Fara á efnissvæði
25. maí 2022

Ásmundur Einar Daðason: Mikilvægt að grípa inn í

„Við verðum að geta gripið inn í, tengt saman sveitarfélög og aðra ólíka þætti. Vonandi munum við öll læra. Við þurfum að sækja fram í þessum málaflokki,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, á málþingi sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að í morgun um þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi.

Yfirskrift málþingsins var: Vertu með! Aukin þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna í íþróttum. Eins og yfirskriftin bar með sér var umfjöllunarefnið það hvernig hægt er að ná betur til fólks af erlendum uppruna og fjölga iðkendum af erlendu bergi brotið í skipulögðu íþróttastarfi. Á dagskránni voru áhugaverð og gagnleg erindi. Meðal annars sagði forsvarsfólk nokkurra íþróttafélaga frá því hvað þau gerðu til að ná árangri í málaflokknum.

Ásmundur fagnaði því í íþróttahreyfingin sé að vinna í málinu og lagði áherslu á nauðsyn þess að fylgjast með. Það sé hægt í rauntíma og verði þá hægt að grípa inn í þegar á þurfi að halda.

 

Mörg forvitnileg erindi

Fjöldi annarra erinda var á málþinginu sem öll fjölluðu um sömu mál.

Á meðal annarra erinda:

Allir með í Reykjanesbæ: Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála.

Örfrásagnir af fjórum ólíkum verkefnum: Ragnar Sverrisson frá Dansfélaginu Bíldshöfða. Dagný Finnbjörnsdóttir frá Héraðssambandi Vestfirðinga. Kristín Þórðardóttir frá sunddeild KR og Sarah Smiley frá Skautafélagi Akureyrar.

Fjölmenningarverkfærakista Æskulýðsvettvangsins: Sema Erla Serdar, framkvæmdastýra.