Mælt fyrir breytingum á skattaumhverfi félagasamtaka
Mælt er fyrir miklum breytingum á skattalegu umhverfi félaga í þriðja geiranum og rekin eru án hagnaðarsjónarmiða í nýju fjárlagafrumvarpi og fjármálaáætlun sem kynnt var í dag. Í frumvarpinu er kveðið á um lækkun ýmissa þátta sem koma almannaheillafélögum til góða. Breytingarnar eru m.a. í formi skattastyrkja á sviði erfðafjárskatts, fjármagnstekjuskatts, virðisaukaskatts og fleiri þátta.
Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að markmiðið er að stuðla að hagfelldara skattalegu umhverfi félagasamtaka og félaga í þriðja geiranum. Byggt er á tillögum starfshóps sem birtar voru á vef fjármála- og efnahagsráðuneytis í febrúar 2020.
Gert er ráð fyrir því 2,1 milljarða króna tekjutapi hins opinbera frá og með árinu 2021 vegna breytinganna. Enn á þó eftir að leggja fram frumvarp um breytinguna.
Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, segir breytinguna mjög jákvæða og verði spennandi að sjá frumvarpið.
„Þetta er það sem hefur verið rætt um, m.a. að auka hvata og lækka álögur á íþrótta- og ungmennafélög og ýmis önnur félög. Það er sama hvort þau eru lítil eða stór, þá geta þau notið góðs af þessu. Það styrkir félagasamtök og skilar sér til samfélagsins. Þetta er því samfélaginu öllu til góða.‟
Starfshópur um skattalegt umhverfi þriðja geirans skilaði af sér endanleg skýrsla 29. janúar 2020. Í hópnum sátu þau Willum Þór Þórsson, sem var formaður nefndarinnar, Börkur Arnarson, Guðrún Inga Sívertsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Helga Jónsdóttir og Óli Björn Kárason þingmaður.