Fara á efnissvæði
06. janúar 2025

Álfheiður: Draumurinn að auðvelda íþróttastarfið

Álfheiður Sverrisdóttir er í starfshópi átta svæðisstöðva íþróttahéraðanna sem tóku til starfa á síðasta ári. Hún vinnur á Vesturlandi og horfir til þess að aukið samstarf skili sér í betri íþróttahreyfingu.

Rætt var við starfsfólk svæðisstöðvanna í Skinfaxa á síðasta ári, rætt um bakgrunn fólksins og væntingar til starfsins.

 

Álfheiður Sverrisdóttir

Aldur: Fædd á jóladag 1989.

Búseta: Ég er fædd og uppalin á Hvanneyri í Borgarfirði og bý þar með drengjunum mínum tveimur.

Starfsstöð: Hvannahúsið á Hvanneyri. Menntun og fyrri störf: Ég er náttúru- og umhverfisfræðingur og með UEFA-B knattspyrnuþjálfaragráðu. Ég var síðastliðin sjö ár í starfi á kennslusviði Landbúnaðarháskóla Íslands.

Bakgrunnur í íþróttum: Ég æfði fótbolta, körfubolta og samkvæmisdansa á yngri árum. Ég er svolítið alin upp í ungmennafélagsandanum og hef því verið viðloðandi við ýmiss konar sjálfboðaliðastörf frá unga aldri.

Hvað vantar í umhverfi íþrótta? Við þurfum að gera íþróttastarf aðgengilegra fyrir öll börn.

Hvaða væntingar hefurðu til vinnu starfshóps svæðisstöðvanna? Við þurfum meira fjármagn inn í barna- og unglingastarf íþróttahreyfingarinnar. Rekstur margra íþróttafélaga er alltof þungur miðað við mikilvægi starfsins fyrir samfélagið.

Brennur þú fyrir einhverju sem þú vilt sjá verða að veruleika? Dreifbýlið á hjarta mitt og draumurinn er að hópurinn geti fundið leiðir til að auðvelda íþróttastarfið í minni samfélögum þar sem smæðin og vegalengdirnar eru oft stærstu áskoranirnar.

Hvernig líst þér á hópinn? Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum, hópurinn er fjölbreyttur og reynslumikill, hress og skemmtilegur. Við náum vonandi að styðja við íþróttahéruðin af krafti til að auðvelda þeim sín störf og koma í veg fyrir að fleiri sjálfboðaliðar brenni út.

Hvernig sérðu fyrir þér árangur af vinnunni á næstu árum? Ég vona að vinna hópsins leiði til aukinnar samvinnu og samræmingar innan landsvæða en einnig á landsvísu. Við getum lært svo margt hvert af öðru. Oft getur reynst mjög erfitt að vera einn í sínu horni og reyna að finna upp hjólið.

 

Meira um svæðisstöðvar íþróttahéraðanna

Á þingum ÍSÍ og UMFÍ í fyrra voru samþykktar tillögur um eflingu íþróttastarfs á landsvísu og að koma á fót átta svæðisstöðvum um allt land.

Tveir starfsmenn eru á hverri svæðisstöð. Störfin voru auglýst í vor og bárust meira en 200 umsóknir um þau. Búið er að manna allar stöður og vinna er komin á fullt á svæðisstöðvunum um allt land. Hlutverk svæðisstöðvanna er að þjónusta með samræmdum hætti íþróttahéruðin í nærumhverfi hvers þeirra. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðisstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar í heild og geri hverju íþróttahéraði kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni, styrki stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu, stuðli með þeim hætti að farsæld barna og allra þeirra sem nýta þjónustu íþróttahreyfingarinnar.

 

Hægt er að lesa Skinfaxa í heild sinni á umfi.is. Líka er hægt að smella á myndina hér að neðan og opna blaðið. 

Lesa Skinfaxa