á 25,32 sek. Loks bætti Hákon Birkir Grétarsson, HSK, metið í 60 metra grindarhlaupi. í 13 ára flokki er hann kom í mark á tímanum 10,08 sek. Öll útslit mótsins má sjá hér.

Á mótinu var unnið við nýtt skráningarkerfi sem Friðrik Þór Óskarsson hefur verið að þróa undanfarin misseri. Þar er haldið utan um allan árangur keppenda í frjálsíþróttum. Það heldur utan um lista með bætingum og metum í öllum flokkum.