28. maí 2020

Sölvi, Hjálmar og Helgi ræddu um heilsuna hjá Þrótti

„Ef ég set líkama minn í mikið ójafnvægi oft á dag, þá er tómst mál að tala um gott andlegt jafnvægi,“ segir fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason, sem hefur getið sér gott orð fyrir heilsuráðleggingar. Hann var með erindi á fræðslukvöldi Ungmennafélagsins Þróttar Vogum ásamt þeim Helga Jean Claessen og Hjálmari Jóhannssyni, sem fjölluðu um tækifærin og ánægjuna.

Fræðslukvöldið var liður í flottri dagskrá Þróttar í Hreyfiviku UMFÍ sem nú stendur yfir.

 

 

Sölvi er höfundur bókarinnar á Eigin skinni. Þar, eins og í fyrirlestrinum hjá Þrótti, fjallar hann um leit sína að betri heilsu og auknum lífsgæðum. Hann segir frá fjölmörgum tilraunum sem hann gerði á sjálfum sér í mataræði og hreyfingu, föstum, hugleiðslu og fleiru sem tengist málinu.

Sölvi var á sömu vegferð í fyrirlestrinum hjá Þrótti. Hann sagði frá þeim erfiðleikum sem hann gekk í gegnum sem fjölmiðlamaður og leit sinni að betra og heilsusamlegra lífi, bæði líkamlega og andlega. M.a. sagði hann frá því að þegar hann hafi leitað til lækna hafi hann aldrei verið spurður út í hluti sem tengjast líkamsstarfsemi og áhrifum á andlega heilsu, svo sem tengsl mataræðis, hreyfingar og kvíða, streitu og athyglisbrest.

 

 

Sölvi nefndi sem dæmi mikilvægi svefns. Lykillinn að góðum svefni geti verið aðdragandi hans, svo sem hvað hann borði áður en hann fer að sofa.

Hann hafi sem dæmi sofið illa um páskana og ekki hvílst. Ástæðan fyrir því hafi verið að hann hafi borðað hálft páskaegg eftir miðnætti. Neysla á því, gosdrykkjum, kaffi og fleiru hafi neikvæð áhrif á svefn og þar með andlega heilsu.

Hvað svefninn snerti sagði Sölvi mun fleiri gera sér grein fyrir mikilvægi hans fyrir heilsuna en fyrir fimm árum. Á hinn bóginn geri fólk lítið meðvitað til að bæta hann.  

Að lokum skoraði hann á fólk að skoða hreyfingu sína og næringu, svefn og fleiri þætti og verða meðvitaðri um heilsu sína og andlegt heilbrigði.

Fyrirlesturinn var vel sóttur í Vogum og ánægja með fyrirlestrana, sem styrktir voru af Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ.

 

Margt í boði í Hreyfiviku UMFÍ

Mikið er í boði í Hreyfiviku UMFÍ hjá Ungmennafélaginu Þrótti. Dagskráin byrjaði á fyrsta degi vikunnar með skotnámskeiði í körfubolta fyrir 8., 9. Og 10. Bekk og farið var í brennibolta á þriðjudag. Fleiri liðir eru á dagskrá fram á laugardag.

Svona er dagskráin hjá Ungmennafélaginu Þrótti.

 

Finndu þína uppáhalds hreyfingu

Hreyfivika UMFÍ hefur verið haldin á hverju ári síðan árið 2012. Með átakinu eru landsmenn hvattir til þess að flétta hreyfingu inn í daglegt líf og virkja fólk í kringum sig. Öll hreyfing telur, eina skilyrðið er að hún veiti fólki ánægju.

Í Hreyfivikunni standa boðberar hreyfingar fyrir viðburðum um allt land. Það geta verið einstaklingar, íþróttafélag, fyrirtæki eða sveitarfélag sem stendur fyrir viðburði og hvetur boðberinn samferðafólk sitt til að hreyfa sig. Stöðug fleiri standa fyrir slíkri hvatningu.

Í ár verða viðburðir á yfir 40 stöðum um allt land en boðberar eru viðstöðulaust að bætast í hópinn og geta viðburðirnir því hæglega orðið mun fleiri. Viðburðina má sjá á vefsíðunni www.hreyfivika.is.

 

Fleiri myndir frá fræðslukvöldi Ungmennafélagsins Þróttar