04. ágúst 2019

Ásmundur Einar liðsstjóri í körfubolta á Unglingalandsmóti UMFÍ

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tekur virkan þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina. Hann er á mótinu með tveimur dætra sinna sem taka þátt í fjölda greina, þar á meðal í körfubolta. Þar er hann liðsstjóri eins og margir foreldrar á mótinu.

„Þetta er skemmtilegt og um að gera og vera með og ganga í öll tilfallandi störf,“ segir Ásmundur. Dætur hans eru 13 og 11 ára og eru skráðar í 6-8 greinar. Önnur þeirra er skráð í lið Borgfirðinga hjá UMSB en hin er ekki skráð í lið. Í þeim tilvikum er hún sett í lið með öðrum á sama reki sem hafa skráð sig í greinina.

„Það er alveg frábært. Stelpurnar eignast mikið af nýjum vinkonum. Önnur keppir í liði með stelpum sem hún þekkir ekki en hittir svo og keppir á móti í körfuboltanum á veturnar. Þetta er einfaldlega æðislegt mót og hægt að leyfa sér ýmislegt í keppni sem ekki er hægt að gera á veturna,“ segir Ásmundur.

Tjaldsvæði mótsgesta er skipt upp eftir sambandsaðilum UMFÍ og er þess gætt að hver hópur fái sitt pláss. Ásmundur og fjölskylda eru á tjaldsvæði Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). „Það kom ekkert annað til greina en að vera á tjaldsvæðinu. Þar eru allir saman og svo var þar frábær grillveisla í gær. Það var æðislegt!“

Þetta er í annað sinn sem Ásmundur mætir á Unglingalandsmót UMFÍ en dóttir hans varð 11 ára á síðasta ári og gat þá tekið þátt í fyrsta sinn. En dæturnar eru fleiri. Sú yngsta er þriggja ára og því átta ár þar til hún getur keppt á Unglingalandsmóti UMFÍ.

„Þetta er alveg frábært mót og yndislegt að geta farið hér um allt með börnunum. Nú kemst ekkert annað um verslunarmannahelgi en að fara á Unglingalandsmót UMFÍ. Við munum mæta næstu 15 árin!“