Uppskeruhátíð UDN á Reykhólum

Uppskeruhátið UDN verður á Reykhólum.

Uppskeruhátið UDN verður á Reykhólum.

Uppskeruhátíð barna og ungmennastarfs UDN og aðildarfélaga verður haldin við Reykhólaskóla miðvikudaginn 2. september næstkomandi klukkan 18:00.

Allir eru velkomnir á hátíðina en á henni verða grillaðir hamborgarar í boði og veittar verða viðurkenningar fyrir þátttöku, framfarir og góðan árangur í frjálsum íþróttum, fótbolta og hestamennsku.

Íþróttaálfurinn og Solla stirða munu mæta hress og kát á svæðið.

Lið UFA/UMSE sigraði í bikarkeppni 15 ára og yngri á Laugum

Glæsilegur árangur

Bikarlið UFA/UMSE 15 ára og yngri.

Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands 15 ára og yngri fór fram á Laugavelli í Reykjadal í Þingeyjarsýslu um helgina. Þátttakan í mótinu var góð og ágætis árangur náðist í mörgum greinum. Sameiginlegt lið Ungmennafélags Akureyrar og Ungmennasambands Eyjafjarðar sigraði í karlakeppninni en liðið hlaut 68 stig.

Í kvennakeppninni lenti lið UFA/UMSE í þriðja sæti með 55 stig. Í heildarstigakeppninni lenti UFA/UMSE í öðru sæti með 123 stig aðeins hálfu stigi frá bikarmeisturunum.

Íslandsmót FÁÍA 60+ í pútti verður í Mosfellsbæ

Frá púttmóti á vegum FÁÍA.

Frá púttmóti á vegum FÁÍA.

Íslandsmót FÁÍA  60 + í pútti verður haldið í Mosfellsbæ föstudaginn 21. ágúst kl 14. Skráningar berist til Karls Loftssonar kallilofts@simnet.is fyrir 17. ágúst. Þátttökugjald er kr 1000.- á hverja skráningu og greiðist inn á reikning 0372-13-903483, kennitala 020333-2739.

Keppt er í flokki kvenna og karla, einstaklingskeppni og sveitakeppni þar sem fjórir skipa sveitina, en þrír telja. Munið við skráningu að geta hverjir skipi hverja sveit. Keppt er á tveimur völlur A-völlur 2 x 9 holur og B-völlur 2 x 9 holur, alls 36 holur. Veitingar verða seldar á staðnum.

Viljayfirlýsing vegna uppbyggingar við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum

Frá undirrituninni á Egilsstöðum.

Frá undirrituninni á Egilsstöðum.

Þann 24. júlí síðastliðinn undirrituðu Davíð Þór Sigurðarson, formaður Íþróttafélagsins Hattar og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs viljayfirlýsingu um gerð samnings vegna uppbyggingar við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum. Aðilar viljayfirlýsingarinnar stefna að gerð samnings um uppbyggingu fimleikahúss sem verði viðbygging við íþróttamiðstöðina og frágang búningsherbergja.

Þá verði hluti uppbyggingarinnar endurnýjun á gólfefnum í aðalsal íþróttamiðstöðvar sem framkvæmt verður í næstkomandi ágústmánuði. Stefnt er að því að samningurinn feli í sér framlög frá Fljótsdalshéraði og framkvæmdir á vegum Íþróttafélagsins Hattar geti orðið árin 2015 til 2018.

Sigurðarbikarinn afhentur

Sigurður Magnússon tekur á móti bikarnum í mótslok Unglingalandsmóts UMFÍ á Akureyri.

Sigurður Magnússon, formaður UFA, tekur á móti bikarnum í mótslok Unglingalandsmóts UMFÍ á Akureyri.

Sigurðarbikarinn var afhentur á mótsslitum 18. Unglingalandsmóts UMFÍ á Akureyri. Það var Sigurður Magnússon, formaður Ungmennafélags Akureyrar, sem veitti bikarnum viðtöku. Bikarinn er gefinn til minningar um Sigurð Geirdal fyrrverandi framkvæmdastjóra UMFÍ.

Bikarinn afhendist að loknu Unglingalandsmóti UMFÍ ár hvert sem viðurkenning á því mikla starfi sem felst í undirbúningi unglingalandsmóta. Gefendur bikarsins eru Hafsteinn Þorvaldsson, fyrrverandi formaður UMFÍ, og Jónas Ingimundarson, fyrsti formaður Ungmennafélagsins Þórs í Þorlákshöfn.

Bikarinn var afhentur í fyrsta sinn HSK vegna Unglingalandsmóts UMFÍ í Þorlákshöfn 2008. UMSS fékk bikarinn afhentan 2009, UMSB 2010 ,UÍA 2011, HSK 2012, USÚ 2013, UMSS 2014 og UFA 2015.

Fyrirmyndarbikarinn til HSK annað árið í röð

Guðrún Tryggvadóttir veitti bikarnum viðtöku fyrir hönd HSK.

Guðrún Tryggvadóttir veitti bikarnum viðtöku fyrir hönd HSK.

Á mótsslitum 18. Unglingalandsmóts UMFÍ á Akureyri var tilkynnt hverjir hefðu hreppt Fyrirmyndarbikarinn. Bikarinn féll í skaut Héraðssambandsins Skarphéðins, HSK, og var þetta annað árið röð sem bikarinn fer til HSK. Alls hefur HSK fengið þennan bikar fimm sinnum.

Fyrirmyndarbikarinn var gefinn af Íþróttanefnd ríkisins og er viðurkenning þess sambandsaðila UMFÍ sem sýnt hefur eftirfarandi atriði. Góða umgengni á keppnisstöðum, tjaldsvæði og á almennum svæðum mótsdagana. Háttvísi og prúða framgöngu, m.a. í keppni og við inngöngu á setningu mótsins.

Alla mótsdagana er nefnd að störfum sem fylgjast með keppendum og öðrum gestum sambandsaðila UMFÍ og metur frammistöðu þeirra út frá ofangreindum þáttum. Formaður UMFÍ, formaður unglingalandsmótsnefndar og formaður þess sambandsaðila UMFÍ sem heldur mótið hverju sinni ákveða valið á fyrirmyndarliði Unglingalandsmótsins.

,,Við erum öll í skýjunum“

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, á Þórsvellinum á Akureyri.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, á Þórsvellinum á Akureyri.

,,Ég er afskaplega ánægð með Unglingalandsmótið hér á Akureyri og segja má að það hafi algjörlega staðið undir væntingum. Ég er mjög þakklát og glöð með hvernig til hefur tekist og vil þakka öllu því góða fólki sem kom að undirbúningi og framkvæmd þessa móts. Það var vel að öllu staðið í hvívetna og veðrið var mun betra en spár gerðu ráð fyrir. Met var slegið í þátttökufjölda þannig að það er ekki hægt annað en að vera glöð,“ sagði Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, í mótslok en 2200 keppendur tóku þátt í 18. Unglingalandsmóti UMFÍ.

,,Að setja met kom mér svolítið á óvart“

Andrea Þorvaldsdóttir með verðlaunapeninga um háslinn sem hún hefur unnið á Unglingalandsmótinu á Akureyri.

Andrea Þorvaldsdóttir með verðlaunapeninga um háslinn sem hún hefur unnið á Unglingalandsmótinu á Akureyri.

Frjálsíþróttakeppninni á Unglingalandsmóti UMFÍ á Akureyri fer senn að ljúka en síðustu greinarnar í boðhlaupum standa nú yfir. Tvö unglingalandsmótsmet hafa verið sett á mótinu í grindarhlaupi og kúluvarpi.

Andrea Þorvaldsdóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar setti unglingalandsmótsmet í 60 metra grindahlaupi í flokki 13 stúlkna, hljóp á 10,15 sekúndum. Aldursflokkamet var síðan sett í kúluvarpi 12 ára stúlkna þegar Birta Sigþórsdóttir úr HSH kastaði 11,86 metra.

,,Þetta er þriðja unglingalandsmótið sem ég tek þátt í en ég búinn að taka þátt frá því að ég hafði aldur til. Ég hef aðallega verið að keppa í frjálsum íþróttum en á þessu ári hef ég agt áherslu á spjótkastið ásamt spretthlaupum og langstökki. Það kom mér svolítið á óvart að setja metið í 60 metra grindahlaupi af því að mér hefur ekki verið að ganga nógu vel í sumar. Ég er núna búin að ná taktinum aftur og er rosalega ánægð með það. Það er alltaf jafn gaman að taka þátt í unglingalandsmótum og þau eiga eftir að verða fleiri á næstu árum,“ sagði Andrea Þorvaldsdóttir.

Mótsslit verða fyrir framan Samkomuhúsið

Blíðskaparveður er á Akureyri á lokadegi Unglingalandsmótsins.

Blíðskaparveður er á Akureyri á lokadegi Unglingalandsmótsins.

Síðasti dagur 18. Unglingalandsmóts UMFÍ á Akureyri er runninn upp í blíðskaparveðri en mótið hefur gengið einstaklega vel. Keppni hófst snemma í morgun og lýkur síðan klukkan 19.

Mótsslit fara fram í kvöld og verður sérstök dagskrá fyrir framan Samkomuhúsið á Akureyri. Dagskráin hefst klukkan 21 og henni lýkur með mikilli flugeldasýningu rétt fyrir miðnætti. Fólk er hvatt til að sameinast í bíla því bílastæði eru takmörkuð en búist er við miklum fjölda fólks á þetta lokaatriði mótsins.

,,Við erum nú þegar farin að hlakka til næsta móts“

Ágúst Gylfason með stúlknaliðið úr Kópavoginum sem keppir á Unglingalansmótinu.

,,Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem á Unglingalandsmót UMFÍ með dóttur mína sem er 11 ára gömul. Þetta er bara rétt að byrja hjá mér, ég held að þetta verði fyrsta mótið af mörgum á næstum árum. Hér er frábær aðstaða og allt til alls, frábær stemning í góðu umhverfi. Þessi mót eru hrein snilld, framboð greina mikið þannig að allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi. Fjölbreytnin er mikil og ég hefði viljað að stelpan mín hefði tekið þátt í fleiri greinum en fótboltanum,“ sagði Ágúst Gylfason sem þekktur er fyrir sín störf sem þjálfari Fjölnis í knattspyrnu. Hér á mótinu stýrir hann stúlknaliði úr Kópavoginum, DC Soccergirls, sem dóttir hans leikur með.

Ágúst segir mikinn mannfjölda í kringum mótið og allir virðast skemmta sér hið besta. Gleðin sé að minnsta kosti alls ráðandi. Þetta er bara allt saman mjög skemmtilegt segir Ágúst.

Hafdís Sigurðardóttir setti glæsilegt Íslandsmet á Unglingalandsmótinu

Hafdís Sigurðardóttir eftir að hafa sett Íslandsmetið á Akureyri í dag.

Hafdís Sigurðardóttir eftir að hafa sett Íslandsmetið á Akureyri í dag.

Hafdís Sigurðardóttir setti glæsilegt Íslandsmet í langstökki á Akureyri í dag þegar hún stökk 6,56 metra. Langstökkskeppni var sett upp sem aukagrein á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer á Akureyri um helgina. Hafdís náði þessu risastökki í 4. umferð keppninnar við innilegan fögnuð fjölda áhorfenda. Hafdís átti fyrra metið sem var 6,45 cm og sett á Akureyri fyrir skemmstu.

Lágmarkið fyrir heimsmeistaramótið sem verður í Peking í Kína í síðar í þessum mánuði er 6,70 metra og verður Hafdís að ná því fyrir 10. ágúst. Þessi sama hæð er einnig lágmarkið fyrir Ólympíuleikana í Ríó í Brasilíu á næsta ári.

,,Ég fann það í fyrsta stökki og þetta gæti gerst. Þetta met gefur mér vonandi byr í seglin að ná lágmörkum fyrir HM í Peking. Ég er að fá boð um að keppa á mótum erlendis en get ekki þegið þau vegna peningaskorts. Því miður er staðan þessi en við verðum að vona það besta,“ sagði Hafdís Sigurðardóttir eftir keppnina á Unglingalandsmótinu.

UMFÍ afhenti Akureyrarbæ þakkarskjöld

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri.

Að lokinni setningarathöfn Unglingalandsmótsins á Akureyri í gærkvöldi afhenti Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, fyrir hönd hreyfingarinnar Akureyrarbæ þakkarskjöld. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri veitti skildinum viðtöku.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir sagði af þessu tilefni það heiður fyrir hönd hreyfingarinnar að fá að afhenda Akureyrarbæ þennan þakkarskjöld fyrir það dugmikla og kröftuga starf sem hefur verið unnið í bænum. Þá vildi hún ennfremur koma á framfæri þakkir til sjálfboða sem unnið hefðu ómetanlegt starf.

Fyrir á svæðinu eru þakkarskildir frá Landsmóti UMFÍ 1909, 1955, 1981 og 2009. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem Unglingalandsmót er haldið á Akureyri.

Glæsileg setningarathöfn

Frá setningarathöfninni í kvöld.

Frá setningarathöfninni í kvöld.

18. Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands var sett í kvöld á Þórsvelli á Akureyri að viðstöddu fjölmenni. Þátttakendur gengu fylgdu liði inn á leikvanginn en eins og áður hefur komið fram hafa þátttakendur aldrei verið fleiri á Unglingalandsmóti UMFÍ. Hafdís Sigurðardóttir frjálsíþróttakona úr Ungmennafélagi Akureyrar hljóp með kyndilinn og lét hann síðan í hendur ungra íþróttamanna sem tendruðu eldinn að lokum. Akureyringurinn og hlaupamaðurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson var fánaberi.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, setti Unglingalandsmótið og þakkaði framkvæmdaaðilum fyrir vel unnin störf. Helga Guðrún tilkynnti það jafnframt að Unglingalandsmótið 2018 yrði haldið í Þorlákshöfn. Mótið 2016 verður í Borgarnesi og 2017 á Egilsstöðum. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, flutti einnig ávarp á setningunni.

Unglingalandsmótið heldur áfram á snemma í fyrramálið og verður keppni allan daginn ásamt ýmsu öðru afþreyingarefni.

Mótssetning á Þórsvelli klukkan 20

Setning 18. Unglingalandsmóts UMFÍ verður á Þórsvelli.

Setning 18. Unglingalandsmóts UMFÍ verður á Þórsvelli.

Mótssetning á 18. Unglingalandsmóti UMFÍ verður á Þórsvellinum klukkan 20 í kvöld. Mikilvægt er að allir mæti í sameiginlega inngöngu allra keppenda sem verður í upphafi dagskrárinnar.

Keppendur eru beðnir um að mæta klukkan 19.30 inn í Bogann en þar verður keppendum raðað upp.

Þeir sem koma því við eru hvattir til að koma  gangandi til mótssetningar en að öðrum kosti fólki bent á að leggja bílum sínum við Glerárskóla.

Flestir keppendur í knattspyrnu

Frá keppni í knattspyrni í Boganum á Unglingalandsmótinu í dag.

Frá keppni í knattspyrnu í Boganum á Unglingalandsmótinu í dag.

Keppni á Unglingalandsmótinu hófst snemma í morgun með greinum í knattspyrnu, körfuknattleik, frjálsum íþróttum og pílukasti. Keppni hefst síðan í öðrum greinum eftir hádegi og verður keppt til klukkan 18.

Keppendur á mótinu eru á þriðja þúsund sem er metþátttaka. Flestir keppendur eru í knattspyrnu eða alls 1235. Næst flestir eru keppendur í frjálsum íþróttum, alls 603 og í körfuknattleik eru keppendur 553. Þá má nefna að keppendur í strandblaki eru 221 og í tölvuleik eru þátttakendur 134.

Nokkuð er um nýjar keppnisgreinar á borð við hjólreiðar, pílukast og boccia svo eitthvað sé nefnt. Í þessum greinum er þátttakan með ágætum.

Alltaf er gestum að fjölga á tjaldsvæði mótsins. Nokkrar fyrirspurnir hafa komið frá tjaldbúagestum varðandi snyrtingar á svæðinu sem mótsstjórn að er vinna úr eftir bestu getu.

Keppendur og gestir streyma inn í bæinn

Mikill fjöldi hefur komið sér fyrir á tjaldsvæði mótsins.

Mikill fjöldi hefur komið sér fyrir á tjaldsvæði mótsins.

Mörg þúsund mótsgestir á Unglingalandsmótinu eru að koma sér fyrir á svokölluðum Rangárvöllum, stutt ofan bæjarins sunnan Hlíðarfjallsvegar. Mikil umferð er inn á svæðið og verður það eflaust fram eftir kvöldi.

Þátttakendur á Unglingalandsmóti hafa aldrei verið fleiri en vel á þriðja þúsund keppendur hafa skráð sig til leiks. Hinsvegar er því miður ekki hægt að verða við óskum um aðgang á vatni á ákveðnum hluta tjaldsvæðisins og er beðist velvirðingar á því.

 

Keppni hófst í golfi í blíðskaparveðri

Frá keppni í golfi á Unglingalandsmótinu sem fór fram á Jaðarvelli.

Frá keppni í golfi á Unglingalandsmótinu sem fór fram á Jaðarsvelli.

Keppni á Unglingalandsmóti UMFÍ á Akureyri hófst í dag en þá hófu ungir og efnilegir kylfingar leik sinn á Jaðarsvellinum. Golfkeppnin hófst síðdegis en henni lauk á níunda tímanum í kvöld. Blíðskaparveður er á Akureyri, sólin skín og hitinn er um 12 gráður.

Keppt verður í 29 greinum á Unglingalandsmótinu að þessu sinni og hafa þær aldrei verið fleiri. Keppni hefst af fullum krafti í fyrramálið og verður keppt allan daginn. Setningarathöfn mótsins verður á föstudagskvöldið á Þórsvelli og hefst hún klukkan 20.

Afhending keppnisarmbanda

20150730_134920

Keppnisarmbönd gefa keppendum heimild til að keppa á mótinu. 

Keppendur Unglingalandsmótsins eru farnir að streyma til Akureyrar og eru þó nokkrir búnir að koma sér fyrir á tjaldsvæðinu. Afhending keppnisarmbanda fer fram í mótsstjórn sem staðsett er í Glerárskóla, rétt við Þórsvöllinn. Í dag, fimmtudag, eru keppnisarmbönd einnig afhent á tjaldsvæðinu, í aðstöðu Bílaklúbbs Akureyrar. Mótsstjórnin verður opin í dag fimmtudag kl. 13-24, á föstudag kl. 8-18, laugardag 9-18 og sunnudag 9-18. Keppnisarmbönd gefa keppendum heimild til að keppa á mótinu og því mikilvægt að allir keppendur sæki armband áður en keppni hefst.

Dagskrá keppnisgreina, leikaniðurröðun og tímaseðla er að finna á slóðinni landsmot.umfi.is. Þar munu einnig úrslit birtast þegar þau liggja fyrir. Með því að slá inn kennitölu keppanda birtast upplýsingar um skráðar keppnisgreinar, lið sem keppandi er skráður í ásamt öllum upplýsingum keppnisgreinarinnar.

17.stjórnarfundur UMFÍ haldinn 12. júní 2015

17.stjórnarfundur UMFÍ haldinn 12. júní 2015 í Þjónustumiðstöð UMFí í Reykjavík.

Hægt er að sækja fundargerðina hér:17.stjórnarfundargerð

Stefnir í metþátttöku

Lokaundirbúningur fyrir Unglingalandsmótið á Akureyri stendur nú sem hæst.

Lokaundirbúningur fyrir Unglingalandsmótið á Akureyri stendur nú sem hæst.

Skráningar á 18. Unglingalandsmót UMFÍ, sem verður haldið á Akureyri um verslunarmannahelgina, hafa gengið mjög vel og stefnir í metþátttöku. Að sögn Ómars Braga Stefánssonar framkvæmdastjóra mótsins, eru mótshaldarar í skýjunum með þátttökuna.

,,Það er tilhlökkun í okkar röðum og gaman að sjá hvað margir ætla að taka þátt. Stærsta mótið til þessa var á Selfossi 2012 og þá voru keppendur um 2000. Eins og staðan er í dag stefnir allt í að það met verður slegið en skráningar eru nú þegar orðnar á þriðja þúsund. Lokasprettur í undirbúningi stendur nú sem hæst og gengur allt samkvæmt áætlun,“ sagði Ómar Bragi Stefánsson.

Komandi viðburðir

  1. 49. Sambandsþing UMFÍ

    október 17

RSS Fréttir sambandsaðila

RSS HSÞ