Hreyfivikan – ,,Mikil vakning fyrir göngu og hreyfingu almennt“

Hluti hópsins kominn saman við Húsgagnahöllina í gærkvöldi.

Hluti hópsins kominn saman við Húsgagnahöllina í gærkvöldi.

Hreyfivikan (Move Week) hófst sl. mánudag og stendur yfir fram á sunnudag. Þátttakan í þessu verkefni hefur aldrei verið meiri og víðs vegar um land standa bæjar- og íþróttafélög fyrir glæsilegri dagskrá. Gönguhópurinn Vesen og Vergangur stóð fyrir göngu í gærkvöldi í tengslum við Hreyfivikuna um Álafosskvosina, Helgafell og Varmá. Góð stemning var í göngunni en göngumenn voru hátt í 50 talsins.

,,Þetta gekk afskaplega vel í veðri sem var mun betra en búist var við. Vegalengdin varð 5,2 km og þetta tók klukkutíma og korter. Það var hugur í fólki eins og jafnan í þessum gönguhópi. Það er mikil vakning fyrir göngu af öllu tagi og alls staðar sér maður orðið fólk á göngu,“ sagði Trausti Pálsson göngustjóri í fastri þriðjudagsgöngu hópsins.

Hreyfivikan er almenningsíþrótta verkefni á vegum Ungmennafélag Íslands í samstarfi við yfir 200 grasrótarsamtök í Evrópu sem öllu eru aðilar að International Sport and Culture Association (ISCA).

Forvarnadagurinn haldinn í dag

Forvarnardagurinn 2014Forvarnardagurinn er haldinn í dag, miðvikudaginn 1. október, í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Ungmennafélags Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis.

Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.

Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.

Boðið til göngu í tengslum við Hreyfivikuna

Þessi skemmtilega mynd sem tekin var í gær er frá Hreyfivkunni á Fljótsdalshéraði.

Þessi skemmtilega mynd sem tekin var í gær er frá Hreyfivkunni á Fljótsdalshéraði.

Viðburður á vegum velferðasviðs Reykjavíkurborgar í tengslum við Hreyfiviku (Move Week) verður í dag. Þá býður Trausti Pálsson áhugasömum að ganga með sér um Álafosskvosina, Helgafell og Varmá.Mæting er við Húsgagnahöllina á Ártúnshöfða í horninu hjá grjóthleðslunni. Þar verður safnast saman í bíla og ekið á göngustað. Brottför frá bílaplani er kl. 18:05. Lengd göngu er 5,3 km. Hækkun er óveruleg.

Gangan hefst síðan í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ. Þaðan er haldið að Helgafelli og hlíðum þess fylgt upp í Skammadal. Þaðan liggur leiðin að Varmá og henni er fylgt niður í Álafosskvosina. Í Álafosskvosinni er kaffihús þar sem hægt er að hlýja sér yfir heitum kakóbolla eftir gönguna.

Hreyfivikan (Move Week, sem hófst í gær og stendur til 5. október er almenningsíþrótta verkefni á vegum Ungmennafélag Íslands í samstarfi við yfir 200 grasrótarsamtök í Evrópu sem öllu eru aðilar að International Sport and Culture Association (ISCA).

Hreyfivikan farin af stað – Bæjarbúar í Bolungarvík áhugasamir

Leikskóla og grunnskólabörn fengu afhent buff í morgun þegar Hreyfivikan hófst í Bolungarvík.

Leikskóla og grunnskólabörn fengu afhent buff í morgun þegar Hreyfivikan hófst í Bolungarvík.

Hreyfivikan (Move Week) hófst í dag og stendur til 5. október. Mikil og góð þátttaka er um allt land og dagskrá víðs vegar glæsileg og metnaðarfull í alla staði. Heilsubærinn og Bolungarvíkurkaupstaður tekur þátt í Hreyfivikunni sem haldin er um gjörvalla Evrópu. Markmið Hreyfivikunnar er að kynna kosti þess að taka virkan þátt í íþróttum og hreyfingu sér til heilsubótar. Hreyfivikan hófst með því að krakkar í leikskólanum og grunnskólanum fengu buff tengdu verkefninu.

Allar nánari upplýsingar um Hreyfiviku (Move Week) er að finna á http://www.iceland.moveweek.eu/

,,Krakkarnir voru ánægð að fá buffið í morgun og það eru allir bæjarbúar mjög jákvæðir fyrir Hreyfivikunni. Það verður frítt í sund í dag og þá verður meðal annars kennsla í sundtækni fyrir alla aldurshópa. Síðan verður eitthvað um að vera alla vikuna en á miðvikudaginn kemur leggjum við til að dagurinn verði bíllaus og vonum við að allir bæjarbúar taki virkan þátt og láti bílinn vera þann daginn,“ sagði Katrín Pálsdóttir,aðalbókari Bolungarvíkurkaupsstaðar og stjórnarmaður Heilsubæjarins.

Forvarnadagurinn 1. október – Ótvíræður árangur náðst á síðustu árum

Dorrit Moussaieff, forsetafrú, á meðal nemenda  á kynningarfundi vegna Forvarnadagsins í Ölduselsskóla.

Dorrit Moussaieff, forsetafrú, á meðal nemenda á kynningarfundi vegna Forvarnadagsins í Ölduselsskóla.

Kynningarfundur vegna Forvarnadagsins, sem haldinn verður í grunn- og framhaldsskólum landsins á miðvikudaginn kemur 1. október, var í Ölduselsskóla í Breiðholti í dag. Nemendur og forsvarsmenn skólans og fulltrúar þeirra aðila sem standa að Forvarnardeginum kynntu þar árangurinn sem náðst hefur á undanförnum árum.

Á kynningarfundinn mættu Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, forsetafrú Dorrit Moussaieff, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Bragi Björnsson skátahöfðingi. Valur Ragnarsson, forstjóri Medis og forvarsmaður Actavis á Íslandi, flutti ávarp en fyrirtækið hefur stutt Forvarnadaginn með myndarlegum hætti frá UMFÍ.

Unnið hörðum höndum að undirbúningi fyrir Hreyfiviku

Verið að hengja upp auglýsingaborða tengdan Hreyfivikunni í Grafarvogslaug.

Verið að hengja upp auglýsingaborða tengdan Hreyfivikunni í Grafarvogslaug.

Undirbúningur fyrir Hreyfivikuna (Move Week) er nú á lokastigi og hafa starfsmenn unnið hörðum höndum við að koma gögnum út um allt land til þeirra sem ætla að taka þátt í verkefninu í samstarfi við Ungmennafélag Íslands.

Í morgun voru sundstaðir á höfuðborgarsvæðinu að koma upp auglýsingaborðum sem verða uppi á umræddum stöðum meðan á verkefninu stendur. Sólveig Valgeirsdóttir, forstöðumaður Grafarvogslaugar, og Erla Sigrún Viggósdóttir, vaktformaður, sjást á myndinni hengja upp auglýsingaborða í afgreiðslu sundlaugarinnar. UMFÍ er í samstarfi við sundlaugar ÍTR en starfsmenn klæðast bolum verkefnisins meðan á Hreyfivikunni stendur.

Hreyfivikan hefst á mánudaginn kemur, 29. september, og stendur til 5. október og er ljóst að þátttakan verður góð víðs vegar um landið. Hreyfivikan er almenningsíþrótta verkefni á vegum Ungmennafélag Íslands í samstarfi við yfir 200 grasrótarsamtök í Evrópu sem öllu eru aðilar að International Sport and Culture Association (ISCA).

,,Tilhlökkun að vera með í þessu frábæra framtaki“

Mjög mikill áhugi er fyrir Hreyfiviku (Move Week) Í Vogum.

Mjög mikill áhugi er fyrir Hreyfiviku (Move Week) Í Vogum.

UMFÍ stendur fyrir Hreyfiviku sem hefst í næstu viku og mun standa yfir frá 29. september til 5. október. Hreyfivikan (Move Week) er haldin um gjörvalla Evrópu og ætla Ungmennafélagar í Þrótti úr Vogum að taka þátt í fyrsta skipti. Félagar í Þrótti eru hvattir til þess að taka þátt í Hreyfivikunni sem nú haldin í þriðja sinn í Evrópu. Aðstaða verður í skólanum, leikskólanum, félagsmiðstöðinni og Álfagerði til þess að taka þátt í Hreyfivikunni. Markmið Hreyfiviku þetta árið er að fá fjölskylduna til þess að hreyfa sig saman.

,,Undirbúningurinn hefur gengið vel og við erum mjög spennt að taka þátt í þessari viku í fyrsta skipti. Við ætlum að byrja rólega en þá verða allar mömmur velkomnar á æfingar hjá Þrótti. Við erum búin að fá eldri borgarana í Vogunum auk grunnskólans og leikskólans til að taka þátt í þessu með okkur. Það er bara tilhlökkun í öllum að vera með í þessu frábæra framtaki. Hreyfivikan vekur jákvæð viðbrögð á meðal bæjarbúa, allir eru spenntir að taka þátt,“ sagði sagði Tinna Hallgríms framkvæmdastjóri Þróttar í Vogum.

Styrkir úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ

Verkefnasjóður - haust 2014Umsóknarfrestur til að sækja um styrki úr Fræðslu- og verkefnasjóði Ungmennafélags Íslands er til 1. október. Umsóknum skal skilað rafrænt á þar til gerðum umsóknareyðublöðum sem er að finna á heimasíðu UMFÍ (www.umfi .is) undir Styrkir fyrir 1. október.

Sjóðurinn veitir m.a. styrki til félags- og íþróttastarfs ungmennafélagshreyfingarinnar með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun,í félagsmálum og félagsstarfi.

Rétt til styrkveitingar úr sjóðnum eiga allir félagar í ungmennafélögum sem eru virkir í starfi og hafa uppáskrift síns félags eða sambands til að afl a sér aukinnar þekkingar á sínu sérsviði sem gæti nýst viðkomandi félagi, sambandi og ungmenna-félagshreyfingunni í heild. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ, héraðssambönd, ungmennafélög og deildir innan þeirra rétt á að sækja um styrk úr sjóðnum.

Sjóðsstjórn er heimilt að veita styrki úr sjóðnum að eigin frumkvæði til verkefna sem ekki teljast til árlega verkefnahreyfingarinnar.

Nánari upplýsingar eru gefnar á þjónustumiðstöð UMFÍ í síma 568-2929.

Glæsileg dagskrá í tengslum við Hreyfiviku á Seyðisfirði

Hreyfivika 24. september

Dagskrá Hreyfiviku á Seyðisfirði er sérlega glæsileg.

,,Þetta er virkilega áhugavert og spennandi verkefni og markmiðið er að samfélagið taki virkan þátt í verkefninu. Verkefnið og flott og viðbrögðin sem við fáum hér í bænum lofa góðu. Bæjarbúar eru að sjá hvað er í gangi og eru spenntir að vera með. Það mikilvægt í mínu huga að vera með svona verkefni og vekja fólk til umhugsunar um hvað hreyfingin er mikilvæg í okkar lífi,“ sagði Eva Björk Jónudóttir forvarnarfulltrúi Seyðisfjarðarkaupsstaðar

Dagskrá Hreyfiviku (Move Week) á Seyðisfirði sem bæjarfélagið, fyrirtæki, stofnanir og íþróttafélög hafa unnið að með myndarbrag er sérlega glæsileg. Má þar nefna að Pæjupúl þjófstartar vikunni og býður upp á sérstakt gæjapúl fyrir karla föstudaginn 26. september kl. 18-19. Lunch beat verður í bíósalnum mánudaginn 29. september kl. 12-13 í boði LungA Skólans. Íþróttafélagið Huginn býður upp á opnar æfingar alla vikuna. Æfingar má sjá á töflu í íþróttahúsinu og inni á seydisfjordur.is.

Enn er hægt að taka þátt í gönguverkefni HSK

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Úr göngu sem félagar í HSK tóku þátt í.

Enn er hægt að taka þátt í gönguverkefni HSK, með því að ganga á fjöllin sem tilnefnd voru í verkefnið. Á góðviðrisdögum á haustin eru oft frábært útsýni af fjöllum og eru sunnlendingar hvattir til að huga að þessu verkefni næstu vikurnar. Fólk er hvatt til að skrá sig til þátttöku í gönguverkefninu og taka þátt í léttum leik.

Fara þarf inn á heimasíðu HSK, www.hsk.is og prenta út sérstakt þátttökublað. Þar skal skrá niður nöfn göngufólks og hvenær gengið var á viðkomandi fjall. Skilafrestur er til 15. október. Í lok október verða svo heppnir þátttakendur dregnir út og fá þeir vöruúttekt í Intersport sem er stuðningsaðili verkefnisins. Þeir sem ganga á öll fjöllin, sextán að tölu, fá sérstakt viðurkenningarskjal.

Fjöllin í verkefninu í ár eru: Fagrafell, Dalafell, Vörðufell, Hvolsfjall, Búrfell í Grímsnesi, Stóri-Dímon, Ingólfsfjall, Þríhyrningur, Gullkista, Skarðfjall, Þórólfsfell, Langholtsfjall, Gíslholtsfjall, Mosfell, Bjólfell og Miðfell. Hægt er að afla sér nánari upplýsinga um fjöllin í verkefninu á heimasíðu HSK, slóðin er www.hsk.is

,,Allir mjög spenntir og áhugasamir fyrir Hreyfiviku á Grundarfirði“

Mjög mikill áhugi er fyrir Hreyfiviku (Move Week) á Grundarfirði..

Mikill áhugi er fyrir Hreyfiviku (Move Week) á Grundarfirði..

Grundarfjarðarbær tekur þátt í Hreyfiviku (Move Week) dagana 29. september – 5. október næstkomandi. Hreyfivikan er unnin í samstarfi við UMFÍ. Markmið Hreyfiviku er að vekja athygli á því skipulagða starfi sem er til staðar í samfélaginu og hvetja fólk til að taka þátt í því. Meðal þess sem í boði verður eru opnar æfingar hjá Ungmennafélagi Grundarfjarðar. Þá verða allir skipulagðir æfingatímar opnir og gefst börnum og fullorðnum tækifæri til þess að prufa ákveðna grein án endurgjalds.

Grundarfjarðarbær hvetur félagasamtök, fyrirtæki, þjálfara og alla þá sem eru áhugasamir um hreyfingu að taka þátt í vikunni. Dagskráin er í vinnslu og eru bæjarbúar hvattir til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri við menningar- og markaðsfulltrúa í netfangið alda@grundarfjordur.is

,,Undirbúningur okkar fyrir Hreyfivikuna gengur mjög vel og allir mjög áhugasamir og spenntir fyrir þessu verkefni. Dagskráin er að verða fullgerð en hún er metnaðarfull í alla staði og margir aðilar munu koma að henni með áhugaverð verkefni. Við verðum vör við mikinn áhuga á svæðinu og þátttakan á eftir að verða góð,“ sagði Alda Hlín Karlsdóttir menningar- og markaðsfulltrúi Grindarfjarðarbæjar.

,,Áhuginn mikill og stefnir í góða þátttöku í Hreyfiviku á Austurlandi“

Hreyfivika 17. september 2014,,Dagskráin hjá okkur á Hreyfivikunni er orðin ansi myndarleg. Áhuginn er víða en á Fljótsdalshéraði sem er mjög ánægjulegt. Seyðfirðingar koma sterkir inn og þar verður áhugaverð dagskrá í gangi og Fljótsdalshérað er að vinna í sinni dagskrá sem verður myndarleg í alla staði. Kirkjan verður með sína dagskrá á Hreyfivikunni og að sjálfsögðu verða íþróttafélögin mjög öflug,“ sagði Hildur Bergsdóttir framkvæmastjóri Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands.

Hreyfivikan hefst 29. september og stendur til 5. október og er ljóst að þátttakan verður góð víðs vegar um landið. Hreyfivikan er almenningsíþrótta verkefni á vegum Ungmennafélag Íslands í samstarfi við yfir 200 grasrótarsamtök í Evrópu sem öllu eru aðilar að International Sport and Culture Association (ISCA).

,,Allir tilbúnir að leggja sitt á vogaskálarnar fyrir Hreyfiviku í Skagafirði“

Mikill áhugi er fyrir Hreyfivikunni í Skagafirði.

Mikill áhugi er fyrir Hreyfivikunni í Skagafirði.

Hreyfivikan (Move Week) verður haldin dagana 29. september til 5. október. Ljóst er að mikil og góð þátttaka verður um allt land. Sambandsaðilar UMFÍ í samvinnu við sveitarfélög, skóla og aðrar stofnanir munu taka virkan þátt í Hreyfivikunni ”MOVE WEEK” og bjóða upp á fjölda viðburða og tækifæra fyrir fólk til að kynna sér fjölbreytta hreyfingu sér til heilsubótar.

Fylgist með á www.umfi.is og á http://www.iceland.moveweek.eu/ skráðu þig og vertu með okkur í því að koma Ísland á hreyfingu í HREYFIVIKUNNI.

Félagar í Ungmennasambandi Skagafjarðar hafa verið að skipuleggja Hreyfivikuna í Skagafirði og segir Dúfa Ásbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri UMSS, verða var við mikinn áhuga fólks í Skagafirði enda verkefnið spennandi og áhugavert.

Hausthlaup Ungmennafélags Akureyrar

Frá Hausthlaupi Ungmennafélags Akureyrar.

Frá Hausthlaupi Ungmennafélags Akureyrar.

Hausthlaup Ungmennafélags Akureyrar fer fram 18. september en þetta hlaup hefur verið haldið s.l. fjögur ár. Hlaupið hefst klukkan 19.30 frá Átaki þar sem skráning í hlaupið fer einnig fram. Þátttökugjald er 500 kr.Hlaupinn er 10 km hringur frá Átaki, sami hringur og í Akureyrarhlaupi.

Hlaupaleið: Byrjað á Glerárgötu við Hof. Hlaupið niður Strandgötu og inn á Hjalteyrargötu, beygt niður Gránufélagsgötu, norður Laufásgötu og upp Silfurtanga. Hjalteyrargötu og Krossanesbraut fylgt til norðurs að Óseyri.

Hlaupið eftir Óseyrinni og tekinn hringur við smábátahöfnina. Sömu leið fylgt til baka að Hof, haldið áfram suður eftir Glerárgötu og Drottningarbraut að snúningspunkti sem er á móts við Mótorhjólasafn Íslands, hlaupið til baka eftir Drottningarbraut og Glerárgötu og endað við Hof.

,,Ætlum að virkja sem flesta á Hreyfiviku í Árborg“

Hreyfivika 17. september 2014Sveitarfélagið Árborg tekur þátt í hreyfiviku eða Move Week dagana 29. september til 5. október. Áhugasamir sem vilja setja upp viðburð tengda heilsu og hreyfingu geta haft samband við Braga Bjarnason, menningar- og frístundafulltrúa Árborgar,bragi@arborg.is eða í síma 480-1900. Allir viðburðir verða skráðir niður og auglýstir svo sem flestir geti tekið þátt.

Markmiðið er að auka hreyfingu almennings og um leið bæta heilsuna. Nánari upplýsingar um hreyfivikuna má finna áhttp://www.iceland.moveweek.eu/

,,Við ætlum eins og við getum að taka þátt í Hreyfivikunni með ýmsum hætti. Það verður m.a. með fyrirlestrum og því sem tengist heilsu og næringu. Frískir flóamenn ætla að taka vel á móti byrjendum og þeim sem hafa alla jafnan ekki hreyft sig mikið og fleiri dagskrárliðir eiga eftir að bætast við eftir sem nær dregur. Við ætlum að virkja verslanir með íþróttavörur og líkamsræktarstöðvar og fá þessa aðila í lið með okkur. Almenningur er spenntur fyrir þessu verkefni og vonandi verður þátttakan góð,“ sagði Bragi Bjarnason menningar- og frístundafulltrúi Árborgar.

,,Finnum fyrir miklum áhuga á Hreyfiviku í Grindavík“

Markmið Hreyfiviku í Grindavík er að fá Grindvíkinga á öllum aldri til viðtækari þátttöku í hreyfingu, útivist og íþróttum.

Markmið Hreyfiviku í Grindavík er að fá Grindvíkinga á öllum aldri til viðtækari þátttöku í hreyfingu, útivist og íþróttum.

Undirbúningur fyrir Hreyfiviku (Move Week) stendur yfir víðs vegar um land en ljóst er að mörg sveitarfélög ætla að taka þátt í vikunni. Grindavíkurbær er eitt þeirra sveitatfélaga sem tekur tekur þátt í Hreyfiviku (Move Week) sem stendur yfir dagana 29. sept. – 5. okt. nk. í samstarfi við UMFÍ.

,,Þetta er stórskemmtilegt heilsuverkefni þar sem vonast er til að allar stofnanir bæjarins, UMFG, félagasamtök, þjálfarar, fyrirtæki og allir áhugasamir um holla hreyfingu taki þátt í. Um 25 manns mætti á kynningar- og undirbúningsfund á Salthúsinu í Grindavík í morgun. Fundurinn tókst virkilega vel og er undirbúningurinn kominn á fullt. Við finnum fyrir miklum áhuga og erum bjartsýnir á góða þátttöku,“ sagði Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar.

Dagur íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru er í dag 16. september.

Dagur íslenskrar náttúru er í dag 16. september.

Dagur íslenskrar náttúru er í dag og af því tilefni er rifjað upp gamla slagorðið Hreint land – fagurt land. Fátt hefur mótað íslenska þjóð eins og náttúran. Íslendingar hafa aðlagað líf sitt samspili elds og ísa, dyntóttum veðurguðum og kröftugum sjávarföllum. Um leið hafa þeir notið alltumlykjandi náttúrufegurðar og haft lífsviðurværi sitt af ríkulegum gjöfum náttúrunnar.

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert og eru einstaklingar, skólar, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök hvött til að hafa daginn í huga í starfsemi sinni. Á þessum degi er hollt að staldra við og njóta náttúrunnar í umhverfi okkar, virða hana fyrir okkur, velta fyrir okkur fjölbreytileikanum, dást að ólíkum formum, litum, áferð, hljóðum og lykt og síðast en ekki síst átta okkur á þeim fjölmörgu og verðmætu gildum sem felast í náttúrunni og mikilvægi þess að hlúa að velferð hennar.

Dagur íslenskrar náttúru var stofnaður þann 16. september árið 2010. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar og stofnaður til heiðurs því mikla starfi sem Ómar hefur lagt til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru sem og allra þeirra sem lagt hafa sitt af mörkum til að fræða um íslenska náttúru. Þessa dags er minnst um land allt í dag.

Sigurför glímufólks á Hálandaleikana í Skotlandi

Hálandaleikar

Annika Rut, Bylgja, Hanna Kristín og Guðrún Inga.

Sunnlenskt glímufólk gerði víðreisn í backhold fangbrögðum á hálandaleikum í Skotlandi á dögunum en farið var í tvær keppnisferðir þangað. Í fyrri ferðinni  keppti yngra glímufólkið á hálandaleikunum „Bridge en þar sigraði Guðrún Inga Helgadóttir í -54 kg flokki sem var einnig skoskt meistaramót. Annika Rut Arnardóttir sigraði svo opna flokk kvenna þar sem Hanna Kristín Ólafsdóttir varð í öðru sæti.

Í stúlknaflokki 16 ára og yngri snérist það svo við en þar sigraði Hanna og Annika varð í öðru sæti. Í unglingaflokki varð svo Þorgils Kári Sigurðsson í öðru sæti, Eiður Helgi Benediktsson í þriðja sæti og Jón Gunnþór Þorsteinsson hafnaði í fjórða sæti. Glæsilega gert hjá þessu unga og efnilega glímufólki.

Í seinni ferðinni var svo einn sunnlendingur, Ólafur Oddur Sigurðsson en fyrst keppti hann í hálandaleikunum  “Bute Highland Games” og gerði hann sér lítið fyrir og sigraði opna flokk  karla af miklu harðfylgi. Ólafur keppti svo á Grasmere í Englandi en það er sterkasta mót ársins í þessari tegund fangbragða ár hvert.  Þar gerði Ólafur sér lítið fyrir og sigraði opna flokk karla af miklu öryggi og varð þar með fyrstur íslendinga til að sigra þetta fornfræga mót.

Að lokum keppti Ólafur svo á stærstu hálandaleikum í Skotlandi ár hvert “The Cowal Gathering” og er skemmst frá því að segja að Ólafur sigraði opna flokkinn af miklu öryggi, en hann sigraði allar 18 viðureignir sínar þennan dag  en þetta var þriðja árið í röð sem Ólafur sigrar þetta mót.

María Birkisdóttir, USÚ, Íslandsmeistari í 5 km hlaupi

María Birkisdóttir, USÚ, Íslandsmeistari í 5 km hlaupi kvenna.

María Birkisdóttir úr Ungmennasambandinu Úlfljóti, USÚ, sigraði á Meistaramóti Íslands í 5 km hlaupi á braut sem fram fór a Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í gærkvöldi. María kom í mark á 18 mínútum 48,36 sek. Kári Steinn Karlsson ÍR sigraði í 10 km hlaupi karla. Hann kom í mark á 31:33,28 mín.

Ívar Jósafatsson, Ármanni, varð annar í karlaflokki á 31:21,82 mín. og Bjarki Freyr Rúnarsson, ÍR, varð 3. á 38:08,30 mín.

Guðlaug Edda Hannesdóttir, Fjölni, varð í öðru sæti í kvennaflokki. Hún kom í mark á 18:55,43 mín. en í þriðja. sæti var Fríða Rún Þórðardóttir ÍR á 19:21,71 mín.

Hreyfivikan ,,MOVE WEEK” dagana 29. september – 5. október

Move Week 2014

Hreyfivikan „MOVE WEEK“ fer fram um gjörvalla Evrópu dagana 29.september – 5.október.

Hreyfivikan „MOVE WEEK“ fer fram um gjörvalla Evrópu dagana 29.september – 5.október 2014. Hreyfivikan ”MOVE WEEK” er hluti af “The NowWeMove 2 012-2020 ” herferð International Sport and Culture Association (ISCA) sem hefur það að markmiði að kynna kosti þess að taka virkan þátt í hreyfingu og íþróttum til heilsubótar.

Framtíðarsýn herferðarinnar er “að 100 milljónir fleiri Evrópubúa verði orðnir virkir í hreyfingu og íþróttum fyrir árið 2020” ”að fólk finni SÍNA hreyfingu sem hentar því”. Hreyfivikan er almenningsíþrótta verkefni á vegum Ungmennafélag Íslands í samstarfi við yfir 200 grasrótarsamtök í Evrópu sem öllu eru aðilar að International Sport and Culture Association (ISCA).

Sambandsaðilar UMFÍ munu taka virkan þátt í Hreyfivikunni ”MOVE WEEK” og bjóða upp á fjölda viðburða og tækifæra fyrir fólk til að kynna sér fjölbreytta hreyfingu sér til heilsubótar. Fylgist með á www.umfi.is og á http://www.iceland.moveweek.eu/  skráðu þig og vertu með okkur í því að koma Ísland á hreyfingu í HREYFIVIKUNNI.

Allar nánari upplýsingar gefur Sabína landsfulltrúi UMFÍ sabina@umfi.is