Aldrei of seint að byrja að æfa
Hvaða ráðum lumar Pálína Margeirsdóttir á fyrir þá sem langar til að taka þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ sem fram fer í Neskaupstað um næstu helgi en finnst það ekki í formi?
„Að byrja að æfa, það er aldrei of seint!“ svarar hún.
Pálína hvetur alla til að taka þátt í mótinu.
„Það er eins með þetta mót og öll önnur hjá UMFÍ; þetta er frábært tækifæri til að hitta vini, eignast nýja og ekki síst að ferðast um landið okkar og heimsækja staði sem maður er ekkert mikið að stoppa á,“ segir Pálína, sérgreinastjóri í frjálsum íþróttum. Pálína segir mótið í Neskaupstað góða hvatningu fyrir fólk til að taka þátt og sjá hvernig mótin virka. „Í mínum huga snýst þetta aðallega um að maður er manns gaman og verður þá jafnvel til að fólk fari að gera sér ferð á næstu árum til að vera með. Þetta verður gaman, ég spái góðu veðri og sól,“ segir hún. Pálína æfði frjálsar íþróttir á árum áður og lagði áherslu á stökk og hlaup. Henni fannst gaman enda áherslan þar á góða tækni. Hún viðurkennir að langt sé síðan hún æfði síðast. Helsta hreyfingin nú er daglegir göngutúrar með hundinum Skottu.
Pálína hefur ekki aldur til að keppa í flestum greinum mótsins en býst við að gera það á næsta ári. Frjálsar eru ofarlega á blaði auk einhverra fleiri greina. En Pálína veit í hverju hún ætlar ekki að taka þátt. Það er ein af vinsælustu greinum mótsins, pönnukökubaksturinn.
„Það er fátt sem ég gæti mögulega verið verri í,“ segir hún.
Pálína hvetur alla sem hafa áhuga á því að hreyfa sig að koma á Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað og taka þátt, hvort sem það er til að keppa, vera sjálfboðaliði eða horfa á og hvetja aðra þátttakendur.
Viðtalið við Pálínu er í blaði Landsmóts UMFÍ 50+ sem er nýkomið út. Blaðið má lesa á Netinu. Þar er líka allt um greinarnar sem í boði eru og öll dagskrá mótsins. Smelltu á hlekkinn hér að neðan og þar geturðu lesið blaðið:
Með hverjum ætlar þú á Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað dagana 28. - 30. júní?
Skráningu á Landsmót UMFÍ 50+ í Neskaupstað lýkur þriðjudaginn 25. júní
Allar upplýsingar um mótið er að finna hér og þar geturðu líka skráð þig: Landsmót UMFÍ 50+
Hér eru fleiri myndir frá Landsmóti UMFÍ 50+
Sjáumst í Neskaupstað!