Fara á efnissvæði
04. desember 2020

Anna er afskaplega ánægð með sögu UMF Stjörnunnar

„Ég er afskaplega glöð með bókina,“ segir Anna R. Möller, fyrrverandi formaður Stjörnunnar. Hún sat í ritnefnd um ritun bókarinnar Skíni Stjarnan, sem fjallar um sögu ungmennafélagsins Stjörnunnar í Garðabæ og kom út í vikunni. Félagið var stofnað árið 1960 og var ráðist í sagnaritun og útgáfu bókarinnar í tilefni af 60 ára afmæli félagsins.

Anna hefur unnið ýmis störf fyrir Stjörnuna síðastliðin 35 ár og lengi haft hug á að halda sögu félagsins við. Um tvö ár tók að skrifa sögu Stjörnunnar og sat Anna í ritnefndinni allan tímann með þeim Erling Ásgeirssyni, sem var formaður ritnefndar, Sigurði Bjarnasyni, Snorra Olsen og Jóhanni Steinari Ingimundarsyni, sem jafnframt situr í stjórn UMFÍ. Stjarnan er aðildarfélag Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) sem er sambandsaðili UMFÍ.

Ritstjóri Skíni Stjarnan er blaðamaðurinn Steinar J. Lúðvíksson, sem hefur unnið um árabil að mörgum málum fyrir Stjörnuna.

Steinar segir það hafa verið heilmikið mál að skrifa sögu Stjörnunnar þótt ekki eru liðin nema 60 ár síðan félagið var stofnað.

„Ég hafði samband við 100 manns sem hjálpaði mér og læt þeirra raddir segja söguna. Það gerir hana skemmtilegri fyrir vikið,“ segir hann.

 

Mikið grúsk á bak við söguna

Saga Stjörnunnar hefur líka lengi verið Önnu hugleikin.

„Fyrir nokkuð löng stóð til að hefja söguritunina. Þá vann ég hjá Fimleikasambandinu. Þarna lagði ég heilmikla vinnu í að kafa inn í geymslu hjá UMSK til að grúska í gömlum starfsskýrslum. Þar komst ég að því að á ákveðnum tíma vantaði mikið inn í söguna frá fyrstu árum Stjörnunnar. Fundargerðir höfðu ekki verið haldnar almennilega. Þetta var grúsk þá. Og ekki var það minna hjá okkur í ritnefndinni því við lögðum okkur fram um gagnaöflunina,“ segir Anna, sem var formaður fimleikadeildar Stjörnunnar í sex ár og formaður aðalstjórnar Stjörnunnar um þriggja ára skeið.

Anna segir að allir í ritnefnd hafi verið fyrrverandi formenn Stjörnunnar fyrir utan Erling Ásgeirsson, sem mjög lengi hefur komið að ýmsum störfum fyrir félagið auk þess sem hann sat lengi í bæjarstjórn Garðabæ. Ritnefndin og Steinar hittust reglulega á ritunartíma bókarinnar. Þar hafi Steinar farið yfir það sem hafi gert og ritnefndin lesið yfir valda kafla.

„Við þekktum því söguna vel,“ segir Anna.

 

Fór í stjórn því hún var fremst í stafrófinu

Fyrstu tuttugu árin gekk illa að fá fólk í ráð og nefndir hjá Stjörnunni. Fram kemur í bókinni að skýringin liggi í því að nýir Garðbæingar fluttu af öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Fólkið studdi enn sitt gamla félag og æfðu börnin enn með sínu gamla félagi. Smám saman færðu þau sig þó yfir.

„Þetta var mikið vandamál fyrir marga þar sem fólk fylgir börnum sínum,“ segir Anna. Hún segir skondna sögu af því þegar hún byrjaði að vinna sem sjálfboðaliði fyrir Stjörnuna.

„Það var árið 1985. Þá var ég heimavinnandi með lítið barn. Elsta dóttir mín var í fimleikum. Hún hafði verið í Ármanni en flutti sig yfir í Stjörnuna ári eftir að deildin var stofnuð þar. Við vorum nokkrar heimavinnandi í hverfinu í Garðabæ. Þarna voru liðin þrjú ár frá stofnun fimleikadeildar Stjörnunnar. Ein vinkvenna minna sagði okkur einn daginn að nú stæði hún ein eftir í stjórn fimleikadeildarinnar og spurði hvort við vildum hjálpa sér. Ég sagði henni að ég hlyti að geta gert eitthvað. Ég var eftir þetta alla daga í íþróttahúsinu að hjálpa við að taka út áhöld, rukka æfingagjöld og ýmislegt fleira. En svo fara smátt og smátt stjórnarmenn í aðalstjórn og starfsmaður félagsins að spyrja mig um hitt og þetta. Ég svaraði þeim eftir bestu getu.

Ég spurði auðvitað af hverju það væri verið alltaf að hringja í mig. Ég væri nýbyrjuð að vinna fyrir félagið og vissi í raun ekki neitt.

En svarið var svona:  „Það vill enginn vera formaður. Þú heitir Anna. Það er svo auðvelt að velja þig því þú ert fremst í stafrófinu. Upp úr því varð ég formaður stjórnar fimleikadeildarinnar,“ segir hún.

 

Skíni Stjarnan er komin í sölu í Hagkaup í Garðabæ, Mathúsi Garðabæjar og veitingahúsinu Sjálandi.