Fara á efnissvæði
30. júlí 2022

Ásmundur Einar: Fyllist bjartsýni á Unglingalandsmóti

„Ég fyllist bjartsýni á framtíðina þegar ég horfi á þennan fríða hóp keppenda,‟ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Hann flutti ávarp við setningu Unglingalandsmót UMFÍ ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Ásmundur dvelur á mótinu á Selfossi alla helgina með dóttur sinni sem hefur skráð sig til þátttöku í fjölda greina.

Ásmundur sagði Unglingalandsmótið hafa sannað sig fyrir löngu sem ein besta útihátíðin fyrir fjölskylduna um verslunarmannahelgina. Hún hafi líka margt fram yfir aðrar útihátíðir enda sækir fjölskyldan hana saman, að hans sögn.

„Samveran er gríðarlega dýrmæt, ekki síst á þeim tímum sem við lifum nú þar sem tæknin er að yfirtaka líf okkar og við virðumst ekki hafa tíma til að vera saman sem fjölskylda. Það er jákvætt að slík samvera treysti fjölskylduböndin,‟ sagði Ásmundur og lagði áherslu á að mótið sé fyirr löngu orðið ómissandi fyrir marga á hverju ári.

„Íþróttir eru líka mikilvægar í uppeldi barna og besti farvegurinn fyrir ungt fólk til að þroska með sér líkamlega og andlega færni,‟ sagði ráðherra.