Fara á efnissvæði
11. janúar 2021

Allir geta sett mark sitt á Æskulýðsstefnuna

Mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnti í vikunni samráðsdrög að stefnu í skipulögðu félags- og tómstundastarfi barna- og ungmenna eða svokallaðri Æskulýðsstefnu. Gildistími stefnunnar er til ársins 2030. Í samráðsgátt er vakin sérstök athygli á því að um vinnuskjal er að ræða þar sem óskað eftir er eftir athugasemdum fyrir áframhaldandi vinnu. 

Um er að ræða stefnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins og það sem ráðuneytið hyggst leggja áherslu á og aðhafast til að styðja við skipulagt félags- og tómstundastarf. Tilefni stefnumótunarinnar er aukin krafa um gæði og öryggi í skipulögðu félags- og tómstundastarfi og framtíðarsýn fyrir málaflokkinn.

Með stefnu í skipulögðu félags- og tómstundastarfi er hægt að stuðla enn frekar að innleiðingu Barnasáttamála Sameinuðu þjóðanna og tilmælum Evrópuráðsins um gæði félags- og tómstundastarfs. Um leið er sett framtíðarsýn fyrir málaflokkinn og forgangsröðun verkefna. Með þátttöku í skipulögðu félags- og tómstundastarfi fá börn og ungmenni tækifæri til að taka þátt á sínum forsendum, þroskast í öruggu umhverfi og um leið styðja við grunngildi þess að búa í lýðræðislegu samfélagi.

Þetta er liður í auknu samráði í vinnuferlinu þar sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft víðtæk áhrif á samráð við haghafa. Unnið verður að tillögum að aðgerðum til þess að fylgja stefnunni eftir þegar úrvinnslu úr samráðsgátt lýkur. Sérstakt samráð um aðgerðir verður síðar.

UMFÍ hvetur stjórnendur sambandsaðila og aðildarfélaga þeirra til að kynna sér málið og taka þátt í mótun stefnu um félags- og tómstundastarf barna og ungmenna.

Stefnt er að því að stefnan taki gildi í vor.
 

KYNNA SÉR MÁLIÐ OG SKRIFA UMSÖGN