Fara á efnissvæði
26. mars 2019

Aldís Arna dansar með fólki og styður við Sýnum karakter

„Ég varð strax hugfangin af verkefninu „Sýnum karakter“ þar sem það snýr að miklu leyti að sjálfstykingu, félagsfærni og leiðtogahæfni barna og unglinga“ segir Aldís Arna Tryggvadóttir, Hún ætlar að halda fjögurra vikna sérnámskeið í átta skipti í Dance Aerobics í Borgarnesi og rennur ágóðinn af því til styrktar innleiðingu Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) á verkefninu Sýnum karakter.

Aldís Arna segir kvíða og depurð samfélagslegar staðreyndir sem hafi hamlandi áhrif á einstaklinga, fjölskyldur og lífsgæði. Af þeim ástæðum vilji hún vekja athygli á málefninu og styðja við innleiðingu á Sýnum karakter hjá UMSB.

 Styrkurinn þessi gerir UMSB kleift að bjóða upp á fræðslu um sálræna og félagslega þætti barna og unglinga.  

 

Mikilvægt að líða vel í eigin skinni

„Upphaflegt vinnuheiti þessa söfnunar var ,,Dans gegn depurð“. Sjúkrasjóðir eru að tæmast, geðlyf seljast í tonnatali og ein helsta ástæða örorku á Íslandi eru andlegir sjúkdómar. Við getum alltaf haft áhrif! Ég er endalaust þakklát því að búa í Borgarbyggð í návígi við yndislegt og heilsteypt fólk sem vill láta gott af sér leiða. Ég hef fundið fyrir því í starfi mínu sem markþjálfi að fólk skortir oft sjálfstraust sem hamlar þeim í lífi, leik og starfi. Það er kveikjan að því að hjálpa fólki að styrkja sjálfstraust sitt. Saman getum við nefnilega meira – m.a. með því að vekja máls á mikilvægi hreyfingar og eflingar sjálfstrausts,“ segir hún.

 

 

Aldís Arna heldur áfram um Sýnum karakter í starfi UMSB.

„Ég er hugfangin af verkefninu. Þar eru sérstakir kaflar um sjálfstraust, félagsfærni og leiðtoga – þá þætti sem eru taldir hvað mikilvægastir til að líða vel í eigin skinni, njóta lífsins og ná árangri. Sterkir einstaklingar sýna sjálfum sér og öðrum virðingu og þeir gefa meira af sér til annarra og þannig „græða“ allir. Sjálfsrækt er eitt það mikilvægasta sem við gerum: að fjárfesta í sjálfum sér, gefa tilfinningum sínum gaum og geta tjáð sig. Fólk eyðir oft miklum tíma í að skilja og þóknast öðrum. Útrásin við hreyfingu losar um gleðihormónið endorfín sem hjálpar okkur líka að finnast allt mögulegt um leið og við minnkum margfalt líkurnar á líkamlegri og andlegri vanlíðan. Hreyfing er allra meina bót - heilbrigð sál í hraustum líkama,“ segir hún.

Aldís Arna er með kennararéttindi frá Fusion Fitness Academy í hóptímakennslu hvers konar og styrktarþjálfun.

UMFÍ færir Aldísi Örnu kærar þakkir fyrir að vekja verðskuldaða athygli á verkefninu og leggja því lið með fjárhagslegum stuðningi.

 

Betra að styrkja fólk en laga

„Mér finnst mikilvægt að við byrjum strax að hlúa að yngri kynslóðinni, það er miklu auðveldara að byggja upp sterka einstaklinga en „laga“ fullorðið fólk síðar meir. Það er afar brýnt að einstaklingar læri strax að viðhalda og rækta þá sterku sjálfsmynd sem þeir fengu í vöggugjöf – sjálfum sér, samferðarmönnum sínum og samfélaginu öllu til heilla.

Ég er þakklát því að búa í Borgarbyggð. Hér býr heilsteypt og yndislegt fólk. Þess vegna langar mig að láta gott af mér leiða til samfélagsins. Það er brýnt að nýta hvert tækifæri til að vekja máls á mikilvægi hreyfingar og eflingar sjálfstrausts. Þetta er mitt framlag,“ segir Aldís Arna Tryggvadóttir.

 

Allt um námskeiðið

Námskeiðið hefst í dag - 26. mars – og stendur til 28. apríl. Námskeiðin eru á þriðjudögum klukkan 17:30 og á Hvanneyri á sunnudögum klukkan 11:30.

Skráning á námskeiðið er á https://www.facebook.com/groups/197438914179480/ . Hægt er að skrá sig í staka tíma eða á heilt námskeið.