Alþingi samþykkti frumvarp um greiðslur til íþróttafélaga
„Við erum að taka utan um íþróttalífið í landinu, sem gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki, og svo að íþróttalífið geti komið af fullum þunga þegar betur árar eftir COVID-faraldurinn,‟ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu í 3. umræðu um frumvarp til laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónufaraldursins.
Frumvarpið var samþykkt með 59 samhljóða atkvæðum á Alþingi síðdegis í dag.
Frumvarpið var fram á Alþingi í lok nóvember. Velferðarnefnd Alþingis hafði haft frumvarpið til umsagnar. Í ferlinu bættist við greiðslur til verktaka.
Fram kemur í nefndaráliti við breytingartillöguna að með breytingunum sem lagðar eru til verði staða þeirra sem sinna íþróttastarfi, hvort sem er launamanna eða verktaka, jöfnuð. Íþróttafélögin muni eiga kost á því að fá greitt sama hlutfall kostnaðar óháð ráðningarformi.
„Ljóst er að margir þeirra íþróttamanna og þjálfara sem frumvarpinu er ætlað að ná til eru í hlutastörfum og ætti lækkunin því ekki að hafa áhrif á þann hóp starfsmanna. Nefndin telur að með því að færa launatengd gjöld undir gildissvið frumvarpsins og þrátt fyrir áðurnefnda lækkun hámarks muni úrræðið betur gagnast íþróttafélögum.‟
Á næstu dögum munu stjórnvöld greina frá næstu skrefum frumvarpsins.
Frumvarpið um greiðslur til íþróttafélaga er einn þriggja liða sem þau Ásmundur Einar og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynntu í lok október til að koma til móts við íþróttafélög vegna þeirrar röskunar sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á starf þeirra.
Ferill málsins á Alþingi og frumvarpið með breytingatillögum