13. ágúst 2019

Kom astmaveikum vin til bjargar

Á ný liðnu Unglingalandmóti UMFÍ sem fram fór um verslunarmannahelgina kom Vaka Sif Tjörvadóttir, 11 ára stúlka frá Höfn í Hornafirði, astmaveikum vini sínum, Gabríeli Kristni Kristjánssyni, til bjargar í hjólreiðakeppni mótsins. Gabríel fékk astmakast í miðri keppni og var hjálparlaus í vegkantinum þegar Vöku bar að.

 „Ég hélt fyrst að hann væri bara að fá sér að drekka en sá síðan að hann var ekki með neinn brúsa. Ég fór því að hon­um og spurði hvort það væri ekki allt í lagi. Hann sagði nei,“ lýs­ti Vaka. Drengnum tókst að stynja því upp að hann væri með ast­ma og þá áttaði Vaka sig á að hann væri í mikl­um vand­ræðum.

„Hann hafði lík­leg­ast fengið ast­mak­ast þannig að ég fór út að veg­in­um og reyndi að stoppa bíla til að biðja um hjálp. Tveir keyrðu fram­hjá en sá þriðji stoppaði. Það voru út­lend­ing­ar, ekki ensku­mæl­andi en ég gat samt aðeins talað við þá, og svo heppi­lega vildi til að tveir þeirra voru með ast­ma!“ seg­ir Vaka. Þeir gátu gefið Gabrí­el púst svo að hon­um liði ögn betur. 

Vaka hringdi á meðan í Neyðarlín­una og ferðamenn­irn­ir hlúðu að drengn­um og svo dreif fleiri að. „Svo kom gæsl­an úr keppn­inni á staðinn og ég var enn þá að tala við 112. Ég var að reyna að út­skýra hvar ég var og fá svör um hvað ég gæti gert og svona og það var mikið stress, þannig að á end­an­um lét ég gæslu­mann­inn fá sím­ann minn og hann talaði við lækn­ana,“ seg­ir Vaka, sem naut einnig liðsinn­is Ant­ons Krist­bergs, drengs sem bar að á meðan á þessu stóð.

Vaka endaði á að hjóla aft­ur af stað og dreng­ur­inn fékk þá aðhlynn­ingu sem hann þurfti. Á mótsslitum mótsins var Vaka heiðruð með gull­medal­íu fyr­ir frammistöðuna. „Það var bara flott. Mér var al­veg sama þótt ég myndi vinna keppn­ina, ég var hvort eð er með þeim öft­ustu,“ seg­ir hún og hlær. Hún seg­ir einnig frá því að allt sé í lagi með drenginn, hann þurfi bara að fá sér nýtt púst, því hann sé enn með pústið í láni frá út­lend­ing­un­um sem komu hon­um til hjálp­ar.

 

UMFÍ hrósar og þakkar Vöku fyrir rétt viðbrögð.

 

Fréttin birtis fyrst á mbl.is þann 6.8.2019

 

Myndir frá hjólreiðakeppni ULM19.