Leiðtogaskóli NSU í Noregi – umsóknarfrestur til 10. júní

Leiðtogaskóli NSU 2015

Leiðtogaskóli NSU verður í Noregi 10.-16. ágúst.

Ungmennafélag Íslands er aðili að NSU – Nordisk Samorgnisations for Ungdomasarbejde en samtökin standa fyrir viðburðum fyrir ungt fólk á Norðurlöndum á hverju ári. Leiðtogaskóli NSU fer að þessu sinni fram í Styrn og Vågsøy dagana 10.-16.ágúst en flogið verður til og frá Bergen. UMFÍ á sæti fyrir fjóra þátttakendur á aldrinum 18.-30.ára að þessu sinni.

Yfirskrift leiðtogaskólans er Mountains & Fjords. Þú færð tækifæri til að efla leiðtogahæfileika þína, reynslu af því að leiða fólk inn á breytta tíma, reynslu af því að vinna með öðrum, aukna þekkingu á siðum og venjum annarra landa sem og tungumáli þeirra. Þátttakendur fá tækifæri til að reyna sig í ýmsum aðstæðum s.s. á fjalli, á sjó, á jökli, elda mat úti náttúrunni og fleira sem tengist náttúrunni okkar.

Þátttökugjald er 2000 nk. krónur ásamt ferðakostnaði en UMFÍ niðurgreiðir fyrir sína þátttakendur helming. Umsóknafrestur er til 10.júní nk. Allar nánari upplýsingar veitir Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi UMFÍ, á netfanginu sabina@umfi.is

Viðburðarstofa Norðurlands vinnur með UMFÍ að undirbúningi og framkvæmd Unglingalandsmóts á Akureyri

Íþróttavöllurinn á Hamri

Á íþróttavellinum á Hamri er glæsileg aðstaða.

Ungmennafélag Íslands hefur fengið Viðburðarstofu Norðurlands til liðs við sig við undirbúning og framkvæmd vegna 18. Unglingalandsmóts UMFÍ sem verður haldið á Akureyri um verslunarmannahelgina í sumar. Starfsfólk Viðburðastofu Norðurlands mun vinna við hlið framkvæmdastjóra mótsins að undirbúningi og framkvæmd mótsins.

Unglingalandsmótin hafa vaxið og dafnað vel og búist er við fjölmennu móti í sumar á Akureyri en undanfarin ár hafa keppendur og gestir verið um tíu þúsund. Keppendur á mótinu eru á aldrinum 11-18 ára.

Þetta verður í fyrsta skipti sem Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Akureyri. Mótið hefst föstudaginn 31.júlí og því lýkur um miðnætti sunnudaginn 2. ágúst. Á Akureyri er gríðarlega góð keppnisaðstaða til staðar fyrir allar keppnisgreinar.

Íþróttamenn og vinnuþjarkar ársins kjörnir hjá HSH

Vinnuþjarkar HSH

Kristín Halla Haraldsdóttir og Björg Ágústsdóttir fengu afhentan Vinnuþjark HSH.

Hildur Sigurðardóttir körfuboltakona úr Snæfelli var kjörin íþróttamaður HSH um síðustu helgi. Íþróttamenn ársins voru kynntir í íþróttahúsinu í Ólafsvík en HSH hélt á sama tíma frjálsíþróttamót sitt þar. Við sama tækifæri voru aðrir íþróttamenn heiðraðir. Íþróttamaður HSH er kjörinn af stjórn HSH og formönnum aðildarfélaga sambandsins.

Auk íþróttamanna er sú hefð að heiðra þá sem eru að vinna að stjórnunar- og þjálfarastörfum hjá aðildarfélögum HSH. Þetta árið fengu þær Kristín Halla Haraldsdóttir og Björg Ágústsdóttir afhentan Vinnuþjark HSH.

Viðurkenninguna fá þær fyrir störf í þágu frjálsra íþrótta bæði heima í héraði og fyrir SamVest sem er samstarf sjö íþróttasambanda á Vesturlandi og Vestfjörðum í frjálsum íþróttum.

HSK boðar til samráðsfundar í Selinu á Selfossi

Frá Landsmóti UMFÍ á Selfossi 2013.

Frá Landsmóti UMFÍ á Selfossi 2013.

HSK boðar til samráðsfundar, þar sem rætt verður um landsmótsreglugerð UMFÍ og tillögur um breytingar á reglugerðinni. Fundurinn verður haldinn í Selinu á Selfossi miðvikudaginn 20. maí nk. frá kl. 17:30 – 19:30.

Á fundinum verður m.a. rætt um tillögu vinnuhóps UMFÍ, sem lögð var fram á 39. sambandsráðsfundi UMFÍ sem haldinn var í Garðabæ í október 2014.  UMFÍ hefur óskað eftir að umsögnum frá sambandsaðilum verði skilað fyrir 1. júní 2015.

Á fundinn eru sérstaklega boðaðir þeir sem komu að framkvæmd landsmótsins á Selfossi. Fundurinn er öllum opinn og áhugafólk um landsmót UMFÍ er hvatt til að mæta og ræða um hugsanlegar breytingar á landsmótsreglugerð og hvert skuli stefnt, varðandi framkvæmd landsmóta.

Ingvar Hjartarson úr Fjölni Íslandsmeistari í 10 km götuhlaupi

Ingvar Hjartarson 2015

Þrír fyrstu í 10 km götuhlaupinu.

Íslandsmeistaramót í 10 km götuhlaupi fór fram 14. maí í Stjörnuhlaupinu í Garðabæ. Fjölnismaðurinn Ingvar Hjartarson varð Íslandsmeistari í karlaflokki á tímanum 32:39. Keppnin var nokkuð spennandi í karlaflokknum þar sem Ingvar Hjartarson og Arnar Pétursson ÍR leiddu hlaupið lengi framan af. Fór svo að Ingvar náði góðri forystu á síðasta kílómetranum og kom um hálfri mínútu á undan í mark. Hugi Harðarson í Fjölni hljóp á tímanum 37:46 og varð í 4. sæti.

Íslandsmeistarar í sveitakeppni karla varð sveitin Adidas Boost en í henni voru Fjölnismennirnir Ingvar og Hugi. Íslandsmeistaramót í 5000 metra hlaupi á braut í kvennaflokki fór fram 16. maí á Selfossi. Þar lenti Helga Guðný Elíasdóttir Fjölni í öðru sæti á tímanum 19:27,26.

Vormót HSK í frjálsum íþróttum á Selfossvelli

Vormót HSK fer fram á Selfossvelli.

Vormót HSK fer fram á Selfossvelli.

Vormót HSK í frjálsum íþróttum verður haldið á Selfossvelli laugardaginn 16. maí. Mótið hefst kl 13:00 og stendur til kl 15:00. Keppt verður í karla- og kvennaflokkum og er öllum heimil þátttaka.

Hjá konum verður keppt í 100 m og 400 m hlaupum, 100 m grindahlaupi, hástökki, langstökki, sleggjukasti og kúluvarpi. Hjá körlum verður keppt í 100 m og 400 m hlaupum, 110 m grindahlaupi, hástökki, langstökki, spjótkasti og sleggjukasti.

Samhliða mótinu fer fram Meistaramót Íslands í 5 km hlaupi kvenna og 10 km hlaupi karla. Skráningarfrestur er til kl. 24:00 fimmtudaginn 14. maí nk.

UMSE stendur fyrir fræðslufyrirlestri á Dalvík

Hannes Bjarni

Hannes Bjarni Hannesson sjúkraþjálfari.

Ungmennasamband Eyjarfjarðar mun standa fyrir fræðslufyrirlestri um íþróttameiðsl á Dalvík laugardaginn 16. maí kl. 17. Fyrirlesturinn fer fram í Dalvíkurskóla og ætlaður íþróttakrökkum, 11 ára og eldri.

Það er Hannes Bjarni Hannesson, sjúkraþjálfari B.sc sem heldur fyrirlesturinn en þar mun hann fjalla um íþróttameiðsl en leggja áherslu á forvarnir gegn meiðslum í íþróttum og fyrstu viðbrögð við meiðslum. Ekkert þátttökugjald er á fyrirlesturinn og eru foreldrar sérstaklega boðnir velkomnir.

Fyrirlesturinn er haldinn í tengslum frjálsíþróttaæfingabúðir UMSE sem haldnar verða á Dalvík á 16. og 17. maí undir handleiðslu frjálsíþróttaþjálfaranna Unnars Vilhjálmssonar, Þórunnar Erlingsdóttur og Þórarins Hannessonar. Æfingar fara fram í íþróttamiðstöð Dalvíkurbyggðar og gist verður í Dalvíkurskóla. Gjaldið fyrir þátttökuna í búðirnar eru 5.000 kr. Innifalið er fullt fæði og gisting, allar æfingar, fræðslufyrirlestur og sund.

Samningur undirritaður milli UMSB og Skorradalshrepps

UMSB og Skorradalur

Pálma Blængsson, framkvæmdastjóri UMSB, og Árna Hjörleifsson, oddviti Skorradalshrepps, handsala samninginn.

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli UMSB og Skorradalshrepps sem ætlað er að jafna stöðu íbúa á starfssvæði UMSB. Eins og kunnugt er þá nær starfssvæði UMSB yfir þrjú sveitarfélög; Borgarbyggð, Skorradalshrepp og Hvalfjarðarsveit.

Árið 2013 var undirritaður samningur við Borgarbyggð um aðkomu UMSB að íþróttamálum og ýmsum verkefnum þeim tengdum í sveitarfélaginu og nú er búið að ganga frá sambærilegum samningi við Skorradalshrepp.

Samningi þessum er fyrst og fremst ætlað að jafna stöðu allra íbúa á starfssvæði UMSB, en mikilvægt er að allir íbúar á starfssvæðinu eigi jafna möguleika á að nýta sér þjónustu UMSB, eins og t.d. að sækja styrki í afreksmannasjóð UMSB og séu gjaldgengir í kjöri á íþróttamanni Borgarfjarðar.

Nýr íþróttafulltrúi kynntur til starfa á héraðsþingi HHF

Undirskrift HHF

Páll Vilhjálmsson íþróttafulltrúi og Lilja Sigurðardóttir formaður HHF.

36.Héraðsþing Héraðssambandsins Hrafna-Flóka var haldið á veitingastaðnum Hópinu á Tálknafirði þann 29.apríl s.l. Vel var mætt á þingið og voru ýmis mál tekin fyrir. Mótaskrá sumarsins var samþykkt auk þess sem valdir voru íþróttamenn ársins 2014 hjá sambandinu. Nýr íþróttafulltrúi var kynntur til starfa en hann mun starfa fyrir Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp auk þess að vera framkvæmdarstjóri HHF. Páll Vilhjálmsson var valinn úr hópi um 13 umsækjenda en ráðgjafafyrirtækið Attentus aðstoðaði við ráðningarferlið. Páll mun hefja störf þann 1.júní n.k.

Íþróttamenn HHF voru valdir á þinginu og var Saga Ólafsdóttir frá Íþróttafélaginu Herði (ÍH) valin frjálsíþróttamaður HHF auk þess að vera íþróttamaður HHF árið 2014. Knattspyrnumaður HHF var Einar Jónsson frá ÍH, sundmaður HHF var Guðrún Ósk Aðalsteinsdóttir frá Ungmennafélagi Tálknafjarðar (UMFT) og Gabríel Ingi Jónsson frá UMFT var körfuknattleiksmaður HHF.

Jóhann Ólafsson fyrrum stjórnarmaður í UMFÍ er látinn

Jóhann Ólafsson.

Jóhann Ólafsson.

Jóhann Ólafsson fyrrum stjórnarmaður í UMFÍ er látinn. Hann fæddist á Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal 2. október 1952 og lést á Akureyri 29. apríl 2015. Jóhann kvæntist Unni Maríu Hjálmarsdóttur árið 1974 og eignuðust þau sex börn: Jóhann og Unnur María skildu árið 1996. Eftirlifandi eiginkona Jóhanns er Herdís A. Geirsdóttir.

Jóhann var varaformaður Umf. Þorsteins Svarfaðar 1992, sat í stjórn UMSE 1987-91, þar af formaður 1989-91, sat í stjórn UMFÍ frá 1989-2001, þar af ritari UMFÍ 1991-1999 og í varastjórn UMFÍ 1999-2001. Þá var hann sæmdur gullmerki UMFÍ 2002.

Jóhann gegndi fjölda trúnaðarstarfa og átti m.a. sæti í sveitastjórn Dalvíkurbyggðar 2006-2014 og var formaður sóknarnefndar Vallakirkju og safnaðarfulltrúi, auk þess sem hann gegndi fjölda annarra trúnaðarstarfa sem of langt mál væri upp að telja hér.

Þorsteinn Newton sæmdur starfsmerki UMFÍ á ársþingi HSS

Þorsteinn Newton sem sæmdur var starfsmerki UMFÍ og Hrönn Jónsdóttir stjórnarmaður í UMFÍ.

Þorsteinn Newton og Hrönn Jónsdóttir.

Ársþing Héraðssambands Strandamanna fór fram í Félagsheimilinu á Hólmavík sl. fimmtudag en gestgjafi þingsins í ár var Skíðafélag Strandamanna. 28 þingfulltrúar mættu á þingið sem var undir öruggri fundarstjórn Þorgeirs Pálssonar. Hrönn Jónsdóttir stjórnarmaður í UMFÍ ávarpaði þingið og veitti Þorsteini Newton starfsmerki UMFÍ fyrir óeigingjarnt og ötult starf, meðal annars sem gjaldkeri HSS síðastliðin sjö ár.

Viktor Gautason var valinn efnilegast íþróttamaður HSS árið 2014 og Jamison Ólafur Johnson var sæmdur nafnbótinni íþróttamaður HSS árið 2014. Ingibjörg Benediktsdóttir hlaut hins vegar Hvatningabikar UMFÍ fyrir öflugt starf í þágu almenningsíþrótta. Hvert og eitt þeirra á heiðurinn sannarlega skilinn.

Nokkrar breytingar urðu á stjórn HSS en stjórn komandi árs skipa Vignir Örn Pálsson formaður, Hrafnhildur Þorsteinsdóttir varaformaður, Dagbjört Hildur Torfadóttir gjaldkeri, Guðbjörg Hauksdóttir ritari og Ragnar Bragason meðstjórnandi. Rósmundi Númasyni og Þorsteini Newton sem viku úr stjórn var þakkað fyrir gott samstarf.

Spennandi keppni á Íslandsmóti FÁÍA í boccia

Garðabær - boccia

Garðabær 2 stóð uppi sem sigurvegari á mótinu.

Íslandsmót FÁÍA – Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra – í boccia fyrir 60 ára og eldri fór fram á dögunum í Íþróttamiðstöðinni á Álftanesi.

Mótið var samvinnuverkefni Félags eldri borgara í Garðabæ og FÁÍA. Til keppni voru að þessu sinni skráð 32 lið – 102 keppendur – í átta riðlum, þrír leikir á lið.

Sigurvegarar riðlanna kepptu síða í milliriðlum og sigurvegar þeirra til undaúrslita og loks til úrslita.

 

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ á fimm stöðum í sumar

Frjálsíþróttaskóli á Laugum

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ hefur notið mikilla vinsælda.

Frjálsíþróttaskólinn UMFÍ verður í sumar eins og undanfarin ár. Skólinn er ætlaður ungmennum á aldrinum 11 – 18 ára. Að þessu sinni verður skólinn á fimm stöðum á landinu; Selfossi, Borgarnesi, Sauðárkróki, Laugum í Reykjadal og á Egilsstöðum. Ungmennin koma saman á hádegi á mánudegi en skólanum lýkur á hádegi á föstudegi í sömu viku.

Aðaláhersla er lögð á kennslu í frjálsum íþróttum. Auk frjálsra íþrótta er farið í sund, leiki, óvissuferðir og haldnar kvöldvökur. Ungmennin borga þáttökugjald kr. 20.000 en innifalið í því er kennsla, fæði og gisting.

Umsóknarfrestur um styrki í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ framlengdur til 15. maí

UMFê_merkiUmsóknarfrestur til að sækja um styrki úr Fræðslu- og verkefnasjóði Ungmennafélags Íslands hefur verið framlengdur til 15. maí. Umsóknum skal skilað rafrænt á þar til gerðum umsóknareyðublöðum sem er að finna inn á heimasíðu UMFÍ (www.umfi.is) undir Styrkir fyrir 15. maí.

Sjóðurinn veitir m.a.að styrki til félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi.

SamVest og FH undirrita samstarfssamning

SamVest og FH - undirritun

Á myndinni er hópur barna og unglinga úr SamVesthópnum, en þær Björg Ágústsdóttir og Súsanna Helgadóttir varaformaður frjálsíþróttadeildar FH undirrituðu samkomulagið.

Fulltrúar SamVest og frjálsíþróttadeildar FH undirrituðu á dögunum samstarfssamning um aðstöðu og þjálfun. SamVest er heiti á samstarfsverkefni í frjálsíþróttum milli sjö héraðs- og ungmennasambanda á Vesturlandi og Vestfjörðum, þ.e. UDN, USK, HSH, UMSB, UMFK, HSS og HHF.

„Með þessu samkomulagi semjum við um að halda samæfingar SamVest hjá frjálsíþróttadeild FH á þeirra æfingatíma og í þessari frábæru aðstöðu hér í Kaplakrika fyrir samæfingar SamVest. Við höfum komið með íþróttahópa í höfuðborgina kringum þrisvar sinnum á vetri,“ sagði Björg Ágústsdóttir frá Grundarfirði, formaður framkvæmdaráðs SamVest við undirritunina.

Selfyssingar meistarar í fyrsta sinn í fullorðinsflokki í fimleikum

Fimleikar - Selfosss

Blandað lið Selfyssinga Íslandsmeistarar í hópfimleikum.

Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í Ásgarði í Garðabæ um liðna helgi. Kvennalið Stjörnunnar varð Íslandsmeistari í kvennaflokki og batt enda á níu ára sigurgöngu Gerplunnar. B-lið Stjörnunnar hafnaði í þriðja sæti.

Í blönduðum flokki varð Selfoss Íslandsmeistari en þetta var jafnframt fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins í fullorðinsflokki. Liðið sigraði einnig í keppni á dýnu og á trampólíni. Með sigrinum varð liðið jafnframt deildarmeistari. Þar með bættist þriðji titill vetrarins í safnið þ.e. Íslandsmeistarar, deildarmeistarar og bikarmeistarar. Selfoss átti einnig lið í kvennaflokki og hafnaði það í fimmta sæti. Þessi árangur sýnir þann mikla uppgang sem á sér stað í fimleikum á Selfossi um þessar mundir.

Við heimkomuna var vel tekið á móti nýbökuðum Íslandsmeisturum en sveitarfélagið Árborg stóð fyrir móttöku við Tryggvatorg.

Jón Margeir setti tvö heimsmet í Berlín

Jón Margeir - ManchesterSundkappinn Jón Margeir Sverrisson úr Fjölni setti tvö heimsmet á Opna þýska meistaramótinu sem lauk í Berlín á sunnudag. Frábær árangur Jóni Margeiri sem gefur góð fyrirheit um mótin sem fram undan eru hjá honum á næstunni.

Jón Margeir, sem keppir í fötlunarflokki S14, bætti heimsmetið í 400 metra skriðsundi um helgina þegar hann kom fyrstur í mark í greininni á 4 mínútum og 13,70 sekúndum en áður hafði hann sett heimsmet í 200 metra skriðsundi.

Þá féllu auk þess sjö Íslandsmet hjá Jóni Margeiri á mótinu en Thelma B. Björnsdóttir úr ÍFR var einnig á meðal keppenda og setti fimm Íslandsmet í sínum fötlunarflokki S6.

Markmið Snjóboltans að auka vídd og fjölbreytni í starfi

SONY DSC

Hóparnir komu í heimsókn í Þjónustumiðstöð UMFÍ.

Ungmennaráð UMFÍ fékk í haust styrk í verkefni sem nefnist Snjóboltinn eða The Snowball. Verkefnið er svokallað ungmennaskipta verkefni en þar koma saman hópar ungs fólks frá tveimur eða fleiri Evrópulöndum og vinna að sameiginlegu markmiði í gegnum óformlegt nám. Verkefnið er styrkt af Evrópu unga fólksins.

Markmið Snjóboltans er að auka vídd og fjölbreytni í starfi með áherslu á leiðtogaþjálfun, hvernig vinna eigi í hóp, hvernig skipuleggja eigi viðburði og hvernig hægt sé að virkja ungmenni til þátttöku. Ungmennaráð UMFÍ fékk því til liðs við sig The Milton Keynes Leadership Academy.

 

Fjölnismaður setti nýtt heimsmeti í skriðsundi

Jón Margeir Sverrisson

Jón Margeir með frábæran árangur í Þýskalandi.

Jón Margeir Sverrisson setti nýtt heimsmet í 200 metra skriðsundi í flokki S14 (þroskahamlaðir) á opna þýska meistaramótinu í sundi sem fram fer í Berlín þessa dagana og lýkur um helgina.

Jón Margeir tók heimsmetið af Ástralanum Daniel Fox og synti Jón Margeir á 1.56,94 mínútum. Stórglæsilegur árangur hjá Fjölnismanninum.

Þrír krakkar frá Sunddeild Fjölnis keppa nú á Opna Þýska meistaramótinu. Enn auk þess eru Davíð Þór Torfason og Þórey Ísafold Magnúsdóttir á mótinu og þau bættu bæði sína bestu tíma fyrsta keppnisdaginn.

Alls taka 568 sundmenn þátt í mótinu frá 42 löndum.

Starfsamt og gott sambandsþing hjá UÍA

Starfsmerki UMFÍ á UÍA þingi

Gunnlaugur Aðalbjarnarson og Sigurður Aðalsteinsson fengu starfsmerki UMFÍ. Með þeim á myndinni er Björg Jakobsdóttir stjórnarmaður í UMFÍ.

Sambandsþing UÍA, það 65. í röðinni, fór fram á Hallormsstað 11. apríl sl. 34 fulltrúar frá 21 aðildarfélagi UÍA mættu til þings, sem var bæði starfsamt og gott. Gagnlegar umræður sköpuðust um ýmis mál innan hreyfingarinnar og fram komu spennandi tillögur um ýmiss verkefni austfirsku íþróttastarfi til framdráttar.

Nokkrar mannabreytingar urðu í stjórn sambandsins á þinginu. Gunnar Gunnarsson, Þristi var endurkjörinn formaður UÍA, en þau Gunnlaugur Aðalbjarnarson Hetti, og Þróttarkonurnar Guðrún Sólveig Sigurðardóttir og Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir létu af störfum í aðalstjórn og þau Ásdís Helga Birgisdóttir, Freyfaxa og Böðvar Bjarnason, Hetti sögðu sig frá varastjórn.