30. maí 2020

Sameina göngufólk og hjólreiðagarpa yfir Skarðsheiði í Hreyfiviku

„Við erum mjög spennt fyrir Hreyfivikunni. Hún verður með öðru sniði hjá okkur núna en undanfarin ár þar sem öll dagskráin verður utandyra en viðburðirnir eru fjölbreyttir. Við ætlum að hafa mjög gaman saman,“ segir Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar en sveitarfélagið tekur virkan þátt í Hreyfiviku UMFÍ sem stendur nú yfir.

Rætt er við Sigurð Guðmundsson, framkvæmdastjóra UMSB, um viðburðinn á Visir.is.

 

 

Hann segir allt samfélagið virkjað, grunnskólarnir hafi tekið þátt í brenniboltaáskoruninni og frístundaheimilið og leikskólinn með sérstakan íþróttadag. Hópur eldri kvenna fór í morgungöngur klukkan tíu og sjúkraþjálfari kenndi hvernig hægt er að nýta bekki á útisvæðunum til æfinga. Þá hafi á fimmtudag verið gengið út í höfða frá Hvanneyri en það er mjög vinsæl ganga. Á göngunni megi sjá fjölskrúðugt fuglalíf, mófugla, gæsir, brandendur og fleiri tegundir.

 

Hjólarar og göngufólk samferða

„Stærstu viðburðurinn okkar verður á morgun, sunnudag en þá mun göngufólk, hlauparar og hjólarar fara saman yfir Skarðsheiði eftir línuveginum. Þetta er tuttugu og eins kílómetra leið og hópurinn endar í sundi í Hreppslaug, ótrúlega skemmtilegri sveitasundlaug á svæðinu,“ útskýrir Sigurður og segir lítið mál að blanda saman göngufólki, hjólreiðafólki og hlaupurum.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt og alltaf gengið vel að blanda saman þessum ólíku hópum. Hlaupararnir og hjólararnir fara seinna af stað en göngufólkið og þannig náum við að sameina alla í lokin,“ segir Sigurður.

Nánar má kynna sér dagskrá Hreyfivikunnar í Borgarbyggð á umsb.is.

 

Finndu þína uppáhalds hreyfingu

Hreyfivika UMFÍ hefur verið haldin á hverju ári síðan árið 2012. Með átakinu eru landsmenn hvattir til þess að flétta hreyfingu inn í daglegt líf og virkja fólk í kringum sig. Öll hreyfing telur, eina skilyrðið er að hún veiti fólki ánægju.

Í Hreyfivikunni standa boðberar hreyfingar fyrir viðburðum um allt land. Það geta verið einstaklingar, íþróttafélag, fyrirtæki eða sveitarfélag sem stendur fyrir viðburði og hvetur boðberinn samferðafólk sitt til að hreyfa sig. Stöðug fleiri standa fyrir slíkri hvatningu.

Í ár verða viðburðir á yfir 40 stöðum um allt land en boðberar eru viðstöðulaust að bætast í hópinn og geta viðburðirnir því hæglega orðið mun fleiri. Viðburðina má sjá á vefsíðunni www.hreyfivika.is.