Fara á efnissvæði
04. nóvember 2020

Pannavellirnir eru á leiðinni

„Nú dreifum við gleðinni um allt land. Við erum búin að bíða mjög lengi eftir þessum pannavöllum. Þeir voru að koma. Við umpökkuðum þeim og sendum áfram til viðtakanda,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Gleðin eru tíu pannavellir sem áttu að koma í upphafi sumars. COVID-faraldurinn varð hins vegar til þess að sendingin til Íslands dróst von úr viti.

Pannavellir hafa slegið víða í gegn, ekki síst eftir að Moli fór um landið í fyrra með tvo velli sem UMFÍ lánaði honum. Svo mikil var ánægjan með vellina að KSÍ keypti velli af UMFÍ í tengslum við verkefnið „Komdu í fótbolta“.  Moli er Akureyringurinn Siguróli Kristjánsson, sem hefur umsjón með verkefninu.

Hér má sjá Mola með fótboltakrökkum á Þórshöfn og pannavöllinn í botni myndarinnar.

 

Pannavellir eru litlir átthyrndir fótboltavellir þar sem er spilaður er fótbolti einn á móti einum eftir ákveðnum reglum.

 

Pannavellir slá í gegn

„Pannavellirnir eru mjög hentugir í minni bæjum þar sem krakkar vilja spreyta sig í einn á móti einum eða tveimur. En svo eru vellirnir litlir og ansi mikið aksjón á þeim,“ segir Dagur Sveinn Dagbjartsson hjá KSÍ. Hann hefur verið að lofa pannavellina í bak og fyrir og boðið sveitarfélögum að vera með í stórri pöntun á þeim.

„Moli fann mikinn áhuga á völlunum þar sem hann kom,“ segir hann og mælir með því að sveitarfélög og íþróttafélög fái styrktaraðila í sveitarfélagi viðkomandi í lið með sér. Hliðar pannavallanna bjóði nefnilega upp á að líma þar skilaboð fyrir styrktaraðilum.

 

Pannavellir út um allt

Auður segir ungmennafélög víða um land panta vellina hjá UMFÍ, sem hefur nokkrum sinnum haft milligöngu um pöntun á fjölda pannavalla í einu. En sveitarfélögin geri það líka. Hún bendir á að það sé mjög skemmtilegt að vellirnir fari um allt land, meðal annars til Ungmennafélags Langnesinga á Þórshöfn, Skagaströnd, Flúðir, í Bláskógabyggð, til Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Reykhóla og Dalvíkur.

Pannavellirnir eru farnir af stað og ættu þeir að berast viðtakendum á næstu dögum.