Fara á efnissvæði
27. maí 2019

Allir eru með í Hreyfiviku UMFÍ

„Borgfirðingar taka alltaf þátt í Hreyfiviku UMFÍ. Við leggjum okkur líka fram um að bjóða öllum að vera með, bæði börnum og fullorðnum,“ segir Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). Hreyfivika UMFÍ hefst í dag og geta landsmenn tekið þátt í alls konar hreyfitengdum viðburðum í sínum heimabæ sem vonast er til að hvetji sem flesta til að hreyfa sig og geri öðrum kleift að finna sína uppáhalds hreyfingu og njóta hennar reglulega í að minnsta kosti 30 mínútur á hverjum degi.

Hreyfivika UMFÍ er samevrópskt verkefni sem hefur verið haldið á hverju ári síðan árið 2012.

 

100 viðburðir um allt land

Boðið er upp á meira en 100 viðburði um allt land í vikunni. Hægt er að sjá á vefsíðu Hreyfivikunnar hvað er í boði í hverju sveitarfélagi. Boðið er upp á knattspyrnuæfingu á Djúpavogi, hjólaferðir og sjósund og margt fleira á Ísafirði og fjölda annarra viðburða víða um land. Svo er sundkeppni sveitarfélaga í fullum gangi en í henni keppir fólk að því að synda sem mest í sínu bæjarfélagi.

Skoðið vefsíðuna www.hreyfivika.is og finnið viðburð.

Í Borgarfirði er Hreyfivikan í samstarfi við heilsueflandi samfélag í Borgarbyggð. Í dag geta allir sem vilja komið á æfingu hjá knattspyrnudeild Skallagríms, á morgun eru margir viðburðir, gönguferðir og crossfitbraut, fyrirlestrar um hreyfingu og heilbrigði í Hjálmakletti, Stefanía Nindel býður í jógatíma á Hvanneyri, þar verður líka ringó og margt fleira.

Sigurður hvetur íbúa Borgarbyggðar til að nýta sér viðburðina sem boðið verður upp á í vikunni. Viðburðina í Borgarfirði má sjá á vefsíðu UMSB.

Sigurður var í viðtali í þættinum Molar í Héraði og ræddi þar um Hreyfiviku UMFÍ í Borgarfirði. Hægt er að smella á myndina og bæði sjá og heyra viðtalið við hann.