Alþjóðlegur dagur gegn einelti
Alþjóðlegur dagur gegn einelti er í dag, fimmtudaginn 8. nóvember. Þetta er áttunda árið sem dagurinn er helgaður baráttunni gegn einelti. UMFÍ leggur sitt af mörkum til að bæta samfélagið með jákvæðum samskiptum með ýmsum hætti.
UMFÍ er eitt af fjórum aðildarfélögum Æskulýðsvettvangsins (ÆV). Eitt af verkefnum hans er að vinna gegn einelti. Um þessar mundir er stafrænt einelti ein af þeim birtingarmyndum ofbeldisins og vinnur Æskulýðsvettvangurinn gegn því.
Einelti er ekki liðið innan þeirra félaga sem saman mynda Æskulýðsvettvanginn (UMFÍ, Bandalag íslenskra skáta, Slysavarnafélagið Landsbjörg og KFUM og KFUK á Íslandi). Það er mjög mikilvægt að öllum líði vel í leik og starfi innan félaga UMFÍ og að sá grundvallarréttur, að fá að vera óáreittur, sé virtur. Því er mikilvægt að bregðast strax við málum sem koma upp í starfinu og leita allra leiða til þess að leysa úr þeim hratt og vel.
Sambandsaðilum UMFÍ stendur til boða að fá til sín námskeið um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála sem og námskeið um hatursorðræðu á netinu.
Til viðbótar gerðist UMFÍ árið 2011 aðili að þjóðarsáttmála gegn einelti. Í kjölfarið var vefsíðan gegneinelti.is opnuð. Á vefsíðunni getur fólk lagt baráttunni lið með því að undirrita sáttmálann og skuldbinda sig þar með til þess að vinna af alefli gegn einelti í samfélaginu, standa vörð um rétt fólks til þess að geta lifað í sátt og samlyndi við umhverfi sitt og jafnframt að gæta sérstaklega að rétti barna og ungmenna og þeirra sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd í samfélaginu.
Hafðu samband
Á vegum Æskulýðsvettvangsins starfar fagráð sem tekur til umfjöllunar kynferðisbrotamál og eineltismál sem koma upp innan aðildarfélaga ÆV. Fagráðið er skipað sérfræðingum og tekur við öllum tilkynningum sem koma upp í starfi aðildarfélaga og heldur utan um skráningu þeirra. Fagráðið sér til þess að tilkynningunum sé komið í réttan farveg og að þær fái viðhlítandi málsmeðferð samkvæmt verklagsreglum fagráðs og landslögum. Jafnframt leiðbeinir fagráðið þolendum um málsmeðferð og sér til þess að þeir fái stuðning eftir því sem við á hverju sinni.
Tilkynnt til fagráðs
Hafir þú orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, einelti eða annarri óæskilegri hegðun innan aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins eða veist um slíkt ofbeldi býðst þér að hafa samband við fagráðið í gegnum netfangið fagrad@aeskulydsvettvangurinn.is.
Fagráðið sér um að þú fáir þann stuðning sem þú þarft á að halda og leiðbeinir þér um næstu skref.