Fara á efnissvæði
14. maí 2019

Alexandra er nýr verkefnastjóri Hreyfiviku UMFÍ

„Það er mjög áhugavert að taka þátt í verkefni sem stuðlar að heilbrigðum lífsstíl og því að fá fleiri til að hreyfa sig. Sjálf stunda ég íþróttir 4-5 sinnum í viku, um klukkutíma í hvert sinn,“ segir Alexandra Björg Ægisdóttir nýr verkefnastjóri Hreyfiviku UMFÍ. Hún tekur við verkefninu af Sabínu Steinunni Halldórsdóttur, sem er í fæðingarorlofi.

Alexandra er 21 árs og að útskrifast úr viðskiptafræði frá Háskóla Íslands í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði, alþjóðaviðskipti og stjórnun.

Alexandra er Selfyssingur í húð og hár og býr þar. Hún er dóttir Bryndísar Guðmundsdóttur og barnabarn Guðmundar Steindórssonar, fyrrverandi aðstoðarvarðstjóra lögreglunnar á Selfossi sem lést fyrir nokkrum árum og margir kannast við.

 

Alltaf á hreyfingu

Alexandra hefur frá barnæsku æft íþróttir. „Ég byrjaði fjögurra ára í fimleikum hjá Ungmennafélagi Selfoss en hætti um fimmtán ára. Ég lagði íþróttir á hilluna þegar ég byrjaði í framhaldsskóla en hóf að æfa crossfit fyrir ári og geri það 4-5 sinnum í viku, klukkutíma í senn,“ segir hún.

Alexandra er jafnframt mikil hestakona eins og hún á kyn til. „Fjölskylda mín hefur alltaf átt hesta og við eigum þá þónokkra. Þegar ég var yngri tók ég þátt í mörgum mótum á vegum Hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi og Ljúfs í Hveragerði. Ég hef ekki farið nógu mikið á hestbak eftir að ég byrjaði í háskólanum en ætla að gera það strax eftir útskrift,“ segir hún.

 

Hreyfivika UMFÍ

Hreyfivika UMFÍ er dagana 27. maí til 2. júní. Markmið Hreyfiivikunnar er það sama og í upphafi, að fjölga þeim sem hreyfa sig reglulega og kynna fyrir fólki kosti þess að taka virkan þátt í hreyfingu og íþróttum. UMFÍ hvetur fólk til að finna sína uppáhalds hreyfingu og stunda hana reglulega eða í að minnsta kosti í 30 mínútur á hverjum degi.

„Það er mjög einfalt að taka þátt í Hreyfivikunni. Fjöldi boðbera hreyfingar er út um allt land að skipuleggja viðburði sem verða bæði í aðdragana Hreyfivikunnar og á meðan henni stendur. Boðberarnir eru sjálfboðaliðar, frábært fólk sem hreyfir við öðrum og gerir fleira fólki tækifæri til að sjá hvaða hreyfing er í boði. Þeir virkja fólkið í kringum sig og vekja athygli á hreyfingu sem fólk getur stundað,“ segir Alexandra.

Viðburðir í Hreyfiviku UMFÍ geta verið allskonar. Þeir geta verið opin æfing á fyrir alla, göngutúrar, ókeypis í sund eða jógatímar.

„Það er lítið mál að taka þátt í Hreyfiviku UMFÍ,“ segir Alexandra.

Boðberar hreyfingar geta skráð þá viðburði sem þeir vilja standa fyrir á vefsíðunni www.hreyfivika.is og aðrir séð hvað er í boði um allt land í Hreyfiviku UMFÍ.

 

Allt um Hreyfiviku UMFÍ