22. maí 2020

Ljúfmennin spila bandý í Digranesi

Margir þekkja bandý sem eina af skemmtilegustu greinunum í skólaleikfiminni í grunnskóla. Bandý lifir enn góðu lífi um allt land. Anna Lea Friðriksdóttir hefur spilað bandý í Kópavogi í nokkur ár. 

„Það er stórkostlegt að æfa bandý og allir þar eru svo góðir vinir. Það getur verið ansi mikill hasar á vellinum. Utan hans eru svo allir bestu vinir enda annáluð ljúfmenni í greininni,“ segir Anna Lea Friðriksdóttir. Hún æfir bandý þrisvar sinnum í viku með fjölda stallsystra sinna undir merkjum HK en þar er eina kvennafélagslið landsins.

„Ég spilaði oft bandý þegar ég var lítil og bjó í Svíþjóð. Þar er bandý mikilvæg íþrótt. Þá spiluðum við á línuskautum úti á götu og þurftum að færa mörkin þegar bílar óku eftir henni. Þegar ég flutti svo heim 12 ára var bandý með því skemmtilegra sem við spiluðum í skólaleikfiminni,“ segir hún. 

 

 

Bandý var lengi vel bundið við skólaíþróttir og ekkert stundað utan skóla. Fótbolti hefur lengst af verið aðalíþróttin í lífi Önnu Leu og spilar hún enn einu sinni í viku. Reglulegar æfingar í boltanum fjöruðu út eftir því sem Anna Lea eltist.

Hún viðurkennir að hún hafi leitað eftir annarri hreyfingu en sér leiðist óhemjumikið að vera ein á hlaupabretti í líkamsræktarsal eða í öðrum einmenningsíþróttum. Hún elski hópíþróttir og vilji helst hafa bolta til að elta.

 

Vantar fleiri stráka

„Ég var þarna komin yfir þrítugt og mig vantaði meiri hreyfingu. Fyrir um þremur árum var ég að leita að skemmtilegri grein sem fullorðnir gætu stundað og haft gaman af. Í leitinni rak ég augun í það á Facebook að HK væri með nýliðatíma í bandýi. Ég skoðaði þetta og sá þar að stelpa, sem var með mér í bekk í grunnskóla, væri með í hópnum. Ég ákvað þá að úr því að hún gæti þetta rúmlega þrítug gæti ég það líka. Þegar ég mætti svo í Digranesið var svo vel tekið á móti mér að ég ílentist í bandýinu og skemmti mér alltaf jafn vel,“ segir hún og bætir við að mikill vöxtur sé í greininni, hún sjái æ fleiri unglinga spila bandý. 

 

 

Fleiri strákar og karlar spila bandý hér á landi en konur og stelpur og það vill Anna Lea sjá breytast.

Anna Lea segir bandý frábæra íþrótt fyrir þá sem eru of góðir við sig í gimminu og leita skemmtilegra hópíþrótta.

„Þetta er stórkostleg íþrótt sem allir geta stundað á nánast hvaða aldri sem er. Þar er líka enginn afsláttur gefinn eins og maður getur gefið sér í ræktinni. Hjá HK kynntist ég nýju fólki og eignaðist marga nýja vini. Það gefur mér mikið. Hópurinn er mjög blandaður en stærstur hluti hans stundar bandý vegna hreyfingarinnar og skemmtunarinnar þótt við keppum bæði innanlands og utan,“ segir hún.

 

Bíður eftir því að æfa á ný

Viðtalið var tekið áður en samkomubann var sett á í mars en í kjölfarið féllu allar æfingar niður. 

Það er auðvitað áhugavert að vita hvernig Anna Lea upplifir samkomubannið.

 

 

Það er búið að vera mjög strembið að komast ekki á æfingu, sérstaklega þegar maður er svona mikil hópsál. Maður saknar bæði fólksins og sportsins. Það er svo sem hver og einn bara búinn að æfa í sínu horni, fara út að hlaupa, ganga á fjöll o.s.frv. Svo hafa nokkrir í hópnum verið duglegir að setja inn hugmyndir að tækniæfingar á síðuna okkar,“ segir hún og er ólm í að byrja æfingar á ný. 

„Ég get ekki beðið!“

 

Hvar er hægt að æfa bandý?

Bandý er hægt að æfa víða um land. Samherjar í Eyjafirði bjóða upp á æfingar og hópar kvenna eru á Akureyri, Egilsstöðum og Húsavík auk hóps iðkenda í Setbergi í Hafnarfirði svo að nokkuð sé nefnt. 

„Við ætlum að halda æfingabúðir í Digranesi í fyrsta skipti í maí (ef þáverandi ástand leyfir) til að kanna grundvöll þess að setja saman íslenskt kvennalandslið í bandýi og ætlum einmitt að bjóða iðkendum af landinu öllu að koma sem og þeim íslensku stelpum sem spila annars staðar í heiminum.“ segir Anna Lea. 

 

Greinin birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Nýjasta tölublaðið - 1. tbl. 2020 - er aðgengilegt á vef UMFÍ.

Þú getur smellt hér og lesið allt blaðið: Lesa Skinfaxa

 

Fleiri myndir af æfingu Önnu Leu.