Áfengi og veðmál rædd hjá UMFÍ
Miklar umræður sköpuðust um málefni veðmála og sölu áfengis á íþróttaviðburðum á sambandsráðsfundi UMFÍ, sem fram fór í Borgarfirði á laugardag. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, sagði við setningu fundarins einsýnt að íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin geti borið skarðan hlut frá borði verði veðmálastarfsemi gefin frjáls.
Jóhann sagði nauðsynlegt að standa vörð um tekjustofn hreyfingarinnar sem afkoma Íslenskrar getspár og Getrauna aflar henni. Af þeim sökum undraðist hann að ekki séu fleiri sem láti veðmálaumræðuna sig varða.
Fram kom í umræðum um sölu áfengis á íþróttaviðburðum að mikilvægt sé að farið verði eftir lögum og að tryggt verði að börn og ungmenni verði ekki fyrir áhrifum af sölunni.
Fyrir fundinn lá fyrir tillaga um sölu áfengis á viðburðum. Í umræðum komu fram breytingatillögur við hana og var niðurstaðan sú að stofna starfshóp um málið.
Um fimmtíu fulltrúar sambandsaðila UMFÍ sátu sambandsfundinn, sem fram fór á Hótel Varmalandi.
Ávarp Jóhanns í heild sinni
Kæru ungmennafélagar!
Verið öll hjartanlega velkomin á 45. sambandsráðsfund UMFÍ hér að Varmalandi sem er á sambandssvæði Ungmennasambands Borgarfjarðar.
Ég býð fulltrúa Íþróttabandalags Reykjanesbæjar og Íþróttabandalags Suðurnesja sérstaklega velkomin í hópinn en þessi tvö íþróttahéruð bættust í raðir UMFÍ á þessu ári. Með innkomu þeirra breyttist í raun heilmargt. Í stuttu máli má segja að félög sem voru með beina aðild að UMFÍ færðust undir héruð sín. Við það eru öll félög á Reykjanesi orðin aðilar að ungmennafélagshreyfingunni. Í dag stendur aðeins eitt íþróttahérað utan UMFÍ. Það er Íþróttabandalag Vestmannaeyja – auk eins félags með beina aðild. Hreyfingin hefur stækkað mikið á síðustu árum og vettvangur okkar er orðinn gríðarlega víðfeðmur og öflugur. Það skiptir okkur miklu máli, af því að saman erum við sterkari.
Þessar breytingar eru hluti af þeirri vegferð sem við hófum fyrir nokkuð löngu síðan en staðfestum svo fyrir ári þegar íþróttahreyfingin samþykkti samhljóða á þingum UMFÍ og ÍSÍ að gera breytingar á lottógreiðslum. Breytingin grundvallast á því að við öll innan íþróttahreyfingarinnar sitjum við sama borð þegar kemur að útdeilingu hlutdeildar í ábata af rekstri Íslenskrar getspár. Þær breytingar leystu úr læðingi mögulega þróun sem áður hafði verið í spennitreyju stöðnunar. Árangurinn af þessari ákvörðun er því þegar farinn að koma í ljós.
Stærsta verkefni vegferðarinnar framundan felst í því að halda áfram að virkja svæðisstöðvar íþróttahéraðanna og nýta tækifærin sem þau bjóða upp á. Tilgangurinn er að þær styðji íþróttahéruðin í því markmiði að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna af erlendum uppruna. Með þessu fyrirkomulagi má ná markmiðum sem stjórnvöld hafa sett með lögum um farsæld barna, íþróttalögum, íþróttastefnu ríkisins og byggðaáætlun.
Markmið svæðisstöðvanna er:
- að efla íþróttastarf á landsvísu með því að þjónusta íþróttahéruð og félög á viðkomandi svæðum með samræmdum hætti
- að nýta mannauð betur, auka stuðning við einstaka íþróttafélög og bæta þjónustu til iðkenda
- að sem flestir hafi tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur að markmiði.
Til að þetta verkefni takist sem best verðum við öll að taka höndum saman og ná þeim markmiðum sem sett eru til að stuðla að frekari framgangi verkefnisins til framtíðar.
Íþróttahreyfingin hefur sýnt að þegar hún snýr bökum saman og virkjar þann kraft sem í henni felst þá er hún hrikalega öflug - saman. Með gildi okkar að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir – en aðeins ef við stöndum saman.
Breytingar á lottógreiðslum komu til framkvæmda í júlí, rúmum sjö mánuðum eftir að nýtt fyrirkomulag var samþykkt. Við vitum að raunveruleikinn getur verið kaldur og það reynir á þegar lægri fjárhæðir verða til ráðstöfunar hjá héruðum og félögum.
Greiningar okkar sýna að skiptihlutföll til sambandsaðila og greiðslur til einstakra héraða eru í samræmi við þær kynningar sem lagðar voru fyrir þingið í fyrra. Stærsta frávikið liggur í fjárhæð samningsins sem náðist við stjórnvöld en sá samningur er í raun nokkuð hærri en gert var ráð fyrir.
Auk þess kom einnig til viðbótar fjármagn inn í nýjan hvatasjóð. Í því sambandi er líka gaman að segja frá því að til stendur að auglýsa fyrstu úthlutun úr honum fljótlega.
En þó að þessi ábati bæti í heildarfjármagn íþróttahreyfingarinnar - og leysi ákveðin verkefni - þá er hann ekki að grípa ýmsar aðrar áskoranir sem við í íþróttahreyfingunni stöndum frammi fyrir á hverjum degi.
Augljóst er að til að tryggja óbreytt ástand - og ég tala nú ekki um að bæta í - þá þarf íþróttahreyfingin verulega aukinn stuðning. En til að ná árangri í auknum stuðningi þá verðum við í íþróttahreyfingunni að sammælast um hvað við setjum á oddinn og þar verðum við að nýta okkur svæðisstöðvar og þingmannavikur til að koma sameiginlegum boðskap okkar á framfæri. Það á sérstaklega við nú þegar á starfsárinu verða kosningar. Við þurfum að koma íþróttamálum betur á dagskrá.
Nú þegar við erum ekki föst í lottóumræðum höfum við tækifæri til að láta reyna á að fá endurgreidd launatengd gjöld í íþróttahreyfingunni, fá aukinn ferðastyrk eða endurgreiðslu virðisaukaskatts. En til að það takist verðum við að vera samstíga og taka eitt skref í einu. Ákveða hvað er líklegast til að skila mestum árangri fyrir heildina og sækja þar fram – við verðum að gera það saman.
Annasamt ár er að baki. Við höfum haldið nokkrar ráðstefnur, með annarri og ein, fyrir alla og svo sérstaklega ráðstefnur fyrir ungmenni og konur í íþróttum. Við höfum líka haldið fjóra íþróttaviðburði af öllum stærðum og gerðum sem tengjast landsmótunum okkar. Innan við mánuður er síðan ungmennaráðstefnan Ungt fólk og lýðheilsa fór fram á Reykjum í Hrútafirði og var metþátttaka á hana þetta árið. Orðspor hennar hefur vaxið ár frá ári og segja má að hún endurspegli starfsemi UMFÍ frábærlega. Þá má ekki gleyma útgáfu á Skinfaxa og móttöku á hátt í 4.000 nemendum í skólabúðirnar. Af fjölmörgu er að taka og ekki hægt að telja upp öll handtökin.
Ég vil nota þetta tækifæri og biðja ykkur um að klappa með mér fyrir starfsfólki hreyfingarinnar auk allra þeirra sem koma einnig að þessum viðburðum og þakka þannig fyrir þau frábæru störf sem þau leggja að mörkum til að gera þessa atburði að veruleika.
Íþróttahreyfingin og í raun samfélagið allt stendur frammi fyrir nýjum áskorunum. Hræðilegir atburðir hafa skekið samfélagið. Við erum öll sammála um að slíkt ástand viljum við ekki. Íþróttahreyfingin, íþróttafélögin og öll sem starfa innan skipulags íþrótta- og ungmennastarfs höfum mikilvægu hlutverki að gegna. Þegar hryktir í stoðum samfélagsins þá eigum við að styrkja þær því að við vitum að tólin okkar og aðferðir virka.
Við heyrum og finnum sjálf að starfið er að þyngjast. Kröfur aukast og það er ekki sjálfgefið að fólk hafi svigrúm til að gefa af tíma sínum og efnahagsástandið hefur leitt til þess að erfitt er að fá styrki. Reksturinn er allur að þyngjast. En flest okkar hafa verið lengi í þessu hlutverki og við þekkjum að þessi orðræða er ekkert ný af nálinni.
Í nýútkominni bók um Lýðræði í mótun segir frá afstöðu Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili sem saknaði kvöldvaka á heimilum fólks. Vinnukappið væri nú svo miklu minna, rímnakveðskapurinn að hverfa og nú læsi hver með sjálfum sér í sínu horni.
Það skýrir myndina mögulega eitthvað að Jónas var þarna að tala um skil tveggja heima um miðja nítjándu öld, þegar tími torfbæja var að líða undir lok, baðstofur að hverfa, á tímum þegar heimilisfaðirinn réð ekki lengur einn yfir takmarkaðri ljóstýrunni og nýtti hana til að lesa í baðstofunni fyrir heimilisfólkið úr Fornaldarsögum Norðurlanda, Konungasögum og Biblíunni.
Þetta voru áratugirnir þegar hús voru tekin að rísa, með herbergjum fyrir einstaklinga og steinolíulampa sem gerðu það að verkum að fleiri gátu lesið hvað þeir vildu undir björtum loga. Eitthvað var að gerast í samfélaginu – og fólk óttaðist breytingarnar, það sem koma skyldi.
Tryggvi Gunnarsson, sem er ungmennafélagshreyfingunni að góðu kunnur, fann einnig hjá sér þörfina til að setjast niður og skrifa sjálfum Jóni Sigurðssyni, oft nefndum forseta, bréf og segja honum frá þeim vanda sem steðjaði að í samfélaginu. Nú væri svo komið að greina mætti skort á félagslegum tengslum. Sökum fólksfæðar og því sem kalla mætti nýjungar hittist fólk minna en áður, væri jafnvel einangrað á heimilum sínum og hitti sjaldan aðra en sitt heimafólk. Þetta var árið 1861.
Tímamót eru af ýmsu tagi og þeim fylgir ævinlega umrót og óvissa. Ég leyfi mér þó að efast um að margir, ef nokkur, vilji samt sem áður hverfa aftur til baðstofunnar þó að hún hafi vissulega umvafið fjölskyldur á sínum tíma.
Enn er eitthvað í loftinu og við í ungmennafélagshreyfingunni stöndum nú sem endranær frammi fyrir fjölmörgum verkefnum og áskorunum. Okkur hafa borist til eyrna ábendingar um ýmis mál, svo sem afgreiðslu umsókna í fræðslu- og verkefnasjóð. Laganefnd stefnir á endurskoðun laga UMFÍ með samlestri við góða stjórnarhætti. Huga þarf að íþróttamótunum okkar og við þurfum að vera undirbúin því að lagaumhverfi íþróttahreyfingarinnar verði breytt á Alþingi. Þreifingar hafa verið um lóðarleigusamning vegna Þrastarlundar eftir ítrekuð vanskil. Bragarbót hefur verið gerð á greiðslum og unnið er að nánari útfærslu samningsins m.a. til úrbóta fyrir UMFÍ. Þá hefur fjárhags- og greiningarnefnd haft til skoðunar að breyta skipulagi Þrastaskógar þannig að heimilt verði að byggja sumarhús í norðausturhluta svæðisins.
Enn er sótt að hreyfingunni í umræðu um veðmálastarfsemi og er að mínu mati nauðsynlegt að standa vörð um þennan tekjustofn. Því er ekki að neita að ég sakna þess að það skuli ekki vera fleiri í hreyfingunni sem láti sig veðmálaumræðuna varða á opinberum vettvangi. Verði slík starfsemi opnuð með orðskrúði viðskiptafrelsis þá tel ég einsýnt að tekjur hreyfingarinnar muni lækka. Að því sögðu er ég ekki að útiloka að mögulega kunni einstaka greinar eða félög að fá hærri fjárhæð til ráðstöfunar en er í dag en ég er sannfærður um að hreyfingin í heild muni bera skarðan hlut frá borði. Vonir um auknar tekjur í auglýsingum eða frekari stuðning stjórnvalda við málaflokkinn tel ég í besta falli huggunarorð því ekkert hefur stoppað þessa aðila frá því að styðja hreyfinguna í núverandi ástandi ef viljinn væri til staðar. Þvert á móti þá hefur stuðningur ríkisins við UMFÍ lent á verðbólgubálinu og munar tugum milljóna lægri fjárhæð á raunvirði á nokkurra ára tímabili.
Á þessum fundi liggur fjölmargt fyrir en þrátt fyrir að hann kunni að verða erilsamur með tilheyrandi áskorunum og skiptum skoðunum vona ég að hann verði umfram allt skemmtilegur og gefandi.
Ég kalla því eftir að heyra sjónarmið ykkar og fá tillögur um það sem betur mætti fara og hlakka til að taka umræðuna hér í dag varðandi allt það sem ykkur liggur á hjarta. Með samtali og uppbyggilegri gagnrýni gerum við starf hreyfingarinnar okkar enn betra – Það er ungmennafélagsandinn í verki.
Kæru ungmennafélagar: Grípum tækifærin, vinnum saman og gerum lífið betra. Það er samfélaginu til góða.
Íslandi allt