Fara á efnissvæði

Svæðisstöðvar

Svæðisstöðvar íþróttahreyfingarinnar

UMFÍ og ÍSÍ koma á fót átta svæðisstöðvum með stuðningi frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Samtökin hafa undirritað samning um eflingu íþróttastarfs á landsvísu með því að koma á fót svæðisstöðvum og hvatasjóði. Svæðisstöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruð landsins við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum auk þess að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Tillögur um stofnun svæðisstöðvanna voru samþykktar á þingi ÍSÍ vorið 2023 og á þingi UMFÍ haustið 2023.

Verkefnastjóri

Hanna Carla Jóhannsdóttir stýrir innleiðingu og samræmingu á svæðisstöðvunum. Hanna Carla er íþróttafræðingur að mennt og með meistaragráðu í forystu og stjórnun.

Hanna Carla hefur aðsetur í þjónustumiðstöð UMFÍ. Netfang hannacarla@siu.is 

Markmið svæðisstöðva

Hlutverk svæðisstöðvanna er að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni. Styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og stuðla þannig að farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar. 

Framtíðarsýn

Framtíðarsýn með fyrirkomulagi svæðisstöðvanna er að fyrirkomulagið skili sér í betri nýtingu á mannauði. Stuðningur við einstaka íþróttafélög verði meiri og þar af leiðandi verði þjónusta við iðkendur betri. Jafnframt er það framtíðarsýn að sem flestir hafi tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangri að markmiði. 

Aðdragandi og skipulag

Smelltu hér til þess að kynna þér frekari upplýsingar um aðdraganda og skipulag svæðisstöðva íþróttahreyfingarinnar.

Nánari upplýsingar