Ásgeir, Níels, Pétur og Ragnheiður sæmd starfsmerki UMFÍ

Svæðisfulltrúar höfuðborgarsvæðisins og víðar um land hafa unnið að greiningum og aðgerðaráætlunum á sínum svæðum, skoðað stöðu íþróttahéraða, virkni þeirra og byggt brýr á milli sveitarfélaga og íþróttahéraða.
„Þessi vinna hefur að ákveðnu leyti verið nokkuð ósýnileg en við bindum miklar vonir við að upplýsingarnar veiti okkur aukinn kraft fyrir næstu verkefni sem vinna þarf í nánara samstarfi við íþróttahéruðin,“ sagði Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ í ávarpi sínu á ársþingi Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK), sem fram fór á laugardag.
Í ávarpi sínu ræddi hann um fyrirhugaða endurskoðun á íþróttalögum, verkaskiptingu þeirra sem að starfinu koma og mikilvægi þess að stjórnvöld styðji betur við byggðastefnu sína með verulega auknum stuðningi á ferðakostnaði.
Þokkalega vel var mætt á þing UMFÍ og var Guðmundur G. Sigurbergsson endurkjörinn formaður til næstu tveggja ára.
Margar heiðranir
Þar voru sæmd starfsmerki UMFÍ þau Ásgeir Baldurs frá Breiðabliki, Níels Einarsson frá HK, Blikinn Pétur Hrafn Sigurðsson og Ragnheiður M. Ólafsdóttir, formaður íþróttafélagsins Gerplu. Pétur var ekki viðstaddur þingið og tók Guðmundur G. Sigurbergsson, formaður UMSK, við því fyrir hans hönd.
Silfurmerki ÍSÍ hlutu Flosi Eiríksson og Viktoría Gísladóttir frá Breiðabliki, þau Gunnþór Hermannsson og Valdís Árnadóttir frá HK.
Gullmerki ÍSÍ hlutu Pétur Ómar Ágústsson frá Breiðabliki og Ragnar Gíslason frá HK. Heiðurskross ÍSÍ hlaut Blikinn Þórður Guðmundsson.
Íþróttakona UMSK árið 2024 er Thelma Aðalsteinsdóttir, fimleikakona í Gerplu, og íþróttakarl UMSK er
Ægir Þór Steinarsson, körfuknattleiksmaður í Stjörnunni.
Hvatningarverðlaun UMSK hlutu Körfuknattleiksdeild Aftureldingar, Knattspyrnufélag Garðabæjar og Dansdeild HK.
Félagsmálaskjöldinn hlaut Sigurður Viðarsson hjá HK.
Lið ársins var meistaraflokkur kvenna í hópfimleikum frá Stjörnunni.









