Fara á efnissvæði
09. júlí 2021

Anna Margrét lætur af störfum í Ungmennabúðum UMFÍ

„Ungmennabúðir UMFÍ hafa verið líf mitt og yndi síðastliðin 16 ár. Ég elska þetta. Þetta hefur verið frábær tími og gefið mér mikið. En nú er komið að kaflaskilum og önnur verkefni framundan,‟ segir Anna Margrét Tómasdóttir. Hún lætur nú af störfum sem forstöðukona Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni.

Anna Margrét hóf störf í Ungmennabúðunum þegar starfsemi þeirra hófst að Laugum í Sælingsdal í Dalabyggð árið 2005 en þau Jörgen Nilsson, maður hennar og frístundaleiðbeinandi búðanna, hafa verið drifkraftar þeirra alla tíð. Starfsemi búðanna var flutt að Laugarvatni fyrir tveimur árum og hafa umsvif þeirra og vinsældir aukist gríðarlega.

 

Vinsælar ungmennabúðir

Ungmennabúðir UMFÍ eru fyrir nemendur í 9. bekk grunnskóla um allt land og eiga þeir möguleika á að dvelja þar frá mánudegi til föstudags við leik og störf. Markmiðið með dvöl ungmennanna er að styrkja félagsfærni þeirra, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi ásamt mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.  Árlega koma rúmlega 2.000 ungmenni í búðirnar og eruð þær snemma fullbókaðar.

Anna Margrét skrifaði M. ed – ritgerð um starfsemi Ungmennabúðanna og samsvarandi búða um allan heim í námi sínu við Háskóla Íslands árið 2017. Hún hefur síðastliðið ár verið í M.A.-námi í útilífsfræðum við norskan háskóla og mun halda því áfram ásamt öðrum verkefnum sem framundan eru.

Stjórn og starfsfólk þakkar Önnu Margréti fyrir samstarfið og framlag hennar til ungmenna og menntunar þeirra um allt land til margra ára. UMFÍ óskar henni um leið góðs gengis í verkefnunum framundan.