Lottóreglur og lottóúthlutanir
I. Skipting lottótekna UMFÍ
1. 79% til sambandsaðila.
2. 14% til UMFÍ.
3. 7% til fræðslu- og verkefnasjóðs UMFÍ, úthlutun samkvæmt reglugerð sjóðsins.
II. Skipting lottótekna til sambandsaðila UMFÍ
1. 20% er skipt jafnt samkvæmt sérstakri reglu.
2. 40% er skipt eftir íbúafjölda samkvæmt sérstakri reglu.
3. 40% er skipt eftir félagsmannafjölda samkvæmt sérstakri reglu.
III. Regla vegna jafnrar skiptingar milli sambandsaðila
Skilyrði fyrir úthlutun hvers ár úr jafna hlutanum er að fulltrúi sambandsaðila hafi mætt á síðastliðið sambandsþing/sambandsráðsfund. Hlutur þeirra sem mæta ekki deilist á þá sambandsaðila sem mættu á síðastliðið sambandsþing/sambandsráðsfund. Að þeim skilyrðum uppfylltum er skipting sambandsaðila sem hér segir:
Einn hlutur: héraðssambönd.
30% af hlut: Keflavík íþrótta- og ungmennafélag , UMFN, UMFG, UMFF, UMFÞ og UFA.
10% af hlut: UMFÓ, USK, UMFK, Umf. Vesturhlíð og Umf. Víkverji.
IV. Regla vegna íbúafjölda
Félög með beina aðild að UMFÍ fá úthlutað miðað við íbúafjölda þannig að félagsmannafjöldi félags með beina aðild er margfaldaður með 1,7. Niðurstaðan er tala sem myndar íbúafjölda þeirra. Þessi reiknaði íbúafjöldi verður þó aldrei hærri en raunverulegur íbúafjöldi á félagssvæði viðkomandi félags skilgreint samkvæmt lögum þess eða skilgreindu starfssvæði þess sem sveitarfélagið setur því. Samanlagður íbúafjöldi tveggja eða fleiri félaga sem starfa innan sama sveitarfélags getur þó aldrei orðið hærri en íbúafjöldi viðkomandi sveitarfélags.
V. Regla vegna félagsmannafjölda
Félagsmannafjöldi til grundvallar lottóúthlutun er reiknaður út einu sinni á ári og skal miðast við félagaskrá sambandsaðila 31. desember ár hvert.
VI. Aðrar forsendur fyrir úthlutun sambandsaðila
Starfi sambandsaðili ekki samkvæmt lögum UMFÍ kemur hann ekki til greina við úthlutun. Stjórn UMFÍ skal setja vinnureglur þar að lútandi sem taki m.a. tillit til hvort haldinn hafi verið aðalfundur/ársþing og hvort starfsskýrslu og ársskýrslu hafi verið skilað til UMFÍ.
Starfsskýrslu og ársskýrslu skal skilað eigi síðar en 15. nóvember ár hvert. Uppfylli sambandsaðili ekki þessi skilyrði skal UMFÍ frysta greiðslur til viðkomandi. Greiðsla, sem hefur verið fryst í tvö ár, rennur í fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ og er óafturkræf. Forsendur í lottóúthlutun skal miða við 31. desember ár hvert, þ.e. íbúatölu eins og hún er staðfest af Hagstofu Íslands og félagatal eins og það liggur fyrir á sama tíma. Ekkert héraðssamband eða félag með beina aðild getur fengið hærra hlutfall en 30% af lottóúthlutuninni.
VII. Nýir sambandsaðilar
Reglur þessar eiga eingöngu við um þau héraðssambönd, ungmennasambönd og ungmennafélög með beina aðild sem voru aðilar að UMFÍ hinn 31. desember 2018. Aðrir sambandsaðilar að UMFÍ fá ekki úthlutað lottófé frá UMFÍ. Þegar náðst hefur samkomulag um samræmdar reglur um skiptingu lottóágóða sem gildi bæði fyrir sambandsaðila UMFÍ og ÍSÍ, skal breyta reglum þessum til samræmis við það samkomulag en til þess þarf aukinn meirihluta á Sambandsþingi UMFÍ, í samræmi við 16. grein laga UMFÍ.
VIII. Um úthlutun
Fyrir 15. hvers mánaðar skal úthluta öllum ágóða sem borist hefur fyrir næsta mánuð á undan. Með hverri greiðslu skal fylgja skilagrein sem sýni forsendur fyrir úthlutun.
Bráðabirgðaákvæði
UMFÍ skal hafa tveggja ára aðlögunartíma til að breyta greiðslutíma sem ákveðinn er í VIII. lið reglugerðarinnar.
Samþykkt á 51. Sambandsþingi UMFÍ 2019 á Laugarbakka.