Ályktun ungmenna frá ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði

Frá ráðstefnunni í Stykkishólmi.

Frá ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði  í Stykkishólmi.

Dagana 25.-27.mars sl. var ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðræði haldin í sjötta sinn og nú í Stykkishólmi. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var; „Margur verður af aurum api – réttindi og skyldur ungs fólks á vinnumarkaði“. Ungmennafélag Íslands hefur ávallt lagt áherslu á lýðræðislega þátttöku ungs fólks og hefur ráðstefnan vakið mikla lukku meðal þátttakenda. Ungmennaráð UMFÍ fékk til liðs við sig VR-skóla lífsins en tilgangur skólans er að fræða og upplýsa ungt fólk um réttindi sín og skyldur til að styrkja stöðu þess á vinnumarkaði. Hluti af VR-skóla lífsins eru vinnustofur á vegum Dale Carnegie.

Að þessu sinni sóttu um áttatíu einstaklingar ráðstefnuna, bæði ungmenni sem starfa í ungmennaráðum víðsvegar um landið og starfsmenn sem sjá um málefni ungmenna í sínu sveitafélagi.

Ályktun ráðstefnunnar má sjá hér. –  ÁLYKTUN – UNGT FÓLK OG LÝÐRÆÐI

Sigrún Sigurgeirsdóttir sæmd starfsmerki UMFÍ

Ragnheiður Högnadóttir til vinstri á myndinni veitti Sigrúnu Sigurgeirsdóttur starfsmerki UMFÍ.

Ragnheiður Högnadóttir til vinstri á myndinni veitti Sigrúnu Sigurgeirsdóttur starfsmerki UMFÍ.

Ársþing Ungmennasambandsins Úlfljóts, USÚ, það 82. í röðinni, fór fram í Mánagarði í Nesjum þann 26. mars sl. og var þingið ágætlega sótt. Ýmislegt var á döfinni hjá USÚ á árinu og má þar nefna verkefni eins og Unglingalandsmót UMFÍ á Sauðárkróki, Fjölskyldan á fjallið og Move Week. Nokkrar tillögur og ályktanir voru samþykktar.  Fyrst má nefna hvatningu til ungmennafélaga til að fjölmenna á Landsmót UMFÍ 50+ á Blönduósi og á unglingalandsmót UMFÍ á Akureyri. Samþykkt var að hvetja stjórnir aðildarfélaga til að leita leiða til að auka samstarf yngri flokka í ólíkum íþróttagreinum.

Ragnheiður Högnadóttir, sem situr í varastjórn UMFÍ, flutti ávarp og kveðju stjórnar UMFÍ.  Að lokum sæmdi hún Sigrúnu Sigurgeirsdóttur, formann Ungmennafélags Öræfa, starfsmerki UMFÍ. Hreinn Eiríksson var útnefndur heiðursfélagi USÚ á þinginu. María Birkisdóttir var kjörin íþróttamaður USÚ 2014 og hvatningarverðlaun hlutu þau Ingibjörg Lucía Ragnarsdóttir, Ingibjörg Valgeirsdóttir og Gísli Þórarinn Hallsson.

Góðar og málefnalegar umræður á þingi USAH

Nýkjörin stjórn Ungmennasambands Austur-Húnvetninga.

Nýkjörin stjórn Ungmennasambands Austur-Húnvetninga. Á myndina vantar Hafdísi Vilhjálmsdóttur varaformann.

98. ársþing Ungmennasambands Austur Húnvetninga, USAH, fór fram laugardaginn 21. mars á Blönduósi. Góð mæting var á þingið og mættu 33 fulltrúar frá aðildarfélögum sambandsins. Ómar Bragi Stefánsson frá UMFÍ sat þingið, flutti ávarp og kveðjur stjórnar UMFÍ. Á þinginu fóru fram mjög góðar og málefnalegar umræður. Sex tillögur komu fram á þinginu um ýmis málefni sambandsins, þær voru teknar fyrir og ræddar fyrir þingheimi og að lokum allar samþykktar.

Stjórn sambandsins sem var kosin á þinginu, Aðalbjörg Valdimarsdóttir, formaður, Hafdís Vilhjálmsdóttir, varaformaður, Valgerður Hilmarsdóttir, gjaldkeri, Guðrún Sigurjónsdóttir, meðstjórnandi og Sigrún Líndal, ritari.

Hvatningarverðlaun USAH hlaut Júdófélagið Pardus fyrir öflugt starf og góðan árangur. Einnig fengu þau félög innan sambandsins sem eiga stórafmæli á þessu ári afmælisplatta að gjöf frá sambandinu.

Vel heppnuð ráðstefna í Stykkishólmi

Góð stemning var á ráðstefnunni í Stykkishólmi.

Góð stemning var á ráðstefnunni í Stykkishólmi.

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði lauk í Stykkishólmi síðdegis á föstudag og þótti takast mjög vel. Rösklega 80 þátttakendur á aldrinum 16-25 ára alls staðar af landinu tóku þátt en þetta var í sjötta sinn sem þessi ráðstefna er haldin. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni var „Margur verður af aurum api – réttindi og skyldur ungs fólks á vinnumarkaði.“

,,Ráðstefnan heppnaðist í alla staði mjög vel og gaman var að sjá hvað ungmennin voru ánægð og jákvæð sem skipti miklu máli. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að ráðstefnunni kærlega fyrir,“ sagði Sabína Steinunn Þorsteinsdóttir landsfulltrúi UMFÍ og verkefnastjóri ráðstefnunnar.

Ungmennaráð UMFÍ á veg og vanda að ráðstefnunni sem var styrkt af Evrópu unga fólksins og í samtarfi við VR- skóla lífsins og Dale Carnegie.

Hafsteinn Þorvaldsson fyrrverandi formaður Ungmennafélags Íslands er látinn

Hafsteinn Þorvaldsson var formaður UMFÍ frá 1969-1979.

Hafsteinn Þorvaldsson var formaður Ungmennafélags Íslands frá árinu 1969 til 1979.

Hafsteinn Þorvaldsson, fyrrum formaður UMFÍ, er látinn áttatíu og þriggja ára að aldri. Hann var frá unga aldri forystumaður í ungmennafélagshreyfingunni og mikilvirkur á því sviði. Hafsteinn fæddist í Hafnarfirði og ólst þar upp til fermingaraldurs en fluttist þá með foreldrum sínum að Lambhúskoti í Biskupstungum og síðar að Syðri-Gróf í Flóa.

Hafsteinn var snemma hávaxinn og glæsilegur í framgöngu, stundaði frjálsíþróttir og glímu og var meðal nemenda íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal í tvo vetur.

Góð þátttaka í Suðurlandsmótinu í boccia

Sigurvegarar  á Suðurlandsmóti  í boccía sem haldið var á Selfossi.

Sigurvegarar á Suðurlandsmóti í boccía sem á Selfossi.

Suðurlandsmót í boccia var haldið í Iðu íþróttasal FSu á Selfossi laugardaginn 21. mars. Til leiks komu 14 þriggja manna lið frá félögum eldri borgara á Kirkjubæjarklaustri, Vík í Mýrdal, Rangárvallasýslu, Selfossi, Eyrarbakka, Hveragerði og Þorlákshöfn. Leikstjórar og dómarar voru tveir félagar í stjórn Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra, þeir Flemming Jessen frá Hvanneyri og Ingimundur Ingimundarson úr Borgarnesi.

Daginn áður héldu þeir dómaranámskeið í boccia fyrir forystumenn og leiðbeinendur frá þessum stöðum. Það er vaxandi áhugi fyrir þessum leik meðal eldri borgara og stöðugt fjölgar þeim sem taka þátt í leiknum. Nefnd eldri ungmennafélaga, ásamt UMFÍ hefur beitt sér fyrir og unnið að þessum verkefnum með FÁIA í mörg ár.

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði haldin í sjötta sinn

Stór hópur þátttakenda sem tekur þátt í ráðstefnunni lagði af stað frá Þjónustumiðstöð UMFÍ nú síðdegis.

Stór hópur þátttakenda sem tekur þátt í ráðstefnunni lagði af stað frá Þjónustumiðstöð UMFÍ nú síðdegis.

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði fer fram dagana 25.-27. mars á Hótel Stykkishólmi. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er „Margur verður af aurum api – réttindi og skyldur ungs fólks á vinnumarkaði.“ Ráðstefnan er ætluð ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Ungmennaráð UMFÍ á veg og vanda að ráðstefnunni en undirbúningur hefur staðið yfir frá því haust.

Þetta er í sjötta sinn sem Ungmennafélag Íslands stendur að þessari ráðstefnu. Þátttakendur á ráðstefnunum síðustu ára hafa líst yfir ánægju með hana og hafa margir óskað eftir því að UMFÍ haldi áfram að leiða starf ungmenna í landinu. Ráðstefnan er styrkt dyggilega af Evrópu unga fólksins og í samtarfi við VR- skóla lífsins og Dale Carnegie.

Ráðstefnan verður sett á Hótel Stykkishólmi á fimmtudagsmorgunn klukkan 10.

Hlakkar til að takast á við starfið

SONY DSC

Ásdís Hallgrímsdóttir formaður UMFK.

Aðalfundur Ungmennafélags Kjalnesinga, UMFK, var haldinn 26. febrúar sl. í Fólkvangi á Kjalarnesi. Á fundinum var Ásdís Hallgrímsdóttir kjörin nýr formaður og aðrir í stjórn eru Brynhildur Hrund Jónsdóttir, varaformaður, Arnar Grétarsson, ritari, Dagmar Dögg Þorsteinsdóttir, ritari, og Guðrún Gunnarsdóttir, meðstjórnandi.

Ásdís sagði að starfsemin gengi með ágætum og þátttaka í íþróttastarfi væri mikil. Íþróttafjörið fyrir þá yngstu á skólatímanum fyrir hádegi er alltaf vinsælt.

,,Ég hef ekkert komið nálægt starfinu í félaginu áður. Þetta er spennandi og ég hlakka til að takast á við starfið. Á aðalfundinum voru kosningar til formanns og stjórnar eitt stærsta málið og svo fórum einnig yfir breytingar á lögum. Á næstunni liggur fyrir að ráða íþróttafulltrúa, skipuleggja starfið fyrir næsta starfsár og klára verkefnin sem liggja fyrir með sóma. Svo blasir við vorhátíðin og svo kemur félagið með rausnarlegum hætti að Kjalarnesdögunum í sumar. Það er því í nægu að snúast á næstunni,“ sagði Ásdís Hallgrímsdóttir nýkjörin formaður UMFK.

Gott héraðsþing HSK á Flúðum

Kjartan Lárusson var

Kjartan Lárusson var sæmdur gullmerki HSK. Með honum á myndinni er Guðríður Aadnegard formaður HSK.

Guðríður Aadnegard var endurkjörin formaður HSK á 93. héraðsþingi sambandsins var haldið í félagsheimilinu Flúðum sunnudaginn 15. mars sl. Um 100 þingfulltrúar og gestir mættu á þingið og er það góð mæting því veður var slæmt á laugardeginum þegar halda átti þingið og var því frestað til sunnudags.

Kjartan Lárusson Umf. Laugdæla var sæmdur gullmerki HSK og er þetta í 12. sinn sem félagsmaður innan HSK hlýtur þau.

Örn Guðnason, stjórnarmaður í UMFÍ, ávarpaði héraðsþingið og veitti þremur einstaklingum starfsmerki UMFÍ. Starfsmerki fengu Bergur Pálsson Selfossi, Guðmunda Ólafsdóttir, UMF. Vöku og Lárus Ingi Friðfinnsson, Hamri. Karl Gunnlaugsson, GF, var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ og er þetta í sjöunda sinn sem félagsmaður innan HSK hlýtur þann heiður.

Anita Karin Guttesen kjörin formaður HSÞ

Heiðursveitingar á þingi HSÞ

Íþróttamenn sem fengu viðurkenningu á þingi HSÞ í Skúlagarði um helgina.

Ársþing HSÞ fór fram í Skúlagarði, Kelduhverfi, sunnudaginn 15. mars. Ársþingið var fjölmennt og fóru fram góðar og málefnalegar umræður. Þó nokkrar tillögur voru teknar fyrir í nefndum og fengu þær líka góða umfjöllun hjá þingheimi þegar þær voru bornar upp.

Íþróttamenn HSÞ voru krýndir í hinum ýmsu greinum. Íþróttamaður HSÞ var Kristbjörn Óskarsson fyrir frábæran árangur í boccia.

Farið var yfir hið merka aldarafmælisár og alla þá viðburði sem áttu sér stað í tengslum við það. Kosinn var nýr formaður, en Jóhanna S. Kristjánsdóttir sem hafði gengt formennsku í 5 ár gaf ekki kost á sér áfram. Fyrir kjörinu varð Anita Karin Guttesen, en hún er vel kunn starfi HSÞ þar sem hún var m.a. framkvæmdastjóri þess á árunum 2004-2006.

 

Jón Karl Ólafsson sæmdur starfsmerki UMFÍ

Helga Jóhannesdóttir, stjórnarmaður í UMFÍ, sæmir Jón Karl Ólafsson, formann Fjölnis, starfsmerki UMFÍ.

Helga Jóhannesdóttir, stjórnarmaður í UMFÍ, sæmir Jón Karl Ólafsson, formann Fjölnis, starfsmerki UMFÍ.

Jón Karl Ólafsson var endurkjörinn formaður Ungmennafélagsins Fjölnis á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Egilshöllinni í Grafarvogi 12. mars. Helga Jóhannsdóttir, stjórnarmaður í Ungmennafélagi Íslands, ávarpaði aðalfundinn og sæmdi við það tækifæri Jón Karl Ólafsson formann Fjölnis starfsmerki UMFÍ.

Auk Jón Karls formanns skipa stjórn Fjölnis þau Birgir Gunnlaugsson, Ásgeir Heimir Guðmundsson, Kristján Friðrik Karlsson, Sveinn Ingvarsson, Laufey Jörgensdóttir og Ólöf Inga Guðbjörnsdóttir.

Almenn bjartsýni ríkti á fundinum en starfið innan félagsins er gríðarlega mikið og á síðasta ári var fjölgun í flestum deildum. Bygging á nýju fimleikahúsi er í fullum gangi en það verður tekið í notkun á næsta ári. Þá eiga Fjölnismenn í viðræðum við borgaryfirvöld um byggingu á íþróttahúsi.

Ragnheiður Sigurðardóttir nýr starfsmaður UMFÍ

Ragnheiður - nýr starfsmaðurRagnheiður Sigurðardóttir er nýr starfsmaður Ungmennafélags Íslands. Ragnheiður hefur lokið B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands. B.S gráðu í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík auk meistaranáms áföngum í mannauðsstjórnum frá Háskóla Íslands.

Ragnheiður starfaði sem verkefnastjóri Æskulýðsvettvangsins (ÆV), samstarfsvettvangs Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landabjargar, frá árunum 2012 – 2015 og þekkir því vel til æskulýðsstarfs í landinu.

Að auki hefur Ragnheiður setið í Æskulýðsráði ríkisins, starfshópi á vegum MRN um starfsemi frístundaheimila og árið 2014 var hún varaformaður og ungdómsfulltrúi í Nordbuk, barna og ungmennanefnd Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ragnheiður hefur störf þann 1. apríl n.k. Ungmennafélag Íslands býður Ragnheiði velkomna til starfa.

Fyrsti sigur fimleikafólks frá Selfossi í meistaraflokki

Selfoss bikarmeistari 2015

Blandað lið Ungmennafélagsins Selfoss varð bikarmeistari í hópfimleikum um helgina.

Bikarmót Fimleikasambands Íslands í hópfimleikum fór fram í Iðu á Selfossi um helgina og þar gerði blandað lið Ungmennafélags Selfoss sér lítið fyrir og varð bikarmeistari í hópfimleikum. Þetta var um leið fyrsti sigur fimleikafólks frá Selfossi í meistaraflokki. Selfoss vann öruggan sigur eftir að keppinautar þeirra í Stjörnunni misstigu sig en þessi tvö lið hafa háð harða baráttu í vetur. Selfoss fékk 52,150 stig en Stjarnan 47,500 stig en Selfyssingar sigruðu á öllum áhöldum með miklum yfirburðum.

Í kvennaflokki varð lið Selfoss í 3. sæti með 46,950 stig en baráttan um fyrsta sætið var á milli Gerplu og Stjörnunnar og sigruðu Gerplukonur tíunda árið í röð. Sjö lið kepptu í meistaraflokki karla og kvenna og blönduðum liðum og var umgjörðin hin glæsilegasta.

Aðalfundur Félags áhuga fólks um íþróttir aldraðra

Frá aðalfundi FÁÍA í Þjónustumiðstöð UMFÍ.

Frá aðalfundi FÁÍA í Þjónustumiðstöð UMFÍ.

Aðalfundur Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra – FÁÍA – var haldinn í dag, föstudag, í Þjónustumiðstöð UMFÍ í Sigtúni 42. Formaður félagsins, Þórey S. Guðmundsdóttir, setti fundinn og skipaði Hjört Þórarinsson fundarstjóra og Ingimund Ingimundarson að rita fundargerð. Þórey flutti skýrslu stjórnar og Flemming Jessen, gjaldkeri, skýrði reikninga félagsins fyrir árið 2014.

Umræður fóru fram um skýrslu stjórnar og reikninga. Síðan borið upp til atkvæðagreiðslu og reikningar samþykktir. Engar breytingar urðu á stjórn félagsins til næsta árs. Í lok aðalfundarins flutti Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur og ritstjóri, erindi sem fjallaði um Listin að lifa – öll árin okkar og ævintýraleiðin.

Stefna UMSE samþykkt til næstu fimm ára

Haukur Valtýsson, varaformaður UMFÍ, sæmir hér Hrin

Haukur Valtýsson, varaformaður UMFÍ, sæmir hér Hring Hreinsson gullmerki UMFÍ.

94. ársþing Ungmennasambands Eyjafjarðar var haldið í Funaborg á Melgerðismelum í gærkvöldi, félagsheimili Hestamannafélagsins Funa, en félagið hafði jafnframt umsjón með þinginu. Vel var mætt á þingið og voru þátttakendur alls 45, fulltrúar frá aðildarfélögum og stjórn, gestir og starfsmenn þingsins. Þess má geta að fulltrúar frá 11 af 14 aðildarfélögum voru á þinginu, auk fulltrúa stjórnar og var mætingin um 75% af mögulegum heildarfjölda fulltrúa.

Þingið var nú haldið í annað sinn að kvöldi til á virkum degi. Haukur Valtýsson, varaformaður Ungmennafélags Íslands, veitti Hringi Hreinssyni gullmerki UMFÍ. Hafdís Dögg Sveinbjarnardóttir og Stefán Sveinbjörnsson fengu starfsmerki UMFÍ

Þingið gekk vel fyrir sig og voru umræður bæði líflegar og málefnalegar. Alls voru 14 tillögur samþykktar, sem munu eiga þátt í að móta starf UMSE næstu árin. Þar ber hæst að stefna UMSE 2015-2020 var samþykkt samhljóða og er ljóst að hún mun móta mikinn hluta starfsins næstu árin.

Bjartsýni ríkti á sambandsþingi UMSB

Hrönn - UMFÍ

Hrönn Jónsdóttir í stjórn UMFÍ í ræðustóli. Hún sæmdi Stefán Loga Harldsson starfsmerki UMFÍ.

Sambandsþing Ungmennasambands Borgarfjarðar fór fram s. laugardag í félagsheimilinu Logalandi. Ágæt mæting var á þingið og mættu 30 fulltrúar frá aðildarfélögum UMSB en Gunnar Gunnarsson, sem var fulltrúi UMFÍ, ávarpaði þingið og flutti góðar kveðjur.

Auk þess kom Hrönn Jónsdóttir úr stjórn UMFÍ á þingið og sæmdi Stefán Loga Haraldsson formann Hestamannafélagsins Skugga starfsmerki UMFÍ fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Þingstörf gengu vel og voru fundarmenn almennt jákvæðir með uppgjör ársins 2014 og bjartsýnir á framhaldið. Ánægja var með góða fjárhagsstöðu UMSB, en unnið hefur verið markvisst í þeim málum undanfarin ár.

Sylvía Magnúsdóttir kjörin formaður Ungmennasambands Skagafjarðar

Sylvía Magnúsdóttir nýkjörin formaður UMSS.

Sylvía Magnúsdóttir nýkjörin formaður UMSS.

95. ársþing UMSS var haldið sl. laugardag í Tjarnarbæ, félagsheimili hestamannafélagsins Léttfeta á Sauðárkróki sem einnig var gestgjafi að þessu sinni. Formannsskipti urðu í sambandinu þar sem Sylvía Magnúsdóttir frá Hlíðarenda í Óslandshlíð tók við af Jóni Daníel Jónssyni sem gegnt hefur embættinu síðustu ár. Baldur Daníelsson var fulltrúi frá UMFÍ á ársþinginu og ávarpaði fundargesti.

Viðsnúningur varð á rekstri sambandsins þar sem niðurstaða rekstrarreiknings sýndi rúmlega eina milljón krónur í afgang í stað rúmra sextán hundruð þúsunda í mínus árið áður. Munaði þar mestu um aukna styrki milli ára en þess má geta að UMSS sá um Unglingalandsmótið sl. sumar. Þá var samþykkt á þinginu að sækja um að halda Unglingalandsmót UMFÍ 2018.

Ný stjórn er skipuð eftirfarandi: Sylvía Magnúsdóttir formaður, Gunnar Þór Gestsson, Þorvaldur Gröndal, Guðmundur Þór Elíasson og Steinunn Rósa Guðmundsdóttir. Úr stjórn gekk Guðríður Magnúsdóttir.

Aníta hafnaði í fimmta sæti í úrslitum 800 metra hlaups á EM í Prag

Aníta 5. sæti

Aníta hafnaði í fimmta sæti.

Aníta Hinriksdóttir endaði í fimmta í úrslitum í 800 metra hlaupi á EM í frjálsum íþróttum innanhúss í Prag í dag. Aníta kom í mark á 2:02,74 mínútum en hin svissneska Selina Buchel varð hlutskörpust en hún kom í mark á tímanum 2:01,95. Aníta tók forystuna á fyrsta hring, en gaf eftir á lokasprettinum.
Mót Anítu var hennar fyrsta stórmót í fullorðinsflokki en hún er á sínu síðasta ári í unglingaflokki.

Árangur Anítu á EM í Prag er mjög góður og sýnir að hún er kominn í hóp þeirra bestu á þessari vegalengt. Það verður spennandi að fylgjast með þessari stórkostlegu hlaupakonu á mótum sem fram undan eru á þessu ári. Mikið efni þarna á ferð sem á svo sannarlega framtíðina fyrir sér.

Aníta Hinriksdóttir setti Evrópumet unglinga í 800 metra hlaupi

Aníta Hinriksdóttir.

Aníta Hinriksdóttir.

Aníta Hinriksdóttir setti Evrópumet unglinga og Íslandsmet í undanrásum í 800 metra hlaupi í dag á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss sem fram fer í Prag í Tékklandi um helgina. Aníta leiddi lengstum hlaupið í sínum riðli en rússnesk stúlka sigldi fram úr henni á lokasprettinum. Aníta hljóp á 2.01,56 mínútum en gamla Evrópumetið átti hún sjálf.

Þegar riðlakeppni hlaupsins var lokið var ljóst að tími Anítu var annar besti tíminn og hún örugg í undanúrslit hlaupsins sem verða klukkan 17 á morgun. Jenny Meadows, sem er sigurstranglegust í greininni á mótinu, vann sinn riðil örugglega á 2:02.59 mínútum en náði þó bara sjötta besta tímanum í undanrásunum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Anítu gengur að fylgja eftir þessu frábæra hlaupi sínu í undanúrslitum á morgun. Mótið er í beinni sjóvarpsútsendingu á RÚV.

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði í Stykkishólmi

UFL

Ráðstefnan ætluð fólki16-25 ára.

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði 2015 fer fram dagana 25.-27. mars á Hótel Stykkishólmi. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Margur verður af aurum api – réttindi og skyldur ungs fólks á vinnumarkaði“. Ungmennaráð UMFÍ á veg og vanda að ráðstefnunni og stendur  undirbúningur yfir að fullum krafti.

Ráðstefnan er ætluð ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Fjöldi þátttakenda verður takmarkaður við 70 manns þ.e. tvo þátttakendur frá hverju sveitarfélagi + starfsmann ef vill. Þátttakendum yngri en 18 ára verður að fylgja fullorðinn einstaklingur.

Allar nánari upplýsingar er gefnar á netfanginu sabina@umfi.is