Mæður stofnuðu körfuboltadeild fyrir börnin
„Við vorum búin að ræða málið í nokkra mánuði en urðum að lokum að taka af skarið. Við stofnuðum deild frekar en félag. Það er praktískara því að þá gengum við inn í samninga Ungmennafélagsins,“ segir Lee Ann Maginnis, formaður nýstofnaðrar körfuboltadeildar Ungmennafélagsins Hvatar á Blönduósi. Hún segir ekki hafa verið erfitt að stofna nýja deild innan Hvatar. „Það tók smátíma en aðallega skriffinnsku.“
Ungmennafélagið Hvöt er aðildarfélag Ungmennasambands Austur-Húnvetninga, sem er sambandsaðili UMFÍ.
Áhugi á körfubolta jókst
Körfuboltadeildin var stofnuð nú í september eftir talsverðan undirbúning. Aðdragandann má rekja til þess að Helgi Margeirsson, þjálfari frá Körfuboltaskóla Norðurlands vestra, á Sauðárkróki, kom með körfuboltanámskeið á Blönduós. Töluverður áhugi er á körfubolta á Blönduósi og jókst hann við þetta.
Þegar ljóst var að áhugi væri fyrir því að halda úti reglulegum æfingum á Blönduósi setti ein móðir iðkanda hjá Helga sig í samband við hann síðasta haust og kannaði hvort hann gæti haldið úti reglulegum æfingum. Hún fór í að safna styrkjum til að greiða laun þjálfara og dugðu þeir fram að jólum. Áhuginn er enn til staðar og nú kemur Helgi á Blönduós tvisvar í viku, að sögn Lee Ann.
Stjórn eingöngu skipuð konum
Iðkendur í körfuboltadeildinni eru 25 talsins, á aldrinum 8–16 ára. Stjórn félagsins er eingöngu skipuð konum sem eru allar mæður barna sem sótt hafa námskeiðin hjá Helga. Fastar æfingar eru tvisvar í viku, síðdegis á mánudögum og þriðjudögum. Æfingar hefjast klukkan sjö og standa til níu og byrja yngri iðkendur æfingar á undan þeim eldri.
Lee Ann segir körfuboltadeildina opna öllum börnum sem hafa áhuga á körfuknattleik. „Við ákváðum snemma að æfingar stæðu öllum til boða og æfingarnar eru opnar börnum í Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu. Hingað koma iðkendur frá Hvammstanga og sveitinni í kring,“ segir hún. Foreldrar skutla börnunum á æfingar en um 50 mínútur tekur að skjótast á Blönduós þaðan sem lengst er farið.
Iðkendur koma víða að, það eru bæði börn sem æfa aðrar íþróttir og önnur sem æfa ekkert annað.
Margt í boði fyrir börn og unglinga
„Margt er í boði hér á Blönduósi. Innan Ungmennafélagsins Hvatar eru það frjálsar íþróttir, fótbolti og sund og því eðlilegt að körfuboltinn færi þar undir líka,“ segir Lee Ann. Í sveitarfélaginu geta börn og unglingar jafnframt stundað júdó, golf, hestaíþróttir, Metabolic og það nýjasta er fimleikar. Félög í þeim greinum standa hins vegar utan félagsins.
Sveitarfélagið býður foreldrum ekki upp á frístundastyrki fyrir börnin sín. Í stað þess styrkir sveitarfélagið íþróttastarf í sveitarfélaginu með myndarlegum hætti og eru æfingagjöld á Blönduósi fremur lág.
Lee Ann segir allt, sem mæðurnar hafi stefnt að, hafi gengið eftir. Draumurinn sé að ráða þjálfara sem geti verið með æfingar á dagvinnutíma. „Við höfum ekki fundið hann enn og því er aldrei að vita nema að við mæðurnar skellum okkur sjálfar á þjálfaranámskeið,“ segir hún.
Körfuboltadeildin er með Facebook-síðuna: www.facebook.com/karfahvot
Myndir af æfingum og iðkendum tók: Róbert Daníel Jónsson
Nýjasta tölublað Skinfaxa
Greinin birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.
Á meðal annars efnis í blaðinu:
- #Hvetja: Hugmyndir úr grasrótinni fá vængi
- Fimleikastrákar slógu í gegn um allt land
- Sögulegur sambandsráðsfundur UMFÍ
- Minnisblað UMFÍ: Þetta þarf að gera
- Ingvar hjá ÍBR: Við höfum áhyggjur af brottfalli úr íþróttum
- Styrkur á Eskifirði til fyrirmyndar
- Áhrif COVID 19 á íþróttastarfið
- Persónuleg tengsl skila flestum styrkjum
- Styrkirnir gufuðu upp á Hornafirði
- Ánægjuvogin 2020
- Ungmennafélag Langnesinga blæs til sóknar
- Myndir frá ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði
Ef þú smellir á myndina þá geturðu lesið allt blaðið