Glæsileg setningarathöfn að viðstöddu miklu fjölmenni

 

Það varlétt yfir fólki í brekkunni á setningunni.

Það varlétt yfir fólki í brekkunni á setningunni.

17. Unglingalandsmót UMFÍ, sem haldið er á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina, var sett með formlegum hætti að viðstöddu miklu fjölmenni í kvöld. Þátttakendur gengu fylktu liði inna á íþróttavöllinn en yfir 1500 keppendur á aldrinum 11-18 ára taka þátt í mótinu. Mótshaldarar búast við að 10 þúsund gestir muni sækja mótið um helgina. Það voru þær Bríet Lilja Sigurðardóttir og Þórdís Róbertsdóttir sem tendruðu landsmótseldinn.

Keppt er í 17 keppnisgreinum á mótinu og hafa þær aldrei verið fleiri fram að þessu. Margt af okkar fremsta íþróttafólki hefur stigið sín fyrstu spor á unglingalandsmóti en þessi mót hafa verið að vaxa fiskur um hrygg með hverju árinu. Þetta er í þriðja sinn sem mótið er haldið á Sauðárkróki en öll aðstaða er með því besta sem þekkist á landinu.

Þakkarskjöldur afhjúpaður

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar, og Helga Guðrún Guðjónsdóttir afhjúpa þakkarskjöldinn.

Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar, og Helga Guðrún Guðjónsdóttir afhjúpa þakkarskjöldinn.

Eftir setningarathöfn Unglingalandsmótsins á Sauðárkróki í gærkvöldi var afhjúpaður þakkarskjöldur á íþróttavallarsvæðinu.Það voru Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, og Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðarráðs Skagafjarðar, sem afhjúpuðu þakkarskjöldinn í sameiningu í blíðskaparveðri.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir sagði af þessu tilefni það heiður fyrir hönd hreyfingarinnar að fá að afhenda sveitarfélaginu þennan minnisvarða til minningar um það dugmikla og kröftuga starf sem hefur verið unnið á Sauðárkróki. Fyrir á svæðinu eru þakkarskildir frá Landsmóti UMFÍ 1971 og 2004, og unglingalandsmótunum 2004 og 2009.

Mótssetning á íþróttavellinum í kvöld kl. 20

Íþróttavöllurinn á Sauðárkróki skartaði sínum fegursta á Unglingalandsmótinu í dag.

Íþróttavöllurinn á Sauðárkróki skartaði sínum fegursta á Unglingalandsmótinu í dag.

Mótssetning verður á íþróttavellinum á Sauðárkróksvelli í kvöld og hefst klukkan 20. Mikilvægt er að allir keppendur mæti í skrúðgöngu sem er eitt af upphafsatriðum kvöldsins og eru keppendur beðnir um að mæta á æfingasvæðið sem er sunnan við aðalleikvanginn eigi síðar en klukkan 19.30 með fána sinna félaga. Þaðan verður gengið inn á leikvanginn fylktu liði.

Að þessu sinni verður gerð aðeins breyting á setningunni og verður öllum börnum 10 ára og yngri boðið að ganga inn á svæðið í kjölfar keppenda. Þeir mæta með foreldrum sínum á æfingasvæðið upp við íþróttahús kl. 19.30. Foreldrar eru velkomnir að ganga með börnum sínum inn á svæðið.

 

Flestir keppendur koma frá Ungmennasambandi Skagafjarðar

Frá keppni í knattspyrnu stúlkna á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki í dag.

Frá keppni í knattspyrnu stúlkna á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki í dag.

Um 1500 keppendur hafa skráð sig til þátttöku á 17. Unglingalandsmóti UMFÍ sem nú stendur yfir á Sauðárkróki. Að sögn Ingólfs Sigfússonar, sem annast skráningar og tölvumál á mótinu, hafa yfir 90% sótt mótsgögn sem er mjög góð heimta á fyrsta degi mótsins. Flestir keppendur á mótinu er frá Ungmennasambandi Skagafjarðar, UMSS, alls 218 talsins. Frá Ungmennasambandi Kjalarnesþings, UMSK, eru 161 keppandi og 108 koma frá Héraðssambandinu Skarphéðni, HSK.

865 þátttakendur eru í knattspyrnu en það er sú íþróttagreina hefur alltaf dregið að sér flesta keppendur á unglingalandsmótinu eins og áður. 594 keppendur eru í frjálsum íþróttum og 427 í körfubolta.

,,Sjáum fram á frábæra helgi á Sauðárkróki“

Fólk lætur fara vel um sig í góða veðrinu.

Fólk lætur fara vel um sig í góða veðrinu.

Veðrið leikur við keppendur og gesti á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki. Sól, blankalogn og 15 stiga hiti er í Skagafirði. Keppendur hófu daginn snemma en þá hófst keppni í nokkrum greinum sem standa mun yfir í allan dag.Mótssetning verður á íþróttavellinum í kvöld.

,,Við erum mjög glöð, veðrið yndislegt og sól skín í heiði. Mótið er farið fyrir alvöru af stað, hér iðar allt af lífi og sé ekki fram á annað en við eigum eftir að eiga frábæra helgi saman. Við erum afar sátt við þátttökuna og segja má að hún sé eftir okkar væntingum. Það gekk allt saman mjög vel á tjaldsvæðinu í nótt og þeir síðustu voru að koma klukkan þrjú, allir glaðir og allt gekk samkvæmt áætlun. Við erum þakklát fyrir hina góðu þátttöku og veðrið sem á vonandi eftir að leika við okkur alla helgina,“ sagði Ómar Bragi Stefánsson framkvæmdastjóri 17.Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki um helgina.

,,Gaman að sjá allan þennan fjölda“

Mótsgestir láta fara vel um  sig í frábæru veðri.

Mótsgestir láta fara vel um sig í frábæru veðri.

Yfir 1500 keppendur eru skráðir til leiks á 17. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið er á Sauðárkróki um helgina. Veðrið leikur við gesti og keppendur, sól skín í heiði, logn og 15 stiga hiti. Áætlað er að um 10 þúsund gestir muni sækja mótið heim um helgina. Keppni hófst snemma í morgun og stendur yfir í allan dag. Mótið verður sett á íþróttavellinum í kvöld og hefst hún klukkan 20.

Stöðugur straumur fólks er inn til Sauðárkróks

Fjölskyldufólk að koma sér fyrir á Nöfunum en fjölgað hefur á tjalsvæðinu jafnt og þétt í kvöld.

Fjölskyldufólk að koma sér fyrir á Nöfunum en fjölgað hefur á tjalsvæðinu jafnt og þétt í kvöld.

Stöðugur straumur fólks er inn á unglingalandsmótssvæðið og hefur aukist eftir sem á daginn hefur liðið. Fjöldi manns hefur komið sér fyrir á svonefndum Nöfum þar sem keppendur og landsmótsgestir gista meðan á mótinu stendur. Gott veður er á Sauðárkróki, sólskin og hit um 12 stig.  Yfir 1500 hundruð keppendur hafa skráð sig til leiks og gera framkvæmdaaðilar ráð fyrir að tíu þúsund gestir muni sækja mótið um helgina.

Öll aðstaða á mótinu er til fyrirmyndar en þetta er í þriðja sinn sem Unglingalandsmót er haldið á Sauðárkróki. Fyrst var mót haldið 2004 og aftur 2009.

Keppni á Unglingalandsmótinu er hafin

Samkomutjaldið er komið á sinn stað.

Samkomutjaldið er komið á sinn stað.

Hið stórglæsilega landsmótstjald er risið á Sauðárkróki þar sem fram fer 17. Unglingalandsmót UMFÍ um helgina. Keppni á mótinu hófst reyndar í golfi í dag og verður því framhaldið á morgun. Í fyrramálið hefst keppni í körfubolta, knattspyrnu, frjálsum íþróttum, strandblaki, hestaíþróttum og bogfimi.

Ýmsar afþreyingar eru í boði á mótinu alla daga og má í því sambandi nefna þrautarbraut við sundlaugina, Handverk og Kaffi í Maddömukoti og Úti bíó við sundlaugina um kvöldið. Kvöldvaka í risatjaldinu stendur yfir frá kl. 21.30-23.30.

Mótssetning verður á íþróttavelinum á Sauðárkróksvelli á föstudagskvöldinu og hefst kl. 20. Mótstjórn Unglingalandsmótsins er staðsett í Árskóla sem er sunnan við aðalíþróttasvæðið á Sauðárkróki. Upplýsingamiðstöð mótsins er til húsa á sama stað og þar mun starfsfólk mótsins aðstoða eftir bestu getu.

,,Umgjörð mótanna föst í sessi en afþreyingarþátturinn verður stærri“

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unglingalandsmótsins, og Pálína Ósk Harundal verkefnastjóri.

Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Unglingalandsmótsins, og Pálína Ósk Harundal verkefnastjóri á mótinu

Gert er ráð fyr­ir góðum fjölda kepp­enda á Ung­linga­lands­móti Ung­menna­fé­lags Íslands sem haldið verður á Sauðár­króki um versl­un­ar­manna­helg­ina en und­ir­bún­ing­ur móts­ins er nú á loka­stigi.„Við ger­um ráð fyr­ir allt að 10 þúsund gest­um á svæðinu; fjöl­skyldu­fólki sem kem­ur þá hingað til þess að fylgja krökk­un­um sín­um eft­ir á sam­komu þar sem sam­an fara íþrótt­ir og afþrey­ing,“ seg­ir Ómar Bragi Stef­áns­son, fram­kvæmda­stjóri móts­ins, í viðtali og í umfjöllun um mótið í Morgunblaðinu.

Lands­mót UMFÍ byggja á langri hefð og sögu, sem spann­ar rúm­lega öld. Þar bland­ast sam­an íþrótt­ir og ýmis þjóðleg gildi sem ein­kenna starf ung­menna­fé­lags­hreyf­ing­ar­inn­ar. Þátt­taka í leikn­um – en ekki endi­lega sig­ur – er hluti þessa og sú verður ein­mitt raun­in á ung­linga­lands­mót­inu.

„Um­gjörð mót­anna er orðin föst í sessi og við fylgj­um henni frá ári til árs. En til þess að fylgja straumi tím­ans bæt­um við líka inn nýj­um keppn­is­grein­um auk þess sem afþrey­ing­arþátt­ur­inn verður sí­fellt stærri,“ seg­ir Ómar Bragi, sem hef­ur haldið utan um lands­móts­hald UMFÍ síðustu ár. Hann seg­ir fjölda gesta á ung­linga­lands­mót­um rokka frá 7 til 14 þúsund. Mótið á Sel­fossi árið 2012 hafi verið það fjöl­sótt­asta en aðsókn­in ráðist alltaf mikið af veðri og fjar­lægð frá helstu þétt­býl­is­svæðum. Aðstöðuna á Sauðár­króki seg­ir hann góða, en þar voru ung­linga­lands­mót­in hald­in árið 2004 og 2009.

Hefur tekið þátt í öllum Unglingalandsmótum frá 11 ára aldri

Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir.

Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir.

,,Ég hef tekið þátt í öllum Unglingalandsmótum frá ellefu ára aldri en fyrsta mótið mitt var á Sauðárkróki 2009. Það mót er mér mjög eftirminnilegt, eftir það varð ekki aftur snúið en mótið í sumar verður mitt sjötta í röðinni. Unglingalandsmótin eru ótrúlega skemmtileg og maður kynnist ótrúlega mörgu fólki á þeim. Það stendur líka upp úr hvað þetta eru flott og vel skipulögð mót og vel haldið utan um alla keppni,“ sagði Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir á Sauðárkróki.

„Margir vinir mínir ætla að taka þátt í mótinu á Sauðárkróki og ég hef það á tilfinningunni að þátttakan verði mjög góð. Ég keppi alla vega í hástökki og svo er aldrei að vita nema ég bæti einhverjum fleirum við. Ég er búin að æfa íþróttir frá tíu ára aldri en aðstaða til íþróttaiðkana er mjög góð á Sauðárkróki. Stefnan er að taka þátt í nokkrum mótum í sumar og svo keppi ég á móti í Gautaborg. Það verður því nóg að gera hjá mér í sumar en Unglingalandsmótin eru skemmtilegustu mótin maður tekur þátt í. Þetta er líka fjölskylduhátíð og stemningin er engu lík,“ sagði Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir

 

Óskað er eftir sjálfboðaliðum um helgina

Óskað er eftir sjálfboðaliðum um helgina.

Óskað er eftir sjálfboðaliðum um helgina.

Ungmennahreyfingin er drifin áfram af kraftmiklu hugsjónarstarfi sjálfboðaliðans. Nú þegar Unglingalandsmót nálgast vantar okkur sjálfboðaliða í hin ýmsu störf. Næstkomandi sunnudag, þann 27. júlí, vantar fólk í flöggun og merkingu tjaldsvæða á milli kl. 17-19.

Hefur þú lausan tíma næstkomandi sunnudag? Okkur vantar aðstoð við flöggun og merkingu tjaldsvæða nk. sunnudag á milli kl. 17-19.
Hópurinn ætlar að hittast í Víðigrund 5 þar sem UMFÍ er til húsa kl.17:00.

Metfjöldi í Frjálsíþróttaskóla UMFÍ á Selfossi

Þátttakendur í Frjálsíþróttaskóla UMFÍ sem haldinn var á Selfossi.

Þátttakendur í Frjálsíþróttaskóla UMFÍ sem haldinn var á Selfossi.

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ var haldinn á Selfossi dagana 14. til 18. júlí og heppnaðist hann mjög vel. Að þessu sinni voru krakkarnir á aldrinum 11 til 15 ára. Krakkarnir voru mjög ánægðir með skólann og eru strax farin að hlakka til að koma aftur á næsta ári. Þetta var í sjötta sinn sem skólinn er haldinn á HSK-svæðinu. Bæði í fyrra og í ár var metfjöldi en það voru alls voru 38 börn sem tóku þátt í skólanum í ár. Krakkarnir komu flest frá Suðurlandinu, þó voru þau nokkur af höfuðborgarsvæðinu.

Dagskrá skólans var mjög fjölbreytt þar sem til að mynda voru kvöldvökur á hverju kvöldi og fjölbreytt hreyfing allt frá hefbundnum frjálsíþróttaæfingum, til sundsprells og ratleiks. En markmið skólans er að kynna og breiða út frjálsíþróttir á Íslandi. Fjölmargir þjálfarar og aðstoðarmenn aðstoðuðu við að gera skólann sem fagmannlegastan og skemmtilegastan. Skólinn fór fram við frábærar aðstæður þar sem stutt er í alla aðstöðu sem nota þarf, til að mynda frjálsíþróttavöll, Tíbrá, Selið, íþróttahúsið Iðu og sundlaugina.

Unglingalandsmótin frábær samverustund fyrir fjölskylduna

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri í Skagafirði.

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri í Skagafirði.

,,Það er virkilega skemmtilegt að við fengum Unglingalandsmótið í þriðja skipti og það er gaman fyrir sveitarfélagið og upphefð um leið að fá þetta tækifæri. Þetta bara lyftir mannlífinu hjá okkur og ég held að allir íbúarnir hlakki mikið til. Fyrir utan að halda mótið hér á Sauðárkróki og taka á móti keppendum og gestum felast í því mörg önnur tækifæri og má í því sambandi benda mikla auglýsingu sem sveitarfélagið fær. Unglingalandsmótin eru í mínum huga dásamlegt fyrirbæri, fjölskyldurnar koma með unglingana sína og gleyma sér í gleði og ánægju meðan á mótunum stendur. Ég hef sjálf átt þess kost að sækja Unglingalandsmót síðustu ár með börnin mín og þetta er dásamleg upplifun í alla staði. Mótin eru líka svo vel skipulögð, allt gengur svo vel og allir eru tilbúnir að rétta hjálparhönd. Þetta er mín upplifun frá mótunum og unglingarnir finna það að þeir eru velkomnir,“ sagði Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri í Skagafirði.

Ásta Björg sagði unglingalandsmótin í einu orði sagt frábær samverustund fyrir fjölskylduna og svo finnst mér skemmtileg þróun að hafa einhverja afþreyingu fyrir systkini og yngri börn. Hún sagði ennfremur að mótssvæðið væri sérlega aðgengilegt og stutt á milli keppnisstaða. Undantekning væri einna helst hestaíþróttirnar en keppnissvæðið væri aðeins fyrir utan bæinn. Það væri stutt í golfið og mótocrossbrautirnar þannig að öll aðstaðan væri mjög góð í flesta staði.

Fjallaskokk Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga

Frá Fjallaskokki á Landsmóti UMFÍ 50+ á Hvammstanga.

Frá Fjallaskokki á Landsmóti UMFÍ 50+ á Hvammstanga.

Fjallaskokk Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga fer fram á fimmtudaginn, 24. júlí, en þá verður gengið, skokkað eða hlaupið frá Grund í Vesturhópi yfir Vatnsnesfjallið og endað ofan í Kirkjuhvammi á Hvammstanga. Um er að ræða 12 km leið og hækkun á milli 400-500 metra.

Fjallaskokk USAH er keppni þar sem gildir að vera fyrstur yfir fjallið, en að sjálfsögðu getur hver og einn gert þetta eftir sínu höfði, keppt við aðra, sjálfan sig eða farið leiðina án þess að vera að keppa yfirleitt. Aðalatriðið er að vera með og hafa ánægju af þessu.

 

,,Unglingalandsmótin hafa hitt í mark“

Sonja Sif Jóhannsdóttir, eiginmaður hennar, Gunnar Atli Fríðuson, og börnin fjögur, Kolbeinn, Selma, Örvar og Kári.

Sonja Sif Jóhannsdóttir, eiginmaður hennar, Gunnar Atli Fríðuson, og börnin fjögur, Kolbeinn, Selma, Örvar og Kári.

,,Við fjölskyldan ætlum að skella okkur á Unglingalandsmótið á Sauðárkróki. Tvö elstu okkar ætla að taka þátt í sínu fyrsta móti og það er mikil tilhlökkun á bænum. Það hefur alltaf verið stefna okkar að fara með krakkana okkar á þetta mót og það er alveg ljóst hvar við munum verja verslunarmannahelgum næstu árin,“ sagði Sonja Jóhannsdóttir, master í íþrótta- og lýðheilsufræðum og kennari við Menntaskólann á Akureyri.

Sonja kennir einnig hjá Keili, þeim sem ætla að verða einkaþjálfarar og líka við Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Hún er úr sveitinni rétt við Hofsós og keppti alltaf fyrir UMSS. Sonja segist hafa lifað og hrærst í íþróttum alla sína ævi.Sonja sjálf hreyfir sig reglulega og í sumar hljóp hún Laugaveginn og ætlar að taka þátt í hlaupi í München í Þýskalandi.

„Ég hef líka verið að keppa í þríþraut. Maður verður að vera góð fyrirmynd en maður er Alltaf að hvetja þá sem eru í kringum mann til að hreyfa sig,“ sagði Sonja.

„Ég hef sótt öll Landsmót UMFÍ frá 1987 en ég var 12 ára gömul þegar ég keppti á mínu fyrsta móti á Húsavík. Það var mikil upplifun og ég hef farið á öll mótin eftir það. Í mínum huga eru Landsmótin frábærar hátíðir,“ sagði Sonja Sif Jóhannsdóttir sem býr á Akureyri. Þess má geta að Sonja Sif var í landsmótsnefnd þegar mótið var haldið á Akureyri 2009. Hún sagði að það hefði verið gaman að vera hinum megin borðsins, eins og hún orðaði það, og koma þannig að skipulagningu og undirbúningi mótsins. Gaman hefði verið að sjá mótið frá öðru sjónarhorni.

Kynningarmyndband um Unglingalandsmótið

Hér má sjá kynningarmyndband sem unnið hefur verið um Unglingalandsmót UMFÍ 2014 sem verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Þetta verður 17. mótið í röðinni en mótin hafa notið mikilla vinsælda og margir þátttakendur koma ár eftir ár. Njótið vel.

 

,,Mjög spenntur fyrir þátttökunni á Unglingalandsmótinu“

Sveinbjörn Óli Svavarsson.

Sveinbjörn Óli Svavarsson.

,,Það er mikil tilhlökkun að taka þátt í Unglingalandsmótinu í sumar og þá ekki síst fyrir það að mótið er haldið í heimabæ mínum.Ég hef ekki tekið þátt í þessum mótum áður en heyrt hjá öllum hvað þau eru skemmtileg. Það er stemning í bænum fyrir mótinu svo þetta verður bara gaman,“ sagði Sveinbjörn Óli Svavarsson, 16 ára piltur á Sauðárkróki.

Sveinbjörn hefur æft frjálsar íþróttir frá átta ára aldri og aðalgreinar hans eru 100 og 200 metra spretthlaup. Hann átti jafnvel von á því að bæta langstökkinu við.

„Krakkar, sem ég þekki, segja að þessi mót séu ofsalega flott, góð mót í alla staði og margt spennandi í boði eins og kvöldvökur þar sem allir krakkarnir koma saman. Ég undirbjó mig vel fyrir tímabilið og fyrir utan Unglingalandsmótið tekur maður þátt í nokkrum mótum í sumar. Ég æfi alla virk daga vikunnar en aðstæður hér á Króknum eru mjög góðar. Ég er spenntur fyrir sumrinu og þá ekki síst fyrir þátt tökunni í Unglingalandsmótinu,“ sagði Sveinbjörn Óli Svavarsson.
.

Hefur tekið þátt í sex Unglingalandsmótum í röð

Irma Gunnarsdóttir.

Irma Gunnarsdóttir.

Fyrsta mótið mitt var á Sauðárkróki 2009 og ég hef verið með á öllum mótum eftir það. Áður en ég mátti keppa fór ég með bróður mínum á tvö mót en um leið og ég hafði aldur til skráði ég mig til leiks. Það hefur verið ofsalega gaman að taka þátt í mótunum og ég hlakka mikið til að fara á Sauðárkrók í sumar. Umgjörðin er svo skemmtileg, að keppa, vera á tjaldsvæðinu og fylgjast með skemmtidagskránni á kvöldin. Í kringum þetta skapast skemmtileg umgjörð og svo er gaman að hitta krakka sem maður þekkir frá fyrri mótum,“ sagði Irma Gunnarsdóttir í Garðabæ.

Irma sagði mótin ekki bara keppni heldur væri þetta frábær samverustaður með fjölskyldunni. Hún ætlar að reyna að taka þátt í sem flestum greinum og nefndi hún 100 og 200 metra hlaup, hástökk, langstökk, spjótkast, kúluvarp og grindahlaup. Irma sagðist leggja stund á sjöþrautina en frjálsar íþróttir hefur hún stundað í fimm ár. Hún var líka í handbolta en er nýhætt í honum.

„Ég þekki þó nokkuð marga krakka sem ætla á mótið á Sauðárkróki. Ég ætla að æfa vel í sumar en ég æfi tvo tíma á dag nánast alla daga vikunnar. Annars er bara tilhlökkunin mikil að fara á Unglingalandsmótið,“ sagði Irma Gunnarsdóttir.

 

,,Skemmtilegustu mótin sem maður tekur þátt í“

Birta Hallgrímsdóttir.

Birta Lind Hallgrímsdóttir.

,,Ég hef tekið þátt í þremur unglingalandsmótum til þessa. Þátttakan í mótunum eru afar ánægjuleg og sitja í minningunni. Ég er að velta því fyrir mér að fara á mótið í sumar en við í sunddeildinni hjá Fjölni höfum alltaf verið dugleg að fara á mótin í gegnum tíðina,“ sagði Birta Lind Hallgrímsdóttir sem hefur æft sund svo lengi sem hún man eftir sér.

Birta Lind segir mikinn tíma fara í æfingar hjá sér en hún æfir níu sinnum í viku þannig að hún verður að skipuleggja sinn tíma vel eins og hún komst að orði.

,,Það sem gerir unglingalandsmótin skemmtileg er stemningin sem þar ríkir. Það er góður andi og þar eru krakkar að hittast ár eftir ár víðs vegar af að landinu. Mér finnst líka vera mikill kostur að maður getur skráð sig í allt sem manni langar til að keppa í, ekki bara þá grein sem maður leggur stund á. Reyndar hef ég eingöngu einblínt á sundið en það er gott að hafa valið. Unglingalandsmótin í mínum huga er gott val fyrir unglinga og ég hvet alla, sem ekki hafa keppt áður, og skoða endilega þennan möguleika og taka þátt. Það sér engin eftir því, þetta er ofsalega skemmtilegt. Krakkar, sem ég þekki, eru mjög ánægð með þessi mót og finnst þau vera ein þau skemmtilegustu mót sem þau taka þátt í. Ég er alveg viss um að þessi mót eiga bjarta framtíð fyrir sér,“ sagði Birta Lind Hallgrímsdóttir.

,,Krakkarnir upplifa einstaka stemningu með jafnöldrum sínum“

Ari Sigþór Eiríksson hefur tekið þátt í nokkrum unglingalandsmótum.

Ari Sigþór Eiríksson hefur tekið þátt í nokkrum unglingalandsmótum.

,,Ég er búinn að taka þátt í nokkrum unglingalandsmótum og ætla að sjálfsögðu á mótið á Sauðárkróki í sumar. Ég hef fram að þessu aðallega verið að keppa í frjálsum íþróttum og svo einnig í knattspyrnu. Þessi mót er ofsalega skemmtileg og þá er alveg mjög gaman að hitta aðra krakka,“ sagði Ari Sigþór Eiríksson, sem er 17 ára gamall úr Kópavoginum.

Ari Sigþór segir unglingalandsmótin vera öðruvísi en önnur mót sem hann hefur tekið þátt í. Unglingalandsmótin snúast ekki bara eingöngu um keppni heldur líka sem samvera með fjölskyldum og vinum.

,,Ég hef kynnst mörgum krökkum á mótunum sem er gaman. Ég veit um marga í kringum mig sem ætla á mótið í sumar og langflestir hafa keppt á mótunum áður. Þegar maður er búinn að mæta einu sinni vill maður koma aftur og aftur. Mér finnst kvöldin frábær og þá er mikil stemning í stóra tjaldinu. Ég vil bara hvetja alla krakka til að koma á unglingalands því þar upplifa þau einstaka stemningu og góðar stundir með jafnöldrum sínum,“ sagði Ari Sigþór Eiríksson.