Allt að 1.500 mega vera á sama viðburðinum
Fjöldatakmarkanir fara úr 200 manns í 500 og á hraðprófsviðburðum verður unnt að hafa allt að 1.500 manns, samkvæmt nýjum sóttvarnarreglum sem taka gildi á morgun, miðvikudaginn 15. september 2021.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti nýjar tilslakanir á sóttvarnarráðstöfunum á fundi ríkisstjórnar í morgun og eru þær í samræmi við tillögur sóttvarnarlæknis. Reglugerð þessa efnis gildir til 6. október.
Fram kemur í tilkynningu heilbrigðisráðuneytis að á hraðprófsviðburðum verður nú unnt að hafa standandi gesti enda gæti þeir að 1 metra reglu en beri ella grímu. Ekki þarf að viðhafa 1 metra fjarlægð eða bera grímu meðan setið er á hraðprófsviðburðum. Reglur um 1 metra nálægðarmörk og grímuskyldu verða að öðru leyti óbreyttar. Þá verður sérstök heimild til að halda skemmtanir fyrir grunn- og framhaldsskólanemendur án nálægðatakmörkunar eða grímuskyldu fyrir allt að 1.500 manns.
Breytingar á samkomutakmörkunum frá og með 15. september til 6. október.
- Almennar fjöldatakmarkanir verða 500 manns. Börn fædd 2006 og síðar verða nú undanþegin fjöldatakmörkunum og telja því ekki í hámarksfjölda.
- Hámarksfjöldi á hraðprófsviðburðum verður 1.500 manns
- Hraðprófsviðburðir geta verið standandi með 1 metra reglu (gríma ef 1 metra verður ekki viðkomið)
- Séu þeir sitjandi þarf ekki að viðhafa 1 metra og ekki hafa grímu.
- Áfram verður skylt að halda skrá yfir gesti en ekki skrá í sæti.
- Nálægðartakmörkun verður almennt óbreytt 1 metri nema á sitjandi viðburðum og á skólaskemmtunum.
- Grímuskylda verður að mestu óbreytt, þ.e. hafa þarf grímu innandyra þegar ekki er unnt að viðhafa 1 metra fjarlægð.
- Grunn- og framhaldsskólum verður gert heimilt að halda samkomur fyrir nemendur fyrir allt að 1.500 gesti að því gefnu að þeir framvísi neikvæðu hraðprófi sem ekki má vera eldra en 48 klst. gamalt. Ekki verður gerð krafa um nálægðatakmörk eða grímuskyldu, en skylt verður að skrá gesti.
Aukið aðgengi að hraðprófum
Heilbrigðisráðherra kynnti jafnframt á fundi ríkisstjórnarinnar áform um að gera hraðpróf vegna Covid-19 enn aðgengilegri með það að markmiði að boðið verði upp á þau á fleiri stöðum en nú er. Til að ná því markmiði hratt er stefnt að því að hefja kostnaðarþátttöku vegna hraðprófa sem tekin eru hjá einkaaðilum að sama marki og hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og opinberum heilbrigðisstofnunum. Einkaaðilum verður jafnframt veittur aðgangur að vottorðakerfi sóttvarnalæknis þannig þeir geti gefið út sömu stöðluðu vottorðin eftir sýnatöku. Stefnt er það því að reglugerð þessa efnis verði birt á næstu dögum.