Fara á efnissvæði
24. ágúst 2022

Á fullu að undirbúa starfið í Ungmenna- og skólabúðunum

Allt er á fullu við undirbúning skólaársins í Ungmenna- og skólabúðunum enda von á fyrstu nemendunum í dvöl í búðunum í næstu viku. Sigurður Guðmundsson er forstöðumaður þeirra og settist hann niður með starfsmönnum beggja búða í vikubyrjun til að stilla saman strengi fyrir veturinn. 

Nóg verður um að vera enda hefur UMFÍ tekið við starfsemi Skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði frá og með þessu skólaári. Heilmikil endurnýjun og uppbygging hefur staðið þar yfir síðustu vikur til að undirbúa komu nemenda af öllu landinu. Búið er að skipta um gólfefni á hluta húsa, endurnýja alla heimavist, mála veggi og taka allt í gegn svo nemendunum og þeim kennurum sem koma með þeim líði sem best í búðunum .

Skólabúðirnar hafa verið starfræktar í um 20 ár á Reykjum og koma þangað rúmlega 3.000 nemendur í 7. bekk grunnskóla ár hvert.

Skólabúðirnar bætast við Ungmennabúðir UMFÍ á Laugarvatni. UMFÍ hefur starfrækt búðirnar frá árinu 2005 við afar góðan orðstír en þangað koma um 2.000 nemendur í 9. bekk grunnskóla fimm daga í senn yfir skólaárið. Þar hefur sömuleiðis verið brett upp ermar til að gera upplifun allra sem besta.

 

Á myndinni hér að ofan má sjá Sigurð með hluta starfsfólksins í Skólabúðunum að Reykjum og í Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni. Þetta eru þau Rebekka, Ágúst og Guðrún Gróa, Dóra, Bjarki og Þorsteinn. Sigurður stendur sjálfur í miðjunni.

Á myndunum hér að neðan má m.a. sjá starfsmenn á vegum Húnaþings vestra vinna við málun og ýmsar endurbætur á Skólabúðunum að Reykjum. Öllum þessum framkvæmdum er að stórum hluta lokið og munum við birta nýjar myndir fljótlega af gullfallegu húsnæðinu.