Viðurkenningar
UMFÍ leggur áherslu á verðmæti sjálfboðaliðastarfsins enda hefur það verið grundvöllur starfseminnar alla tíð og mikilvægasti þátturinn í starfi ungmennafélagshreyfingarinnar. UMFÍ telur mikilvægt að halda á lofti jákvæðum áhrifum sjálfboðaliðastarfs fyrir einstaklinga og samfélagið í heild. Það að láta gott af sér leiða skapar um leið félagsleg tengsl fyrir einstaklinga.
Heiðursfélagar UMFÍ
Heiðursfélagar eru að öllu jöfnu kjörnir á sambandsþingum UMFÍ. Hljóta þeir við hátíðlega athöfn heiðursfélagakross UMFÍ, sem er æðsta heiðursmerki sambandsins.
Heiðursviðurkenningar eru að jafnaði afhentar þeim sem áður hafa hlotið gullmerki UMFÍ. Þessa sæmd er einnig sýnd merkum brautryðjendum íþrótta- og ungmennafélags-hreyfingarinnar.
Gullmerki UMFÍ
Gullmerki UMFÍ er næstæðsta sæmdarviðurkenning UMFÍ. Gullmerki er veitt þeim sem hafa um árabil unnið öflugt starf fyrir ungmennafélagshreyfinguna, verið í forystu í héraði eða á vettvangi UMFÍ eða í áratugi unnið ötullega að eða tekið þátt í verkefnum UMFÍ. Gullmerki eru að jafnaði afhent þeim sem áður hafa hlotið starfsmerki UMFÍ.
Starfsmerki UMFÍ
Starfsmerki UMFÍ er veitt fyrir frábært forystustarf í félagi, deild félags eða á vettvangi sambands, fyrir eftirtektarverð átaksverkefni eða nýjungar í starfi, góða virkni eða árangur í skipulags- og félagsstörfum s.s. með setu í stjórnum eða nefndum og fyrir mikið framlag til ungmenna- og íþróttastarfs.
Verðlaun
Fyrirmyndarbikar
Fyrirmyndarbikar Unglingalandsmóts UMFÍ er afhentur á mótsslitum til þess íþróttahéraðs sem hefur sýnt fyrirmyndarframkomu innan sem utan keppni.
Sigurðarbikar
Sigurðarbikarinn er gefinn í minningu um Sigurð Geirdal, fyrrverandi framkvæmdarstjóra UMFÍ. Bikarinn afhendist að loknu Unglingalandsmóti UMFÍ ár hvert til framkvæmdaraðila þess sem mótið er haldið hverju sinni.
Hvatningarverðlaun
Hvatningarverðlaun UMFÍ eru viðurkenning sem veitt er á Sambandsþingi UMFÍ og á Sambandsráðsfundi UMFÍ það ár sem Sambandsþing er ekki haldið.
Matmenn sambandsþinga
Farandgripurinn er afhentur í lok síðustu máltíðar þings UMFÍ. Við valið er m.a. horft til framgöngu í matar og kaffitímum þingsins, beitingu hnífapara, stíls, borðsiða o.fl.
Umhverfisverðlaun
Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1996 ýmis til einstaklinga eða samtaka.