Fara á efnissvæði
18. maí 2021

Ásmundur Einar hvetur íþróttafélög til að nýta úrræði stjórnvalda

Vinnumálastofnun hefur greitt íþróttafélögum rúman milljarð króna vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna af völdum kórónuveirufaraldursins. Um hálft ár er síðan úrræðið var kynnt til sögunnar.

Ásmundur  Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir að þótt hann voni að á næstu misserum geti íþróttastarf haldið áfram án takmarkana. Þó sé ómögulegt að spá fyrir um þróun faraldursins og erfitt að segja til um hversu lengi takmarkanir muni hafa áhrif á starfsemi íþróttafélaga. Ásmundur Einar hvetur því stjórnendur allra íþrótta- og ungmennafélaga landsins til að nýta sér þau úrræði sem í boði eru til að milda neikvæð áhrif kórónuveirufaldursins á rekstur félaganna.

Þar á meðal er átakið Hefjum störf, sem hugsað er fyrir atvinnuleitendur, og til að ráða námsmenn 18 ára og eldri.

Ásmundur hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem mælir fyrir um að úrræðið sem felur í sér greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna vegna faraldursins verði framlengt um hálft ár.

Ráðherra hefur óskað eftir því að bréf þar sem hann hvetur stjórnendur íþróttafélaga til að nýta sér þau úrræði sem í boði eru og að hvatning þessa efnis verði send öllum aðildarfélögum UMFÍ.

Bréfið má sjá hér að neðan.