26. maí 2020

Kynnir strandblak í mígandi rigningu

Guðmundur Hauksson og blakarar skemmtu sér konunglega í mígandi rigningu á strandblakvellinum í Bæjargarðinum í Garðabæ síðdegis í gær. Guðmundur hafði skellt þar í kynningu á strandblaki í tilefni af Hreyfiviku UMFÍ og ætlar að standa fyrir henni alla virka dagana vikunnar á milli klukkan 17:00-18:00.

„Það er frábært tækifæri að kynna íþrótt sem ekki margir stunda. Þetta er frábær skemmtun, góð hreyfing og æðislegur félagsskapur. Við erum vön því að spila í allskonar veðri. En veðrið er ekki beint að leika við okkur í dag,‟ segir Guðmundur Hauksson á milli leikja við þær Unni og Sveinbjörgu.

Hann er boðberi hreyfingar í Hreyfiviku UMFÍ.

Guðmundur bætir við að strandblak er góð íþrótt fyrir fólk sem langar til að leika sér enda hægt að gera það víða. Þetta er kontaktlaus íþrótt og þarf fólk að hreyfa sig mikið. Strandblak henti því mörgum.

 

 

„Það er ekkert lið í strandblaki heldur verða þau til þegar fólk hópar sig saman. Ég stunda sjálfur inniblak með Blakfélagi Hafnarfjarðar. En allskonar fólk stundar blak og vellirnir víða um land eru undirlagðir á sumrin. Það eru á milli 2-300 virkir blakarar og ég hitti oft einhverja þeirra í útilegum. Þá tökum við leik,” segir hann og bendir á að nokkrir vellir eru á höfuðborgarsvæðinu, í Kjarnaskógi á Akureyri, Þingeyri og víðar,“ segir Guðmundur, sem reyndar stendur fyrir því að skipuleggja mótin í strandblaki á vegum Blaksambands Íslands.

En hvernig er að standa fyrir viðburði eins og þessum í Hreyfiviku UMFÍ?

„Ég ætla að gera meira af því í sumar að standa fyrir kynningu á íþróttinni. Þetta er sport í vexti þótt veðrið hafi ekki verið með besta móti,“ segir hann.

Með Guðmundi á strandblakvellinum með sjá Karl Sigurðsson, sem hann kallar föður strandblaks á Íslandi, leiðbeina þátttakendum. Hann er jafnframt þjálfari Blakfélags Hafnarfjarðar og kennir fjölmörgum strandblak.

 

Boðberar hreyfingar út um allt

Hreyfivika UMFÍ hófst í gær en hún stendur yfir dagana 25.-31. maí. Í boði eru fjöldi viðburða um allt land sem boðberar hreyfingar standa fyrir, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu, í Þelamörk, Djúpavogi, Egilsstöðum, Varmahlíð og víðar.

 

 

Boðberar hreyfivikunnar geta verið einstaklingar, íþróttafélag, fyrirtæki eða sveitarfélag sem stendur fyrir viðburði og hvetur þannig samferðafólk sitt til að hreyfa sig. Stöðug fleiri standa fyrir slíkri hvatningu.

UMFÍ vill að allir landsmenn finni sína uppáhalds hreyfingu og setji mynd af sér inn á Instagram með myllumerkinu #mínhreyfing sem hvatningu fyrir aðra. Dregið verður úr innsendum myndum og eru gjafir frá Farm Hotel Efstadal í verðlaun. 

 

Viltu taka þátt í hreyfingu? Þú finnur viðburð á www.hreyfivika.is

Fleiri myndir frá strandblakinu