Fara á efnissvæði
18. janúar 2021

Æskulýðsvettvangurinn: Vitundarvakning um neteinelti

Æskulýðsvettvangurinn hefur sett af stað vitundarvakningu um neteinelti meðal barna og ungmenna.

Átakið er tvíþætt:

Í fyrsta lagi birtist ungu fólki nú auglýsing á samfélagsmiðlum, Google og Youtube, sem á að vekja þau til umhugsunar um hegðun þeirra á netinu og minna þau á að það sem þau segja við og um annað fólk á netinu getur haft alvarlegar afleiðingar.

 

 

Í öðru lagi felur átakið í sér nýja fræðslu- og forvarnasíðu um neteinelti. Þar er meðal annars fjallað um mismunandi birtingarmyndir neteineltis, einkenni og alvarlegar afleiðingar þess, upplýsingar um hvar neteinelti fer helst fram og hvað sé hægt að gera ef maður er þolandi, gerandi eða áhorfandi að neteinelti.

Höfundur verkefnisins er Sema Erla Serdar, framkvæmdastýra Æskulýðsvettvangsins. Við spurðum hana fáeinna spurninga um vitundarvakninguna um neteineltið.

 

Hvert er markmiðið með vitundarvakningunni?

„Markmiðið með vitundarvakningunni um neteinelti er fyrst og fremst að skapa umræðu um neteinelti, sem er ein af stóru hættunum sem börn og ungmenni standa frammi fyrir í dag. Við viljum auka vitund og skilning á því hvað neteinelti er og hvernig hægt er að reyna að koma í veg fyrir það eða stöðva það þegar það er til staðar á meðal barna og ungmenna. Þá viljum við með vitundarvakningunni vekja börn og ungmenni, og helst alla aðra líka, til umhugsunar um hegðun þeirra á netinu, fá þau til að íhuga hvernig þau haga sér á netinu og hvort þau þurfi ef til vill að bæta hegðun sína því að það sem við segjum á netinu getur haft alvarlegar afleiðingar.“

 

 

Er þörfin mikil?

„Já, ég tel vera mikla þörf á því að opna á og auka umræðuna um neteinelti. Það er nokkuð ljóst að internetið og sú tækniþróun sem tengist netinu hefur gjörbreytt samskiptaleiðum Vitundarvakning um neteinelti fólks. Þetta hefur orðið til þess að samskipti hafa í auknum mæli færst yfir á netið og rafræn samskipti eru orðin ein helsta samskiptaleið ungmenna á okkar tímum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að ungt fólk notar netið í allt að 40 klukkustundir á viku og að allt að 92% barna fara á netið á hverjum degi. Vegna þessa eru þau berskjölduð gagnvart neteinelti og því er mikilvægt að leita leiða til þess að sporna gegn því.“

 

Hvað er það við neteinelti sem gerir það svona hættulegt?

„Afleiðingar af neteinelti geta verið mjög alvarlegar, jafnt fyrir þolendur, gerendur og samfélagið í heild sinni og það er því fyrst og fremst samfélagslegur lýðheilsuvandi. Það sem er svo athyglisvert við neteinelti er að það finnst á meðal allra aldurshópa, kynja og hópa fólks þótt það beinist oft sérstaklega að jaðarsettum einstaklingum eða hópum. Hver sem er getur orðið þolandi neteineltis og hver sem er getur orðið gerandi neteineltis.

 

 

Það sem gerir neteinelti svo erfitt viðureignar er að það getur farið fram hvar og hvenær sem er. Af því leiðir að þolendur eru hvergi óhultir. Þar að auki geta gerendur verið nafnlausir sem getur gert þetta sérstaklega erfitt úrlausnar. Rannsóknir hafa sýnt fram á að vegna þessa geta afleiðingarnar af neteinelti verið alvarlegri en afleiðingar hefðbundins eineltis, en þess ber að geta að þolendur neteineltis eru oft einnig þolendur hefðbundins eineltis.“

 

Hverjar eru afleiðingar neteineltis?

„Neteinelti er alvarlegur lýðheilsuvandi sem hefur neikvæðar afleiðingar fyrir alla sem eiga aðild að því. Neteinelti getur haft líkamlegar sem og andlegar afleiðingar fyrir þolendur. Áhrifin eru íþyngjandi og þau eru oft langvarandi. Sem dæmi má nefna að þolendur neteineltis eiga oft við kvíða, streitu, þunglyndi og svefnörðugleika að stríða. Þolendur glíma oft við lágt sjálfsmat, einmanaleika og félagslega erfiðleika. Neteinelti getur haft áhrif á námsárangur þar sem þolendur þora stundum ekki að mæta í skólann. Þá geta þolendur neteineltis leiðst út í ávanaog vímuefnanotkun, ofbeldi eða aðra áhættuhegðun. Því oftar sem neteineltið er endurtekið því meiri hætta er á þunglyndi, sjálfsskaða og sjálfsvígshugsunum hjá þolendum. Þá hafa þolendur neteineltis tekið sitt eigið líf. Þátttaka í neteinelti ýtir einnig undir þunglyndi og sjálfsvígshugsanir hjá gerendum.“

 

 

Þarf að fræða fullorðna með sama hætti um neteinelti?

„Já, neteinelti og önnur óæskileg hegðun á netinu er alls ekki bundin við börn og ungmenni og sést einnig hjá fullorðnu fólki. Munurinn er kannski fyrst og fremst sá að fullorðnir eru á öðrum stað en börn og ungmenni þegar kemur að netnotkun svo að vettvangurinn er kannski ekki sá sami. Það er gömul tugga að börnin læri það sem fyrir þeim sé haft en ég tel að hún eigi rétt á sér í þessu samhengi. Einhvers staðar læra börn og ungmenni að það sé í lagi að niðurlægja, hóta eða meiða aðra í samskiptum á netinu.“

 

Er neteineltið algengt, að þínu mati?

„Með auknum rafrænum samskiptum eykst óæskileg hegðun á netinu. Af því leiðir að neteinelti hefur aukist á síðustu árum. Því miður eru ekki til margar rannsóknir á neteinelti á Íslandi en erlendar rannsóknir sýna fram á að neteinelti er algengt. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að allt að 75% barna á skólaaldri hafa verið þolendur neteineltis og að mikill meirihluti nemenda í framhaldsskóla, eða 78%, hefur verið þolendur neteineltis. Ég hef áhyggjur af því að þolendum neteineltis muni fjölga hér á landi ef ekki verður opnað á umræðuna um neteinelti og fólki gerð grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingarnar geta verið. Þá þarf að gera þolendum, sem og gerendum, auðveldara að fá aðstoð, og leggja vinnu í að sporna gegn því að börn og ungmenni tileinki sér óæskilega hegðun á netinu.“

 

 

Fer neteinelti leynt eða liggur það á yfirborðinu?

„Það er mismunandi, og þess vegna er gott að þekkja vísbendingar þess að neteinelti eigi sér stað. Dæmi um það má meðal annars finna á fræðslusíðunni. Það sem er þó mikilvægt að nefna í þessu samhengi er að þolendur neteineltis, og þá sérstaklega þegar um ungmenni er að ræða, greina oft ekki frá eineltinu. Þolendur fá þar af leiðandi ekki viðeigandi aðstoð en reyna að vinna úr afleiðingunum af því sjálf. Það er áhyggjuefni sem mikilvægt er að bregðast við með því að opna á umræðuna um neteinelti. Þá á ég meðal annars við þjálfara, starfsfólk í félagsmiðstöðvum eða öðru æskulýðsstarfi og í skólanum, svo að þolendur viti að umhverfið sé öruggt og hægt sé að fá aðstoð. Með því er einnig opnað á að þeir sem eru áhorfendur að neteinelti greini frá, en það getur skipt sköpum fyrir þolendur neteineltis að þeir sem verða vitni að því taki ekki þátt í neteineltinu, meðal annars með því að horfa á og dreifa efni um aðra, heldur greini strax frá því svo að hægt sé að bregðast við því.“

 

Allt um málið: https://aev.is/neteinelti