Fara á efnissvæði
02. nóvember 2017

Ásdís er nýr framkvæmdastjóri Ungmennasambands Eyjafjarðar

„Ég er mjög spennt fyrir því að vera komin hinum megin við borðið. Ég hef nefnilega alltaf verið þjálfaramegin,“ segir Ásdís Sigurðardóttir. Hún tók í gær (1. nóvember) við starfi framkvæmdastjóra Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE). Ásdís tekur við starfinu af Þorsteini Marinóssyni, sem hafði gegnt því í 11 ár. Hann fluttist nýverið til Húsavíkur og er nú framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Völsungs. Ásdís segir Þorstein hafa verið að hjálpa sér við að komast inn í starfið.  

UMSE er einn 29 sambandsaðila UMFÍ. Aðildarfélög UMSE eru tólf talsins og nær sambandssvæðið frá Dalvík til Hörgársveitar, Hrafnagils, Svalbarðseyri og Grenivíkur.  Aðildarfélög UMSE koma úr fimm sveitarfélögum. Sex þeirra eru ungmennafélög, bæði fjölgreinafélög og sérgreinafélög, þar af þrjú hestamannafélög, golfklúbbur, skíðafélag og sundfélag. Innan aðildarfélaganna eru stundaðar eftirtaldar íþróttagreinar: Badminton, blak, fimleikar, frjálsíþróttir, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfuknattleikur, skíði(alpagreinar), júdó, skák og sund.

 

Hefur þjálfað frá unglingsárum 

Ásdís segir lífið hafa frá táningsaldri snúist um íþróttir, en hún hefur þjálfað sund, blak leikfimi eldri borgara, kennt sund, þolfimi og zumba. Þá var hún formaður Íþróttakennarafélagsins á árunum 2004 til 2006.

Ásdís er frá Siglufirði en er búsett á Akureyri. Hún er með meistaragráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst en hefur einnig verið við nám í opinberri stjórnsýslu í Háskóla Íslands, lagt stund á markþjálfanám, verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. Hún hefur komið töluvert að íþrótta- og æskulýðsmálum gegnum tíðina bæði sem keppandi, þjálfari, kennari og verkefnastjóri. Auk fjölbreyttrar reynslu á sviði íþróttamála hefur hún einnig verið með sjálfstæðan rekstur, sinnt félagsmálum af miklum krafti og nú síðast verið umsjónarmaður Vinnuskóla Akureyrar og formaður frjálsíþróttadeildar KFA á Akureyri.