Unglingalandsmótin frábær samverustund fyrir fjölskylduna

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri í Skagafirði.

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri í Skagafirði.

,,Það er virkilega skemmtilegt að við fengum Unglingalandsmótið í þriðja skipti og það er gaman fyrir sveitarfélagið og upphefð um leið að fá þetta tækifæri. Þetta bara lyftir mannlífinu hjá okkur og ég held að allir íbúarnir hlakki mikið til. Fyrir utan að halda mótið hér á Sauðárkróki og taka á móti keppendum og gestum felast í því mörg önnur tækifæri og má í því sambandi benda mikla auglýsingu sem sveitarfélagið fær. Unglingalandsmótin eru í mínum huga dásamlegt fyrirbæri, fjölskyldurnar koma með unglingana sína og gleyma sér í gleði og ánægju meðan á mótunum stendur. Ég hef sjálf átt þess kost að sækja Unglingalandsmót síðustu ár með börnin mín og þetta er dásamleg upplifun í alla staði. Mótin eru líka svo vel skipulögð, allt gengur svo vel og allir eru tilbúnir að rétta hjálparhönd. Þetta er mín upplifun frá mótunum og unglingarnir finna það að þeir eru velkomnir,“ sagði Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri í Skagafirði.

Ásta Björg sagði unglingalandsmótin í einu orði sagt frábær samverustund fyrir fjölskylduna og svo finnst mér skemmtileg þróun að hafa einhverja afþreyingu fyrir systkini og yngri börn. Hún sagði ennfremur að mótssvæðið væri sérlega aðgengilegt og stutt á milli keppnisstaða. Undantekning væri einna helst hestaíþróttirnar en keppnissvæðið væri aðeins fyrir utan bæinn. Það væri stutt í golfið og mótocrossbrautirnar þannig að öll aðstaðan væri mjög góð í flesta staði.

Fjallaskokk Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga

Frá Fjallaskokki á Landsmóti UMFÍ 50+ á Hvammstanga.

Frá Fjallaskokki á Landsmóti UMFÍ 50+ á Hvammstanga.

Fjallaskokk Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga fer fram á fimmtudaginn, 24. júlí, en þá verður gengið, skokkað eða hlaupið frá Grund í Vesturhópi yfir Vatnsnesfjallið og endað ofan í Kirkjuhvammi á Hvammstanga. Um er að ræða 12 km leið og hækkun á milli 400-500 metra.

Fjallaskokk USAH er keppni þar sem gildir að vera fyrstur yfir fjallið, en að sjálfsögðu getur hver og einn gert þetta eftir sínu höfði, keppt við aðra, sjálfan sig eða farið leiðina án þess að vera að keppa yfirleitt. Aðalatriðið er að vera með og hafa ánægju af þessu.

 

,,Unglingalandsmótin hafa hitt í mark“

Sonja Sif Jóhannsdóttir, eiginmaður hennar, Gunnar Atli Fríðuson, og börnin fjögur, Kolbeinn, Selma, Örvar og Kári.

Sonja Sif Jóhannsdóttir, eiginmaður hennar, Gunnar Atli Fríðuson, og börnin fjögur, Kolbeinn, Selma, Örvar og Kári.

,,Við fjölskyldan ætlum að skella okkur á Unglingalandsmótið á Sauðárkróki. Tvö elstu okkar ætla að taka þátt í sínu fyrsta móti og það er mikil tilhlökkun á bænum. Það hefur alltaf verið stefna okkar að fara með krakkana okkar á þetta mót og það er alveg ljóst hvar við munum verja verslunarmannahelgum næstu árin,“ sagði Sonja Jóhannsdóttir, master í íþrótta- og lýðheilsufræðum og kennari við Menntaskólann á Akureyri.

Sonja kennir einnig hjá Keili, þeim sem ætla að verða einkaþjálfarar og líka við Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Hún er úr sveitinni rétt við Hofsós og keppti alltaf fyrir UMSS. Sonja segist hafa lifað og hrærst í íþróttum alla sína ævi.Sonja sjálf hreyfir sig reglulega og í sumar hljóp hún Laugaveginn og ætlar að taka þátt í hlaupi í München í Þýskalandi.

„Ég hef líka verið að keppa í þríþraut. Maður verður að vera góð fyrirmynd en maður er Alltaf að hvetja þá sem eru í kringum mann til að hreyfa sig,“ sagði Sonja.

„Ég hef sótt öll Landsmót UMFÍ frá 1987 en ég var 12 ára gömul þegar ég keppti á mínu fyrsta móti á Húsavík. Það var mikil upplifun og ég hef farið á öll mótin eftir það. Í mínum huga eru Landsmótin frábærar hátíðir,“ sagði Sonja Sif Jóhannsdóttir sem býr á Akureyri. Þess má geta að Sonja Sif var í landsmótsnefnd þegar mótið var haldið á Akureyri 2009. Hún sagði að það hefði verið gaman að vera hinum megin borðsins, eins og hún orðaði það, og koma þannig að skipulagningu og undirbúningi mótsins. Gaman hefði verið að sjá mótið frá öðru sjónarhorni.

Kynningarmyndband um Unglingalandsmótið

Hér má sjá kynningarmyndband sem unnið hefur verið um Unglingalandsmót UMFÍ 2014 sem verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Þetta verður 17. mótið í röðinni en mótin hafa notið mikilla vinsælda og margir þátttakendur koma ár eftir ár. Njótið vel.

 

,,Mjög spenntur fyrir þátttökunni á Unglingalandsmótinu“

Sveinbjörn Óli Svavarsson.

Sveinbjörn Óli Svavarsson.

,,Það er mikil tilhlökkun að taka þátt í Unglingalandsmótinu í sumar og þá ekki síst fyrir það að mótið er haldið í heimabæ mínum.Ég hef ekki tekið þátt í þessum mótum áður en heyrt hjá öllum hvað þau eru skemmtileg. Það er stemning í bænum fyrir mótinu svo þetta verður bara gaman,“ sagði Sveinbjörn Óli Svavarsson, 16 ára piltur á Sauðárkróki.

Sveinbjörn hefur æft frjálsar íþróttir frá átta ára aldri og aðalgreinar hans eru 100 og 200 metra spretthlaup. Hann átti jafnvel von á því að bæta langstökkinu við.

„Krakkar, sem ég þekki, segja að þessi mót séu ofsalega flott, góð mót í alla staði og margt spennandi í boði eins og kvöldvökur þar sem allir krakkarnir koma saman. Ég undirbjó mig vel fyrir tímabilið og fyrir utan Unglingalandsmótið tekur maður þátt í nokkrum mótum í sumar. Ég æfi alla virk daga vikunnar en aðstæður hér á Króknum eru mjög góðar. Ég er spenntur fyrir sumrinu og þá ekki síst fyrir þátt tökunni í Unglingalandsmótinu,“ sagði Sveinbjörn Óli Svavarsson.
.

Hefur tekið þátt í sex Unglingalandsmótum í röð

Irma Gunnarsdóttir.

Irma Gunnarsdóttir.

Fyrsta mótið mitt var á Sauðárkróki 2009 og ég hef verið með á öllum mótum eftir það. Áður en ég mátti keppa fór ég með bróður mínum á tvö mót en um leið og ég hafði aldur til skráði ég mig til leiks. Það hefur verið ofsalega gaman að taka þátt í mótunum og ég hlakka mikið til að fara á Sauðárkrók í sumar. Umgjörðin er svo skemmtileg, að keppa, vera á tjaldsvæðinu og fylgjast með skemmtidagskránni á kvöldin. Í kringum þetta skapast skemmtileg umgjörð og svo er gaman að hitta krakka sem maður þekkir frá fyrri mótum,“ sagði Irma Gunnarsdóttir í Garðabæ.

Irma sagði mótin ekki bara keppni heldur væri þetta frábær samverustaður með fjölskyldunni. Hún ætlar að reyna að taka þátt í sem flestum greinum og nefndi hún 100 og 200 metra hlaup, hástökk, langstökk, spjótkast, kúluvarp og grindahlaup. Irma sagðist leggja stund á sjöþrautina en frjálsar íþróttir hefur hún stundað í fimm ár. Hún var líka í handbolta en er nýhætt í honum.

„Ég þekki þó nokkuð marga krakka sem ætla á mótið á Sauðárkróki. Ég ætla að æfa vel í sumar en ég æfi tvo tíma á dag nánast alla daga vikunnar. Annars er bara tilhlökkunin mikil að fara á Unglingalandsmótið,“ sagði Irma Gunnarsdóttir.

 

,,Skemmtilegustu mótin sem maður tekur þátt í“

Birta Hallgrímsdóttir.

Birta Lind Hallgrímsdóttir.

,,Ég hef tekið þátt í þremur unglingalandsmótum til þessa. Þátttakan í mótunum eru afar ánægjuleg og sitja í minningunni. Ég er að velta því fyrir mér að fara á mótið í sumar en við í sunddeildinni hjá Fjölni höfum alltaf verið dugleg að fara á mótin í gegnum tíðina,“ sagði Birta Lind Hallgrímsdóttir sem hefur æft sund svo lengi sem hún man eftir sér.

Birta Lind segir mikinn tíma fara í æfingar hjá sér en hún æfir níu sinnum í viku þannig að hún verður að skipuleggja sinn tíma vel eins og hún komst að orði.

,,Það sem gerir unglingalandsmótin skemmtileg er stemningin sem þar ríkir. Það er góður andi og þar eru krakkar að hittast ár eftir ár víðs vegar af að landinu. Mér finnst líka vera mikill kostur að maður getur skráð sig í allt sem manni langar til að keppa í, ekki bara þá grein sem maður leggur stund á. Reyndar hef ég eingöngu einblínt á sundið en það er gott að hafa valið. Unglingalandsmótin í mínum huga er gott val fyrir unglinga og ég hvet alla, sem ekki hafa keppt áður, og skoða endilega þennan möguleika og taka þátt. Það sér engin eftir því, þetta er ofsalega skemmtilegt. Krakkar, sem ég þekki, eru mjög ánægð með þessi mót og finnst þau vera ein þau skemmtilegustu mót sem þau taka þátt í. Ég er alveg viss um að þessi mót eiga bjarta framtíð fyrir sér,“ sagði Birta Lind Hallgrímsdóttir.

,,Krakkarnir upplifa einstaka stemningu með jafnöldrum sínum“

Ari Sigþór Eiríksson hefur tekið þátt í nokkrum unglingalandsmótum.

Ari Sigþór Eiríksson hefur tekið þátt í nokkrum unglingalandsmótum.

,,Ég er búinn að taka þátt í nokkrum unglingalandsmótum og ætla að sjálfsögðu á mótið á Sauðárkróki í sumar. Ég hef fram að þessu aðallega verið að keppa í frjálsum íþróttum og svo einnig í knattspyrnu. Þessi mót er ofsalega skemmtileg og þá er alveg mjög gaman að hitta aðra krakka,“ sagði Ari Sigþór Eiríksson, sem er 17 ára gamall úr Kópavoginum.

Ari Sigþór segir unglingalandsmótin vera öðruvísi en önnur mót sem hann hefur tekið þátt í. Unglingalandsmótin snúast ekki bara eingöngu um keppni heldur líka sem samvera með fjölskyldum og vinum.

,,Ég hef kynnst mörgum krökkum á mótunum sem er gaman. Ég veit um marga í kringum mig sem ætla á mótið í sumar og langflestir hafa keppt á mótunum áður. Þegar maður er búinn að mæta einu sinni vill maður koma aftur og aftur. Mér finnst kvöldin frábær og þá er mikil stemning í stóra tjaldinu. Ég vil bara hvetja alla krakka til að koma á unglingalands því þar upplifa þau einstaka stemningu og góðar stundir með jafnöldrum sínum,“ sagði Ari Sigþór Eiríksson.

Opið hús – Unglingalandsmót UMFÍ

Þjónustumiðstöð UMFÍ á Sauðárkróki.

Þjónustumiðstöð UMFÍ á Sauðárkróki.

Næstkomandi föstudag, 18. júlí, verður opið hús fyrir heimamenn, gesti og velunnara ungmennafélagshreyfingarinnar. Nú styttist í Unglingalandsmót og UMFÍ vill gjarnan kynna keppnisdagskrá og afþreyingardagskrá fyrir heimamönnum og gestum þeirra. Svo skemmtilega vill til að skrifstofa UMFÍ er 10 ára á sama tíma og því fögnum við afmælinu sama dag.

Endilega komið við á Víðigrund 5 á föstudaginn milli 15:00-17:00. Heitt á könnunni, andlitsmálning og útileikir fyrir börnin.

Blönduhlaup USAH

Frá Blönduhlaupi

Frá Blönduhlaupi

Blönduhlaup verður haldið laugardaginn 19. júlí kl. 11:00, en það er orðið fastur liður í sumarhátíðinni Húnavöku sem haldin er í júlí hvert ár. Hlaupaleiðin verður bæði á götum og stígum umhverfis Blöndu.

Aldursflokkaskipting og vegalengdir:
2,5 km: 12 ára og yngri (skemmtiskokk er í boði fyrir alla aldurshópa, en verðlaunapeningar bara fyrir 12 ára og yngri)
5 km: 15 ára og yngri, 16 ára og eldri.
10 km: 29 ára og yngri, 30-39 ára, 40-49 ára og 50 ára og eldri.

Tímataka verður í öllum vegalengdum. Hlaupið hefst á planinu fyrir framan Félagsheimilið á Blönduósi og endar einnig þar. Keppendur í öllum vegalengdum hefja keppni samtímis. Verðlaun eru veitt fyrir fyrsta sæti í hverjum aldursflokki (fyrir utan skemmtiskokkið). Allir keppendur sem ljúka hlaupinu fá viðurkenningarskjal með skráðum árangri. Dregið er um fjölda útdráttarverðlauna. Þátttökugjald er 1.000 kr fyrir 16 ára og eldri en 500 kr fyrir 15 ára og yngri. Upplýsingar og skráning sendist á usah@simnet.is. Óskað er eftir forskráningu en annars hefst skráning kl. 10:00 á keppnisdag í félagsheimilinu.

,,Hvet krakka eindregið til að taka þátt“

Ólöf Rún Guttormsdóttir.

Ólöf Rún Guttormsdóttir.

,Ég hef alltaf skemmt mér vel á Unglingalandsmótum UMFÍ. Fyrst þegar ég fór á mótin keppti ég aðallega í sundi en á mótinu á Hornafirði í fyrra fór ég með vinkonum mínum og kepptum í körfubolta. Ég held að sami hópur hafi tekið stefnuna að fara á mótið á Sauðárkróki. Þessi mót eru snilldin ein og það er ekki síður gaman að hitta aðra krakka. Maður þarf ekki heldur að vera æfa íþróttina til að geta keppt og ekki heldur langbestur til geta tekið þátt. Það hefur líka alltaf verið lagt mikið í dagskrána og ég hef alltaf skemmt mér vel,“ sagði Ólöf Rún Guttormsdóttir.

Ólöf Rún sagði eitt mótið sérlega minnistætt en þá var hún ekki búin að æfa sund um eins árs skeið. Hún tók þátt í einni grein og gerði sér lítið fyrir og sigraði en því hafði Ólöf Rún aldrei von á.

,,Ég hvet alla krakka eindregið að mæta unglingalandsmót. Það er bara svo gaman að keppa og hitta og kynnast öðrum krökkum,“ sagði Ólöf Rún Guttormsdóttir.

Hafdís Sigurðardóttir vann til sex gullverðlauna

Hafdís Sigurðardóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar.

Hafdís Sigurðardóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar.

Hafdís Sigurðardóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar stóð sig frábærlega vel á Meistaramóti Íslands sem fram fór á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði um helgina. Hafdís vann sex gullverðlaun og ein silfurverðlaun. Hún sigraði í 100 m hlaupi, 400 m hlaupi, langstökki og var í sigursveit UFA í 4×100 m boðhlaupi á fyrri degi mótsins.

Á seinni deginum í dag sigraði hún þrístökki, stökk 12,32 metra. Því næst sigraði hún í 200 metra hlaupi á tím¬an¬um 24,29 sekúndum og daginn endaði hún í 4×400 metra boðhlaupi með sveit UFA sem hafnaði í öðru sæti eftir hörkukeppni við sveit ÍR.

ÍR-ingar sigruðu í keppni á nýju stigameti, hlutu alls 57,4 stig. Sveit FH varð í öðru sæti með 27,127 stig og í þriðja sæti hafnaði sveit Ungmennafélags Akureyrar með 19,530 stig.

Forsætisráðherra kom í heimsókn og kynnti sér starfsemi UMFÍ

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, heimsótti á dögunum Þjónustumiðstöð Ungmennafélags Íslands í Sigtúni 42 í Reykjavík. Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ og Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri UMFÍ, tóku á móti Sigmundi Davíð og kynntu fyrir honum þau verkefni sem hreyfingin stendur fyrir og eins þau verkefni sem fram undan eru. Má í því sambandi nefna Landsmótin í sumar, Fjölskylduna á fjallið, gönguverkefnin, almenningsíþróttir, forvarnarverkefnin, og Ungmenna- og tómstundabúðir á Laugum í Sælingsdal.

Ungmennafélag Íslands þakkar Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, fyrir að hafa gefið sér tíma til að heimsækja höfuðstöðvar UMFÍ og kynna sér starfsemi hreyfingarinnar.

,,Unglingalandsmótin hafa slegið í gegn“

Jón Daníel Jónsson formaður Ungmennasambands Skagafjarðar.

Jón Daníel Jónsson formaður Ungmennasambands Skagafjarðar.

,,Mótin sem við höfum séð um framkvæmd á fram að þessu, hafa gengið vel og því ákváðum við að sækja um um að fá að halda mótið í þriðja sinn hér á Sauðárkróki. Við erum bæði með mannskap og aðstæður til að halda þetta mót og það hefur ekki lítið að segja þegar aðilar taka svona mót að sér. UMFÍ hefur treyst okkur fyrir þessu verkefni og við ætlum að standa okkur og halda gott mót,“ sagði Jón Daníel Jónsson, formaður Ungmennasambands Skagafjarðar.

Jón Daníel svaraði, þegar hann var spurður hvaða þýðingu það hefði fyrir sambandið að halda þetta mót, að það væri ekki spurning að mikilvægi þess væri umtalsvert. Svæðið fengi mikla kynningu og það þjappaði ennfremur fólkinu fólkinu saman inn á við.

Sumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunar

Sumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunar verður um næstu helgi.

Sumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunar verður um næstu helgi.

Sumarhátíð UÍA og Síldarvinnslunnar fer fram dagana 11.-13. júlí á Egilsstöðum.. Föstudaginn 11. júlí byrjar Eskjumótið í sundi kl 17:00 en einnig verður keppt í borðtennis þann dag. Laugardaginn 12. júlí heldur Eskjumótið í sundi áfram og stendur það til hádegis. Nettómótið í frjálsum hefst um hádegi á laugardag og stendur það fram eftir degi.

Á laugardeginum verður einnig boðið upp á grillveislu í Bjarnadal þar sem boðið verður upp á ýmsa skemmtun. Sunnudaginn 13. júlí fer fram boccia mót á Vilhjálmsvelli í boði Héraðsprent ásamt því að Nettó mótið í frjálsum heldur áfram.

Eitt þátttökugjald er óháð greinafjölda, 2.000 krónur á keppanda.

Sjálfboðaliðar óskast á Unglingalandsmótið

Sjálfboðaliðar að störfum á Unglingalandsmóti.

Sjálfboðaliðar að störfum á Unglingalandsmóti.

Nú styttist í Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Til að halda slíkt mót þarf gríðarlegan fjölda sjálfboðaliða og er nú leitað til íbúa um að taka að sér störf við mótið.

Um er að ræða alls konar störf, við íþróttagreinarnar, í upplýsingamiðstöð, í mötuneyti starfsfólks, við verðlauna utanumhald og fleira og fleira. Sjálfboðaliðar geta valið sinn „vinnutíma“ eins og hverjum og einum hentar.

Þeir sem vilja taka þátt og skrá sig sem sjálfboðaliða geta haft samband við Línu í síma 893 5349 eða á netfangið haukurfreyr@simnet.is.

Skráning hafin á 17. Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki

17. Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.

17. Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.

Skráning er hafin á 17. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður um verslunarmannahelgina á Sauðárkróki. Skráningarfrestur er til miðnættis sunnudaginn 27. júlí. Fleiri keppnisgreinar verða á mótinu á Sauðárkróki en nokkru sinni fyrr. Auk hefðbundinna greina eins og fótbolta, körfubolta, frjálsíþrótta, sunds og glímu verða nokkrar nýjar greinar. Má þar nefna bogfimi, siglingar og tölvuleiki. Auk þess verður keppt í motocrossi, dansi, golfi, hestaíþróttum, skák, stafsetningu, upplestri og strandblaki. Fatlaðir einstaklingar munu keppa í frjálsum og sundi.

Afþreyingardagskrá Unglingalandsmótsins er metnaðarfull. Í boði er m.a. þrautarbraut fyrir alla aldurshópa, útibíó, leiktæki og andlitsmálun fyrir yngstu kynslóðina. Þrjár smiðjur verða starfræktar, en það eru söngsmiðja, myndlistarsmiðja og leiklistarsmiðja. Gönguferðir verða um bæinn og nágrenni Sauðárkróks, júdókynning, knattþrautir KSÍ, tennisleiðsögn og kynning á parkour, sumbafitness, markaðstorg, popping-kennsla og opið golfmót.

Á hverju kvöldi verða glæsilegar kvöldvökur þar sem margir af okkar þekktustu tónlistarmönnum koma fram. Má þar nefna Jón Jónsson, Sverri Bergmann, Þórunni Antoníu, Friðrik Dór, Úlf Úlf og Magna Ásgeirsson.

Ágætur árangur á Sumarleikum HSÞ á Laugum

Boðhlaupssveit 10-11 ára hnáta; Hafdís Inga Kristjánsdóttir, Sara Ragnheiður Kristjánsdóttir, Eyrún Anna Jónsdóttir, Natalía Sól Jóhannsdóttir

Boðhlaupssveit 10-11 ára hnáta; Hafdís Inga Kristjánsdóttir, Sara Ragnheiður Kristjánsdóttir, Eyrún Anna Jónsdóttir, Natalía Sól Jóhannsdóttir

Sumarleikar HSÞ fóru fram á Laugavelli sl. helgi. Alls mættu 147 keppendur til leiks frá 9 félögum. Það eru heldur færri keppendur en á undanförnum Sumarleikum sem skýrist af því að Gautaborgarleikar voru á sama tíma.

Gott veður var báða dagana þó heldur kaldara á sunnudeginum. Mótið gekk mjög vel fyrir sig og allir höfðu gaman af. Eitt Íslandsmet var sett en það var hinn stórefnilegi Ragúel Pino Alexandersson 13 ára frá UFA sem stökk 5,68 í langstökki. HSÞ átti 33 keppendur og stóðu þeir sig að venju vel.

Jón Friðrik Benónýsson á um þessar mundir 50 ára keppnisafmæli í frjálsum íþróttum. Af því tilefni skoraði hann á Þorstein Ingvarsson í 60 m. hlaup. En Jón Friðrik telur hann besta frjálsíþróttakarlmann fyrr og síðar í sögu HSÞ. Þorsteinn vann en Brói hljóp á 10,10 sek.

SamVest mót í Borgarnesi 5. júlí

Börn og unglingar munu spreyta sig á SamVest móti í frjálsum íþróttum í Borgarnesi á laugardaginn kemur.

Börn og unglingar munu spreyta sig á SamVest móti í frjálsum íþróttum í Borgarnesi á laugardaginn kemur.

Héraðssamböndin UDN, HSH, UMSB, HSS og HHF ásamt Ungmennafélaginu Skipaskaga og Ungmennafélagi Kjalnesinga blása til SamVest móts sem er einkum ætlað fyrir börn og unglinga. Mótið verður haldið á íþróttavellinum í Borgarnesi á laugardaginn kemur, 5. júlí, og hefst klukkan 13. Skráningar berist á netfangið hronn@vesturland.is eða þjálfara á viðkomandi stað í síðasta lagi fyrir fyrir kl. 20 föstudaginn 4. júlí.

Foreldrar eru hvattir til að mæta með börnum sínum en það gefur mikinn stuðning. Stefnt er að því að grilla fyrir mannskapinn í lok keppni. Hægt verður að sjá skiptingu greina og dagskrá mótsins í mótaforriti FRÍ á www.is. Talsvert af starfsfólki þarf á svona mót og eru þeir sem vilja og geta aðstoðað að senda skilaboð um það á umsb@umsb.is ( með nafni og félagi)

Styrmir Dan bætti 36 ára gamalt Íslandsmet

Styrmir Dan

Styrmir Dan náði frábærum árangri á Gautaborgarleikunum um helgina.

Hinir árlegu Gautaborgarleikar í frjálsum íþróttum fóru fram um helgina og að venju tóku fjölmargir Íslendingar þátt í leikunum. Góður árangur náðist í mörgum greinum en Styrmir Dan Steinunnarson úr HSK bætti Íslandsmetið í flokki 15 ára og eldri. Syrmir Dan fór yfir 1.94 cm og sigraði með glæsibrag og stökk 12 cm hærra en næsti keppendi.

Þetta met var komið nokkuð til ára sinna en fyrra metið átti Stefán Þór Stefánsson sem hann setti 1978. Metið var því orðið 36 ára gamalt.