Fara á efnissvæði
02. maí 2019

Áhersla á öryggi, aðgengi og fagmennsku í nýrri íþróttastefnu

„Með nýrri íþróttastefnu erum við að skilgreina þau forgangsverkefni sem við viljum vinna að næstu árin og þar horfum við einkum til þriggja þátta, að tryggja gott aðgengi fyrir iðkendur óháð uppruna þeirra og aðstæðum, að umhverfi íþróttanna sé öruggt fyrir iðkendur og starfsfólk og svo að styrkja faglega umgjörð íþróttastarfs í landinu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Hún kynnti í dag nýja stefnumótun í íþróttamálum. Stefnumótunin var unnin í samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og íþróttanefndar ríkisins. Stefnan á að gilda frá árinu 2019 til 2030.

„Grunnur íþróttastarfs í landinu er traustur og aðstaða til íþróttaiðkunar góð og það er kappsmál okkar allra að halda áfram á þeirri braut,“ sagði Lilja.

 

 

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, voru viðstödd kynninguna á nýju íþróttastefnuna ásamt Soffíu Ámundadóttur, formanni íþróttanefndar ríkisins, Óskari Þór Ármannssyni, sérfræðingi í ráðuneytinu, þeim Lárusi Blöndal, forseta ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra ÍSÍ og fólki í íþróttanefndinni ásamt öðrum sem komu að gerð íþróttastefnunnar.

 

Samvinna ÍSÍ og UMFÍ styrkir verkefnin

Lykilþættir í stefnunni og leiðarstef í íþróttastefnu stjórnvalda eru virk þátttaka og aðgengi allra að íþróttastarfi. Í nýju stefnunni er einnig lögð sérstök áhersla á nánara samstarf innan íþróttahreyfingarinnar og þátttöku ungmenna með annað móðurmál en íslensku og jafnrétti.

Í stefnunni er meðal annars fjallað um skipulag og starfsemi íþróttahreyfingarinnar og þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi á undanförnum árum. Fram kemur að mikilvægt sé að hlutverk og skipulag starfseininga í íþróttastarfi sé metið reglulega og að endurskoða megi verkefni, fjölda og skipulag íþróttahéraða landsins. Þá sé brýnt að auka samvinnu Íþrótta og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands til að einfalda, styrkja og samræma verkefni þeirra.

 

Veita 1,2 milljörðum í íþrótta og æskulýðsmál

Framlög ríkisins til íþróttamála hafa nær þrefaldast á sl. 9 árum en á þessu ári veitir ríkið rúmlega 967 milljónum kr. til samninga og styrkja vegna íþróttamála. Þar munar mest um aukin framlög til Afrekssjóðs og Ferðasjóðs íþróttafélaganna. Framlög til Afrekssjóðs hafa fjórfaldast frá árinu 2016 og umtalsverð hækkun hefur einnig orðið til Ferðasjóðs, úr 57 milljónum kr. árið 2010 í 130 milljónir kr. sl. þrjú ár. Ríkið veitir samkvæmt fjárlögum 2019 alls um 1,2 milljörðum kr. til íþrótta- og æskulýðsmála.  

Stefnan sem nú var kynnt byggir á endurskoðun fyrri stefnu sem í gildi var frá 2011-2015. Liður í þeirri endurskoðun voru fundir með hagsmunaaðilum en auk þess voru drög stefnunnar kynnt í samráðsgátt stjórnarráðsins í vetur. Ný íþróttastefna mun gilda frá 2019-2030 en fyrirhugað er að hún verði endurmetin árið 2024.

 

Ítarlegri upplýsingar: Stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum