Fara á efnissvæði
30. janúar 2018

Árborg og Hafnarfjörður skilyrða félög til að setja sér siðareglur og fræða

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, skorar á sveitarfélög landsins að skilyrða fjárveitingar til íþróttafélaga og félagasamtaka sem bjóða upp á frístundaiðkun fyrir börn og unglinga. Í skilyrðunum felast að félögin setji sér siðareglur, viðbragðsáætlanir og fræði auk þess þjálfara og umsjónarmenn félaganna um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi.

Rætt er við Halldór um málið í Morgunblaðinu í dag. Þar segir jafnframt frá því að bæjarráð Árborgar hafi á fundi sínum 25. janúar síðastliðinn samþykkt að áskilja sér rétt til að skilyrða fjárveitingar til íþróttafélaga og félagasamtaka við ofangreind atriði.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafði samþykkt bókun sama efnis nokkrum dögum fyrr.

Í báðum tilvikum var kveikjan að tillögunum frásagnir íþróttakvenna sem greindu frá kynbundnu ofbeldi tengt #metoo-byltingunni.

Halldór segir í samtali við Morgunblaðið:

„Ég hef hvatt sveitarfélögin í a.m.k. tveimur sjónvarpsviðtölum til að gera þetta vegna þeirra mála sem hafa dúkkað upp í #metoo umræðunni. Á föstudaginn sl. var stjórnarfundur í sambandinu og lagði ég fram bókun sem var samþykkt samhljóða, áskorun til sveitarfélaga að vinna eins og Árborg og Hafnarfjörður eru að fara að gera.“

 

Margir #Metoo-sögur

Hópur íþróttakvenna sendi frá sér sögur um ofbeldi fimmtudaginn 11. janúar. Þar voru sagðar 62 sögur kvenna úr heimi íþróttanna af kynbundinni mismunun, kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi.

Í yfirlýsingu sem með fylgdi kröfðust konurnar þess að stúlkur og konur fái iðka íþrótt sína í öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti og kynferðislega áreitni af öllum toga.

Undir yfirlýsinguna skrifuðu 462 konur nafn sitt.

 

#METOO - hvað get ég gert?

Anna Soffía Víkingsdóttir: Fleiri íþróttakonur eiga eftir að segja sögu sína