Fara á efnissvæði
01. júní 2023

Aðalfundur Æskulýðsvettvangsins

Aðalfundur Æskulýðsvettvangsins fór fram í dag. Þetta var hefðbundinn fundur sem haldinn var í húsnæði KFUM og KFUK við Holtaveg í Reykjavík. Tómas Ingi Torfason, framkvæmdastjóri félagasamtakanna og formaður Æskulýðsvettvangsins, bauð gesti velkomna. 

Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi var fundarstjóri.

Gestur fundarins var Tinna Rós Steinsdóttir frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf, gerð grein fyrir skýrslu stjórnar, ársreikningi og fleiru. 

Fulltrúar UMFÍ á fundinum voru þau Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, og Ragnheiður Sigurðardóttir, verkefnastjóri UMFÍ.

Æskulýðsvettvangurinn er samvinnuvettvangur UMFÍ, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Æskulýðsvettvangurinn vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi og stuðlar að heilbrigðum, uppbyggjandi, vönduðum og öruggum aðstæðum í slíku starfi. Tilgangur og markmið félagsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna á sviði leiðtogaþjálfunar, fræðslu- og forvarnarmála, útbreiðslu og kynningar sem og á öðrum sviðum eftir því sem þurfa þykir. Tilgangi sínum og markmiðum hyggst félagið ná með því að standa fyrir námskeiðum, ráðstefnum og öðrum sameiginlegum verkefnum sem lúta að hagsmunum barna og ungmenna.

 

Hér má sjá nokkrar myndir frá fundinum. Á myndinni að ofan má sjá fulltrúa Æskulýðsvettvangsins á fundinum.