Fara á efnissvæði
29. janúar 2018

Allir verða að upplifa Laugar í Sælingsdal

Nemendur í 9. bekk í Varmahlíðarskóla í Skagafirði fóru í fyrsta sinn í byrjun október 2017 í heila viku í Ungmenna- og tómstundabúðirnar á Laugum í Sælingsdal. Aðstoðarskólastjórinn segir krakkana í skýjunum eftir dvölina og er búinn að panta pláss aftur á næsta ári.

„Krökkunum fannst alveg frábært á Laugum. Þau undirbjuggu sig vel og þegar þau  komu aftur í skólann sögðu þau yngri bekkingum að það yrðu allir að fara þangað,“ segir Lára Gunndís Magnúsdóttir, aðstoðarskólastjóri Varmahlíðarskóla í Skagafirði.

Næstum allir nemendur í 9. bekk Varmahlíðarskóla fóru í Ungmenna- og   tómstundabúðirnar á Laugum í heila viku í byrjun október 2017. Þetta var í fyrsta skipti sem nemendur við Varmahlíðarskóla fara í Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ.

Lára vissi um Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ og þá kosti sem prýða þær. Þegar landsfulltrúi UMFÍ heimsótti Varmahlíðarskóla árið 2015 og kynnti þær var fræjunum sáð víðar. Svo vildi líka til að umsjónarkennari árgangsins, sem var að fara vestur, hafði farið þangað með bekk í öðrum skóla nokkrum árum fyrr.

Nemendurnir undirbjuggu ferðina mjög vel, seldu vöfflur og seldu inn á leiksýningu á verki eftir sögu sem var til náms í skólanum til að fjármagna hana. Foreldrar  nemendanna greiddu það sem upp á vantaði, fjárhæð sem jafngildir fæðiskostnaði ungmennanna í þá daga sem þau voru á Laugum. Með í ferðina fóru tveir starfsmenn á vegum skólans, einn kennari og umsjónarmaður félagsmála.

Lára segir dvölina í Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ hafa stutt við námið í skólanum. „Þau fengu fjölbreytt verkefni og lærðu að koma fram og tala. Námið rímaði líka mjög vel við það sem við gerum í Varmahlíðarskóla, sem er heilsueflandi skóli, í sjálfsstyrkingu, útiveru og öðru. Krakkarnir fengu líka að prófa alls konar íþróttir og útivist,“ segir Lára Gunndís aðstoðarskólastjóri.

 

Vildu vera á Laugum að eilífu

„Ferðalangarnir höfðu áhyggjur af því að þurfa að ferðast inn í annan heim, eiginlega horfinn heim,“ segir Trostan Agnarsson, umsjónarkennari 9. bekkjar við  Varmahlíðarskóla. Hann á þar ekki við Laxárdalinn, sögusvið Laxdælu og Auðar djúpúðgu, heldur það að þetta var heimur án rafrænna samskipta við umheiminn.

„Símar og annað slíkt fékk því ekki að fljóta með þar eð slíkt var talið trufla um of hin fallegu mannlegu samskipti sem eiga að einkenna daglega lífið.  

Tækin, sem skilin voru eftir, gleymdust furðu fljótt og fólk naut þess að dvelja í þessum horfna heimi mannlegra samskipta. Nemendur höfðu á orði að í ævintýraheimi sem þessum væri hægt að dvelja lengi, jafnvel að eilífu.“  

 

Umfjöllunin um Laugar birtist í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ.

Þú getur smellt hér og lesið Skinfaxa

 

Hér má sjá fleiri myndir frá ferð nemendanna í Varmahlíðarskóla að Laugum í Sælingsdal.