Fara á efnissvæði
24. nóvember 2020

Æskulýðsvettvangurinn vekur athygli á neteinelti barna og ungmenna

Æskulýðsvettvangurinn hefur sett af stað vitundarvakningu um neteinelti á meðal barna og ungmenna. Hluti af átakinu er fræðslu- og forvarnarsíða um mismunandi birtingarmyndir og einkenni neteineltis, vísbendingar um neteinelti og alvarlegar afleiðingar þess.

Verkefnið er tvíþætt og felst í auglýsingu á samfélagsmiðlum og fræðslusíðu á vefsíðu Æskulýðsvettvangsins. Verkefnið er styrkt af Lýðheilsusjóði.

Í fyrsta lagi birtist nú börnum og ungmennum (13 – 25 ára eða eftir aldurstakmarki miðilsins) auglýsing á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram sem og á Youtube og Google um neteinelti. Fullorðnir sjá auglýsinguna ekki á þessum miðlum þar sem markhópurinn eru börn og ungmenni.

Hún hefur nú þegar náð til mörg tugþúsunda notenda á samfélagsmiðlum. 

Sema Erla Serdar, framkvæmdastýra Æskulýðsvettvangsins, segir viðbrögðin hafa verið jákvæð.

„Á þeim stutta tíma sem auglýsingin hefur verið í birtingu hafa borist spurningar frá fólki sem starfar með börnum og ungmennum, svo sem í félagsmiðstöðvum um það hvernig hægt er að nálgast auglýsinguna og sýna áfram í forvarnartilgangi. Myndbandið birtist núna einungis sem auglýsing fyrir þennan aldurshóp en það verður hægt að deila henni áfram frá miðlunum okkar fljótlega. Auglýsingin verður í birtingu fram á næsta ár.“

 

Fræðslusíða um neteinelti

Hinn anginn af verkefninu er fræðslusíða Æskulýðsvettvangsins um neteinelti.

Á fræðslusíðunni er að finna ýmsar staðreyndir um neteinelti, um mismunandi birtingarmyndir þess og einkenni, vísbendingar um að neteinelti eigi sér stað og hvað sé hægt að gera ef maður er þolandi, gerandi eða áhorfandi að neteinelti, foreldri/forsjáraðili eða starfsmaður með börnum og ungmennum.

 

 

Fræðslusíðan er „skreytt“ með raunverulegum ummælum sem börn og ungmenni skrifa um hvort annað eða sent á aðra á samfélagsmiðlum. Á vefnum er einnig að finna auglýsinguna sem er í dreifingu.

Áherslan er á að dreifa fræðslu- og forvarnarsíðunni og efninu sem er að finna á henni til þeirra sem starfa með börnum og ungmennum.

Upplýsingarnar á vefnum eru mikilvægar fyrir fagaðila til þess að kynna sér neteinelti, læra að þekkja merkin um að neteinelti eigi sér stað og hvað sé hægt að gera ef svo er. Hún er einnig mikilvægt verkfæri til fræðslu- og forvarnarstarfs fyrir þau sem starfa með börnum og ungmennum. Fræðslusíðuna er td. hægt að nota til þess að ræða neteinelti á meðal þeirra hópa sem starfað er með.

Æskulýðsvettvangurinn og UMFÍ hvetja alla til að vekja athygli á verkefninu og halda því á lofti.

Hægt er að smella á myndina og sjá auglýsinguna sem börn og unglingar fá í vitundarvakningunni. 

 

 

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ungmennafélags Íslands

Æskulýðsvettvangurinn vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi og stuðlar að heilbrigðum, uppbyggjandi, vönduðum og öruggum aðstæðum í slíku starfi.