Jóhann Ólafsson fyrrum stjórnarmaður í UMFÍ er látinn

Jóhann Ólafsson.

Jóhann Ólafsson.

Jóhann Ólafsson fyrrum stjórnarmaður í UMFÍ er látinn. Hann fæddist á Ytra-Hvarfi í Svarfaðardal 2. október 1952 og lést á Akureyri 29. apríl 2015. Jóhann kvæntist Unni Maríu Hjálmarsdóttur árið 1974 og eignuðust þau sex börn: Jóhann og Unnur María skildu árið 1996. Eftirlifandi eiginkona Jóhanns er Herdís A. Geirsdóttir.

Jóhann var varaformaður Umf. Þorsteins Svarfaðar 1992, sat í stjórn UMSE 1987-91, þar af formaður 1989-91, sat í stjórn UMFÍ frá 1989-2001, þar af ritari UMFÍ 1991-1999 og í varastjórn UMFÍ 1999-2001. Þá var hann sæmdur gullmerki UMFÍ 2002.

Jóhann gegndi fjölda trúnaðarstarfa og átti m.a. sæti í sveitastjórn Dalvíkurbyggðar 2006-2014 og var formaður sóknarnefndar Vallakirkju og safnaðarfulltrúi, auk þess sem hann gegndi fjölda annarra trúnaðarstarfa sem of langt mál væri upp að telja hér.

Þorsteinn Newton sæmdur starfsmerki UMFÍ á ársþingi HSS

Þorsteinn Newton sem sæmdur var starfsmerki UMFÍ og Hrönn Jónsdóttir stjórnarmaður í UMFÍ.

Þorsteinn Newton og Hrönn Jónsdóttir.

Ársþing Héraðssambands Strandamanna fór fram í Félagsheimilinu á Hólmavík sl. fimmtudag en gestgjafi þingsins í ár var Skíðafélag Strandamanna. 28 þingfulltrúar mættu á þingið sem var undir öruggri fundarstjórn Þorgeirs Pálssonar. Hrönn Jónsdóttir stjórnarmaður í UMFÍ ávarpaði þingið og veitti Þorsteini Newton starfsmerki UMFÍ fyrir óeigingjarnt og ötult starf, meðal annars sem gjaldkeri HSS síðastliðin sjö ár.

Viktor Gautason var valinn efnilegast íþróttamaður HSS árið 2014 og Jamison Ólafur Johnson var sæmdur nafnbótinni íþróttamaður HSS árið 2014. Ingibjörg Benediktsdóttir hlaut hins vegar Hvatningabikar UMFÍ fyrir öflugt starf í þágu almenningsíþrótta. Hvert og eitt þeirra á heiðurinn sannarlega skilinn.

Nokkrar breytingar urðu á stjórn HSS en stjórn komandi árs skipa Vignir Örn Pálsson formaður, Hrafnhildur Þorsteinsdóttir varaformaður, Dagbjört Hildur Torfadóttir gjaldkeri, Guðbjörg Hauksdóttir ritari og Ragnar Bragason meðstjórnandi. Rósmundi Númasyni og Þorsteini Newton sem viku úr stjórn var þakkað fyrir gott samstarf.

Spennandi keppni á Íslandsmóti FÁÍA í boccia

Garðabær - boccia

Garðabær 2 stóð uppi sem sigurvegari á mótinu.

Íslandsmót FÁÍA – Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra – í boccia fyrir 60 ára og eldri fór fram á dögunum í Íþróttamiðstöðinni á Álftanesi.

Mótið var samvinnuverkefni Félags eldri borgara í Garðabæ og FÁÍA. Til keppni voru að þessu sinni skráð 32 lið – 102 keppendur – í átta riðlum, þrír leikir á lið.

Sigurvegarar riðlanna kepptu síða í milliriðlum og sigurvegar þeirra til undaúrslita og loks til úrslita.

 

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ á fimm stöðum í sumar

Frjálsíþróttaskóli á Laugum

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ hefur notið mikilla vinsælda.

Frjálsíþróttaskólinn UMFÍ verður í sumar eins og undanfarin ár. Skólinn er ætlaður ungmennum á aldrinum 11 – 18 ára. Að þessu sinni verður skólinn á fimm stöðum á landinu; Selfossi, Borgarnesi, Sauðárkróki, Laugum í Reykjadal og á Egilsstöðum. Ungmennin koma saman á hádegi á mánudegi en skólanum lýkur á hádegi á föstudegi í sömu viku.

Aðaláhersla er lögð á kennslu í frjálsum íþróttum. Auk frjálsra íþrótta er farið í sund, leiki, óvissuferðir og haldnar kvöldvökur. Ungmennin borga þáttökugjald kr. 20.000 en innifalið í því er kennsla, fæði og gisting.

Umsóknarfrestur um styrki í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ framlengdur til 15. maí

UMFê_merkiUmsóknarfrestur til að sækja um styrki úr Fræðslu- og verkefnasjóði Ungmennafélags Íslands hefur verið framlengdur til 15. maí. Umsóknum skal skilað rafrænt á þar til gerðum umsóknareyðublöðum sem er að finna inn á heimasíðu UMFÍ (www.umfi.is) undir Styrkir fyrir 15. maí.

Sjóðurinn veitir m.a.að styrki til félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi.

SamVest og FH undirrita samstarfssamning

SamVest og FH - undirritun

Á myndinni er hópur barna og unglinga úr SamVesthópnum, en þær Björg Ágústsdóttir og Súsanna Helgadóttir varaformaður frjálsíþróttadeildar FH undirrituðu samkomulagið.

Fulltrúar SamVest og frjálsíþróttadeildar FH undirrituðu á dögunum samstarfssamning um aðstöðu og þjálfun. SamVest er heiti á samstarfsverkefni í frjálsíþróttum milli sjö héraðs- og ungmennasambanda á Vesturlandi og Vestfjörðum, þ.e. UDN, USK, HSH, UMSB, UMFK, HSS og HHF.

„Með þessu samkomulagi semjum við um að halda samæfingar SamVest hjá frjálsíþróttadeild FH á þeirra æfingatíma og í þessari frábæru aðstöðu hér í Kaplakrika fyrir samæfingar SamVest. Við höfum komið með íþróttahópa í höfuðborgina kringum þrisvar sinnum á vetri,“ sagði Björg Ágústsdóttir frá Grundarfirði, formaður framkvæmdaráðs SamVest við undirritunina.

Selfyssingar meistarar í fyrsta sinn í fullorðinsflokki í fimleikum

Fimleikar - Selfosss

Blandað lið Selfyssinga Íslandsmeistarar í hópfimleikum.

Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í Ásgarði í Garðabæ um liðna helgi. Kvennalið Stjörnunnar varð Íslandsmeistari í kvennaflokki og batt enda á níu ára sigurgöngu Gerplunnar. B-lið Stjörnunnar hafnaði í þriðja sæti.

Í blönduðum flokki varð Selfoss Íslandsmeistari en þetta var jafnframt fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins í fullorðinsflokki. Liðið sigraði einnig í keppni á dýnu og á trampólíni. Með sigrinum varð liðið jafnframt deildarmeistari. Þar með bættist þriðji titill vetrarins í safnið þ.e. Íslandsmeistarar, deildarmeistarar og bikarmeistarar. Selfoss átti einnig lið í kvennaflokki og hafnaði það í fimmta sæti. Þessi árangur sýnir þann mikla uppgang sem á sér stað í fimleikum á Selfossi um þessar mundir.

Við heimkomuna var vel tekið á móti nýbökuðum Íslandsmeisturum en sveitarfélagið Árborg stóð fyrir móttöku við Tryggvatorg.

Jón Margeir setti tvö heimsmet í Berlín

Jón Margeir - ManchesterSundkappinn Jón Margeir Sverrisson úr Fjölni setti tvö heimsmet á Opna þýska meistaramótinu sem lauk í Berlín á sunnudag. Frábær árangur Jóni Margeiri sem gefur góð fyrirheit um mótin sem fram undan eru hjá honum á næstunni.

Jón Margeir, sem keppir í fötlunarflokki S14, bætti heimsmetið í 400 metra skriðsundi um helgina þegar hann kom fyrstur í mark í greininni á 4 mínútum og 13,70 sekúndum en áður hafði hann sett heimsmet í 200 metra skriðsundi.

Þá féllu auk þess sjö Íslandsmet hjá Jóni Margeiri á mótinu en Thelma B. Björnsdóttir úr ÍFR var einnig á meðal keppenda og setti fimm Íslandsmet í sínum fötlunarflokki S6.

Markmið Snjóboltans að auka vídd og fjölbreytni í starfi

SONY DSC

Hóparnir komu í heimsókn í Þjónustumiðstöð UMFÍ.

Ungmennaráð UMFÍ fékk í haust styrk í verkefni sem nefnist Snjóboltinn eða The Snowball. Verkefnið er svokallað ungmennaskipta verkefni en þar koma saman hópar ungs fólks frá tveimur eða fleiri Evrópulöndum og vinna að sameiginlegu markmiði í gegnum óformlegt nám. Verkefnið er styrkt af Evrópu unga fólksins.

Markmið Snjóboltans er að auka vídd og fjölbreytni í starfi með áherslu á leiðtogaþjálfun, hvernig vinna eigi í hóp, hvernig skipuleggja eigi viðburði og hvernig hægt sé að virkja ungmenni til þátttöku. Ungmennaráð UMFÍ fékk því til liðs við sig The Milton Keynes Leadership Academy.

 

Fjölnismaður setti nýtt heimsmeti í skriðsundi

Jón Margeir Sverrisson

Jón Margeir með frábæran árangur í Þýskalandi.

Jón Margeir Sverrisson setti nýtt heimsmet í 200 metra skriðsundi í flokki S14 (þroskahamlaðir) á opna þýska meistaramótinu í sundi sem fram fer í Berlín þessa dagana og lýkur um helgina.

Jón Margeir tók heimsmetið af Ástralanum Daniel Fox og synti Jón Margeir á 1.56,94 mínútum. Stórglæsilegur árangur hjá Fjölnismanninum.

Þrír krakkar frá Sunddeild Fjölnis keppa nú á Opna Þýska meistaramótinu. Enn auk þess eru Davíð Þór Torfason og Þórey Ísafold Magnúsdóttir á mótinu og þau bættu bæði sína bestu tíma fyrsta keppnisdaginn.

Alls taka 568 sundmenn þátt í mótinu frá 42 löndum.

Starfsamt og gott sambandsþing hjá UÍA

Starfsmerki UMFÍ á UÍA þingi

Gunnlaugur Aðalbjarnarson og Sigurður Aðalsteinsson fengu starfsmerki UMFÍ. Með þeim á myndinni er Björg Jakobsdóttir stjórnarmaður í UMFÍ.

Sambandsþing UÍA, það 65. í röðinni, fór fram á Hallormsstað 11. apríl sl. 34 fulltrúar frá 21 aðildarfélagi UÍA mættu til þings, sem var bæði starfsamt og gott. Gagnlegar umræður sköpuðust um ýmis mál innan hreyfingarinnar og fram komu spennandi tillögur um ýmiss verkefni austfirsku íþróttastarfi til framdráttar.

Nokkrar mannabreytingar urðu í stjórn sambandsins á þinginu. Gunnar Gunnarsson, Þristi var endurkjörinn formaður UÍA, en þau Gunnlaugur Aðalbjarnarson Hetti, og Þróttarkonurnar Guðrún Sólveig Sigurðardóttir og Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir létu af störfum í aðalstjórn og þau Ásdís Helga Birgisdóttir, Freyfaxa og Böðvar Bjarnason, Hetti sögðu sig frá varastjórn.

Auður Inga Þorsteinsdóttir nýr framkvæmdastjóri UMFÍ

Auður Inga Þorsteinsdóttir.

Auður Inga Þorsteinsdóttir.

Auður Inga Þorsteinsdóttir hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) og tekur við starfinu frá og með 1. júní næstkomandi.

Auður Inga er fædd árið 1978 og hefur undanfarin 9 ár verið framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Gerplu í Kópavogi. Áður var hún deildarstjóri á tveimur leikskólum í Noregi og þar á undan gegndi hún starfi yfirþjálfara hjá Gerplu. Þá hefur Auður einnig þjálfað fimleika hjá Gerplu og hjá Kolbotn í Noregi.

Auður Inga lauk B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 2002 og útskrifast í júní með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Auður Inga var valin úr hópi ríflega sjötíu umsækjenda en Hagvangur aðstoðaði stjórn UMFÍ við ráðningarferlið. Hún tekur við starfinu af Sæmundi Runólfssyni sem gegnt hefur því í rúm 23 ár.

Kynningarfundur á Íþróttalýðháskólanum í Sønderborg

Íþróttalýðháskólinn í Sönderborg.

Íþróttalýðháskólinn í Sönderborg.

Ert þú í ævintýraleit? Þá er tilvalið að kynna sér möguleika sem felast í því að stunda nám í íþróttalýðháskóla í Danmörku. Mánudaginn 20. apríl verður fundur með fyrrverandi nemendum skólans í Þjónustumiðströð UMFÍ í Sigtúni 42 og miðvikudaginn 22. apríl klukkan 20 á sama stað verður haldinn opinn kynningarfundur um þá möguleika sem felast í því að stunda nám í Sønderborg. Fulltrúar frá skólann verða á kynningarfundinum.

Íþróttalýðháskólar bjóða upp á skemmtilegt og spennandi nám fyrir ungt fólk á átjánda ári og eldri. Námið er krefjandi og uppbyggjandi og hver dagur býður upp á ný ævintýri. Íþróttalýðháskólinn í Sønderborg er staðsettur í frábæru umhverfi rétt við landamæri Danmerkur og Þýskalands. Hægt er að leggja stund á allar almennar íþróttagreinar en helstu áherslur eru lagðar á surf, skíði, snjóbretti, strandblak og útivist almennt. Íslensk ungmenni hafa um langt skeið sótt nám í íþróttalýðháskólann í Sønderborg og er samdóma álit þeirra að skólinn bjóði upp á skemmtilegt nám. Dvölin í skólanum hafi verið frábær upplifun og góður skóli í lífinu. Nánari upplýsingar á netfanginu kalli@kalli.dk

Samstarfsverkefni skíðafélagsins og skólanna í sveitarfélaginu

Dalvík 2015

Mynd af börnunum í lok síðasta tímans.

Undanfarnar vikur hafa fyrstu bekkingar grunnskólanna í Dalvíkurbyggð nýtt íþróttatíma sína á skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli með leikfimiskennurum og leiðbeinendum frá Skíðafélagi Dalvíkur. Verkefnið er samstarfsverkefni skíðafélagsins og skólanna í sveitarfélaginu. Börnin hafa alls mætt í sex skipti og náð ótrúlegum árangri.

Nánast allir eru orðnir lyftufærir og sjálfbjarga á barnasvæðinu. Það eru hrein forréttindi að geta boðið börnum sveitarfélagsins upp á slíka þjónustu, en með samstilltu átaki foreldra, skólanna, skíðasvæðisins og skíðafélagsins hefur þetta gengið eins og í sögu, og vonandi komið til að vera um ókomna tíð. Með slíku átaki læra öll börn sveitarfélagsins á skíði sér til yndis, ánægu og útiveru.

Sindri Freyr og Eva Dögg unnu Íslandsglímuna í fyrsta sinn

Íslandsglíma 2015

Sindri Freyr og Eva Dögg.

Sindri Freyr Jónsson, KR, og Eva Dögg Jóhannsdóttir, UÍA, sigruðu í Íslandsglímunni sem fram fór í íþróttahúsinu á Reyðarfirði í gær. Í karlaflokki sigraði Sindri Freyr Jónsson, KR eftir gríðarlega jafna og spennandi keppni þar sem úrslit réðust í síðustu glímu.

Áður en yfir lauk tókst Sindra Frey að leggja  Reyðfirðinginn Ásmund Hálfdán Ásmundsson en þeir voru báðir ósigraðir þegar kom að síðustu glímu þeirra og ljóst að sigurvegarinn í þeirri glímu færi heim með Grettisbeltið fræga og titilinn „Glímukóngur Íslands 2015“.

Í kvennaflokki var einnig afar spennandi keppni en þar var það Reyðfirðingurinn Eva Dögg Jóhannsdóttir sem fór með sigur af hólmi og fór heim með Freyjumenið og titilinn „Glímudrottning Íslands 2015“.

Sindri Freyr og Eva Dögg unnu Íslandsglímuna í fyrsta sinn en þau hafa bæði verið að glíma afar vel á þessu keppnistímabili og því vel að sigrinum komin.

Anna Berglind og Þorbergur sigurvegarar vetrahlaupanna hjá UFA

Vetrarhlaup UFA hafa alltaf notið mikilla vinsælda.

Vetrarhlaup UFA hafa alltaf notið mikilla vinsælda.

Anna Berglind Pálmasdóttir og Þorbergur Ingi Jónsson urðu sigurvegarar í Vetrarhlaupum Ungmennafélags Akureyrar. Í síðasta hlaupi tímabilsins var það Anna Berglind Pálmadóttir sem kom fyrst í mark á 39:48, önnur kvenna var Guðrún Arngrímsdóttir á 46:22 og þriðja var Bryndís María Davíðsdóttir á 46:50. Fyrstur karla var Snæþór Aðalsteinsson á 40:25, annar var Jón Sverrir Friðriksson á 41:44 og þriðji var Finnur Dagsson á 41:50.

Að hlaupi loknu voru veitt verðlaun fyrir sigur í stigakeppni karla og kvenna og liðakeppni auk útdráttarverðlauna. Voru það styrktaraðilar hlaupsins, Bjarg, Halldór Ólafsson úr og skart, Craft, Nói Síríus og Kaffi ilmur sem gáfu verðlaunin. Í Stigakeppni karla bar Þorbergur Ingi Jónsson sigur úr bítum, annar var Aðalsteinn Svan Hjelm og þriðji Snæþór Aðalsteinsson. Í stigakeppni kvenna var Anna Berglind Pálmadóttir hlutskörpust, önnur var Sigríður Einarsdóttir og þirðja Guðrún Nýbjörg Brattberg Svanbjörnsdóttir. Í liðakeppninni sigraði lið Herra Míós.

Hafsteinn Þorvaldsson borinn til grafar

Hafsteinn Þorvaldsson var formaður UMFÍ frá 1969-1979.

Hafsteinn Þorvaldsson  var formaður UMFÍ frá 1969-1979.

Hafsteinn Þorvaldsson, fyrrverandi formaður Ungmennafélags Íslands, verður borinn til grafar í dag og fer útförin fram frá Selfosskirkju. Hafsteinn var 83 ára að aldri þegar hann lést og var frá unga aldri forystumaður í ungmennafélagshreyfingunni og mikilvirkur á því sviði. Hafsteinn fæddist í Hafnarfirði og ólst þar upp til fermingaraldurs en fluttist þá með foreldrum sínum að Lambhúskoti í Biskupstungum og síðar að Syðri-Gróf í Flóa.

Árið 1965 varð Hafsteinn ritari UMFÍ og nokkru síðar formaður samtakanna á árunum 1969-1979. Hann hratt af stað mikilli sóknarbylgju, félögum fjölgaði stórlega og starfið blómstraði. Hafsteinn var gerður að heiðursfélaga UMFÍ árið 1979. Hann var framkvæmdastjóri hins fjölmenna og glæsilega landsmóts UMFÍ á Laugarvatni 1965 sem talið er einn af hátindum hreyfingarinnar fyrr og síðar.

Flóahlaup Umf. Samhygðar þreytt í 37. skipti

Við upphaf Flóahlaups á síðasta ári.

Við upphaf Flóahlaups á síðasta ári.

Flóahlaup Umf. Samhygðar verður þreytt í 37. skipti á laugardaginn kemur og hefst klukkan 13 við Félagslund. Keppt verður í 3 km hlaupi stráka og stelpna 14 ára yngri, 5 km opnum flokki karla og kvenna og 10 km hlaupi kvenna 39 ára og yngri, 40-49 ára og 50 ára og eldri. 10 km hlaupi karla 39 ára og yngri, 40-49 ára, 50-59 ára, 60-69 ára og 70 ára eldri.

Verðlaun eru veitt fyrir þrjá fyrstu í hverjum flokki auk þess sem allir fá verðlaun fyrir þátttöku.Skráningargjald 1.000 kr. fyrir 14 ára og yngri og 2.000 kr. fyrir 15 ára og eldri. Einungis skráð á staðnum. Ath. að greiða verður með peningum, enginn POSI á staðnum. Innifalið í skráningargjaldinu er síðan kaffihlaðborð að hlaupi loknu.

Allir áhugsamir eru hvattir til að koma og taka þátt. Eins eru hjálpfúsar hendur vel þegnar til aðstoðar við framkvæmd hlaupsins.

Fyrsti Íslandsmeistarinn úr Fjölni í áhaldafimleikum drengja

Sigurður Ari - 1

Sigurður Ari Stefánsson.

Íslandsmót í þrepum fór fram helgina fyrir páska og átti fimleikadeild Fjölnis flotta fulltrúa í stúlkna og drengja keppni. Allir keppendur skiluðu góðum keppnisæfingum og skemmtu sér vel á glæsilegu móti sem var í umsjón fimleikadeildar Ármanns.

Upp úr stóð frammistaða Sigurðar Ara Stefánssonar sem varð Íslandsmeistari í 5.þrepi karla, en þetta er fyrsti íslandsmeistaratitill deildarinnar í áhaldafimleikum karla. Sigurður er ungur og efnilegur fimleikamaður sem á svo sannarlega bjarta framtíð fyrir sér og verður fróðlegt að fylgjast með honum áfram næstu árin.

Þess má geta að bygging nýs fimleikahúss Fjölnis við Egilshöllina í Grafarvogi gengur vel en áætlað er að taka hana í notkun á haustdögum. Mun nýja húsið gjörbylta allri starfsemi deildarinnar.

Samþykkt að fara í stefnumótun og móta afreksstefnu USVS

Þing USVS 2015

Efnilegir unglingar úr röðum USVS. Frá vinstri: Unnsteinn Jónsson, Elísabet Sigfúsdóttir, Aron Bjartur Jóhannsson, Jakob Þórir Hansen og Orri Bjarnason. Ljósmynd:dfs.is/ög.

Ungmennasamband Vestur-Skaftafellssýslu, USVS, hélt 45. ársþing sitt í Vík í Mýrdal laugardaginn 28. mars sl. Góð mæting var á þinginu en á það mættu fulltrúar allra sex aðildarfélaga sambandsins.

Á meðal samþykkta þingsins var að fara í stefnumótun og móta m.a. afreksstefnu sambandsins. Þorsteinn M. Kristinsson var endurkjörinn formaður, en aðrir í stjórn eru Erla Þórey Ólafsdóttir, Ástþór Jón Tryggvason, Sæunn Káradóttir og Kjartan Ægir Kristinsson. Í varastjórn eru Ármann Daði Gíslason, Kristín Ásgeirsdóttir og Halldóra Gylfadóttir.

Gestur þingsins, Örn Guðnason, stjórnarmaður í Ungmennafélagi Íslands, ávarpaði þingið og sæmdi Pálma Kristjánsson starfsmerki UMFÍ. Á þinginu voru afhentar viðurkenningar fyrir góðan árangur í íþróttum. Íþróttamaður USVS 2014 var útnefndur Guðni Páll Pálsson, Umf. Kötlu, og efnilegasti unglingurinn Aron Bjartur Jóhannsson, Umf. Kötlu.