Fara á efnissvæði
13. júní 2019

18 ára og eldri geta keppt í strandblaki á Landsmóti UMFÍ 50+

Strandblak er orðin gríðarlega vinsæl grein um allt land enda fátt skemmtilegra en að skella sér í blak úti í sólinni. Strandblak er ein greinanna sem í boði eru á Landsmóti UMFÍ 50+ í Neskaupstað og verður keppt í blaki laugardaginn 29. júní. Strandblakið er ein þeirra greina sem opin er fyrir alla 18 ára og eldri er boðið upp á tvenns konar aldursskiptingu: 18 ára og eldri og 50 ára og eldri.

Í strandblakið má skrá þrjá leikmenn í hvert lið en einungis tveir mega leika hvern leik. Ekki má skipta um leikmenn á meðan leik stendur.

 

Hvað er í boði?

Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og annarri skemmtun sem fer fram dagana 28.-30. júní. Boðið er upp á fjölda íþróttagreina. Þátttakendur þurfa hvorki að vera skráðir í íþróttafélag né ungmennafélag. Greiða þarf eitt gjald fyrir þátttöku í eins mörgum greinum og viðkomandi vill taka þátt í.

Laugardaginn 29. júní verður skemmtikvöld. Veislustjóri er Jens Garðar Helgason, boðið verður upp á dýrindis kvöldverð og skemmtiatriði. Undir dansi leikur Danshljómsveit Guðmundar R. Gíslasonar. Greiða þarf sérstaklega fyrir skemmtikvöldið. Aðgangseyrir er 5.200 krónur. 

 

Hér getur þú séð allar greinarnar sem eru í boði á mótinu