Sigurður Magnússon ný formaður UFA – spennandi tímar fram undan

Sigurður Magnússon nýkjörinn formaður UFA.

Sigurður Magnússon nýkjörinn formaður UFA.

Sigurður Magnússon var kjörinn formaður Ungmennafélags Akureyrar á aðalfundi félagsins sem haldinn var 17. febrúar. Sigurður er ekki ókunnugur störfum fyrir félagið því hann var einn af þremur sem áttu hugmyndina að stofnun UFA og sat í stjórn í 13 ár. Gjaldkeri fyrstu fjögur árin, síðan varaformaður og svo formaður í eitt ár eða þar til hann þurfti að flytja til Reykjavíkur vegna vinnu. Kom heim eftir eitt ár og kom þá aftur inn í stjórnina.

Þess má geta að Sigurður var sæmdur starfsmerki UMFÍ á 5 ára afmæli UFA. Hann var aðalræsir á Landsmóti UMFÍ í Borgarnesi 1997, Egilstöðum 2001 og á Sauðarkróki 2004. Var aðalræsir á fyrsta Unglingalandsmótinu á Dalvík 1992.

,,Ég var tilbúinn að koma aftur til starfa og ég hlakka mikið til starfsins og vinna með góðu fólki. Það eru spennandi tímar fram undan og starfið innan UFA gengur vel. Við eigum íþróttafólk í fremstu röð og getum verið stolt af því,“ sagði Sigurður Magnússon.

Íþróttafólk frá Ungmennafélaginu Stjörnunni sigursælt

Kvennalið Stjörnunnar í fimleikum.

Kvennalið Stjörnunnar í fimleikum.

Íþróttafólk frá Ungmennafélaginu Stjörnunni í Garðabæ fór mikinn um liðna helgi. Fyrst fagnaði karlalið félagsins bikarmeistaratitli í körfuknattleik eftir sögulegan úrslitaleik gegn KR. Fimleikadeild Stjörnunnar var síðan sigursæl á WOW mótinu í hópfimleikum þar sem öll lið Stjörnunnar, fyrsti flokkur kvenna, meistaraflokkur kvenna. og meistaraflokkur í blönduðum flokki kvenna unnu öll til gullverðlauna. Mótið fór fram á Akureyri.

Sögulegur atburður átti sér stað á mótinu þar sem að meistaraflokkslið kvenna hjá Stjörnunni sigraði og batt þar með enda á 10 ára sigurgöngu kvennaliðs Gerplu sem ekki hafði tapað síðan árið 2005. Þess má geta þetta var í fyrsta skipti sem blandað lið frá Stjörnunni keppti á móti og gerði liðið sér lítið fyrir og vann til gullverðlauna.

Grindavík og Stjarnan fögnuðu bikarmeistaratitlum í körfuknattleik

Kvennalið Grindavíkur bikarmeistari 2015.

Kvennalið Grindavíkur bikarmeistari 2015.

Ungmennafélögin Grindavík og Stjarnan unnu sigra í körfuknattleik í kvenna-og karlaflokki um helgina. Kvennalið Grindvíkur sigraði Keflavík í úrslitaleik og Stjarnan lagði KR í æsispennandi leik í úrslitaleik karla.

Báðir leikirnir fór fram í Laugardalshöllinni að viðstöddu miklu fjölmenni og var umgjörð leikjanna sérlega glæsileg. Segja má að þetta hafi verið sannkölluð körfuboltahelgi en á sunnudeginum fóru fram úrslitaleikur í yngri flokkunum.

Lokamínútur í leik Stjörnunnar og KR voru rafmagnaðar en Garðbæingar reyndust sterkari og knúðu fram meiriháttar sigur. KR-ingar voru með frumkvæðið en Stjarnan hafði ekki sagt sitt síðasta orð og lokasprettur liðsins var ævintýralegur. Tveggja stiga sigur staðreynd, 85-83. Stjarnan endurtók því leikinn frá 2009 þegar að liðið sigraði KR í úrslitum bikarsins.

Fjölmennt og spennandi mót í Laugardalnum

Selfoss-liðið sem bar sigur úr býtum á Meistaramóti Íslands í flokki 11-14 ára um síðustu helgi.

Selfoss-liðið sem bar sigur úr býtum á Meistaramóti Íslands í flokki 11-14 ára um síðustu helgi.

Margt af okkar efnilegasta frjálsíþróttafólki verður saman komið í Laugardalnum um helgina en þá fer fram Meistaramót Íslands 15-22 ára. Mjög góð þátttaka er í mótinu víðs vegar af að landinu og verður spennandi að sjá hvort ný Íslandsmet líta dagsins ljós.

Athygli hefur vakið á mótum að undanförnu hvað ungt og efnilegt frjálsíþróttafólk er að koma fram í sviðsljósið og óhætt að segja að mikill uppgangur sé í frjálsum íþróttum um þessar mundir. Keppni á Meistaramótinu hefst á laugardagsmorguninn og því lýkur síðdegis á sunnudag.

Hvert mótið rekur annað en um síðustu helgi fór fram Meistaramót Íslands 11-14 ára og þar vann HSK/Selfoss stórsigur í heildarstigagjöfinni. Liðið fékk í heildina 808,08 stig en næsta lið, FH, var með 420 stig. Aldrei hefur sigurlið á meistaramóti innanhúss fengið jafnmörg stig, né unnið með jafnmiklum mun. Mikla athygli vakti á mótinu hversu gríðarlega stór og samstilltur hópurinn er en samtals var 81 keppandi frá félaginu.

Íþrótta- og leikjadagur FÁÍA haldinn í 30. sinn

Frá íþrótta- og leikjdegi FÁÍA sem haldinn var í íþróttahúsinu Austurbergi.

Frá íþrótta- og leikjdegi FÁÍA sem haldinn var í íþróttahúsinu Austurbergi.

Íþrótta- og leikjadagur Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra, FÁÍA, var haldinn í íþróttahúsinu í Austurbergi í Breiðholti í dag. Þetta var í 30. sinn sem þessi dagur er haldinn og var mikil og góð stemning á hátíðinni. Vel var mætt á hátíðina og skein gleði og ánægja úr hverju andliti. Á íþrótta- og leikjadeginum komu fram nokkrir hópar af stór Reykjavíkursvæðinu og Reykjanesbæ og sýndu atriði við góðar undirtektir áhorfenda.

Þess má geta að fyrsti íþróttadagur Félag áhuga fólks um í íþróttir aldraðra var haldinn 1985 en fyrstu sex árin komu eldri borgarar saman og gerðu sér góðan dag á gervigrasvellinum í Laugardal. Mikil vakning hefur orðið í íþróttum og hreyfingu almennt meðal eldri borgara hin síðustu ár og er ljóst að hún mun aðeins vaxa enn frekar á næstu árum.

,,Það er alltaf ánægjulegt að koma saman á þessum degi og þetta er jafnan stór dagur í okkar hugar huga. Starfið innan Félags áhuga fólks um íþróttir aldraðra stendur með blóma og við erum þakklát fyrir samstarfið með Ungmennafélagi Íslands sem hefur veitt okkur mikinn og góðan stuðning í gegnum tíðina,“ sagði Þórey S. Guðmundsdóttir formaður FÁÍA.

Æskulýðsvettvangurinn stendur fyrir ráðstefnum á Austurlandi

Komdu þínu á framfæri

Æskulýðsvettvangurinn stendur fyrir tveimur ráðstefnum á Austurlandi á næstunni.

Æskulýðsvettvangurinn fer nú um landið með ungmennaráðstefnuna ,,Komdu þínu á framfæri“. Tvær slíkar ráðstefnur fara fram á Austurlandi, 25. febrúar í Fjarðabyggð og 26. febrúar á Fljótsdalshéraði. Ráðstefnan er ætluð ungu fólki (15 ára – 30 ára), og þeim aðilum sem fara með málefni ungs fólks s.s. hjá sveitarfélögum, í íþrótta- og tómstundastarfi og víðar. Á ráðstefnunni er unnið markvisst að því að gefa ungu fólki kost á að tjá hug sinn og skoðanir á málefnum sem það varðar og skapa brú á milli þess og þeirra sem starfa að og bera ábyrgð á málefnum ungmenna.

Viðfangsefni fundarins er skipt upp í fjóra flokka, menntun, íþróttir og æskulýðsmál, samfélagið mitt og listir og menning. Fundarformið skiptist upp í fjórar 20 mín lotur. Allir þátttakendur fá að koma sínum skoðunum á framfæri í öllum flokkunum. Að ráðstefnu lokinni mun Sabína Steinunn Halldórsdóttir kynna ungmennastarf UMFÍ og norræna lýðháskóla sem íslenskum ungmennum gefst kostur á að stunda nám við. Allt ungt fólk er hjartanlega velkomið, þátttaka er ókeypis og léttar veitingar í boði.

Fyrsti titill Selfyssinga á Íslandsmóti unglinga í hópfimleikum

Fyrsti titill Selfoss

Stúlknalið Selfoss bar sigur úr býtum í 4. flokki A-deildar.

Íslandsmót unglinga í hópfimleikum fór fram í Versölum í Kópavogi um helgina. Ungmennafélag Selfoss vann sinn fyrsta titil á Íslandsmóti í hópfimleikum unglinga þegar stúlknaliðið bar sigur úr býtum í 4. flokki A-deildar. Stjarnan var Íslandsmeistari í 3. flokki en lið Selfoss stúlkna hafnaði í öðru sæti.

Í eldri flokki drengja nældu Selfosspiltar í silfurverðlaun og í 1. flokki vann kvennalið Selfoss til bronsverðlauna. Stjarnan bar hins vegar sigur í þessum framtöldum flokkum.

Árangur Selfyssinga er glæsilegur og til marks um mikinn uppgang í fimleikum á Selfossi. Mótið um helgina er eitt það stærsta hér á landi en 781 keppandi var skráður til leiks eða um 66 lið í fimm flokkum.

Tæplega 400 keppendur keppa í Laugardalnum um helgina

Það verður líf og fjör í Laugardalnum um helgina.

Tæplega 400 keppendur eru skráðir til leiks á Meistaramót Íslands í flokki 11-14 ára sem haldið verður Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal um helgina frá 16 félögum og samböndum. Flestir keppendur eru frá HSK/Selfoss eða 100 talsins. FH er með 78 keppendur skráða til þátttöku, en keppendur koma víða að, sem ber vott um vaxandi frjálsíþróttastarfsemi í landinu.

Keppendurnir eru skráðir til þátttöku í rétt innan við 1300 viðburðum (hlaup, stökk og köst) í um 40 greinum pilta og stúlkna í aldursflokkum 11, 12, 13 og 14 ára. Um og yfir 40 keppendur eru skráðir til leiks í nokkrar greinar, en flestir eru skráðir til leiks í langstökki í flokki 11 ára stúlkna, eða 50 talsins.

Keppnin hefst kl. 10 báða dagana og lýkur á fjórða tímanum.

Grunnskólamót HSK í glímu

Hvolsskóli

Sigurlið Hvolsskóla í 5.-7. bekk

Keppendur frá fjórum grunnskólum á sambandssvæði HSK tók þátt í grunnskólamóti HSK en mótið fór fram í íþróttahúsinu á Hvolsvelli. Mikill áhugi er á glímu á þessu svæði og hefur mótið verið haldið um áraraðir.

Stigakeppni skóla var í fjórum flokkum og er veittur bikar fyrir sigur í hverjum flokki. Hvolsskóli sigraði í þremur flokkum og Laugalandsskóli í einum.

Glímt var á fjórum dýnulögðum völlum samtímis. Mótsstjóri var Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK, og dómarar og annað starfsfólk mótsins komu úr röðum HSK.

 

Við erum öll fyrirmyndir – skiltum komið upp um allt land

Skiltunum hefur nú þegar verið komið upp víða um land.

Skiltunum hefur nú þegar verið komið upp víða um land.

Ungmennafélag Íslands hefur útbúið skilti fyrir sambandsaðila til að setja upp þar sem börn taka þátt í leik og starfi. Þar er þeim ábendingum komið til skila að Við erum öll fyrirmyndir – og berum öll ábyrgð á því að efla sjálfsmynd allra barna í leik og starfi.

,,Ungmennafélag Íslands hefur látið útbúa umrædd skilti fyrir sambandsaðila til að koma upp í íþróttahúsum, sundlaugum og þar sem börn eru að leik til að minna okkur á að við erum öll fyrirmyndir. Þar kemur fram að hér séu börn að leik og okkur fullorðna fólkinu ber skylda til að hvetja öll börn og bera virðingu fyrir starfi þeirra. Einnig starfi dómara og allra þeirra sem halda utan um íþróttastarf barna. Við viljum minna á mikilvægi félagslegra og andlegra þátta er varðar heilsu barnanna okkar og sýna að það er fjölbreytileikinn sem skiptir máli og sjálfsmyndin sem við viljum efla,“ sagði Sabína Steinunn Halldórsdóttir landsfulltrúi UMFÍ.

Skiltin hafa nú þegar verið send út um allt land en þeim aðilum sem óska eftir að fá skilti til að setja upp er bent á að hafa samband við Sabínu á netfanginu sabina@umfi.is.

Evrópskt unglingamet og tvö landsmet voru sett í Kaplakrika

Aníta Hinriksdóttir bætti eigið Evrópumet í flokki 18 ára innanhúss.

Aníta Hinriksdóttir bætti eigið Evrópumet í flokki 19 ára  í 800 metra hlaupi innanhúss.

Þrjú Íslandsmet og þar af eitt evrópskt unglingamet voru sett á Meistaramóti Íslands sem fram fór við frábærar aðstæður í nýju frjálsíþróttahúsi í Kaplakrika í Hafnarfirði um helgina. Aníta Hinriksdóttir ÍR bætti met sitt í 800 metra hlaupi þegar hún kom í mark á 2:01,77 mín. Árangur þessi er jafnframt evrópskt unglingamet, en fyrri metin átti hún sjálf, sett 19. janúar á RIG 2014.

Kolbeinn Höður Gunnarsson úr Ungmennafélagi Akureyrar heldur áfram að bæta Íslandsmetin en hann setti met í 200 metra hlaupi en hann kom í mark á 21,38 sek. Þetta var hans þriðja Íslandsmet á tæpri viku, gríðarlegt efni þar á ferð og verður spennandi að fylgjast með framgangi hans á hlaupabrautinni á þessu ári.

Þá bætti Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir metið í 60 metra hlaupi þegar hún kom í mark á 7,50 sek. Hafdís Sigurðardóttir UFA átti mjög góða og jafna stökkseríu í langstökki en hún sigraði með stökki upp á 6,32 metra.

Góður árangur náðist í mörgum greinum og persónulegar bætingar voru settar í í nær öllum greinum mótsins.

Góð þátttaka á Meistaramóti Íslands um helgina

Kolbeinn Höður hefur verið iðinn við kolann að undanförnu.

Kolbeinn Höður hefur verið iðinn við kolann að undanförnu. Spennandi verður að fylgjast með honum um helgina.

Ríflega 180 keppendur og allt okkar besta íþróttafólk er þegar skráð til leiks á Meistaramóti Íslands sem fram fer í fyrsta sinn í nýju frjálsíþróttahúsi í Kaplakrika í Hafnarfirði um helgina. Búast má bæði við metum og bætingum um helgina og ekki ólíklegt miðað við framfarir síðustu móta, að Íslandsmet falli.

Meðal keppenda eru þau Kolbeinn Höður Gunnarsson og Hafdís Sigurðardóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar, Aníta Hinriksdóttir; Ívar Kristinn Jasonarson og Óðinn Björn Þorsteinsson úr ÍR, svo nokkur séu nefnd til sögunar. Flestir keppendur eru skráðir til leiks frá ÍR eða 46, en heimamenn og Breiðabliksmenn eru með um 20 manns skráða til keppni.

Tveir yngstu keppendur mótsins eru 14 ára og þótt meðalaldur keppenda sé ekki nema um 21 ár, er elsti keppandinn orðinn 62 ára, en sá þykir vera í góðu formi ennþá.

Keppni stendur frá kl. 13 til 16 bæði laugardag og sunnudag.

Sæmundur Runólfsson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri UMFÍ

Sæmundur Runólfsson.

Sæmundur Runólfsson.

Stjórn Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) og framkvæmdastjóri félagsins, Sæmundur Runólfsson, hafa komist að samkomulagi um starfslok. Sæmundur lætur af störfum þann 30. apríl n.k. eftir ríflega 23ja ára starf. Sæmundur tók til starfa sem framkvæmdastjóri þann 1. janúar árið 1992. Hann hafði áður setið í stjórn UMFÍ 1985-1991 og verið framkvæmdastjóri Landsmóts UMFÍ í Mosfellsbæ árið 1990.

„Ég er afar þakklátur fyrir að hafa unnið hjá ungmennafélagshreyfingunni þennan tíma og innan hennar á ég marga af mínum bestu vinum. Ég geng stoltur frá borði því ég tel hreyfinguna standa vel. Starfið hefur verið fjölbreytt og skemmtilegt og það veitt mér tækifæri til að koma að mörgum verkefnum sem haft skipt miklu máli fyrir íslenskt samfélag,“ segir Sæmundur Runólfsson.

Sæmundur hefur gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum á vegum ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann var meðal annars formaður UMF Drangs í Vík 1977-1983, sat í stjórn Íslenskra getrauna 1992-2009, íþróttanefnd ríkisins 1992-2004 og í stjórn ISCA (International Sport and Culture Association) 1999-2011.

„Stjórn UMFÍ þakkar Sæmundi fyrir langt og farsælt starf í þágu hreyfingarinnar. Hann er kröftugur og ósérhlífinn einstaklingur sem ávallt hefur verið til taks fyrir ungmennafélagshreyfinguna og haft hagsmuni hennar að leiðarljósi.
Það er sjónarsviptir af honum og við óskum honum alls hins besta á nýjum vettvangi,“ segir Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ.

Frábær árangur ungmennafélaga á Norðurlandamóti í taekwondo

Íslensku þátttakendurnir á Norðurlandamótinu í Taekwondo.

Íslensku þátttakendurnir á Norðurlandamótinu í Taekwondo.

Norðurlandamótinu í taekwondo sem haldið var í Þrándheimi um liðna helgi. Alls fóru 25 keppendur frá Íslandi og unnu þeir til 6 gullverðlauna, 10 silfurverðlauna og 6 bronsverðlauna. Ungmennafélagarnir Ástrós Brynjarsdóttir, úr Keflavík, og Ingibjörg Erla Grétarsdóttir og Daníel Jens Pétursson, úr Selfossi, vörðu Norðurlandameistaratitla sína í greininni frá því í fyrra. Að auki unnust 10 silfurverðlaun og sex bronsverðlaun.

Ingibjörg Erla varð Norðurlandameistari í fimmta sinn, nokkuð sem fáir ef nokkrir hafa leikið eftir ogsannar það svo ekki sé um villst að hún er ein besta taekwondokona Evrópu um þessar mundir. Ástrós vann sinn þriðja Norðurlandameistaratitil í röð, þrátt fyrir ungan aldur. Ástrós vann það einstaka afrek að hreppa gullverðlaun bæði í bardaga og formum og er afar sjaldgæft að keppendur sem komnir eru svo langt í íþróttinni skuli skara fram úr í báðum hlutum hennar. Ennfremur varð Ástrós fyrst íslenskra kvenna til að verða Norðurlandameistari í formum.

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði í Stykkishólmi

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði verður í Stykkishólmi.

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði verður í Stykkishólmi.

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði 2015 fer fram dagana 25.-27. mars á Hótel Stykkishólmi. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Margur verður af aurum api – réttindi og skyldur ungs fólks á vinnumarkaði“. Ungmennaráð UMFÍ á veg og vanda að ráðstefnunni og hefur þegar hafið undirbúning að fullum krafti.

Ráðstefnan er ætluð ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Fjöldi þátttakenda verður takmarkaður við 70 manns þ.e. tvo þátttakendur frá hverju sveitarfélagi + starfsmann ef vill. Þátttakendum yngri en 18 ára verður að fylgja fullorðinn einstaklingur.

Allar nánari upplýsingar er gefnar á netfanginu sabina@umfi.is

Kolbeinn Höður setti tvö Íslandsmet

Kolbenn Höður var atkvæðamikill í Laugardalnum um helgina.

Kolbeinn Höður var atkvæðamikill í Laugardalnum um helgina.

Kolbeinn Höður Gunnarsson úr Ungmennafélagi Akureyrar setti tvö Íslandsmet á Stórmóti ÍR sem fram fór í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal um helgina. Fyrst bætti Kolbeinn Höður Íslandsmetið í 200 metra hlaupi en vegalengdina hljóp hann á tímanum 21,64 sekúndum og bætti Íslandsmetið innanhúss um 1/100 úr sekúndu.

Hann bætti síðan metið í 400 metra hlaupi á seinni degi mótsins. Kolbeinn Höður kom í mark á 47,59 sekúndum en gamla metið átti Oddur Sigurðsson sem hljóp á 47,64 sekúndum fyrir tæpum tuttugu árum. Kolbeinn Höður hafði best áður hlaupið á 48,03 sekúndum og fór því undir 48 sekúndur í fyrsta sinn.

Metþátttaka var í mótinu en alls skráðu sig til leiks yfir 800 keppendur frá 32 félögum.

Fulltrúar aðildarfélaga funduðu með starfsfólki UMFÍ

Frá heimsókn til Íslenskrar Getpsár.

Frá heimsókn til Íslenskrar Getpsár.

Fulltrúar frá aðildarfélögum Ungmennafélags Íslands áttu í dag vinnufund með starfsfólki UMFÍ í Þjónustumiðstöð hreyfingarinnar í Reykjavík. Fundurinn var vel heppnaður og árangursríkur. Viðar Halldórsson, félagsfræðingur, hélt afar áhugavert erindi varðandi áherslur í þjálfun og byggði það á leiðarvísir sem gefinn hefur verið út og ber heitið Framtíðin. Á eftir spunnast afar skemmtilegar og fræðandi umræður.

Því næst kynnti Sigurður Guðmundsson, tómstundafulltrúi UMSB, samstarf Ungmennasambands Borgarfjarðar og Borgarbyggðar.

Í hádeginu voru höfuðstöðvar Íslenskrar Getspár í Laugardal heimsóttar undir leiðsögn Stefáns Konráðssonar framkvæmdastjóra. Eftir hádegi fór fram kynning á verkefnum UMFÍ og umræður í kjölfarið. Fundinum lauk síðan með opnum umræðum og samantekt.

Samæfing SamVest í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika

Góð þátttaka hefur verið á æfingum í SamVest samstarfinu.

Góð þátttaka hefur verið á æfingum í SamVest samstarfinu.

Samæfing SamVest í frjálsum íþróttum verður haldin í frjálsíþróttahöllinni í Kaplakrika föstudaginn 30. janúar klukkan 16.30. Héraðssamböndin UDN, USK, HSH, UMSB, UMFK, HSS og HHF sem eru í SamVest samstarfinu boða til samæfingar í frjálsum íþróttum fyrir iðkendur sína. Þetta samstarf hefur gengið einstaklega vel og þátttaka á æfigunum mjög góð.

Æfingin er fyrir 10 ára og eldri og verður þátttakendum aldursskipt í nokkra hópa á æfingunni.Umsjón með æfingunni hefur einn af aðalþjálfurum á starfssvæði SamVest og gestaþjálfarar eru allir fastir þjálfarar hjá FH þau Eggert Bogason, Einar Þór Einarsson og Ragnheiður Ólafsdóttir.

Frekari upplýsingar á Facebook síðu SamVest-samstarfsins, sem allir SamVest-liðar geta fengið aðgang að. Ábendingar og spurningar má senda til bjorg@alta.is

Ólöf María Einarsdóttir íþróttamaður Ungmennasambands Eyjafjarðar

Frá útnefningu íþróttamanns UMSE.

Frá útnefningu íþróttamanns UMSE.

Ólöf María Einarsdóttir úr Golfklúbbnum Hamri í Dalvíkurbyggð var kjörin íþróttamaður Ungmennasambands Eyjafjarðar 2014 en kjörinu var lýst í hófi að Rimum í Svarfvarðardal. Þrátt fyrir ungan aldur, en Ólöf María er aðeins 15 ára gömul, náði hún frábærum árangri á síðasta ári í verkefnum sem hún tók þátt í. Hún er tvímælalaust í hópi efnilegustu kylfinga landsins og verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni.

Annar í kjörinu varð Guðmundur Smári Daníelsson frjálsíþróttamaður UMSE 2014, frjálsíþróttamaður frá Umf. Samherjum í Eyjafjarðarsveit og þriðja varð Anna Kristín Friðriksdóttir hestaíþróttamaður UMSE 2014, frá Hestamannafélaginu Hring í Dalvíkurbyggð.

Við þetta sama tækifæri var einnig veitt viðurkenning og styrkur til aðildarfélags UMSE fyrir framúrskarandi barna- og unglingastarf, en samkvæmt nýjum samningi við aðal styrktaraðila UMSE, Bústólpa ehf., sem undirritaður var á árinu 2014, veitir styrktaraðilinn árlega 50.000.- kr. styrk til uppbyggingar barna- og unglingastarfi. Að þessu sinni var það Hestamannafélagið Funi sem hlaut styrkinn.

Ásgerður Jana úr UFA Íslandsmeistari í fimmtarþraut kvenna

Ásgerður Jana - 1

Ásgerður Kana Ágústsdóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar.

Mjög góður árangur náðist á Meistaramóti Íslands í fjölþrautum um helgina og mikið um persónulegar bætingar. Íslandsmeistari í fimmtarþraut kvenna varð Ásgerður Jana Ágústsdóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar með 3320 stig. Silfurverðlaun hlaut Hanna Þráinsdóttir, ÍR, með 2739 stig og í þriðja sæti hafnaði Sandra Eiríksdóttir, ÍR, með 2683 stig – tveimur stigum meira en Ragna Vigdís Vésteinsdóttir, UMSS, sem hlaut 2681 stig.

Í flokki stúlkna 16-17 ára sigraði Irma Gunnarsdóttir, Breiðabliki, með 3601 stig. Í öðru sæti varð Guðbjörg Bjarkadóttir, FH, með 3037 stig. Í aldursflokkunum bar hæst glæsilegt aldursflokkamet í flokki stúlkan 15 ára og yngri. Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH gerði sér lítið fyrir og bætti sinn fyrri árangur í flokknum um 200 stig og hlaut 3639 stig.

Þjálfarateymi sambandsaðila uppskar ríkulega um þessa helgi og ljóst að mikils er að vænta frá fjölþrautamönnum okkar í framtíðinni – konum, stúlkum, körlum og piltum.