Fara á efnissvæði
24. ágúst 2024

500 sjálfboðaliðar í maraþoni

„Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka er orðið einskonar árshátíð hlaupara. Mörg hafa tekið þátt í smærri hlaupum yfir sumarið. En allir hlauparar geta tekið þátt í þessu hlaupi og safnað fyrir góðu málefni,“ segir Hrefna Hlín Sveinbjörnsdóttir, viðburðarstjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR).

Ræst var í hlaupinu í dag. Þetta er stórt ár Reykjavíkurmaraþonsins því það fagnar 40 ára afmæli á þessu ári. Þátttakan er gríðarlega góð enda langfjölmennasti íþróttaviðburðurinn hér á landi. Rúmlega 14 þúsund einstaklingar eru skráðir í nokkrar vegalengdir allt frá 1,7 km skemmtiskokki upp í maraþon (42,2 km). Þátttakendur eru frá 88 löndum auk Íslands. Þar af eru 2.700 hlauparar sem koma hingað til lands í þeim tilgangi einum að taka þátt í hlaupinu.

600 störf sjálfboðaliða

Hrefna segir undirbúning hafa staðið lengi yfir og marga taka þátt í starfinu. Hálfu ári fyrir hlaup sé haft samband við starfsfólk og sjálfboðaliða hjá aðildarfélögum ÍBR í Reykjavík og síðan hjá öðrum félögum á höfuðborgarsvæðinu. Það gefur einhverja mynd af umfanginu að innan ÍBR eru 72 íþróttafélög.

Hvorki fleiri né færri en 500 sjálfboðaliðar vinna við hlaupið frá fimmtudegi til laugardags í 600 hlutverkum en dæmi eru um að fólk vinni á fimmtudegi eða föstudegi og svo aftur á sjálfan hlaupadaginn.

Sjálfboðaliðar bætast líka við frá aðildarfélögum Íþróttabandalags Hafnarfjarðar (ÍBH) og víðar.

„Við bjóðum öllum sem vilja að taka þátt og skrá sína hópa. Í hverjum hópi þurfa að vera 9-20 sjálfboðaliðar. Félög þeirra eða deildir fá greitt fyrir vinnuna og því hægt að safna bæði fyrir félag, deild eða viðburðum og ferðum sem einstaka deildir eru með í plönum sínum,“ segir Hrefna. Hópstjóri er settur yfir hvern hóp og kemur viðkomandi upplýsingum til síns fólks um verkefnin í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka.

Hver sjálfboðaliði vinnur að jafnaði í 2-3 klukkustundir í viðburðinum og um 90% þeirra við brautargæslu.

200 milljónir í góð málefni

„Það er orðinn reglulegur viðburður hjá mörgum að taka þátt sem sjálfboðaliðar í Reykjavíkurmaraþoninu og er það orðinn stór söfnunardagur fyrir mörg félög,“ segir Hrefna og bætir við að þar sé átt við afrakstur sjálfboðaliðastarfsins.

Hlaupararnir sjálfir uppskera síðan hver sín áheit. Áheitasöfnun til ýmissa góðgerðarmála hefur aukist ár frá ári og nemur nú 200 milljónum króna, fjármunir sem renna til 180 góðgerðarfélaga.