28. maí 2020

Lilja hvetur íþrótta- og ungmennafélög til lestrarátaks í sumar

Formlegt sumarlestrarátak ungmennafélagsins Fjölnis hófst í gær, miðvikudaginn 27. maí. Í átakinu eru börn og ungmenni hvött til að lesa í sumar.

Félagið lét útbúa bókamerki sem þjálfarar Fjölnis dreifa til iðkenda. Auk þess hefur Borgarbókasafnið í Spönginni sett upp bókastand merktum Fjölni með vel völdum bókum sem íþróttafólk Fjölnis hefur valið. Þar er jafnframt hægt að nálgast bókamerkið merkt átakinu.

Á bókamerkinu eru myndir af íþróttafólki Fjölnis og tilvitnun í þau um mikilvægi lesturs.

Á vefsíðu lestrarátaksins hvetur Fjölnir alla, jafnt iðkendur sem aðra til að vera dugleg að lesa í sumar. Það sé ekki síður mikilvægt en á veturna.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fékk fyrsta bókamerki Fjölnis. Hún segir á Facebook-síðu sinni tilefnið ærið því ungmenni lesi minna yfir sumarið og hafi það neikvæð áhrif á lesfærni.

„Með því að lesa yfir sumarið ræktum við leshæfileikana og komum í veg fyrir að börnin okkar þurfi að nota fyrstu mánuði nýs skólaárs til að ná upp fyrri lesfærni. Ég er þakklát Fjölni fyrir framtakið og fallega bókamerkið sem ég fékk afhent í morgun, þar sem tvær af íþróttastjörnum félagsins árétta mikilvægi lesturs. Ég skora á önnur íþróttafélög að feta í fótspor Fjölnismanna,“ skrifar hún.

Á myndinni eru þau Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Sævar Reykjalín forsvarsmaður átaksins

Bókamerkið með mynd af Degi Ragnarssyni úr skákdeild Fjölnis.

Bókamerkið með mynd af Herdísi Birnu Hjaltalín úr listskautadeild Fjölnis.