Fara á efnissvæði
05. ágúst 2017

„Aðrir að koma til hjálpar án þess að telja það eftir sér“

„Við skulum halda í ungmennafélagsandann eina og sanna, ræktun lýðs og lands. Það er svo mikilvægt að setja sér markmið og vinna saman, ekki bara í íþróttum heldur lífinu öllu,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum á föstudagskvöld.
Mótið var sett í fínu og hlýju síðdegisveðri á þéttsetnum vellinum.
Guðni var gestur mótsins ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, mennta- og menningarmálaráðherra, Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, og frjálsíþróttakappanum Vilhjálmi Einarssyni.
Hvað segir mamma?
Guðni minntist þess þegar Vilhjálmur vann til silfurverðlauna í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu fyrir sextíu árum og rifjaði upp viðtal sem blaðamaður Tímans tók við móður Vilhjálms í tilefni þessa. Svipaða sögu sagði hann af viðtali sem blaðamaður Tímans tók við móður frjálsíþróttamannsins Hreins Halldórssonar, þegar hann varð Evrópumeistari í kúluvarpi í San Sebastian á Spáni.
Guðni las viðtölin upp úr blaðagreinum. Hluta mæðra las með Guðna frjálsíþróttakonan Dýrunn Elín Jósefsdóttir.
Guðni rifjaði upp að um langt skeið hafi verið verið rætt um það hvort ungmennafélögin hafi sama erindi og fyrir 110 árum þegar UMFÍ var stofnað.
„Vissulega hefur margt þó breyst í tímans rás“ sagði Guðni. „Um leið skulum við halda í ungmennafélagsandann eina og sanna, ræktun lýðs og lands. Það er svo mikilvægt að setja sér markmið og vinna saman, ekki bara í íþróttum heldur lífinu öllu. Við erum samfélag þar sem allir eiga að geta spreytt sig, skarað fram úr ef vel gengur en hlýtt um leið sanngjörnum reglum í heiðarlegri keppni. Og bjáti eitthvað á hjá einum eiga aðrir að koma til hjálpar án þess að telja það eftir sér.“