Fara á efnissvæði
05. október 2018

Allt á fullu fyrir mót UMFÍ árið 2019

Undirbúningur er í fullum gangi fyrir Landsmót UMFÍ 50+ og Unglingalandsmót UMFÍ á næsta ári. Landsmót UMFÍ 50+ verður í Neskaupstað dagana 28. – 30. júní 2019 og Unglingalandsmótið 1. – 4. ágúst 2019 á Höfn í Hornafirði.

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, og Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ, funduðu með landsmótsnefndum og sveitarstjórnarfólki í báðum bæjum í vikunni.

Í Neskaupstað funduðu þau m.a. með Karli Óttari Péturssyni, sem nýverið settist í stól bæjarstjóra í Fjarðabyggð, fræðslustjóranum Þóroddi Helgasyni og fleirum úr sveitarfélaginu auk þeirra Gunnars Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) og nafna hans formanni UÍA.

Á Hornafirði funduðu þau m.a. með bæjarstjóranum Matthildi Ásmundsdóttur sem ætlar að vera formaður Unglingalandsmótsnefndar, fræðslufulltrúanum og fulltrúum USÚ. Skipan nefndarinnar er á lokametrunum.

 

 

Fram kemur í viðtali við Auði Ingu á fréttavefnum Austurfrétt að mörgu þurfi að huga í tengslum við viðburðina.

„Núna er aðalmálið að finna gott fólk á svæðinu sem skipar í nefndir og önnur fjölbreytt verkefni sem þarf að manna,“ segir hún.

 

Margir vilja halda mótin

Landsmót UMFÍ 50+ var fyrst haldið á Hvammstanga árið 2011. Síðasta sumar var það á Sauðárkróki og þá samhliða unglingalandsmótinu. Auður Inga segir stefnu UMFÍ þá að halda mótin um allt land og ekki tvo viðburði á sama stað.

Auður Inga segir allan aðbúnað til mótshalda góðan í Neskaupstað.

 

Landsmótið hefur mikið gildi fyrir þátttakendur og samfélagið

Auður Inga segir Landsmót UMFÍ 50+ hafa mikið gildi fyrir bæði þátttakendur og samfélagið þar sem það er haldið hverju sinni.

„Slíkt mót skiptir máli fyrir fólk sem hefur bæði gaman af því að hreyfa sig og hitta aðra. Samvera og hreyfing eru gegnumgangandi og því ætti fólk að geta átt saman skemmtilega daga í Neskaupstað og skapað góðar minningar. Einnig hefur slíkur viðburður mikla þýðingu fyrir samfélagið og ætti mótið að skilja eftir sig uppbyggingu og þekkingu auk þess hversu gaman það er að taka á móti gestum sem sumir hverjir myndu að öllu jöfnu ekki leggja leið sína austur.“

Undirbúningur er hafinn

Formlegur undirbúningur fyrir mótið er hafinn. „Við erum farin að vinna í skipulagningu mótsins erum að skoða ýmsar nýjunar, en þær hafa alltaf verið einhverjar, svo sem nýir viðburðir eða greinar sem henta mismunandi aldursflokkum. Eitt er víst – það verður gaman! Við hvetjum alla til að kynna sér hvað verður í boði,“ segir Auður Inga.

 

Frétt Austurfréttar