Ágætur árangur á Meistaramóti UMSK í sundi

Mótið tókst vel í alla staði.

Mótið tókst vel í alla staði.

Meistaramót UMSK í sundi var haldið í Sundlaug Kópavogs um helgina. Tvö lið mættu til keppni þ.e. frá Breiðablik og Aftureldingu. Mótið tókst í alla staði vel. Veitt voru verðlaun fyrir stigahæstu einstaklinga á mótinu. Eftirtaldir aðilar fengu verðlaun.

Í kvennaflokki 13-14 ára hafnaði Lif Þrastardóttir, Breiðabliki, í efsta sæti með alls 987 stig. Aþena Karaolani, Aftureldingu, lenti í öðru sæti með 741 stig og Belinda Cardew, Breiðabliki, varð í þriðja sæti með 676 stig. Í karlaflokki 13- 14 ára varð Brynjólfur Óli Karlsson, Breiðablik, í efsta sæti með 1015 stig. Bjartur Ólafsson , UMFA, varð í öðru sæti með 882 stig og Baldur Skúlason, Breiðabliki, lenti í þriðja sæti með 404 stig.

Í flokki 15 ára og eldri í kvennaflokki varð Ragnheiður Karlsdóttir, Breiðabliki, í fyrsta sæti með 1058 stig, Gunnlaug Margrét, Breiðabliki, varð önnur með 1055 stig og Athena Nevelevex , Breiðabliki varð í þriðja sæti með 984 stig stig. Í karlaflokki 15 ára eldri sigraði Sveinbjörn Pálmi Örnuson, Breiðabliki, með 1025 stig, Huginn Hilmarsson, Aftureldingu, varð annað með 991 stig og Daníel Már Kristinsson, Breiðabliki, varð þriðji með 918 stig.

Vel heppnaður kynningarfundur á Þórshöfn

Þessar hressu heimastúlkur mættu á kynningarfundinn á Þórshöfn.

Þessar hressu heimastúlkur mættu á kynningarfundinn á Þórshöfn.

Fyrir helgina var haldinn kynningarfundur með félögum í Ungmennafélagi Langnesinga á Þórshöfn. Fundurinn var vel heppnaður og vel sóttur af heimamönnum.Ómar Bragi Stefánsson og Sigurður Guðmundsson mættu fyrir hönd UMFÍ á fundinn.

Á fundinum voru kynntir þeir möguleikar sem í boði eru þegar sótt er um styrki. Þá fór ennfremur fram kynning á starfsemi Ungmennafélags Íslands.

Eins fór fram kynning á námskeiðinu Sýndu hvað í þér býr en megin markmið námskeiðsins er að er að sjá félagsmönnum fyrir fræðslu í ræðumennsku og fundarsköpum.

Úthlutun úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ í október 2014

UMFÍ- logo 2012Úthlutaðir hafa verið styrkir úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ. Sjóðurinn veitir m.a. styrki til félags- og íþróttastarfs ungmennafélagshreyfingarinnar með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun,í félagsmálum og félagsstarfi.

Rétt til styrkveitingar úr sjóðnum eiga allir félagar í ungmennafélögum sem eru virkir í starfi og hafa uppáskrift síns félags eða sambands til að afl a sér aukinnar þekkingar á sínu sérsviði sem gæti nýst viðkomandi félagi, sambandi og ungmenna-félagshreyfingunni í heild. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ, héraðssambönd, ungmennafélög og deildir innan þeirra rétt á að sækja um styrk úr sjóðnum.

Lesa meir:Úthlutun úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ í október 2014

Umgjörðin glæsileg á fyrsta dansmóti UMSK

Fyrsta dansmót UMSK gekk vonum framar.

Fyrsta dansmót UMSK gekk vonum framar.

Fyrsta dansmót UMSK sem haldið var í Smáranum Kópavogi á sunnudag gekk vonum framar. Umgjörðin glæsileg, framkvæmdin óaðfinnanleg og ótrúlega flottir dansarar. Valdimar Leó Friðriksson, formaður UMSK, setti mótið og hafði á orði að líklega væri þetta mót komið til að vera miðað við þátttökuna og ánægju keppenda og gesta með mótið.

Stigakeppni var á milli þátttökufélaga og stóð Dansíþróttafélaga Kópavogs uppi sem sigurvegari og fékk að launum veglegan bikar. Það er nokkuð ljóst að það eru bjartir tímar framundan í dansíþróttinni ef við miðum við þann fjölda glæsilegra danspara sem þátt tóku í mótinu.

Rætt um stofnun nýs ungmennafélags í Flóahreppi

Frá fundinum í Félagslundi.

Frá málþinginu sem haldið var í Félagslundi.

Málþing var haldið í gærkvöldi í Félagslundi í Gaulverjabæ þar sem rætt var um hugsanlega sameiningu ungmennafélaganna í Flóahreppi. Stefán Geirsson, formaður Umf. Samhygðar, hafði framsögu og byrjaði á því að fara yfir helstu þætti í starfi félaganna þriggja. Síðan var fundargestum skipt niður í þrjá vinnuhópa sem ræddu kosti og galla sameiningar. Í lok fundar voru niðurstöður hópanna kynntar.

Fram kom að margir kostir eru við sameiningu sem m.a. tengjast íþróttastarfinu og ýmsum menningarviðburðum sem félögin hafa staðið fyrir. Bent var á að börnin í Flóaskóla litu á sig sem eina heild og því væri eðlilegra að þau væru öll í sama félaginu. Nú þegar væri til staðar vísir að samstarfi í gegnum Þjótanda sem hefði gefist vel. Þá var rætt um að boðleiðir myndu styttast og að auðveldara yrði að manna stjórn í einu félagi heldur en þremur. Rætt var um fjármál og eignir félaganna og voru fundarmenn sammála um að vel þyrfti að fara yfir þau mál.

Niðurstaða málþingsins var að halda áfram vinnu og undirbúningi að stofnun nýs ungmennafélags sem byggði á grunni gömlu félaganna.

Starfsamur fundur og góðar umræður

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, í ræðustóli á sambandsráðsfundinum.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, í ræðustóli á sambandsráðsfundinum.

39. Sambandsráðsfundur Ungmennafélags Íslands var haldinn í Stjörnuheimilinu í Garðabæ í gær. Fundurinn var starfsamur en hátt í 50 fulltrúar frá sambandsaðilum UMFÍ sóttu fundinn. Umræður voru góðar og fjölmargar tillögur voru samþykktar. Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, sagði í ræðu sinni við setningu fundarins að niðurstöður 48. Sambandsþings UMFÍ, sem haldið var í Stykkishólmi fyrir ári, hafa mótað og sett mark sitt á starfsemi liðins starfsárs.

Helga Guðrún sagði ennfremur að á liðnu starfsári hefði verið unnið að mörgum verkefnum innan hreyfingarinnar, þau þróuð og endurbætt í takt við tíðarandann og þarfir samfélagsins. Verkefnin hafi fengið góðar undirtektir og þátttakan í þeim hafi verið góð.

Helga Guðrún fór síðan yfir starfsárið vítt og breitt. Helga Guðrún sagðist fyrir sína hönd og stjórnar UMFÍ vilja þakka ungmennafélögum og öllu því góða fólki sem hefur lagt hreyfingunni lið með einum og öðrum hætti.

 

39. Sambandsráðsfundur UMFÍ haldinn í Garðabæ

umfi39. Sambandsráðsfundur Ungmennafélags Íslands verður um helgina í Stjörnuheimilinu í Garðabæ. Fundurinn verður settur klukkan 9 á laugardagsmorguninn og þá verða kosnir starfsmenn fundarins, fundastjórar og fundarritarar. Á fimmta tug fulltrúa frá sambandsaðilum UMFÍ sækja fundinn og er gert ráð að honum ljúki rúmlega 17.00 síðdegis.

Gönguverkefni HSK senn að ljúka

Fjallaverkefni

Úr gönguferð á vegum HSK.

Gönguverkefni HSK er senn að ljúka, en það mun standa til 15. október nk. Það er því enn hægt að taka þátt með því að ganga á fjöllin sem tilnefnd voru í verkefnið. Svo er um að gera að skrá þátttökuna í gönguverkefninu og taka þátt í léttum leik. Fara þarf inn á heimasíðu HSK, www.hsk.is og prenta út sérstakt þátttökueyðublað. Þar skal skrá niður nöfn göngufólks og hvenær gengið var á viðkomandi fjall. Skilafrestur er til 15. október.

Í lok október verða svo heppnir þátttakendur dregnir út og fá þeir vöruúttekt í Intersport sem er stuðningsaðili verkefnisins. Þeir sem ganga á öll fjöllin, sextán að tölu, fá sérstakt viðurkenningarskjal. Fjöllin í verkefninu í ár eru: Fagrafell, Dalafell, Vörðufell, Hvolsfjall, Búrfell í Grímsnesi, Stóri-Dímon, Ingólfsfjall, Þríhyrningur, Gullkista, Skarðfjall, Þórólfsfell, Langholtsfjall, Gíslholtsfjall, Mosfell, Bjólfell og Miðfell. Hægt er að afla sér nánari upplýsinga um fjöllin í verkefninu á heimasíðu HSK, slóðin er www.hsk.is.

Málþing um framtíð ungmennafélaganna í Flóahreppi

SONY DSC

Málþing um framtíð ungmennafélagana í Flóahreppi fer fram nk. mánudag.

Nú þegar 10 ár eru liðin síðan Flóaskóli var stofnaður og sveitarfélagið Flóahreppur varð til í kjölfarið hafa ungmennafélögin í Flóahreppi ákveðið að boða til málþings um framtíð ungmennafélaganna í Flóahreppi. Í okkar samfélagi þar sem gömlu hreppamörkin verða sífellt óljósari heyrast oft raddir sem vilja að í Flóahreppi verði eitt ungmennafélag sem haldi utan um íþrótta- og menningarstarfsemi sveitarfélagsins. Börnin í sveitinni séu saman í skóla og keppi nú þegar undir sama merki í íþróttum.

Á málþinginu verður farið yfir þær sameiningarhugmyndir sem stjórnir ungmennafélaganna hafa rætt á síðustu misserum og í kjölfarið verða almennar umræður um hverskonar íþrótta- og menningarlíf íbúar í Flóahreppi vilja að fari fram í sveitinni. Hvernig er hægt að hafa starfið sem fjölbreyttast og að sem flestir vilji taka þátt?

Málþingið mun fara fram í Félagslundi mánudagskvöldið 13. október og hefst kl 20:30.
Félögin hvetja alla þá sem áhuga hafa að mæta og viðra sínar skoðanir á málinu. Foreldrar barna á skólaaldri eru hvattir til að koma og móta þannig framtíðina í íþrótta- og ungmenningarstarfi sveitarinnar.

10. stjórnarfundur UMFÍ haldinn 19. september 2014

Stjórn UMFÍ 2013-201510. stjórnarfundur UMFÍ haldinn 19. september 2014 í Þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjkavík.

Hægt er að sækja fundargerðina hér: 10.stjórnarfundargerð

9. stjórnarfundur haldinn 29. ágúst 2014

Stjórn UMFÍ 2013-20159. stjórnarfundur UMFÍ haldinn 29. ágúst 2014 í Kaupmannahöfn

Hægy er að sækja fundargerðina hér: 9.stjórnarfundargerð

Hreyfivikan MOVE WEEK tókst vel – yfir 15.000 tóku þátt

Frá Hreyfivikunni á Skagaströnd.

Frá Hreyfivikunni á Skagaströnd.

Hreyfivikan MOVE WEEK sem fram fór dagana 29. september til 5. október síðastliðinn tókst í alla staði mjög vel og almenn ánægja er með verkefnið. Ungmennafélag Íslands náði markmiðum sínum fyrir árið í ár því viðburðir voru um 250 á landinu öllu og yfir 15.000 manns tóku þátt. Til samanburðar voru um 50 viðburðir á Íslandi í Hreyfivikunni árið 2013 og markmiðið var að fjölga viðburðum um helming. Hreyfivikan MOVE WEEK fór fram í nærri fjörtíu Evrópulöndum á sama tíma. Miðað við höfðatölu gaf Ísland öðrum þjóðum ekkert eftir.

Hreyfivikan fór fram með einum eða öðrum hætti í 45 þéttbýliskjörnum á landinu og hvert samfélag sneið sér stakk eftir vexti. Fjölbreytileiki viðburða var mikill og eitthvað í boði fyrir alla aldurshópa. Ungmennafélög og sambandsaðilar voru með opnar æfingar, sveitarfélög buðu frítt í sund í vikunni, dvalarheimili voru með dagkrá fyrir íbúa sína, leikskólar brugðu á leik, grunnskólar voru með fjölbreytta viðburði, veitingastaðir tóku víða vel í verkefnið sem og fyrirtæki og einstaklingar. Markmið verkefnisins er að fjölga þeim sem hreyfa sig reglulega og hvetja alla til að finna sína uppáhalds hreyfingu og því ættu allir að hafa fundið eitthvað við hæfi.

Ungmennafélag Íslands vonar að sem flestir hafi notið vikunnar í leik og starfi og þakkar öllum þeim sem þátt tóku í verkefninu fyrir þeirra framlag. Boðberar hreyfingar halda áfram að virkja sitt samfélag því Hreyfivikan sjálf er ekki eina vika hreyfingar árinu því allar 52 vikur ársins ættu að vera hreyfivikur hjá öllum.

Litli Kompás – næstu námskeið í Gufunesbæ og á Akureyri

Litli KompásÍ tilefni af útgáfu bókarinnar Litli kompás, handbók um mannréttindamenntun fyrir börn á aldrinum 7 – 13 ára, stendur Æskulýðsvettvangurinn og Félag fagfólks í frítímaþjónustu með stuðningi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir fimm námskeiðum í notkun á bókinni. Litli kompás er handbók um mannréttindamenntun fyrir börn sem nýtist fagfólki í æskulýðsmálum og öllum þeim sem vinna með börnum.

Í handbókinni er fjallað um lykilhugtök á sviði mannréttinda og réttinda barna. Kjarni bókarinnar er 40 fjölbreytt verkefni sem byggjast á virkum kennsluaðferðum og er ætlað að hvetja og örva áhuga og vitund barna um mannréttindi í eigin umhverfi. Verkefnin eiga ennfremur að þroska gagnrýna hugsun, ábyrgð og réttlætiskennd og stuðla að því að börn læri að grípa til aðgerða og leggja sitt af mörkum til hagsbóta fyrir samfélagið. Auk þess er í bókinni fræðileg umfjöllun um þrettán lykilatriði mannréttinda, svo sem lýðræði, borgarvitund, kynjajafnrétti, umhverfismál, fjölmiðla og ofbeldi.

Kennari á námskeiðinu er Jóhann Þorsteinsson, M.Ed. í menntunarfræðum og sviðsstjóri æskulýðssviðs KFUM og KFUK á Íslandi. Næstu námskeið verða annað kvöld 9. október í í Hlöðunni, frístundamiðstöð í Gufunesbæ við Gufunesveg og 22. október í Rósenborg, Skólastíg 2 á Akureyri. Bæði námskeiðin standa yfir frá kl. 13.00-17.00. Skráning fer fram á netfanginu ragnheidur@aeskulydsvettvangurinn.is Við skráningu þarf að koma fram nafn, netfang og starfsvettvangur. Þátttökugjald er 1000kr. og greiðist í upphafi námskeiðs. Innifalið í þátttökugjaldi eru léttar veitingar.

Víðavangshlaupasyrpa hjá Ungmennafélagi Akureyrar

UFA hlaup

Þátttaka í hlaupunum er opin öllum og það kostar ekkert að ver ameð.

Ungmennafélag Akureyrar stendur fyrir víðavangshlaupasyrpu í október og nóvember og fór fyrsta hlaupið fram um liðna helgi. Alls verða hlaupin fjögur og í hvert skipti verður keppt í tveimur vegalengdum, styttra hlaupi sem verður 1000–1300 m og svo lengra hlaupi sem verður 5–8 km. Keppt verður í stigakeppni í þremur aldursflokkum, 0–11 ára, 12–16 ára (í styttri vegalengdinni) og 17 ára og eldri (sameiginleg stigakennni fyrir styttra og lengra hlaupið, fyrir hvern einstakling gilda stigin úr því hlaupi sem hann var stigahærri í).

Fyrsta sæti í hverju hlaupi gefur 10, stig, annað sæti 9 stig og þannig koll af kolli niður í 1 stig. Þrjú bestu hlaup hvers einstaklings telja síðan til samanlagðra stiga og að loknu síðasta hlaupinu verða veitt verðlaun frá 66°N fyrir efstu sæti í hverjum flokki.

Hlaupin verða haldin á laugardögum kl. 11:00 eftirtalda laugardaga: 18. október, 1. nóvember og 15. nóvember. Þátttaka er opin öllum og það kostar ekkert að vera með. Skráning á staðnum frá kl. 10:30 á hlaupadag.

Ungmennafélagið Stjarnan Íslandsmeistari í knattspyrnu

Sjörnumenn fagna Íslandsmeistaratitlinum eftir magnaðan úrslitaleik gegn FH.

Sjörnumenn fagna Íslandsmeistaratitlinum eftir magnaðan úrslitaleik gegn FH.

Stjarnan er Íslandsmeistari karla í knattspyrnu í fyrsta skiptið í sögu félagsins eftir 2-1 sigur gegn FH í úrslitaleik Pepsi-deildarinnar.Ólafur Karl Finsen skoraði bæði mörk Stjörnunnar í ótrúlega dramatískum leik í Kaplakrika í Hafnarfirði, en sigurmarkið kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

FH-ingar fengu nokkur góð færi í stöðunni 1-1, þegar þeir voru manni fleiri, en tókst ekki að nýta þau. Stjörnumenn gáfust aldrei upp og uppskáru magnaðan sigur.

Stjarnan tapaði ekki leik í Pepsídeildinni, vann 15 og gerði sjö jafntefli. Uppskera Stjörnunnar á þessu tímabili er frábær svo ekki sé meira sagt því kvennalið félagsins varð Íslands- og bikarmeistari.

Líf og fjör um allt land á Hreyfivikunni

Stemningin var góð í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra í gær

Stemningin var góð í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra í gær

Hreyfivikan „MOVE WEEK“ hófst sl. mánudag og lýkur á sunnudag. Hreyfivikan er almenningsíþrótta verkefni á vegum UMFÍ í samstarfi við yfir 200 grastrótarsamtök í Evrópu sem öllu eru aðilar að ISCA. Eins og áður hefur komið fram er dagskrá verkefnisins glæsileg og metnaðarfull um allt land.

Það var líf og fjör í Fjölbrautaskóla Norðlands vestra í gær. Dagurinn var helgaður forvörnum en nemendur á 1. og 2. ári fengu m.a kynningu á Hreyfivikunni og Ringo íþróttinni. Það skapaðist mikil stemmning í ringó og bros var á öllum þátttakendum þegar òvissan um íþróttina leið hjá. Flott ungmenni og gaman að koma í heimsókn í FNV.

Þrjú sveitarfélög á sambandssvæði HSK verða með í ár og er fjölmargt í boði sem íbúar og sunnlendingar allir eru hvattir til að taka þátt í. Þátttakendur eru minntir á leik vikunnar á fésbókarsíðu UMFÍ. Vegleg verðlaun í boði, m.a. hlaupaskór frá Adidas og vörur frá 66°Norður.

Hreyfivikan – ,,Mikil vakning fyrir göngu og hreyfingu almennt“

Hluti hópsins kominn saman við Húsgagnahöllina í gærkvöldi.

Hluti hópsins kominn saman við Húsgagnahöllina í gærkvöldi.

Hreyfivikan (Move Week) hófst sl. mánudag og stendur yfir fram á sunnudag. Þátttakan í þessu verkefni hefur aldrei verið meiri og víðs vegar um land standa bæjar- og íþróttafélög fyrir glæsilegri dagskrá. Gönguhópurinn Vesen og Vergangur stóð fyrir göngu í gærkvöldi í tengslum við Hreyfivikuna um Álafosskvosina, Helgafell og Varmá. Góð stemning var í göngunni en göngumenn voru hátt í 50 talsins.

,,Þetta gekk afskaplega vel í veðri sem var mun betra en búist var við. Vegalengdin varð 5,2 km og þetta tók klukkutíma og korter. Það var hugur í fólki eins og jafnan í þessum gönguhópi. Það er mikil vakning fyrir göngu af öllu tagi og alls staðar sér maður orðið fólk á göngu,“ sagði Trausti Pálsson göngustjóri í fastri þriðjudagsgöngu hópsins.

Hreyfivikan er almenningsíþrótta verkefni á vegum Ungmennafélag Íslands í samstarfi við yfir 200 grasrótarsamtök í Evrópu sem öllu eru aðilar að International Sport and Culture Association (ISCA).

Forvarnadagurinn haldinn í dag

Forvarnardagurinn 2014Forvarnardagurinn er haldinn í dag, miðvikudaginn 1. október, í grunnskólum og framhaldsskólum landsins. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu. Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Ungmennafélags Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis.

Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.

Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.

Boðið til göngu í tengslum við Hreyfivikuna

Þessi skemmtilega mynd sem tekin var í gær er frá Hreyfivkunni á Fljótsdalshéraði.

Þessi skemmtilega mynd sem tekin var í gær er frá Hreyfivkunni á Fljótsdalshéraði.

Viðburður á vegum velferðasviðs Reykjavíkurborgar í tengslum við Hreyfiviku (Move Week) verður í dag. Þá býður Trausti Pálsson áhugasömum að ganga með sér um Álafosskvosina, Helgafell og Varmá.Mæting er við Húsgagnahöllina á Ártúnshöfða í horninu hjá grjóthleðslunni. Þar verður safnast saman í bíla og ekið á göngustað. Brottför frá bílaplani er kl. 18:05. Lengd göngu er 5,3 km. Hækkun er óveruleg.

Gangan hefst síðan í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ. Þaðan er haldið að Helgafelli og hlíðum þess fylgt upp í Skammadal. Þaðan liggur leiðin að Varmá og henni er fylgt niður í Álafosskvosina. Í Álafosskvosinni er kaffihús þar sem hægt er að hlýja sér yfir heitum kakóbolla eftir gönguna.

Hreyfivikan (Move Week, sem hófst í gær og stendur til 5. október er almenningsíþrótta verkefni á vegum Ungmennafélag Íslands í samstarfi við yfir 200 grasrótarsamtök í Evrópu sem öllu eru aðilar að International Sport and Culture Association (ISCA).

Hreyfivikan farin af stað – Bæjarbúar í Bolungarvík áhugasamir

Leikskóla og grunnskólabörn fengu afhent buff í morgun þegar Hreyfivikan hófst í Bolungarvík.

Leikskóla og grunnskólabörn fengu afhent buff í morgun þegar Hreyfivikan hófst í Bolungarvík.

Hreyfivikan (Move Week) hófst í dag og stendur til 5. október. Mikil og góð þátttaka er um allt land og dagskrá víðs vegar glæsileg og metnaðarfull í alla staði. Heilsubærinn og Bolungarvíkurkaupstaður tekur þátt í Hreyfivikunni sem haldin er um gjörvalla Evrópu. Markmið Hreyfivikunnar er að kynna kosti þess að taka virkan þátt í íþróttum og hreyfingu sér til heilsubótar. Hreyfivikan hófst með því að krakkar í leikskólanum og grunnskólanum fengu buff tengdu verkefninu.

Allar nánari upplýsingar um Hreyfiviku (Move Week) er að finna á http://www.iceland.moveweek.eu/

,,Krakkarnir voru ánægð að fá buffið í morgun og það eru allir bæjarbúar mjög jákvæðir fyrir Hreyfivikunni. Það verður frítt í sund í dag og þá verður meðal annars kennsla í sundtækni fyrir alla aldurshópa. Síðan verður eitthvað um að vera alla vikuna en á miðvikudaginn kemur leggjum við til að dagurinn verði bíllaus og vonum við að allir bæjarbúar taki virkan þátt og láti bílinn vera þann daginn,“ sagði Katrín Pálsdóttir,aðalbókari Bolungarvíkurkaupsstaðar og stjórnarmaður Heilsubæjarins.