04. ágúst 2019

GDRN fannst gaman að sprikla allan daginn á Unglingalandsmóti

„Þegar ég fór á Unglingalandsmót UMFÍ þá fannst mér ég alltaf orðin stór,“ segir Guðrún Ýr Eyfjörð, betur þekkt sem tónlistarkonan GDRN. Hún kemur fram á síðustu kvöldvökunni á Unglingalandsmóti UMFÍ í kvöld. Hún tók 2-3 þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ og man vel eftir mótunum á Sauðárkróki og í Borgarnesi á árunum 2009 og 2010. Hún var um fermingu þegar hún mætti á sitt síðasta mót.

Mótið nú er það fyrsta sem GDRN mætir á síðan um árið 2010 og það dressuð í litum UMFÍ, sem eru blár og hvítur.

En í hverju tók hún þátt?

„Ég æfði fótbolta með Aftureldingu frá fimm ára aldri og skráði mig alltaf í fótbolta. En ég tók líka alltaf þátt í eins mörgum greinum og ég gat,“ segir Guðrún.

„Á sumrin fór ég alltaf í ferðalög með foreldrum mínum. En Unglingalandsmótið var mitt eigið ferðalag. Þá fór ég með 5-6 vinum mínum og einu foreldrapari sem fylgdi okkur. Það var frábært því ég spilaði og spriklaði alla helgina. Ég vildi bara vera úti allan daginn og hreyfa mig. Við vorum reyndar of fáar til að vera saman í liði og því vorum við settar í lið með öðrum stelpum sem ég kynntist.“

Helgin hefur verið þéttbókuð hjá GDRN. Tónleikarnir hófust á Húkkaraballinu í Eyjum á fimmtudag og svo fór hún á stóra sviðið. Hún spilaði á Innipúkanum í Reykjavík í gærkvöldi og flaug til Hafnar í Hornafirði í dag til að koma fram á kvöldvökunni á Höfn í kvöld ásamt hljómsveitinni Unu Stef & the SP 74.

 

Hér má sjá nokkrar myndir frá upphitun GDRN í samkomutjaldinu fyrr í dag.