10. nóvember 2020
Nýjasti Skinfaxi troðfullur af allskonar frábæru lesefni
Nýjasta tölublað Skinfaxa, tímarit UMFÍ, er komið alveg brakandi ferskt á Netið. Blaðið er eins og alltaf stútfullt af gríðarlega gagnlegu og góðu efni, ráðum fyrir stjórnendur og þjálfara í íþrótta- og ungmennafélagshreyfingunni, viðtölum við fólk og iðkendur og mörgu fleiru.
Blaðið verður auðvitað líka prentað og verður mögulegt að nálgast það um allt land í næstu viku.
Allskonar eldheitt og sjóðandi gott efni er í blaðinu.
Á meðal efnis:
- Kolbrún Dröfn hafði áhyggjur af hreyfingarleysi barna og ungmenna og hafði samband við ÍBR. Upp úr því varð til átaksverkefnið #Hvetja.
- Drengi vantar fyrirmyndir í fimleikum. Karlalandsliðið í hópfimleikum lagði því land undir fót í sumar, tróð sér inn í bíl og keyrði hringinn með stórkostlega sýningu í farteskinu. Strákum hefur nú fjölgað í hópi iðkenda. Þórey Edda Elísdóttir á Hvammstanga og Þórdís Þöll á Akranesi segja frá sýningum strákanna.
- Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) hlaut Hvatningarverðlaun UMFÍ fyrir nýtt íþróttahús Hattar á Egilsstöðum. Sjálfboðaliðar skipulögðu byggingu hússins sem er eftirtektarvert og byggt með nýstárlegum hætti. Rætt er við Davíð Þór Sigurðarson, formann íþróttafélagsins Hattar.
- COVID-faraldurinn hefur valdið því að fleiri en tíu geta ekki hist á sama stað. Þetta kom í veg fyrir að hægt væri að halda sambandsráðsfund UMFÍ með hefðbundnum hætti. Neyðin kennir og svo framvegis og alltaf hugsað í lausnum hjá UMFÍ. Sambandsráðsfundurinn var haldinn með óvenjulegu sniði.
- Ungmennafélag Langnesinga blæs til sóknar og er ný stjórn með ýmislegt í bígerð til að fjölga krökkum í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.
- Krakkarnir á Blönduósi hafa mikinn áhuga á körfubolta. En þar var engin deild og ekkert hægt að æfa. Mæður í bænum tóku sig til og stofnuðu körfuknattleiksdeild fyrir börnin. Iðkendur eru nú 25. Lee Ann ræðir um kosti þess að stofna deild innan ungmennafélags.
- Soffía Meldal situr í Ungmennaráði UMFÍ. Hún var jafnframt í ritstjórn Umba sem skrifaði fyrstu barnaskýrsluna sem send var Banraréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Rætt er við Selmu um Ungmennaráðið og félagsmálastörfin.
- Hellingur af myndum og umfjöllun um ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði sem haldin var í Hörpu.
- Ingvar Sverrisson er formaður ÍBR. Hann hefur áhyggjur af brottfalli barna og ungmenna úr skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Ingvar er með hugmynd um það hvernig hægt er að styrkja íþróttafélögin og halda börnum við efnið í COVID-faraldrinum.
- Lausnirnar leynast á Austurlandi. Útgerðarfyrirtækið Eskja á Eskifirði ætlar að veita Ungmennafélaginu Austra veglegan styrk næstu þrjú árin til að efla íþróttaiðkun í bænum.
- Hvernig er best að leita styrkja fyrir íþróttafélagið? Björg Berg Gunnarsson þekkir málið af eigin raun. Hann hefur nú skrifað veglega og fróðlega meistararitgerð um efnið og komist að því að styrkjasöfnun þarf að breytast.
- Er gaman í íþróttum? Hvernig er þjálfarinn? Þessum spurningum er svarað í Ánægjuvoginni 2020.
- Myndir frá ungmennaráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði
- Og svo er í blaðinu margt, margt fleira gott og gaman.
Ef þú smellir á myndina þá geturðu lesið allt blaðið