Ungmennafélag Akureyrar aldursflokkameistarar 11-14 ára

UFA aldursflokkameistarar

Ungmennafélag Akureyrar aldursflokkameistarar 11-14 ára

Í dag lauk Meistaramóti Íslands í aldursflokkunum 11-14 ára sem fram fór á Akureyri. Ungmennafélag Akureyrar náði einstökum árangri í sögu félagsins með því að sigra í heildarstigakeppni á Meistaramóti. Hlaut UFA 734,5 stig en HSK/Selfoss varð í öðru sæti með 621 stig og lið ÍR varð í því þriðja með 438,5 stig. Veðrið í dag lék við keppendum og fjölmörg mótsmet féllu sem og nokkur Íslandsmet í ákveðnum aldursflokkum.

UFA sigraði einnig í stigakeppninni í flokki stúlkna 11 ára, í flokki stúlkna 12 ára og í flokki pilta 13 ára. Þá varð UFA í öðru sæti í flokki pilta 11 ára og pilta 12 ára og í þriðja sæti í flokki pilta 14 ára.

Sindri Hrafn Norðurlandameistari í spjótkasti

Sindri Hrafn Guðmundsson.

Sindri Hrafn Guðmundsson.

Sindri Hrafn Guðmundsson úr Breiðabliki varð í dag Norðurlandameistari í spjótkasti á NM í frjálsum íþróttum 19 ára og yngri sem fram fer í Kristiansand í Noregi. Sindri Hrafn kasatði 73,77 metra. Þetta var fyrri dagur keppninnar en mótinu lýkur á sunnudag.

Þá vann Kolbeinn Höður Gunnarsson í silfur í 400 metra hlaupi karla en tími hans var 48,45 sekúndur. Þórdís Eva Steinsdóttir nældi sér í brons í kvennaflokki, en hún bætti um leið aldursflokkamet bæði í 14 og 15 ára flokkum á tímanum 55,16 sekúndum.

Þá fékk íslenska sveitin brons í 4×100 metra hlaupi, en sveitina skipuðu Þórdís Eva, Þóranna Ósk Sigurónsdóttr, Irma Gunnarsdóttir og Ásgerður Jana Ágústsdóttir.

Héraðsmót HSK í starfsíþróttum í Aratungu

Frá keppni í jurtagreiningu á Landsmóti UMFÍ.

Frá keppni í jurtagreiningu á Landsmóti UMFÍ.

Héraðsmót 2014 í starfsíþróttum verður haldið í Félagsheimilinu Aratungu laugardaginn 16. ágúst n.k. og hefst kl. 13:00. Keppt verður í jurtagreiningu og fuglagreiningu. Mótið er hluti af sveitahátíðinni „Tvær úr Tungunum“ sem fram fer í Reykholti þann dag. Í jurtagreiningu á að greina 20 lifandi íslenskar plöntur sem komið hefur verið fyrir á keppnisstað. Verði tveir eða fleiri keppendur jafnir í fyrsta sæti eiga þeir að greina 5 aukaplöntur til að skera úr um úrslit. Í fuglagreiningu á að greina 20 íslenska fugla af myndum. Verði tveir eða fleiri keppendur jafnir í fyrsta sæti eiga þeir að greina 5 aukafugla til að skera úr um úrslit.

Skráning fer fram á staðnum. Keppt er í einum aldursflokki óháð kyni. Leyfilegt er að fleiri en einn keppi saman í liði, t.d. fjölskyldur. Keppnin er í gangi milli kl. 13 og 14. Fólk getur komið einhvern tímann á þeim tíma og spreytt sig. Verðlaunaafhending verður kl. 15 á íþróttavellinum í Reykholti. Veittir verða verðlaunapeningar fyrir þrjú efstu sætin í hvorri grein auk þess sem stigahæsta félagin hlýtur farandbikar til varðveislu. Mótið er hluti af heildarstigakeppni HSK. Fólk er hvatt til að fjölmenna í Reykholt 16. ágúst og taka þátt í skemmtilegri keppni, og njóta um leið annarra viðburða sem Tungnamenn bjóða uppá þennan dag.

Hjólað umhverfis Lagarfljótið

Lagarfljótið 2014

Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn verður haldin í þriðja sinn laugardaginn kemur.

Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn verður haldin í þriðja sinn laugardaginn 9. ágúst. Í keppninni verður hjólað umhverfis Lagarfljótið. Keppnisvegalengdirnar eru tvær, 68 km hringur og 103 km. Keppt verður í flokkum karla og kvenna í báðum vegalengdum. Í þeirri styttri verður hægt að taka þátt í liðakeppni þar sem þrír einstaklingar keppa saman. Í fyrra sigraði Þórarinn Sigurbergsson í 103 km keppninni með tímanum 3:49,55 klst og setti með þar með brautarmet. Í 68 km vegalengdinni sigraði Hafliði Sævarsson á tímanum 2:30,19 og setti þar einnig brautarmet. Í 68 km kvennaflokki sigraði Stefanía Gunnarsdóttir á tímanum 2:59,14. Í liðakeppninni sigruðu Hilmir Gunnlaugsson, Sigurður Magnússon og Ívar Ingimarsson á tímanum 2:39,28

Ræst verður kl. 9:00 á laugardagsmorgun við þjóðveg 1 fyrir neðan N1 á Egilsstöðum og hjólað útí fell og þaðan í kringum Lagarfljótið. Í styttri hringnum er beygt yfir Jökuls á í Fljótsdal neðan við Hengifoss en í lengri hringnum er haldið áfram alla leið inn í dalbotn í Fljótsdal.Endamark er á sama stað og keppnin er ræst. Búist er við fyrstu keppendum í 68 km hringnum eftir rúma tvo klukkutíma en eftir tæpa fjóra tíma úr lengri hringnum. Það eru Austurför, UÍA og sveitarfélagið Fljótsdalshérað sem standa að keppninni. Skráning og nánari upplýsingar eru á www.traveleast.is og á www.facebook/tourdeormurinn

Sigurðarbikarinn afhentur

Sigurðarbikarinn 2014

Jón Daníel Jónsson, formaður UMSS, með Sigurðarbikarinn sem Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, afhenti.

Á mótsslitum 17. Unglingalandsmóts UMFÍ á Sauðárkróki sl. sunnudagskvöld var Sigurðarbikarinn afhentur. Það var Jón Daníel Jónsson, formaður Ungmennasambands Skagafjarðar, UMSS, sem veitti bikarnum viðtöku. Bikarinn og er gefinn til minningar um Sigurð Geirdal fyrrverandi framkvæmdastjóra UMFÍ.

Bikarinn afhendist að loknu Unglingalandsmóti UMFÍ ár hvert sem viðurkenning á því mikla starfi sem felst í undirbúningi unglingalandsmóta. Gefendur bikarsins eru Hafsteinn Þorvaldsson, fyrrverandi formaður UMFÍ, og Jónas Ingimundarson, fyrsti formaður Ungmennafélagsins Þórs í Þorlákshöfn. Bikarinn var afhentur í fyrsta sinn HSK vegna Unglingalandsmóts UMFÍ í Þorlákshöfn 2008. UMSS fékk bikarinn afhentan 2009, UMSB 2010 ,UÍA 2011, HSK 2012, USÚ 2013 og UMSS 2014.

Fyrirmyndarbikarinn féll HSK í skaut

HSK tekur á móti Fyrirmyndarbikarnum á mótsslitunum á Sauðárkróki í gærkvöldi.

HSK tekur á móti Fyrirmyndarbikarnum á mótsslitunum á Sauðárkróki í gærkvöldi.

Á mótsslitum 17. Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki í gærkvöldi var tilkynnt hverjir hefðu hreppt Fyrirmyndarbikarinn. Bikarinn að þessu sinni féll í skaut Héraðssambandsins Skarphéðins, HSK. Fyrirmyndarbikarinn var gefinn af Íþróttanefnd ríkisins og er viðurkenning þess sambandsaðila UMFÍ sem sýnt hefur eftirfarandi atriði. Góða umgengni á keppnisstöðum, tjaldsvæði og á almennum svæðum mótsdagana. Háttvísi og prúða framgöngu, m.a. í keppni og við inngöngu á setningu mótsins.

Alla mótsdagana er nefnd að störfum sem fylgjast með keppendum og öðrum gestum sambandsaðila UMFÍ og metur frammistöðu þeirra út frá ofangreindum þáttum. Formaður UMFÍ, formaður unglingalandsmótsnefndar og formaður þess sambandsaðila UMFÍ sem heldur mótið hverju sinni ákveða valið á fyrirmyndarliði Unglingalandsmótsins.

,,Frábært að sjá hvað allt gekk vel á mótinu“

,,Við móthaldið á Sauðárkróki hjálpaðist allt að. Það rættist heldur betur úr veðrinu því spáin var ekki allt of hliðholl okkur fyrir mótið. Það kom mjög reynslumikið fólk að framkvæmd mótsins og öll stöndum við þétt saman. Bæði forysta UMFÍ, héraðssamböndin öll og fólkið sem þar starfar. Ennfremur íbúar og þeir sem halda utan um mótið. Þess vegna heppnast mótið alltaf vel því það eru nánast engir hnökrar. Ef eitthvað kemur upp, þá tekur bara næsti við og aðstoðar.“

Vinátta var þema unglingalandsmótsins

Vinátta

Þessir hressu krakkar í liði 63 unnu vináttuleikinn og fengu pitzzaveislu í vinning

Á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki var lögð áhersla á vináttu. Vinátta var þema mótsins og var eitt og annað gert til að ítreka mikilvægi vináttu. Vináttuleikur unglingalandsmótsins gekk út á það að dregnir voru einstaklingar úr ólíkum félögum og þurftu þeir að leysa tvær þrautir saman. Þátttakendur skiluðu úrlausnum sínum í vináttukassann og voru vinningshafar dregnir út á kvöldvöku í gærkvöldi.

Þessir hressu krakkar í liði 63 unnu vináttuleikinn og fengu pitzzaveislu í vinning og skelltu sér saman út að borða á Hard Wok á Sauðárkróki. Þau heita Freydís Ósk Kristjánsdóttir. Almar Aðalsteinsson.Anna Katrín Bjarnadóttir og Þorri Gunnarsson.

Dalvíkingur setti vallarmet á Unglingalandsmóti

Ólöf María Einarsdóttir kylfingur frá Dalvík.

Ólöf María Einarsdóttir kylfingur frá Dalvík.

Ólöf María Ein­ars­dótt­ir, 15 ára kylf­ing­ur frá Dal­vík, gerði sér lítið fyr­ir og setti vall­ar­met á rauðum teig á Hlíðar­enda­velli á Sauðár­króki á Ung­linga­lands­móti UMFÍ sem þar fer fram um helg­ina. Ólöf María lék hring­inn á 71 höggi eða á einu pari und­ir pari vall­ar­ins. Ólöf María hef­ur þegar getið sér gott orð sem kylf­ing­ur og þykir mikið efni sem spenn­andi verður að fylgj­ast með í framtíðinni.

„Ég er búin að æfa golf frá því að ég var fjög­urra ára göm­ul. Ástæðan fyr­ir því að ég byrjaði svo snemma var að stóri bróður minn og mamma kveiktu áhug­ann í mér og þau stunduðu golf af mikl­um krafti. Það var lít­ill golf­völl­ur við hliðanna á leik­skól­an­um mín­um og þar æfði ég mig öll­um stund­um.“

„Ég er að keppa mikið á mót­um í dag, mest fyr­ir sunn­an og eins á mót­um er­lend­is með ung­linga­landsliðinu. Ég sé framtíðina al­gjör­lega í golf­inu og ég stefni að því að bæta mig enn frek­ar. Ég er í golfi öll­um stund­um, þetta er bara svo ofsa­lega gam­an,“ sagði Ólöf María.

Ólöf María sagði að hún hefði tekið þátt í þrem­ur ung­linga­lands­mót­um. ,,Ung­linga­lands­mót­in er mjög skemmti­leg,“ sagði Ólöf María.

Hafdís með risastökk á Unglingalandsmóti – meðvindur of mikill

Hafdís Sigurðardóttir eftir risastökkið á Sauðárkróki.

Hafdís Sigurðardóttir eftir risastökkið á Sauðárkróki.

Hafdís Sigurðardóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar stökk sannkallað risastökk í langstökki á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki í gær. Þessari grein var skellt inn á mótinu meira til gamans en Hafdís flaug 6,72 metra ó orðsins fyllstu merkingu sem er 30 sentimetrum lengra en gildandi Íslandsmet hennar í greininni.

Hafdís er mikill ungmennafélagi og hefur keppt á nokkrum Landsmótum UMFÍ.

Þetta risastökk Hafdísar fæst því miður ekki staðfest það sem meðvindur var of mikill eða um 2,7 m/s. Stökksería Hafdísar var engu að síður mjög góð sem sýnir svo ekki verður um villst að hún er feiknaformi um þessar mundir.

Hafdís stefnir að ná lágmarkinu fyrir Evrópumótið í Sviss innan skamms er 6,55 metrar en Íslandsmet Hafdísar er 6,41 metrar sem hún setti í sumar. Hafdís hefur enn möguleika til að ná lámörkum fyrir Evrópumótið og vonandi að þau markmið hjá henni ganga eftir. Hafdís hefur aldrei á sínum ferli verið í jafngóðu formi.

Skemmtileg tilþrif – eldað undir bláhimni

Keppni í eggjakökukeppni á unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki fór fram í gær. Um undirbúning sáu Ásta Búadóttir, Margrét Helga og Jakob Frímann sem vann þetta myndband. Þátttakendur stóðu sig frábærlega, voru einbeitt en líka létt og skemmtileg.

Það fór svo að lokum að Einar Örn Gunnarsson bjó til bestu eggjakökuna og stóð uppi sem sigurvegari. Þetta var í fyrsta skipti sem keppni af þessu tagi fer fram á unglingalandsmóti.

Mikill áhugi á FIFA 14 tölvuleiknum

Frá keppni í FIFA 14 tölvuleiknum á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki.

Frá keppni í FIFA 14 tölvuleiknum á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki.

Í fyrsta skipti á Unglingalandsmóti UMFÍ er keppt í FIFA 14 tölvuleiknum. Leikurinn gengur út það að tveir keppendur eru saman í liði sem stýra ellefu leikmönnum og spila samkvæmt venjulegum FIFA knattspyrnureglum.

Það er mikill áhugi á þessum leik á unglingalandsmótinu en það eru 176 keppendur skráðir til leiks. Af þátttökufjölda að dæma var svo sannarlega þörf að bæta þessari keppnisgrein inn í mótið í fyrsta sinn. Þátttakendur eru að taka þátt í fleirum greinum og þeir eru að koma hér inn á hlaupum úr öðrum greinum sem eru hér úti á keppnissvæðinu. Það er gífurlegur á þessum leik um allan heim og flestir krakkar sem áhuga hafa á knattspyrnu leika hann.

Það kemur í ljós á laugardagskvöldið hvernig riðlar raðast upp fyrir lokadaginn á sunnudag og eftir það kemur í ljóst hverjir standa uppi sem sigurvegarar.

Skagfirðingurinn sigraði í eggjakökukeppninni

Þrír efsti í eggjakökukeppninni. Frá vinstri Hákon Ingi Stefánsson, Einar Örn Gunnarsson og Arnar Ólafsson.

Þrír efsti í eggjakökukeppninni. Frá vinstri Hákon Ingi Stefánsson, Einar Örn Gunnarsson og Arnar Ólafsson.

Keppni í eggjakökukeppni er eitt afþreyingarefnið sem boðið er upp á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki. Keppnin hófst fyrir hádegi og lauk tveimur tímum síðar. Fyrirkomulagið er þannig að hver sambandsaðili mátti senda keppenda á aldrinum 11-18 ára. Dómaranefnd keppninnar hafði til hliðsjónar við störf sín bragð, útlit og árferð. Nefndin komast að þeirri niðurstöðu að Skagafirðingurinn Einar Örn Gunnarsson, UMSS, hefði búið til bestu eggjakökuna. Hákon Ingi Stefánsson, UMSS, varð í öðru sæti og Arnar Ólafsson, UFA, í þriðja sæti.

,,Ég var að koma frá keppni í sundi þegar ég sá að hægt væri að skrá sig til þátttöku í eggjakökugerð og sló til. Ég lék af fingrum fram, reyndi að gera mitt best, og það nægði til sigurs. Þetta var skemmtilegt og auðvitað hefur maður stundum verið að elda eggjaköku heima. Eggjakökur eru hátt á listanum en ekki í uppáhaldi. Efst á listanum er nautalundin með steiktum sveppum og bernessósu. Ég er mikill mat- og smekkmaður en við erum það reyndar flestir úr sveitinni hér. Það var gaman að taka þátt en það stóð þannig séð aldrei fyrir dyrum. Gaman samt að vinna og koma sjálfum sér á óvart,“ sagði Einar Örn Gunnarsson sigurvegari í eggjakökugerðinni á unglingalandsmótinu.

 

11 ára sjálfboðaliði – ,,Skemmtilegt og gefandi starf“

Natan Elí Valtýsson, 11 ára gamall,  er sjálfbðaliði á Unglingalandsmótinu.

Natan Elí Valtýsson, 11 ára gamall, er sjálfbðaliði á Unglingalandsmótinu.

,,Ég kom hingað á unglingalandsmótið með pabba mínum sem er aðstoða þátttakendur í FIFA-leiknum sem er einn af stórum dagskrárliðum mótsins. Þegar á Sauðárkrók kom langaði mig að gera eitthvað skemmtilegt því ég ætlaði ekki að keppa. Það varð úr að ég bauð mig að starfa sem sjálfboðaliði. Þetta er bara búið að vera skemmtilegt og ég hef haft nóg fyrir stafni,“ sagði Natan Elís Valtýsson 11 ára Hafnfirðingur og nemandi í Hvaleyrarskóla. Natan sagðist hafa verið að dreifa ýmsu efni á mótssvæðinu og svo ætlaði hann að fara hjálpa til við knattspyrnukeppnina.

Hann sagðist aldrei hafa verið sjálfboðaliði áður en þetta væri gefandi og það væri gaman að geta lagt fram hjálparhönd. Þetta væri mikilvægt starf. Hann tekur þátt í íþróttastarfi en hann hefur æft með Haukum handbolta í tvö ár.

,,Við ætlum að standa okkur vel á mótinu“

Liðsmenn Gull-Guttanna á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki.

Liðsmenn Gull-Guttanna á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki.

,,Við vorum ákveðnir vinirnir að taka þátt í unglingalandsmótinu. Allir í liðinu æfa fótbolta á Selfossi svo það var ekki mikið mál að safna í lið undir merkjum Gull-Guttana. Við æfðum bara nokkuð vel fyrir mótið, komum nokkrum sinnum saman síðustu vikurnar fyrir mótið,“ sagði Þorsteinn Freyr Gunnarsson einn liðsmanna Gullguttanna eftir einn leik liðsins í morgun.

,,Við ætlum að standa okkur vel á mótinu og höfum til þessa unnið alla leikina okkar. Markmiðið er að fara alla leið og ég held að við eigum góða möguleika. Flestir í liðinu hafa tekið þátt í unglingalandsmóti áður en við vorum á mótinu sem haldið var á Selfossi 2012 og einhverjir voru líka með á mótinu á Höfn í Hornafirði í fyrra. Mér finnst ofsalega gaman að taka þátt í þessum mótum og svo er spennandi að hitta aðra krakka. Maður á örugglega eftir að taka þátt í unglingalandsmótum á meðan maður hefur aldur til,“ sagði Þorsteinn og hlakkaði mikið til næstu leikja liðsins.

Gildi Unglingalandsmótanna mikilvæg

 

Það varlétt yfir fólki í brekkunni á setningunni.

Það varlétt yfir fólki í brekkunni á setningunni.

17. Unglingalandsmót UMFÍ, sem haldið er á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina, var sett með formlegum hætti að viðstöddu miklu fjölmenni í kvöld. Þátttakendur gengu fylktu liði inna á íþróttavöllinn en yfir 1500 keppendur á aldrinum 11-18 ára taka þátt í mótinu. Mótshaldarar búast við að 10 þúsund gestir muni sækja mótið um helgina. Það voru þær Bríet Lilja Sigurðardóttir og Þórdís Róbertsdóttir sem tendruðu landsmótseldinn.

Keppt er í 17 keppnisgreinum á mótinu og hafa þær aldrei verið fleiri fram að þessu. Margt af okkar fremsta íþróttafólki hefur stigið sín fyrstu spor á unglingalandsmóti en þessi mót hafa verið að vaxa fiskur um hrygg með hverju árinu. Þetta er í þriðja sinn sem mótið er haldið á Sauðárkróki en öll aðstaða er með því besta sem þekkist á landinu.

Þakkarskjöldur afhjúpaður

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar, og Helga Guðrún Guðjónsdóttir afhjúpa þakkarskjöldinn.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar, og Helga Guðrún Guðjónsdóttir afhjúpa þakkarskjöldinn.

Eftir setningarathöfn Unglingalandsmótsins á Sauðárkróki í gærkvöldi var afhjúpaður þakkarskjöldur á íþróttavallarsvæðinu.Það voru Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar, sem afhjúpuðu þakkarskjöldinn í sameiningu í blíðskaparveðri.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir sagði af þessu tilefni það heiður fyrir hönd hreyfingarinnar að fá að afhenda sveitarfélaginu þennan minnisvarða til minningar um það dugmikla og kröftuga starf sem hefur verið unnið á Sauðárkróki. Fyrir á svæðinu eru þakkarskildir frá Landsmóti UMFÍ 1971 og 2004, og unglingalandsmótunum 2004 og 2009.

Mótssetning á íþróttavellinum í kvöld kl. 20

Íþróttavöllurinn á Sauðárkróki skartaði sínum fegursta á Unglingalandsmótinu í dag.

Íþróttavöllurinn á Sauðárkróki skartaði sínum fegursta á Unglingalandsmótinu í dag.

Mótssetning verður á íþróttavellinum á Sauðárkróksvelli í kvöld og hefst klukkan 20. Mikilvægt er að allir keppendur mæti í skrúðgöngu sem er eitt af upphafsatriðum kvöldsins og eru keppendur beðnir um að mæta á æfingasvæðið sem er sunnan við aðalleikvanginn eigi síðar en klukkan 19.30 með fána sinna félaga. Þaðan verður gengið inn á leikvanginn fylktu liði.

Að þessu sinni verður gerð aðeins breyting á setningunni og verður öllum börnum 10 ára og yngri boðið að ganga inn á svæðið í kjölfar keppenda. Þeir mæta með foreldrum sínum á æfingasvæðið upp við íþróttahús kl. 19.30. Foreldrar eru velkomnir að ganga með börnum sínum inn á svæðið.

 

Flestir keppendur koma frá Ungmennasambandi Skagafjarðar

Frá keppni í knattspyrnu stúlkna á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki í dag.

Frá keppni í knattspyrnu stúlkna á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki í dag.

Um 1500 keppendur hafa skráð sig til þátttöku á 17. Unglingalandsmóti UMFÍ sem nú stendur yfir á Sauðárkróki. Að sögn Ingólfs Sigfússonar, sem annast skráningar og tölvumál á mótinu, hafa yfir 90% sótt mótsgögn sem er mjög góð heimta á fyrsta degi mótsins. Flestir keppendur á mótinu er frá Ungmennasambandi Skagafjarðar, UMSS, alls 218 talsins. Frá Ungmennasambandi Kjalarnesþings, UMSK, eru 161 keppandi og 108 koma frá Héraðssambandinu Skarphéðni, HSK.

865 þátttakendur eru í knattspyrnu en það er sú íþróttagreina hefur alltaf dregið að sér flesta keppendur á unglingalandsmótinu eins og áður. 594 keppendur eru í frjálsum íþróttum og 427 í körfubolta.

,,Sjáum fram á frábæra helgi á Sauðárkróki“

Fólk lætur fara vel um sig í góða veðrinu.

Fólk lætur fara vel um sig í góða veðrinu.

Veðrið leikur við keppendur og gesti á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki. Sól, blankalogn og 15 stiga hiti er í Skagafirði. Keppendur hófu daginn snemma en þá hófst keppni í nokkrum greinum sem standa mun yfir í allan dag.Mótssetning verður á íþróttavellinum í kvöld.

,,Við erum mjög glöð, veðrið yndislegt og sól skín í heiði. Mótið er farið fyrir alvöru af stað, hér iðar allt af lífi og sé ekki fram á annað en við eigum eftir að eiga frábæra helgi saman. Við erum afar sátt við þátttökuna og segja má að hún sé eftir okkar væntingum. Það gekk allt saman mjög vel á tjaldsvæðinu í nótt og þeir síðustu voru að koma klukkan þrjú, allir glaðir og allt gekk samkvæmt áætlun. Við erum þakklát fyrir hina góðu þátttöku og veðrið sem á vonandi eftir að leika við okkur alla helgina,“ sagði Ómar Bragi Stefánsson framkvæmdastjóri 17.Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki um helgina.