Skráning á 18. Unglingalandsmót UMFÍ hefst 6. júlí

Íþróttaaðstaðan á Akureyri er öll til fyrirmyndar.

Skráning á 18. Unglingalandsmót UMFÍ , sem fram fer á Akureyri um verslunarmannahelgina, hefst mánudaginn 6. júlí. Þetta verður í fyrsta skipti sem Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið þar. Mótið hefst fimmtudaginn 30.júlí og mótsslit eru um miðnætti á sunnudagskvöldi. Búist er við fjölmennu móti á Akureyri að þessu sinni enda eru fleiri keppnisgreinar en nokkru sinni áður. Á Akureyri er gríðarlega góð keppnisaðstaða til staðar fyrir allar keppnisgreinar þannig að ekkert mun skorta í þeim efnum.

Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og unglinga ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

HSK stóð fyrir fjölskyldugöngu á Vatnsdalsfjall

Vatnsnesfjall

Þátttakendur í fjölskyldugöngunni á Vatnsdalsfjall.

HSK stóð fyrir fjölskyldugöngu á Vatnsdalsfjall í Rangárþingi sl. fimmtudag. 25 manns gengu á fjallið í góðu gönguveðri. Lagt var af stað af bæjarhlaðinu í Vatnsdal og þegar upp var komið var póstkassa komið fyrir og allir skrifuðu nafn sitt í gestabókina.

Gönguáhugafólk er hvatt til að ganga á HSK fjöllin Vatnsdalsfjall og Arnarfell við Þingvallavatn í sumar.  Heppnir þátttakendur fá verðlaun fyrir þátttökuna í haust.

,,Allir svo glaðir og þakklátir“

Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður UMFÍ.

,,Ég er í skýjunum með mótið sem tókst með afbrigðum vel. Veðrið lék við okkur allan tímann, þátttakan góð, dagskráin vel skipulögð og keppnin öll gekk eins og í sögu. Þetta verkefni er rosalega skemmtilegt og það sem stendur upp úr er öll þessi gleði, allir þakklátir og það er þetta sem gefur þessu svo mikið gildi. Við finnum það að mótið er að styrkjast með hverju árinu en við bíðum ennþá eftir vissum aldursflokki inn á mótið, 50-65 ára, við finnum vonandi leið til að fá þennan hóp til að vera með,“ sagði Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður Ungmennafélag Íslands, í mótslok 5. Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi nú síðdegis.

Helga Guðrún sagði landsmótin vera stór verkefni innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Næsta verkefni væri unglingalandsmótið á Akureyri sem er mjög stórt mót. Landsmót 50+ er á hverju ári, stóra landsmótið síðan á fjögurra ára fresti og því eru öll þessi mót klárlega eitt af stærri verkefnunum.

Kristján Gissurarson setti landsmótsmet í stígvélakasti

Kristján Gissurarson kastar 29,55 metra á Blönduósi í dag.

Kristján Gissurarson kastar 29,55 metra á Blönduósi í dag.

Kristján Gissurarson setti nýtt landsmótsmet í stígvélakasti á Landsmóti UMFÍ 50+ en þetta var lokagrein mótsins sem lauk á Blönduósi í dag. Kristján, sem var landsþekktur stangarstökkvari hér á árum áður, kastaði 29,55 metra. Skarphéðinn Einarsson varð annað með kast upp á 22,81 metra og Jón Gissurarson lenti í þriðja sæti, kastaði 22,46 metra.

Í kvennaflokki sigraði Angela Berthold, kastaði 21,80 metra. Svanborg Þ. Frostadóttir var önnur og kastaði 19,16 metra og Guðrún Birna Haraldsdóttir kastaði 18,89 metra og lenti í þriðja sæti.

Mótin í einu orði stórkostleg

Tómas Jónsson frá Selfossi.

Tómas Jónsson frá Selfossi.

,,Ég tók þátt í sex greinum á mótinu, tveimur í sundi og fjórum í köstum. Það má segja að ég hafi verið að dútla í íþróttum stærsta hluta ævinnar. Maður stundaði þetta af meira krafti þegar ég var ungur og svo hef ég haldið þessu við eins og kostur er. Undanfarin ár hef ég ekki stundað íþróttir með reglubundnum hætti, því miður. Gallinn er sá að ég er bara einn, enginn að æfa með mér, til að hvetja áfram. Fyrir vikið er maður latari að stússast í þessu,“ sagði Tómas Jónsson 82 ára frá Selfossi.

Tómas sagðist alla tíð hafa hreyft sig og gerir töluvert að því að ganga og það er því að þakka að hann hafi góða heilsu.

Uppskriftin er ekkert leyndarmál

Þrjár efstu í pönnukökubakstrinum.

Þrjár efstu í pönnukökubakstrinum.

Það var mikil spenna í kringum pönnukökubaksturinn á Landsmóti UMFÍ 50+ sem nú stendur yfir á Blönduósi og lýkur eftir hádegið í dag. Eins og jafnan vekur þessi grein alltaf mikla athygli og svo var einnig nú því áhorfendur troðfylltu Kvennaskólann þar sem keppnin fór fram.

Það fór svo að lokum að Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir, 81 árs gömul, frá Hurðarbaki í Flóa sem stóð uppi sem sigurvegari. Jóna Halldóra Tryggvadóttir frá Hvammstanga varð í öðru sæti og Vilborg Pétursdóttir  hafnaði í þriðja sæti. Þess má geta að Jóna Halldóra sigraði í þessari grein á mótunum sem haldin voru á Hvammstanga og Mosfellsbæ 2011 og 2012.

Unnu samtals til 16 gullverðlauna í sundinu

Björg Hólmfríður og Kári Geirlaugsson.

Björg Hólmfríður Kristófersdóttir og Kári Geirlaugsson.

Björg Hólmfríður Kristófersdóttir, sem er 63 ára gömul, vann til átta gullverðlauna í sundkeppni Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi í dag. Björg keppir undir merkjum Ungmennasambands Borgarfjarðar og er þetta í fjórða skipti sem hún tekur þátt í þessum mótum.

,,Ég var góð að synda sem ung stelpa í sveitinni en hef alltaf reynt að halda mér í formi. Ég bý líka að því að vera alin upp við sundlaug en ég var orðin sundlaugavörður 14 ára gömul á Varmalandi í Borgarfirði. Það er gott heilsunar vegna að synda eða hreyfa sig og ég reyni að synda eins oft og ég get í Borgarnesi. Ég er staðráðin í því að taka þátt í næsta móti á Ísafirði,“ sagði Björg Hólfríður Kristófersdóttir.

Svipmyndir frá Landsmóti UMFÍ 50+

Ingimundur Ingimundarson frá Borgarnesi keppir í sundi.

Ingimundur Ingimundarson frá Borgarnesi keppir í sundi.

Annar keppnisdagur á Landsmóti UMFÍ stendur nú yfir og veðrið leikur áfram við keppendur og gesti. Keppni í boccia lauk um hádegið en eftir hádegið hófst keppni í sundi, gold, bridds, hestaíþróttum, skák, pönnukökubakstri. Keppni í frjálsum íþróttum hefst klukkan 15.

,,Maður finnur fyrir jákvæðum og uppbyggilegum anda“

Illugi Gunnarsson við setningu mótsins í gærkvöldi.

Illugi Gunnarsson við setningu mótsins í gærkvöldi.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, flutti ávarp við setningu 5. Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi í gærkvöldi og sagði m.a. óumdeilt að þessi mót hefðu heilmikið gildi.

,,Það er engin ástæða til að hætta að hreyfa sig eða taka þátt í íþróttum eftir að maður er kominn yfir fimmtugt. Heilsa er almennt betri og fólk er í góðu ásigkomulagi einmitt vegna þess kannski að við stundum íþróttir og hreyfum okkur meira en áður og gerum síðan áfram fram eftir aldri. Þetta snýst ekki eingöngu um keppni í íþróttum heldur líka að njóta félagsskaparins. Hitta fólk hvaðanæva af landinu, efla gömul vináttutengsl sem byggð eru á í gegnum íþróttirnar. Allt er þetta mjög mikilvægt og hluti að því að eiga gott líf,“ sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.

Blönduósbær tók á móti viðurkenningu

Valgarður Hilmarsson og Helga Guðrún Guðjónsdóttir.

Valgarður Hilmarsson og Helga Guðrún Guðjónsdóttir.

Á setningu Landsmóts UMFÍ 50+ í félagsheimilinu á Blönduósi í gærkvöldi voru veittar viðurkenningar í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf. Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður Ungmennafélags Íslands, færði Blönduósbæ viðurkenningu fyrir framkvæmd og aðkomu að mótinu sem tókst afskaplega vel.

Valgarður Hilmarsson, forseti bæjarstjórnar Blönduóss, veitt viðurkenningunni móttöku, og þakkaði UMFÍ og öllum þeim sem komu að framkvæmd og undirbúningi mótsins fyrir vel unnin störf.

Tvær konur sæmdar starfsmerki UMFÍ

Frá veitingu starfsmerkjanna.

Frá veitingu starfsmerkjanna.

Tveir einstaklingar voru sæmdir starfsmerki UMFÍ á setningu 5. Landsmót UMFÍ 50+ á setningu mótsins í gærkvöldi.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir sæmdi þær Sigrúnu Líndal og Berglindi Björnsdóttir starfsmerki hreyfingarinnar fyrir vel unnin störf innan Héraðssambands Austur-Húnvetninga.

Frábær stemning á setningarathöfninni

Helga Guðrún Guðjónsdóttir formaður við setningu mótsins.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, við setningu mótsins.

Félagsheimilið á Blönduósi var fullt út að dyrum þegar 5. Landsmót UMFÍ var sett í kvöld. Yfir 400 manns voru á setningunni og mikil og góð stemning. Keppni á mótinu hófst í dag í einstakri veðurblíðu og heldur síðan áfram allan daginn á morgun og lýkur síðan eftir hádegið á sunnudag.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, setti mótið og meðal annarra sem fluttu ávörp voru Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Einar Kristján Jónsson, formaður landsmótsnefndar, og Haukur Ingibergsson formaður Landssambands eldri borgara.

Keppni hafin í blíðskaparveðri

Frá keppni í boccia.

Frá keppni í boccia.

Landsmót UMFÍ 50+ hófst á Blönduósi um hádegi í dag en mótið stendur fram á sunnudag. Um fjögur hundruð keppendur eru skráðir til keppni. Keppendur í boccia hófu leik um hádegið og stendur keppni til klukkan fimm en keppnin fer fram í íþróttahúsinu. Á skotsvæði Markviss hefst keppni í skotfimi klukkan þrjú.

Mótssetning verður í félagsheimilinu klukkan 20 í kvöld. Stærsti keppnisdagurinn er á laugardag og byrjar dagurinn á því að boðið er upp á morgunleikfimi klukkan 7.45-8.30 í íþróttahúsinu. Almenn keppni á mótinu hefst klukkan átta og stendur yfir allan daginn.

Góð þátttaka á Landsmóti UMFÍ 50+ á Blönduósi

Íþróttahúsið á Blönduósi.

Íþróttahúsið á Blönduósi.

Um komandi helgi fer fram á Blönduósi Landsmót UMFÍ 50+. Mótið er nú haldið í fimmta sinn og keppendur sem allir eru 50 ára og eldri verða um 400 talsins. Keppt er í mörgum greinum eins og t.d. boccia, sundi, hestaíþróttum, frjálsum íþróttum, bridds og lomber svo eitthvað sé nefnt.

Keppendur koma að af öllu landinu og er viðbúið að mikið fjör verði á Blönduósi um helgina því keppnisskapið er svo sannarlega fyrir hendi þó svo ungmennafélagsandinn svífi yfir vötnum.

Keppnin hefst um hádegi á föstudegi en mótssetningin verður á föstudagskvöldið í Félagsheimilinu Blönduósi og þangað eru allir velkomnir, keppendur sem og heimamenn. Mótsslit eru upp úr hádeginu á sunnudegi.

Dagskrá Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi

Íþróttaaðstaða á Blönduósi er til fyrirmyndar.

Íþróttaaðstaða á Blönduósi er til fyrirmyndar.

5. Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið um næstu helgi á Bönduósi. Keppni í boccia hefst um hádegið á föstudag og síðdegis í skotfimi. Mótssetning verður í félagsheimilinu á Blönduósi klukkan 20 á föstudagskvöld. Keppni hefst síðan snemma á laugardagsmorgun og stendur yfir allan daginn. Áfram verður haldið á sunnudeginum en mótinu verður síðan slitið eftir hádegi.

Dagskrá Landsmóts 50+ liggur fyrir og  er um að gera fyrir heimafólk á öllum aldri að skoða dagskrána vandlega. Allir eru hvattir til að mæta, fylgjast með keppendum, hvetja þá og njóta þeirrar afþreyingar sem í boði verður.

Hvetur fólk til að mæta og gefa sér þessa helgi að gjöf

Guðmunda Ólöf Jónasóttir.

Guðmunda Ólöf Jónasóttir.

,,Þessi mót eru frábært framtak af hálfu Ungmennafélags Íslands. Ég er búin að taka þátt í mótunum frá upphafi og hef haft óskaplega gaman af. Ég mæli með þessum mótum og hvet alla sem hafa aldur til að taka þátt. Hvaða mína parta snertir er bara ekki hægt að hætta þegar maður er á annað borð búin að taka þátt. Á þessum vettvangi kynnist maður stórum hópi fólks og hlakkar mikið til að hitta það aftur og stækka vinahópinn. Þátttaka í þessu móti eykur áhuga fólks á að taka þátt í íþróttum. Sumir koma bara til að fylgjast með en sjá hvað þetta er skemmtilegt og verða með seinna,“ sagði Guðmunda Ólöf Jónasdóttir frá Borgarnesi.

Hún er mikill göngugarpur og hefur tekið þátt í gönguverkefnum á vegum UMFÍ. Hún hefur líka látið að sér kveða í sundi á Landsmótum UMFÍ 50+ og ennfremur sundþjálfun í gegnum tíðina. Guðmunda Ólöf ítrekaði að sér fyndist þessi mót hafa  gjörsamlega hitt í mark og náð tilgangi sínum. Mótin ættu svo sannarlega framtíðina fyrir sér.

Þetta verður bara gaman og spennandi

Arnar Sævar

Arnar Þór Sævarsson bæjarstjóri á Blönduósi.

,,Það er bara frábært fyrir okkur að fá að hýsa þetta mót sem hefur svo sannarlega rutt sér til rúms.Það má segja að Landsmót UMFÍ 50+ sé orðið stór hluti af sumri okkar Íslendinga, að taka þátt og keppa í fallegu umhverfi . Þetta mótshald gerir ekkert annað en að þjappa okkur saman þar sem allir leggjast á eitt til að gera þetta sem best úr garði. Það er mikil ánægja í samfélaginu að taka þátt í þessu, að undirbúa og skipuleggja mótið,“ sagði Arnar Þór Sævarsson bæjarstjóri á Blönduósi.

Arnar Þór sagði að það hefði blundað í þeim í svolítinn tíma að fá þetta mót á Blönduós. Þeir hefðu verið á þröskuldinum í nokkur skipti en svo hefði verið tekin ákvörðun um að slá til, að henda sér í djúpu laugina og halda mótið.

Bláskógaskokk HSK 2015

Bláskógaskokk HSK

Frá Bláskógahlaupi HSK.

Bláskógaskokk HSK verður haldið laugardaginn 27. júní 2015 og hefst kl. 11:00. Hlaupið verður frá Gjábakka, austan Þingvallavatns eftir gamla Gjábakkavegi til Laugarvatns. Vegalengdir: 5 km og 10 mílur (16,09 km) með tímatöku. Flokkaskipting bæði kyn: 16 ára og yngri,17-39 ára, 40-49 ára, 50 ára og eldri. Í 5 km er keppt í flokkum 16 ára og yngri og 17 ára og eldri hjá báðum kynjum.

Allir þátttakendur fá verðlaun. Sérverðlaun verða veitt fyrir fyrsta karl og fyrstu konu í 5 km og 10 mílum. Hægt er að skrá sig á hlaupasíðunni, www.hlaup.is og greiða með kreditkorti. Forskráningu á hlaup.is lýkur föstudaginn 26. júní kl. 21:00. Eins er skráð á staðnum (íþróttahúsi) fyrir hlaup.

Hlökkum til að taka á móti keppendum og gestum

Íþróttaaðstaða á Blönduósi er til fyrirmyndar.

Íþróttaaðstaða á Blönduósi er til fyrirmyndar.

„Undirbúningur fyrir mótið hefur gengið með ágætum. Við í nefndinni höfum hist reglulega í þó nokkurn tíma, metið stöðuna og farið í hluti sem þurft hefur að bæta og laga. Þetta hefur verið skemmtilegur tími. Við erum með gott fólk innan okkar raða sem er tilbúið að vinna og láta gott af sér leiða. Það getur skipt sköpum að hafa gott fólk með sér,“ sagði Aðalbjörg Valdimarsdóttir, formaður Ungmennasambands Austur-Húnvetninga, sem er framkvæmdaaðili Landsmóts UMFÍ 50+ á Blönduósi.

Aðalbjörg sagði að ungmennasambandið hefði haft augastað á þessu móti um tíma og sótt um að halda það 2012 þegar USAH var 100 ára. Blönduósbær hvatti okkur til að sækja um aftur en bærinn hefur stutt USAH í bak og fyrir eins og Aðalbjörg komst að orði.

,,Hlakka alltaf til að keppa og hitta aðra keppendur“

SONY DSC

Frá keppni í ringó á Landsmóti UMFÍ 50+

Freyr Bjartmarz hefur tekið þátt í öllum Landsmótum UMFÍ 50+ til þessa. Hann segir að þátttakan á mótunum hafi gefið sér heilmikið og hann hlakki alltaf til að keppa og hitta aðra keppendur.

„Þessi mót hafa að mínu mati náð markmiðum sínum. Ég tók þátt í fyrsta mótinu á Hvammstanga og hef verið með síðan ásamt konunni minni, Margréti Hjálmarsdóttur. Mér fannst heldur betur vera kominn tími til að halda svona mót og mér finnst ungmennafélagshreyfingin standa sig vel í þessu. Það skiptir máli í mínum huga að þessi aldurshópur hafi að einhverju að stefna og eins og við vitum öll skiptir hreyfingin öllu máli. Ekki má gleyma félagsskapnum, hann er líka mikilvægur. Ég hef aðallega keppt í boccia og ringó. Á síðasta móti bætti ég sundinu við og ætla að keppa aftur í þeirri grein á mótinu í sumar,“ sagði Freyr Bjartmarz.

Freyr sagðist hafa keppt í sundi þegar hann var ungur að árum og það hefði verið óskaplega gaman að rifja upp gamla tíma og taka þátt í sundinu á Húsavík í fyrrasumar.

 

RSS Fréttir sambandsaðila