Fara á efnissvæði
28. janúar 2020

Ásmundur Einar kynnir sér starfsemi UMFÍ

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kom í heimsókn í þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík í hádeginu í dag. Þar fékk hann kynningu á starfi, helstu verkefnum og áherslum UMFÍ. Ásmundur fór jafnframt yfir áherslur ráðuneytisins sem varða börn og ungmenni, þar á meðal upplýsingakerfi sem tryggja á betri yfirsýn yfir velferð barna á Íslandi.

Ásmundur þekkti reyndar vel til UMFÍ enda hann hefur unnið mikið í sjálfboðaliðastarfi fyrir Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB) og Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN). Hann og tvær dætra hans tóku jafnframt virkan þátt í Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina 2019 og var hann þar m.a. liðsstjóri í körfubolta.

Ásmundur hélt auk þess ávarp við setningu 51. sambandsþings UMFÍ sem fram fór að Laugarbakka í Miðfirði í október. 2019 Í ávarpinu sagði hann stjórnvöld vinna að því þvert á ráðuneyti og stjórnmálaflokka að endurskoða alla þjónustu við börn og ungmenni á Íslandi. Eitt af því sem komið hafi upp í þeirri vinnu sé þéttari tenging við ungmennafélagshreyfinguna með áherslu á þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu tómstunda- og æskulýðsstarfi.

Á myndinni hér að ofan er Ásmundur ásamt þeim Jóhanni Steinari Ingimundarsyni, sem situr í stjórn UMFÍ, og Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ.