Lög Ungmennafélags Íslands
I. KAFLI: NAFN, FÁNI OG KJÖRORÐ
1. grein
Landssamband ungmennafélaga á Íslandi heitir Ungmennafélag Íslands, skammstafað UMFÍ. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein
Fáni UMFÍ er Hvítbláinn. Kjörorð UMFÍ er: Íslandi allt. Hvítbláinn skal vera í merki UMFÍ, að öðru leyti ákveður sambandsþing UMFÍ gerð þess. Merki UMFÍ er eign UMFÍ og verndað vörumerki.
II. KAFLI: HLUTVERK UMFÍ
3. grein
Hlutverk UMFÍ er ræktun lýðs og lands. Hlutverki sínu hyggst UMFÍ ná með því að: Vinna eftir samþykktri stefnu UMFÍ eins og hún er hverju sinni, með áherslu á arfleifð UMFÍ sem grundvallast í eftirfarandi setningum:
- Gefa sem flestum kost á að taka þátt í heilbrigðu félagsstarfi.
- Standa fyrir iðkun íþrótta og stuðla að heilbrigðum lífsháttum og hollri hreyfingu.
- Starfa í anda friðar og jafnréttis.
- Vinna að aukinni fræðslu og forvörnum gegn neyslu á skaðlegum efnum.
- Vinna að landgræðslu, skógrækt og umhverfisvernd.
- Stuðla að jafnvægi í byggð landsins og auka fræðslu almennings til að auðvelda hverjum og einum að taka afstöðu til þjóðnytjamála og vinna að framgangi þeirra.
- Glæða með þjóðinni tryggð og rækt við heimili sín, átthaga og ættjörð.
III. KAFLI: RÉTTINDI OG SKYLDUR
4. grein
UMFÍ skiptist í íþróttahéruð. Einnig geta ungmenna- og íþróttafélög innan íþróttahéraða sem ekki eru aðilar að UMFÍ gerst aðilar.
5. grein
Inntökubeiðni í UMFÍ skal fylgja eintak af lögum umsækjanda sem skulu vera í fullu samræmi við sambandslög þessi. Sambandsþing úrskurðar um inntöku. Sambandsþing hefur rétt til að víkja félögum og samböndum úr UMFÍ.
6. grein
Vilji sambandsaðili ganga úr UMFÍ telst úrsögn því aðeins lögmæt, að samþykkt hafi verið á löglegu héraðsþingi eða aðalfundi. Skal segja til þess á sambandsþingi UMFÍ. Aðili sem gengið hefur úr UMFÍ getur ekki krafist endurgreiðslu á fé sem hann hefur lagt til sambandsins eða nokkurs hluta af eignum UMFÍ.
7. grein
Hvert aðildarfélag innan UMFÍ greiðir árgjald í sambandssjóð af hverjum skattskyldum félaga eftir ákvörðun sambandsþings og skilar því fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Sambandsfélögin semja skýrslu um störf sín og hag við hver áramót og senda rafrænt í þar til gert félagaskýrslukerfi UMFÍ fyrir 15. apríl ár hvert.
8. grein
Sérhver félagi aðildarfélags innan UMFÍ hefur málfrelsi og tillögurétt hvar sem er á fundum innan hreyfingarinnar.
IV. KAFLI: STJÓRNUN UMFÍ
9. grein
Sambandsþing UMFÍ er æðsta vald í málefnum UMFÍ. Stjórn skal boða skriflega til Sambandsþings með a.m.k. 6 vikna fyrirvara og skal það haldið fyrir 15. nóvember annað hvert ár.
Skriflegt fundarboð (síðara fundarboð) með dagskrá, ársreikningi og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir Sambandsþing skal senda sambandsaðilum með eigi minna en tveggja vikna fyrirvara. Sambandsaðilar skulu skila inn kjörbréfum fyrir upphaf þings.
Sambandsaðilar kjósa fulltrúa til Sambandsþings miðað við fjölda skattskyldra félaga skv. félagatali í skráningarkerfi UMFÍ sem skal skila í síðasta lagi 15. apríl það ár sem þing er haldið sem hér segir:
- 1 fulltrúa fyrir 1 - 200 skattskylda félaga.
- 2 fulltrúa fyrir 201 - 1999 skattskylda félaga.
- 3 fulltrúar fyrir 2000 - 2999 skattskylda félaga.
- 4 fulltrúar fyrir 3000 - 3999 skattskylda félaga.
- 5 fulltrúar fyrir 4000 - 4999 skattskylda félaga.
- 6 fulltrúar fyrir 5000 - 5999 skattskylda félaga.
- 7 fulltrúar fyrir 6000 - 6999 skattskylda félaga.
- 8 fulltrúar fyrir 7000 - 7999 skattskylda félaga.
- 9 fulltrúar fyrir 8000 - 8999 skattskylda félaga.
- 10 fulltrúar fyrir 9000 og fleiri skattskylda félaga.
Þingfulltrúar félaga með beina aðild geta að hámarki verið 7 en 10 fulltrúar frá öðrum sambandsaðilum. Til viðbótar því sem að framan greinir skulu formenn íþróttahéraða eða staðgenglar vera sjálfkjörnir.
Sambandsþing er lögmætt ef löglega er til þess boðað og mættur er fullur helmingur réttkjörinna fulltrúa.
- Verkefni Sambandsþings skulu m.a. vera:
Ræða skýrslur liðins kjörtímabils. - Afgreiða reikninga næstliðins reikningsárs, (almanaksárið), sem skulu áritaðir af löggiltum endurskoðanda.
- Marka stefnu UMFÍ á komandi árum.
- Kjósa formann UMFÍ, 6 einstaklinga í stjórn og 4 í varastjórn.
- Kjósa 5 einstaklinga og 2 til vara í kjörnefnd,
- Afgreiða fjárhagsáætlun næsta árs.
- Velja endurskoðunarfélag fyrir UMFÍ
Aukaþing er hægt að boða ef 2/3 sambandsaðila óska þess og skal það þá boðað eftir lögum um boðun Sambandsþings.
10. grein
Sambandsráð UMFÍ er æðsta vald í málefnum UMFÍ á milli Sambandsþinga. Sambandsráð er skipað formönnum sambandsaðila UMFÍ eða varamönnum þeirra, ásamt stjórn UMFÍ eða varamönnum hennar.
Stjórn skal boða skriflega til sambandsráðsfundar með a.m.k. 4 vikna fyrirvara og skal hann haldinn fyrir 15. nóvember það ár sem sambandsþing UMFÍ er ekki haldið.
Verkefni sambandsráðsfundar skulu vera:
- Ræða skýrslur næstliðins árs.
- Afgreiða reikninga liðins árs, sem skulu áritaðir af löggiltum endurskoðanda.
- Greiði einhver fulltrúi á sambandsráðsfundi atkvæði gegn því að reikningar séu samþykktir, þá skulu þeir lagðir fyrir næsta Sambandsþing til afgreiðslu.
- Afgreiða fjárhagsáætlun næsta árs.
- Ræða viðfangsefni UMFÍ milli þinga.
Aukasambandsráðsfund er hægt að boða ef 2/3 sambandsaðila óska þess. Einnig getur stjórn kallað til auka sambandsráðsfundar og skal fundurinn boðaður eftir lögum um boðun sambandsráðsfundar og skal fundarefni getið í fundarboði.
11. grein
Stjórn UMFÍ skal skipuð sjö einstaklingum: Formanni, ritara, gjaldkera, varaformanni og þremur meðstjórnendum. Kosning stjórnar skal vera skrifleg. Formaður skal kosinn sérstaklega, en aðrir í stjórn í einu lagi. Til að atkvæðaseðill til stjórnarkjörs sé gildur verður að kjósa sex einstaklinga sem gefið hafa kost á sér til stjórnarkjörs.
Varastjórn skipa fjórir einstaklingar og skal hún kosin í einu lagi. Til að atkvæðaseðill til varastjórnarkjörs sé gildur verður að kjósa fjóra einstaklinga sem gefið hafa kost á sér til varastjórnarkjörs. Atkvæðafjöldi ræður röð varamanna og skal á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar dregið um röð þeirra séu atkvæði jöfn.
Sambandsþing UMFÍ skal kjósa fimm einstaklinga í kjörnefnd og tvo til vara, sem starfar til loka næsta Sambandsþings.
Tilkynning um framboð til stjórnar og varastjórnar UMFÍ skal berast skriflega til kjörnefndar eigi síðar en 10 dögum fyrir þing. Einstaklingur sem býður sig fram til formanns getur jafnframt boðið sig fram til stjórnar og/eða varastjórnar á þinginu kjósi hann svo. Sama á við um einstakling sem býður sig fram til stjórnar og getur hann þá á þinginu boðið sig fram til varastjórnar.
Við stjórnarkjör skal leitast við að í kjöri séu fulltrúar frá hverju kjördæmi. Ef þessu markmiði hefur ekki verið náð, eftir að framboðsfrestur rennur út, er kjörnefnd heimilt að framlengja framboðs-frestinn um allt að 5 daga og skal sú ákvörðun tilkynnt sambandsaðilum. Heimilt er að bera fram tillögu um fleiri en einn úr hverju kjördæmi.
Kjörgengir til stjórnar og varastjórnar eru allir skattskyldir ungmennafélagar.
Stjórn kýs úr sínum hópi til eins árs í senn þrjá einstaklinga og einn til vara er skipa framkvæmdastjórn. Hlutverk framkvæmdastjórnar eru að fylgja eftir samþykktum stjórnar og afgreiða mál á milli stjórnarfunda.
Stjórn UMFÍ skal á hverju kjörtímabili halda a.m.k. einn stjórnarfund í hverjum landsfjórðungi.
Verkefni stjórnar skulu vera:
- Stýra málefnum UMFÍ milli þinga.
- Úrskurða ágreiningsmál þau sem skotið er til hennar.
- Varðveita sjóði UMFÍ og leggja fram endurskoðaða reikninga til þings og sambandsráðsfundar.
- Birta árlega skýrslu um gerðir, hag og horfur UMFÍ.
12. grein
Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á sambandsþingi, sambandsráðsfundi og stjórnarfundi, nema um lagabreytingu sé að ræða eða breytingu á reglugerð um skiptingu lottótekna.
V. KAFLI: LANDSMÓT OG UNGLINGALANDSMÓT
13. grein
Stjórn UMFÍ skal ákveða hvenær Landsmót, Unglingalandsmót, Landsmót 50+ eða önnur landsmót skulu haldin og samþykkja reglugerðir fyrir mótin.
Stjórn UMFÍ skal með hæfilegum fyrirvara auglýsa innan hreyfingarinnar eftir sambandsaðilum sem áhuga hafa á að taka að sér að halda Landsmót UMFÍ, Landsmót UMFÍ 50+ og Unglingalandsmót UMFÍ. Stjórn UMFÍ skal ákveða hvaða aðili úr hópi umsækjanda skal halda mótið. Stjórn UMFÍ skal eiga rétt á að tilnefna fulltrúa sinn í undirbúningsnefndir mótanna.
- Meðal annars skal gæta eftirtalinna atriða við allan undirbúning og framkvæmd mótanna:
- Þau endurspegli eftir föngum umfang og fjölbreytileika í starfsemi ungmenna-félagshreyfingarinnar.
- Aðstaða til keppnisíþrótta sé eins góð og kostur er.
- Almenningi sé gefinn kostur á þátttöku.
- Þau séu vímulaus.
- Þau séu ætluð fjölskyldufólki og fólki á öllum aldri.
- Að vegalengdir milli keppnisstaða séu innan hæfilegra marka.
VI. KAFLI: HEIÐURSVIÐURKENNINGAR
14. grein
Sambandsþing getur kjörið heiðursfélaga UMFÍ þá einstaklinga er unnið hafa ungmennafélagshreyfingunni óvenju mikið gagn eða þingið vill veita sérstaka sæmd fyrir ágæt störf í anda UMFÍ. Heiðursfélagar hafa öll réttindi ungmennafélaga en eru sjálfráðir um skyldur. Heiðursviðurkenningar má og veita samkvæmt sérstakri reglugerð.
VII. KAFLI: SLIT UNGMENNAFÉLAGS ÍSLANDS
15. grein
Til þess að slíta Ungmennafélagi Íslands eða sameina það öðrum samtökum þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á lögmætu sambandsþingi. Slík tillaga þarf einnig að hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á sérstöku aukaþingi sem stjórn UMFÍ skal boða til innan 6 mánaða.
Á aukaþinginu skulu sambandsaðilar eiga rétt á sama fjölda þingfulltrúa eins og á sambandsþinginu en að öðru leyti skulu ákvæði laga þessa um sambandsþing gilda um aukaþingið. Ef samþykkt verður skv. 1. mgr. að slíta UMFÍ skal aukaþingið ákveða hvert fjárhagslegar og ófjárhagslegar eignir og réttindi UMFÍ skulu renna.
VIII. KAFLI: LAGABREYTINGAR OG GILDISTAKA
16. grein
Lögum þessum og reglugerð um skiptingu lottótekna má aðeins breyta á lögmætu sambandsþingi og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða. Hjáseta telst ekki greitt atkvæði. Tillögur til lagabreytinga/reglugerðabreytinga skal senda stjórn UMFÍ minnst 4 vikum fyrir sambandsþing og skal stjórn UMFÍ senda tillögurnar sambandsaðilum til kynningar minnst 2 vikum fyrir þing. Til að taka til afgreiðslu tillögur sem ekki hafa hlotið kynningu skv. 2. mgr. þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða, nema um sé að ræða tillögu til breytinga á áður kynntri tillögu til breytinga á lögum eða reglugerð.
17. grein
Sambandslög þessi öðlast þegar gildi. Eru þar með eldri lög úr gildi numin.
Samþykkt á 52. Sambandsþingi UMFÍ 2021 á Húsavík.