Fara á efnissvæði
14. janúar 2018

Ályktun sambandsráðsfundar UMFÍ: Stjórnendur UMFÍ leggja sitt af mörkum gegn ofbeldi

 

Stjórnendur innan Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) samþykktu á sambandsráðsfundi sínum í gær ályktun um að bregðast við og leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Ályktunin kemur í kjölfar #metoo frásagna íþróttakvenna í vikunni. Á fundinum komu saman formenn sambandsaðila af öllu landinu.

Sambandsráðsfundur er æðsta vald UMFÍ á milli sambandsþinga.

 

Nær til 160 þúsund félagsmanna

Samþykktin í gær nær til rúmlega 340 félaga innan UMFÍ um allt land og rúmlega 160 þúsund félagsmanna þeirra. Sambandsaðilar UMFÍ eru héraðs- og ungmennasambönd ásamt félögum með beina aðild.

Á meðal sambandsaðila UMFÍ eru Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) þar sem Höttur, Leiknir og Þróttur eru dæmi um aðildarfélög; Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) með rúmlega 50 aðildarfélög, þar á meðal Ungmennafélag Selfoss og Hamar í Hveragerði. Innan höfuðborgarsvæðisins er Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK) og eru aðildarfélög þess Afturelding í Mosfellsbæ, Breiðablik og HK í Kópavogi, Grótta á Seltjarnarnes og Stjarnan í Garðabæ. Þá á eftir að nefna Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) en þar eru á meðal aðildarfélaga Tindastóll og Neisti. Fjölnir í Grafarvogi, Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag og ungmennafélögin í Njarðvík og Grindavík eru svo dæmi um félög með beina aðild að UMFÍ.

 

Óheimilt að ráða fólk með dóm á bakinu

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, skoraði í ræðu sinni á sambandsráðsfundinum á alla formenn að fyrirbyggja ofbeldi og áreitni innan félaga sinna og hvatti ungmennafélaga til að leita til þjónustumiðstöðvar UMFÍ eftir aðstoð og ráðgjöf.

Tugir íþróttakvenna sendu frá sér yfirlýsingu á fimmtudag og margar sögur af kynferðislegu ofbeldi og áreitni innan íþróttahreyfingarinnar. Haukur sagði í yfirlýsingu sem UMFÍ sendi frá sér á föstudag það hryggja sig hversu lengi margir sem fyrir ofbeldinu urðu hafi borið sögurnar innra með sér. Á sama tíma sé tilfinningin blendin því léttir sé að sá grundvöllur hafi skapast að hægt er að segja frá misbeitingunni.

„Við viljum vera til fyrirmyndar og líðum ekki óæskilega hegðun innan hreyfingarinnar sem felur í sér brot gegn fólki og eyðileggur út frá sér. Við hjá UMFÍ munum leggja lóð okkar á vogarskálarnar til að útrýma þeirri neikvæðu og eyðileggjandi hegðun sem þeir hugrökku einstaklingar greina frá sem nú hafa stigið fram,“ sagði hann.

 

Aðgerðir núna

UMFÍ upplýsti strax í vikunni sambandsaðila og aðildarfélög þeirra um um aðgerðir til að sporna gegn ofbeldi innan ungmennafélagshreyfingarinnar.

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, fundaði á föstudag með Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra vegna málsins. Fundinn sátu sömuleiðis fulltrúar íþróttakvenna, starfsmennum ráðuneytisins og Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ. Á fundinum var ákveðið að stofna starfshóp á vegum ráðuneytisins um gerð aðgerðaráætlunar um verklag þegar kynbundin áreitni komi upp innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. UMFÍ á fulltrúa í starfshópnum.

 

Ályktun fundarins:

Við, stjórnendur og forsvarsmenn í ungmennafélagshreyfingunni, munum bregðast við og leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi innan ungmennafélagshreyfingarinnar.

 

Stjórnendur Ungmennafélags Íslands sem samþykktu ályktunina:

Anna Bjarnadóttir

Ásdís Sigurðardóttir

Baldvin Hróar Jónsson

Benedikt Jónsson

Einar Haraldsson

Einar K. Jónsson

Finnur Friðriksson

Guðmundur L. Gunnarsson

Guðmundur Sigurbergsson

Guðný Stefanía Stefánsdóttir

Guðríður Aadnegard

Guðrún Þórðardóttir

Gunnar Gunnarsson

Gunnar Helgason

Gunnar Þór Gestsson

Haukur Valtýsson

Helga Guðrún Guðjónsdóttir

Helga Jóhannesdóttir

Hjörleifur K. Hjörleifsson

Hrönn Jónsdóttir

Jóhann Steinar Ingimundarson

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir

Jón Karl Ólafsson

Lárus B. Lárusson

Magnús Gíslason

Magnús Magnússon

Ólafur Egilsson

Ragnheiður Högnadóttir

Reimar Marteinsson

Rúnar Aðalbjörn Pétursson

Sigmar Helgason

Sigurbjörn Árni Arngrímsson

Sigurður Enoksson

Sigurður Óskar Jónsson

Valdimar Gunnarsson

Valdimar Leó Friðriksson

Vignir Örn Pálsson,

Þorsteinn H. Harðarson

Þórarinn Hannesson

Þórir Haraldsson

Örn Guðnason